Morgunblaðið - 30.01.2005, Blaðsíða 44
44 SUNNUDAGUR 30. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
HB FASTEIGNIR
Teitur Lárusson
sölufulltrúi
Gsm 894 8090
teitur@hbfasteignir.is - www.hbfasteignir.is
Þarftu að selja fasteign?
- hringdu í mig
Sími 534 4400 • Hús Verslunarinnar, Kringlan 7, 103 Reykjavík
Hrafnhildur Bridde Löggiltur fasteignasali
Hafðu samband við okkur
FJARLÆGJUM STÍFLUR
VALUR HELGASON ehf.
Sími 896 1100 - 568 8806
Röramyndavél til að skoða og
staðsetja skemmdir í frárennslislögnum
DÆLUBÍLL
úr vöskum, wc-lagnir, baðkerum,
niðurföllum, þak- og drenlögnum
568 1000
F a x a f e n i 1 0
w w w . f r u m . i s — f r u m @ f r u m . i s
Tökum að okkur að setja upp prentverk,
stór sem smá. Auglýsingar, bækur, blöð,
dreifibréf, fréttabréf, nafnspjöld, tímarit
og hvað eina sem þarf að prenta.
✝ Jakobína SoffíaGrímsdóttir
fæddist á bænum
Strjúgsá í Eyjafirði 2.
júlí 1907. Hún lést á
Droplaugarstöðum
föstudaginn 21. jan-
úar síðastliðinn, 97
ára að aldri, eftir
stutta legu. Foreldrar
hennar voru hjónin
Grímur Hálfdánarson
Snædahl, þurrabúð-
armaður á Húsavík
og síðar vitavörður á
Siglunesi, f. 17. maí
1878, d. 25. janúar 1943, og Hall-
dóra Sigríður Sigurðardóttir hús-
móðir, f. í Miðgerði í Eyjafirði 8.
desember 1876, d. 12. febrúar 1920.
Systir Jakobínu var Sigurey
Guðný, f. 16. maí 1909, d. 11. apríl
1922.
Jakobína giftist árið 1933 Guð-
mundi Kr. Sigurðssyni sjómanni, f.
22. ágúst 1902, d. 5. nóvember
1995. Þau skildu. Börn þeirra eru:
1) Jóhann Hall, f. 4. febrúar 1932, d.
11. ágúst sama ár. 2) Halldóra Sig-
urey, f. 8. mars 1933. Maður henn-
ar var Jónas Guðvarðsson, f. 17.
október 1933, d. 29.
nóvember 1997. Börn
þeirra eru: Björg, f.
21. maí 1952. Birgir
Grímur, f. 6. apríl
1954, og Jónas Bragi,
f. 12. október 1964. 3)
Gylfi Snædahl, f. 20.
nóvember 1938. Fyrri
kona hans er Kristín
Ágústsdóttir, f. 21.
apríl 1942, þau skildu.
Sonur þeirra er Agn-
ar Ágúst, f. 12. apríl
1961. Seinni kona
hans var Guðrún
Skarphéðinsdóttir, f. 13. júlí 1941,
d. 7. maí 1996. Dætur þeirra eru
Ruth, f. 3. apríl 1965, og Rakel, f.
27. janúar 1976. 4) Bragi, f. 12. apr-
íl 1948. Kona hans er Guðrún Gísla-
dóttir, f. 2. júní 1951. Börn þeirra
eru Birna, f. 29. október 1974, Gísli
Baldur, f. 2. apríl 1980, og Ragna
Björk, f. 5. nóvember 1990.
Jakobína bjó lengstan hluta ævi
sinnar á Háteigsvegi 9 í Reykjavík.
Útför Jakobínu fór fram frá
Fossvogskapellu í kyrrþey. Jarð-
sett var í Húsavíkurkirkjugarði 29.
janúar.
Amma,voru risaeðlur þegar þú
varst lítil? spurði langömmubarnið
hana mömmu fyrir nokkrum árum.
Þá allt í einu áttaði maður sig á því að
hún mamma væri sennilega orðin dá-
lítið fullorðin. Hún hafði nefnilega
alla tíð verið eins, kletturinn í hafinu í
lífi manns. Sjálfstæð, stolt, ósérhlífin,
ástrík og dugleg.
