Morgunblaðið - 09.07.2005, Síða 39
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 9. JÚLÍ 2005 39
MINNINGAR
verkstjóri. Þar var hann við stjórnvöl-
inn þar til frystihúsið var selt, þá
réðst hann til Skinneyjar-Þinganess
og vann þar til hinstu stundar.
Og einmitt á Hornafirði hitti hann
ástina sína, Aðalheiði Hannesdóttur.
Alla, eins og hún er alltaf kölluð, átti
þegar hér var komið sögu lítinn
dreng, Hannes, sem Egill gekk í
föðurstað og aldrei var gerður munur
á milli hans og sona þeirra Egils og
Öllu, og sannaðist það best þegar
Hannes skírði einn drengjanna sinna
Egil.
Gestrisni þeirra hjóna í Haga-
túninu var einstök. Okkur er ógleym-
anlegt þegar við vorum einu sinni á
Humarhátíð á Hornafirði og gistum
ásamt átta öðrum næturgestum í
Hagatúninu, þá komust þau hjón að
því að allir bekkjarfélagar yngsta
sonarins úr Menntaskólanum á Laug-
arvatni voru líka á Humarhátíð. Í há-
deginu á sunnudeginum voru þeir all-
ir boðnir í hádegismat. Ekkert mál,
bara dekkað borð þrisvar sinnum og
allir fengu nóg að borða.
Það var einmitt þessi einstaka gest-
risni sem lagði grunninn að okkar
góðu vináttu. Við komum til Hafnar
sumarið 1974, vorum í tjaldi og þar
veiktist eldri sonur okkar þá sex ára.
Við hittum Egil en Baldvin og Egill
vissu auðvitað hvor af öðrum að norð-
an. Ekki var við annað komandi en
drífa okkur öll í hús og þar vorum við
þangað til drengur var orðinn frískur.
Þegar ský dró fyrir sólu í lífi okkar
fyrir mörgum árum þá sannaðist vel
hverjir voru vinir í raun. Því munum
við aldrei gleyma.
Egill starfaði mikið fyrir verk-
stjórafélag Austurlands og sat í
stjórn Verkstjórasambandsins.
Hann munaði ekkert um að bruna
til Reykjavíkur klukkan fimm að
morgni, sitja stjórnarfund fyrir há-
degi og bruna síðan heim að kvöldi.
En alltaf gaf hann sér tíma til að
heilsa upp á Baldvin í vinnunni og
spjalla smá stund og oftar en ekki var
eitthvert góðgæti í pokahorninu, síld,
fiskur eða humar.
En okkar bestu stundir með Agli
voru þó fjallaferðirnar okkar. Við
buðum Agli að slást í gönguhópinn
okkar sem var á leið í gönguferð í
Fjörður fyrir nokkrum árum. Egill
féll inn í hópinn á sinn ljúfa hátt. Þar
kynntumst við alveg nýrri hlið á Agli.
Hann þekkti nánast hverja þúfu og
hvern stein og á sinn prúða ljúfa hátt
miðlaði hann okkur af þekkingu sinni.
Ekki voru síðri gönguferðirnar í
Lónsöræfin og Víkurnar. Þar þekkti
hann allt umhverfið og söguna ennþá
betur en fararstjórinn okkar enda
nýtti fararstjórinn óspart þekkingu
Egils í þeim ferðum.
Egill fór margar skemmtilegar og
óvenjulegar gönguferðir á undan-
förnum árum fyrir austan. Síðari árin
skrifaði hann gjarnan um gönguferð-
irnar í blað verkstjóranna og vildi
með því deila þessu áhugamáli sínu
með öðrum.
Við kveðjum okkar kæra vin með
miklum trega og þökkum honum allar
góðu samverustundirnar sem við átt-
um með honum.
Elsku Alla, Hannes, Jónas, Borg-
þór og fjölskyldur, okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Við biðjum algóðan Guð að styrkja
ykkur í þessari miklu sorg.