Hún fæddist í Eyjafirði 2. júlí 1907,
ólst upp á Húsavík við Skjálfandaflóa
í litlu koti, Syðstabæ, sem þá stóð í út-
jaðri þorpsins. Fór að vinna fyrir sér
átta ára, alfarin að heiman daginn eft-
ir fermingu með lítinn poka með
aleigunni í og fötin sem hún stóð í. Þá
var hún búin að missa móður sína og
yngri systur með stuttu millibili.
Sími, útvarp, bílar, frístundir, hvað
var nú það. Vistabönd, það vissu allir.
Pabbinn giftur aftur, konu með tvö
yngri börn.
Var í vist, fyrst á Húsavík, þaðan
fór hún til Akureyrar, komst í sauma-
nám, fékk að vísu ekkert kaup, en
mat og húsaskjól og lærði að sauma.
Gekk í stúku og úr henni aftur. Síðan
vist í Reykjavík á vetrum og út á land
á sumrin. Farið með skipi, í lestinni
voru vinnukonurnar og ferðin tók
viku. Tvö sumur í kaupavinnu á Snæ-
fellsnesi. Horfði stundum á jökulinn
og fannst hann fallegur. Langaði að
fara og njóta útsýnisins, en komst
ekki þá. Örlítið kaup, en fæði, húsa-
skjól og útivera.
Næstu árin vann hún í Reykjavík á
vetrum og var í kaupavinnu upp í
sveit á sumrin.
Elskaði dýrin, lyktina af þurrkuðu
heyi, að fara í berjamó og vera úti í
náttúrunni. Lengst starfaði hún í
Iðnó eða í 35 ár. Aðallega á veturna.
Sá öll leikrit í húsinu, leikhúslífið átti
við hana, en það vantaði þó alltaf upp
á sitt hvort korterið fyrir og eftir hlé.
Svo kom síld og það var farið að salta
síld á sumrin meðan Iðnó var lokað.
Stutt í annan endann kepptist hún
við. Það komu síldarpeningar í stíg-
vélin. Hún var nefnilega trúlofuð og
það átti að kaupa íbúð fyrir sunnan.
Giftist honum pabba í miðri krepp-
unni. Fjögur börn á 16 árum. Frum-
burðurinn dó á fyrsta ári. Kannski
jafnaði hún sig aldrei á því, hver veit,
það var ekki mikið um það talað. 1940
flutti fjölskyldan í nýbyggða verka-
mannabústaðinn við Háteigsveg 9.
Rétt slapp inn áður en húsið var her-
numið af Bretum.
Svo skildu þau pabbi, 1961. Það var
ekki alltaf logn í því hjónabandi.
Norður og vestur eiga ekki saman
sagði hún, en pabbi var að vestan.
Þau töluðu lítið saman eftir það. Hún
kvaddi hann samt með tár á hvarmi
er hann dó. Sýndi okkur hinum fag-
urt fordæmi með fyrirgefningunni.
Þar með voru karlmenn afgreiddir
fyrir lífstíð. Það var engin málamiðl-
un til er kom að sjálfstæðinu. Á Há-
teigsvegi 9 bjó hún í 65 ár, flutti fyrst
inn í hverfið og fór þaðan síðust.
Starfaði við þjónustustörf eða veit-
ingarekstur alla sína ævi.
Var lítið fyrir fast kaup, vildi fá
greitt eftir afköstum, og var alveg til í
aukavaktir.
Endalaus handavinna í frístund-
um, allt gefið hingað og þangað. Kær-
leikur, ást og þakklæti var tjáð með
risastórum hekluðum rúmteppum,
gardínum og dúkum. Það fylgdu
sjaldnast gjöfunum mörg orð svo var
kannske pening laumað í lófann þeg-
ar kvatt var.
Fyrstu barnabæturnar sem hún
fékk voru þær einu, þeim var nefni-
lega skilað aftur til fjármálaráðherr-
ans. Frítt í strætó, nei takk, ég borga
fyrir mig. Reyndi að læra á bíl, var
ósammála kennaranum, stoppaði bíl-
inn í miðju Hafnarstrætinu og tók
strætó heim.