Einnig sendum við móður Egils,
systkinum og tengdaforeldrum, okk-
ar einlægustu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Egils Jónas-
sonar.
Baldvin Jóhann og Guðrún.
Sunnudaginn 2. júlí barst mér sú
harmafregn að minn gamli góði vinur,
Egill Jónasson á Hornafirði, hefði lát-
ist af slysförum.
Með nokkrum fátæklegum orðum
langar mig að minnast þessa góða
drengs, en kynni okkar Egils hófust
fyrir um það bil þremur áratugum
þegar hann starfaði sem yfirverk-
stjóri hjá hraðfrystihúsi KASK á
Hornafirði og undirritaður hjá sjáv-
arafurðadeild Sambandsins í Reykja-
vík. Samvinna fyrirtækjanna í þá tíð
var mikil og með starfsmönnum
þeirra tókust oft góð kynni. Þannig
var það í tilfelli okkar Egils, við
kynntumst í vinnunni og urðum góðir
vinir og sú vinátta varð meiri og nán-
ari vegna sameiginslegs veiðiáhuga.
Í þá daga var áhuginn á laxveiði
mikill og ávallt þegar ég hugsa til Eg-
ils sé ég hann fyrir mér í vöðlum og
vindblússu með veiðistöngina í hend-
inni, goluna í ljósu hrokknu hárinu,
fullan af orku og áhuga fyrir veiðinni.
Við áttum því láni að fagna að geta
veitt saman í Laxá í Aðaldal nokkrum
sinnum og höfðum þá aðsetur hjá for-
eldrum Egils, Huldu og Jónasi í Ár-
holti á Húsavík. Þessar veiðiferðir og
samveran í Árholti gleymist aldrei og
engin orð fá því lýst hvílík forréttindi
það voru að fá að veiða með þeim
feðgum, Agli og Jónasi, og njóta í leið-
inni vináttu og gestrisni. Oft var setið
og spjallað langt fram á kvöld, rætt
um veiðina og sagðar veiðisögur í
bundnu og óbundnu máli um leið og
við gæddum okkur á kræsingum sem
Hulda móðir Egils bar í okkur veiði-
félagana.
Þeir feðgar eru nú báðir horfnir á
braut og ég leyfi mér að gæla við þá
hugsun að þeir sitji nú saman á ný við
fallegan æðarfoss og renni fyrir fisk.
Á þessari stundu er mikill harmur
kveðinn að eiginkonu, sonum, móður,
tengdaforeldrum og frændfólki öllu
og missirinn verður aldrei bættur, en
ég trúi því að ljúfar minningar og
mikil samheldni í hópi ættingja vinni
með tímanum bug á mestu sorginni.
Elsku Alla, synir og ættingjar. Við
Sif sendum okkar innilegustu samúð-
arkveðjurog biðjum Guð að veita ykk-
ur styrk og blessa minninguna um
góðan dreng.
Benedikt Sveinsson.
Sumar fregnir sem berast eru svo
óvæntar og ótrúlegar að ekki er hægt
að meðtaka þær samstundis. Hin
ósjálfráðu viðbrögð verða oftast:
Þetta er óhugsandi. Þetta getur ekki
verið satt. Þannig varð mér við þegar
mér var síðla dags laugardaginn 2.
júlí sl. færð sú fregn að Egill Jónas-
son væri látinn. Hann hefði beðið
bana í fjallgöngu á Ketillaugarfjall í
Hornafirði.
Kynni okkar Egils hófust fyrir
rösklega 40 árum þegar við – ungir
menn – hófum báðir störf hjá Kaup-
félagi Austur-Skaftfellinga. Hann
hafði ráðið sig sem verkstjóra í frysti-
húsi kaupfélagsins og hóf störf þar í
janúar 1965, en ég kom til starfa á
skrifstofu félagsins í júní sama ár. Við
áttum síðan eftir að vera samstarfs-
menn í kaupfélaginu næstu 27 árin.