Svo á áttræðisaldri hætti hún að
vinna. Þá var nú heldur betur lagst í
ferðalög.
Á Spáni eða Kanarí mánuðum
saman með dóttur og tengdasyni sem
voru þar fararstjórar. Sat með prjón-
ana eða heklið á sundlaugarbakkan-
um og fylgdist með barnabörnunum
sínum eða öðrum börnum, ef hún var
ekki að splæsa á þau ís. Fór í allar
skoðunarferðir, þvældist um á mörk-
uðum og torgum. Drakk í sig menn-
inguna og sólbrann á nefinu. Var við-
stödd skólaútskriftir niðja sinna hér
og þar. Svo átti hún son og tengda-
dóttur í Suður-Afríku. Það þurfti að
kanna hvort ekki væri allt í standi hjá
þeim. Aftan á vélsleða upp á Snæ-
fellsjökul á fegursta degi sumarsins
viku eftir 90 ára afmælið sitt. Hver
segir svo að draumarnir rætist ekki
ef maður er nógu þolinmóður.
Alltaf sjálfstæð, stolt og réði sér
sjálf. Gerði stundum óþægilega upp á
milli okkar og var svo sem ekkert að
dylja það. Þá hljóp kapp í kinn að
gera betur og reyna að komast í
náðina aftur, til þess var kannske
leikurinn gerður. Hún elskaði leik-
húsið, átti fastan miða fram yfir ní-
rætt, las mikið, kunni ljóð Davíðs
Stefánssonar mikið utanað en gaf lít-
ið fyrir Laxness, en var þó sem kven-
útgáfan af Bjarti í Sumarhúsum í
mörgum sínum háttum.
Allt fram yfir 97 ára afmælið sitt
bjó hún ein og sá um sig algjörlega
sjálf. Fjölskylda og vinir mynduðu
um hana einhvers konar óformlega
skjaldborg með heimsóknum, hring-
ingum og heimboðum er árin færðust
yfir. Hún hafði engan heimilislækni,
tók engin lyf, en fékk sér hákarlalýsi,
fjallagrös og sherrystaup á hverjum
morgni. Kvartaði aldrei og duldi allar
misfellur á heilsufarinu af snilld. Svo
fór fyrir alvöru að draga úr líkams-
þrekinu síðastliðið haust. Hún sættist
að lokum á að fara á Droplaugarstaði
er hún hafði verið fullvissuð um að þá
dvöl greiddi hún með sínum eigin
peningum. Þar vann hún strax hug og
hjarta allra með ómetanlegum til-
svörum. Lést hún þar aðeins þremur
vikum eftir að hún flutti, heil í hugsun
fram á síðasta dag og vissi nákvæm-
lega hvað og hvar allt hennar fólk var
að stússast. Hún var stolt af hópnum
sínum og sátt við að kveðja. Hlakkaði
til að hitta Sigurey systur sína aftur,
en á milli þeirra voru 83 ár og hún
saknaði hennar hvern einasta dag
sem hún lifði.
Ég held að hún mamma hafi lifað
að sjá flesta sína drauma, vonir og
væntingar rætast, annaðhvort sjálf
eða í gegnum niðja sína sem nú sakna
þessarar einstöku konu. Hún mun lifa
áfram með okkur öllum um ókomna
tíð og okkur mun farnast vel svo lengi
sem við breytum eins og hún sé
áfram að fylgjast með okkur.
Gera aðeins betur og aldrei að gef-
ast upp.
Bragi Guðmundsson.
Komið er að kveðjustund. Við and-
lát ömmu Bínu eru hlýjar minningar,
söknuður og þakklæti mér efst í
huga. Heimili hennar var fastur
punktur í tilverunni. Að hlusta á frá-
sagnir úr lífi hennar var eins og að
vera í sagnfræðikennslu, enda lifði
hún mikla breytingatíma. Hún hafði
sterkar skoðanir á samfélaginu og
fylgdist vel með fréttum og þjóðmál-
um alla tíð.
Amma var fyrst og fremst góður
vinur sem tók þátt í sigrum mínum og
sorgum. Hún sparaði aldrei hvatn-
ingarorðin og sagði mér oft að treysta
á mig sjálfa, gefast aldrei upp og að
sá hjálpar sér best sem hjálpar sér
sjálfur. Þetta var sú lífsspeki sem hún
lifði eftir. Hún hlífði sér aldrei, gekk í
öll verk enda vön því að þurfa að hafa
fyrir lífinu. Á tíræðisaldri var fátt
sem að sagði til um aldur hennar ann-
að en kennitalan og reynslustrikin í
andliti hennar enda var hún prílandi
upp á eldhússkápa eða snúrustaura.
Hún var sjálfbjarga alla tíð og það
skipti hana miklu að vera ekki uppá
aðra komin.
Amma var náttúruunnandi og bar
virðingu fyrir öllu lífi. Það var ein-
stakt að fylgjast með því hvernig hún
hlúði að blómunum og talaði við
fuglana.
Eftir að ég byrjaði að vinna lagði
amma áherslu á að ég léti aldrei verk
falla úr hendi. Sjónvarpið kallaði hún
tímaþjóf og settist aldrei fyrir framan
það nema með handavinnuna sína.
Hún var listakona í höndunum og
vandvirknin var þvílík að þegar hún
kenndi mér útsaum þá vildi hún sjá
fráganginn þannig að ég gæti ramm-
að myndina inn á röngunni.
Amma hafði mikið yndi af ferðalög-
um en í æsku las hún ferðasögur og
ferðaðist í huganum. Hún var fullorð-
in þegar hún byrjaði að ferðast til út-
landa og naut þess mikið. Þessi ferða-
áhugi hefur svo sannarlega smitað út
frá sér til afkomenda hennar og var
amma alltaf spennt að heyra ferða-
söguna þegar heim var komið.
Nú er amma lögð af stað í enn eitt
ferðalagið. Ég kem alltaf til með að
sakna hennar. Ég er þakklát fyrir að
hafa eiga stóran sjóð af minningum
um einstaka konu.
Guð blessi ömmu Bínu.
Birna.
Amma mín hét því þróttmikla nafni
Jakobína Soffía Grímsdóttir, dætur
mínar kölluðu hana ömmu lang.
Til stóð að ég yrði skírð í höfuðið á
henni, en sú hugmynd fannst henni
afleit. Skömmu síðar dreymdi hana
látna vinkonu sína og þar með var
nafnið komið.
Saga ömmu er saga íslenskrar al-
þýðukonu á síðustu öld, hún lifði svo
sannarlega tíma tvenna svo ekki sé
meira sagt.
Jólin 2001 gaf hún niðjum sínum
æviágrip sitt, dýrmætt vitni um ævi
ömmu, okkur ómetanlegt.
Hún amma var engum lík, hún var
duglegasta, ákveðnasta, traustasta,
hógværasta, minnugasta og geðbesta
amma sem hægt var að hugsa sér.
Setti ævinlega kúlu á kinnina þeg-
ar ég kyssti hana.
Amma verður að eigin ósk lögð til
hinstu hvílu í Húsavíkurkirkjugarði
nálægt systur sinni, laugardaginn 29.
janúar.
Að leiðarlokum þakka ég yndislega
samfylgd alla tíð.
Minningin lifir.
Björg Jónasdóttir.
Hinn 21. janúar síðastliðinn kvaddi
langamma mín, Jakobína eða amma
lang eins og ég kallaði hana oftast,
þennan heim.
Amma lang átti engan sinn líka,
hún var einstaklega þrjósk og ákveð-
in kona. Hún var hreinskilin og lá
aldrei á skoðunum sínum, sterk á lík-
ama og sál, sjálfstæð skyldi hún
amma ávallt vera.
Amma lang bjó á Háteigsveigi í 65
ár og var maður ávallt velkominn.
Amma bauð mér alltaf upp á mjólk í
glasi og undirskál undir og bragðað-
ist mjólkin hvergi jafn vel og hjá
henni. Sátum við síðan saman, ég
með mjólkina og amma með mola-
kaffið sitt í postulínsbolla, og spjöll-
uðum um allt milli himins og jarðar.