Þetta voru ár mikils uppgangs og at-
hafna bæði hjá fyrirtækinu og í
byggðarlaginu. Við vorum stoltir af
því að fá að vera þátttakendur í því.
Egill varð nokkrum árum síðar yfir-
verkstjóri í fiskvinnslu kaupfélagsins
og tók þátt í því að flytja starfsemi
þess úr „gamla frystihúsinu“ í nýtt og
fullkomið fiskiðjuver sem tók til
starfa í ársbyrjun 1977.
Hann var ekki alltaf í auðveldu
hlutverki. Að stjórna á fjölmennum
vinnustað. Leitast við að þjóna þörf-
um seljenda hráefnis og kaupendum
afurða og gera hag vinnuveitandans
og verkafólksins sem bestan. Fyrir
tíma fiskveiðistjórnunar og aflatak-
markana var ekki alltaf spurt um
hvíldartíma og vinnuálag oft gríðar-
lega mikið. Egill var maður til að rísa
undir þessu álagi og leysti sín verk-
efni ávallt af hendi af samviskusemi
og trúmennsku. Utan starfsins tók
hann virkan þátt í samfélaginu. Var
öflugur liðsmaður í Lionsklúbbi
Hornafjarðar frá byrjun og einnig í
ýmsum nefndum á vegum sveitarfé-
lagsins, einkum þó hin síðari ár. Hann
var jafnan hreinskiptinn og sagði
skoðanir sínar opinskátt og umbúða-
laust. Ekki er víst að öllum hafi alltaf
líkað það, en hann var einnig maður
sem stóð við orð sín og trúr þeim mál-
stað sem hann vann fyrir.
Hin síðari ár, þegar álag minnkaði í
daglegum störfum hans, fékk hann
m.a. útrás fyrir orku sína í gönguferð-
um um óbyggðir landsins, en einkum
þó hér í nágrenninu. Hafði hann
gengið á fjölmörg fjöll og tinda hér
um slóðir undanfarin ár, en ekkert
fjall hafði hann þó gengið jafnoft á og
Ketillaugarfjall. Þannig var það þenn-
an örlagaríka laugardag í liðinni viku.
Hann hafði enn einu sinni lagt á fjallið
og ætlaði að verja til þess morgninum
meðan Aðalheiður kona hans var við
störf í versluninni. Varla hefur hann –
fremur en nokkurt okkar hinna –
grunað að þetta yrði hinsta förin.
Ég þakka Agli Jónassyni sam-
fylgdina og góð kynni á liðnum 40 ár-
um og votta Aðalheiði, Hannesi Inga,
Jónasi og Borgþóri og fjölskyldum
þeirra og öllum öðrum aðstandendum
innilegustu samúð okkar Heiðrúnar.
Hermann Hansson.
Það er morgunn og síminn er hljóð-
ur. Það er skrýtið að sitja við skrif-
borðið í vinnunni og eiga ekki lengur
von á hringingu um tíuleytið frá Höfn.
Síminn hringdi og númerabirtirinn
sýndi hver hringdi. Sæll sagði ég. Sæl
sagði hann, er ekki allt gott að frétta?
Er nokkuð sérstakt? Ég er bara að
láta heyra í mér. Þetta voru oftar en
ekki orð Egils Jónassonar, formanns
Verkstjórafélags Austurlands, þegar
hann hringdi til að fylgjast með gangi
mála á skrifstofu félagsins. Fréttin á
laugardagskvöldið af sviplegu andláti
Egils gat ekki verið raunveruleg en
ný vika hófst og síminn hringir ekki
enn, þetta er raunveruleikinn. Fyrstu
viðbrögðin voru: Hvernig fer með fé-
lagið okkar? Hvað gerum við nú?
Slíkir voru kraftar hans og dugnaður.