Oftar en ekki lagði amma kapal í gríð
og erg á meðan spjallað var.
Amma var alltaf forvitin um hvern-
ig mér vegnaði, hvort sem það var í
vinnu eða skóla, enda fylgdist hún vel
með sínum. Hún beið spennt eftir
stúdentsprófinu mínu en var ekkert
að ergja sig yfir því að þetta tæki svo-
lítinn tíma hjá mér, eða þegar ég tók
mér frí frá námi til að vinna. Og þegar
ég sagði henni stuttu áður en hún
kvaddi að hvíta kollan kæmi loks í vor
þá var hún svo stolt og sagði mér það
að hún hefði alltaf vitað að hún kæmi
á endanum.
Amma var ótrúlega sterk kona og
lenti í ýmsu sem hefði getað bugað
marga en ekki hana ömmu lang, hún
gafst aldrei upp, sama þótt á móti
blési.
Þótt það sé sárt að hugsa til þess að
hún amma lang muni ekki taka á móti
mér framar í dyrunum á Háteigsveg-
inum, með fléttuna vafða í hring um
höfuðið og hrukkurnar sínar, þá veit
ég að ömmu var fagnað fyrir handan
og hún mun áfram fylgjast með mér.
Elsku amma ég kveð þig nú og
þakka þér fyrir allar góðu minning-
arnar og að hafa kennt mér að sama
þótt á móti blási þá á maður aldrei
aldrei að gefast upp.
Þitt langömmubarn
Halldóra Lísa Bjargardóttir.
Stopp, stopp, stýrimann, kemur í
huga minn núna, þegar ég hugsa til
baka, en það sagðir þú alltaf þegar
kapallinn gekk ekki upp.
Við gátum setið í stofunni og spjall-
að um lífið og tilveruna helst þrisvar
sinnum yfir, lagt kapal og spilað
lönguvitleysu svo tímunum skipti við
amma, og þótt hún legði einstaka
sinnum lauf yfir spaða, þá var það
bara hennar lag á að láta hann ganga
upp. Merkilegt hvað hún amma
mundi. Öll þessi börn, barnabörn og
barnabarnabörn sem hún vissi allt
um, allt fram á síðasta dag.
Sumrin okkar á Spáni þar sem við
klipptum út pappasjóræningja og
skip, bjuggum til sandkastala eða
fengum okkur ís; en lét þig svo borga
aftur og aftur inn á skordýragarðinn
minn.
Alltaf gat ég leitað til hennar ef
mér leið illa eða þurfti næði til að læra
undir próf.
Þá var bara búið um mig í herberg-
inu niðri, eins og alla aðra sem þurftu
næði til að læra í fjölskyldunni.
Skyldir og óskyldir nutu góðs af því.
Alltaf fékk maður bestu mjólk í
heimi í glösunum góðu, eða bollanum
með kúnni á hliðinni, en auðvitað voru
alltaf notaðar undirskálar. Kex, kök-
ur eða nýbakaðar lummur voru yf-
irleitt á boðstólum með, svo kandís
inn á milli. Síðustu árin reyndi maður
að koma í heimsókn vikulega, þó ekki
væri nema til að trekkja upp gömlu
veggklukkuna hennar, það mátti eng-
inn annar gera. Ætíð fékk ég sama
brosið þegar hún leit út um litla
gluggann á útidyrahurðinni þegar ég
kom og tók hún þá þéttingsfast utan
um mig og spurði mig hvernig liði,
þótt maður hefði litið inn daginn áð-
ur, og sagði hún alltaf til baka að
henni liði sjálfri bara vel og gæti ekki
kvartað.
Amma var nefnilega vinur minn.
En elsku amma mín, húfan góða
kemur um jólin eins og þú vildir svo
sjá, og er ég viss um að þú munt gera
það. Vertu sæl að sinni.
Gísli Baldur Bragason.
JAKOBÍNA SOFFÍA
GRÍMSDÓTTIR
Fleiri minningargreinar um Jak-
obínu Soffíu Grímsdóttur bíða birt-
ingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga. Höfundar eru: Sindri
og Ruth Gylfadóttir.