Egill var aldeilis ekki að leggja árar í
bát, heldur var mikil bjartsýni fram-
undan og mikið eftir af kröftum sem
hann ætlaði að nota næstu ár í þágu
félagsins. Það var mikil gleðistund hjá
Agli þegar hann tók við glæsilegum
bikar á landsþingi Verkstjórasam-
bandsins í maí sem var afhentur fyrir
bestan árangur í fjölgun félaga frá
síðasta þingi og það var öruggt að Eg-
ill ætlaði að taka aftur við þessum bik-
ar á Ísafirði árið 2007. Viðurkenning-
in var Egils og það var gaman að
hann skyldi fá að njóta þess að sýna
þeim sem komu í heimsókn, en því
miður var sá tími sem hann fékk að
njóta viðurkenningarinnar allt of
stuttur.
Það er gaman að hafa fengið að
þekkja og starfa með Agli, hvort held-
ur á þingum eða fundum á vegum
Verkstjórafélagsins. Hann var
óhræddur að láta skoðanir sínar í ljós
og einnig fús að hlusta á skoðanir
annarra. Margar góðar hugmyndir
fékk hann í félagsstarfinu og hafa
önnur félög tekið þær til eftirbreytni
og segir það okkur margt. Hann
eyddi miklum tíma í akstur, hvort
sem það var hingað norður á firði eða
til Reykjavíkur á stjórnarfundi hjá
Verkstjórasambandinu, og oft furðaði
ég mig á orkunni sem hann hafði, en
áhuginn var mikill og vinna skyldi
verkin vel og þá þýddi ekkert annað
en halda ferðinni áfram.
Egill hefur kvatt okkur, eftir stönd-
um við hljóð með söknuð í huga en
minningu um góðan samferðamann
sem vildi okkur öllum allt hið besta.
Þótt söknuður okkar sé mikill er
söknuður eftirlifandi eiginkonu,
barna, tengdabarna, barnabarna og
aldraðrar móður mestur.
Elsku Alla, synir og fjölskyldur, við
sendum ykkur okkar innilegustu
samúðarkveðjur og biðjum góðan
Guð að styrkja ykkur. Í huga okkar
geymum við minningar um traustan
vin, Egil Jónasson.
Sigurbjörg og Ásmundur,
Reyðarfirði.
Á þessum erfiðu tímum er margs
að minnast frá vinskap og samstarfi
okkar Egils síðustu áratugi. Egill fór
stundum með mér á sjó og oft geng-
um við saman á fjöll. Ef það var svo að
ég var á sjónum en hann til fjalla
mátti ég eiga von á símtali þar sem
hann sagði mér frá því upp á hvaða
tind hann væri nú kominn. Nú í seinni
tíð komst ég þó ekki nærri eins oft
með honum til fjalla og ég hefði viljað
en það stóð þó alltaf til að bæta það
upp.
Egill hóaði okkur gömlu vinnu-
félögunum árlega saman í skötuveislu
á Þorláksmessu. Það var líka fastur
liður hjá okkur Agli og Arnari að
ganga fyrir Horn á milli jóla og nýárs.
Minningar um þennan góða vin eiga
eftir að koma oft upp í hugann, hvort
sem er við skötuveislu, á sjónum, til
fjalla eða í daglegu amstri.
Það er erfitt að kveðja svo góðan
vin og hvert orð virðist fátæklegt.
Vinur kæri, vertu sæll,
nú vegir skilja að sinni.
Þín gæta máttug verndarvöld
á vegferð nýrri þinni.
Með heitu, bljúgu þeli þér
ég þakka kynninguna,
um göfugan og góðan dreng
ég geymi minninguna.
(Höf. ók.)
Elsku Alla og fjölskylda og aðrir
aðstandendur. Mig langar til að votta
ykkur mína dýpstu samúð og megi
Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu
tímum. Ég veit að missir barna-
barnanna er ekki síst mikill því Egill
var með eindæmum barngóður mað-
ur.
Göngur okkar verða ekki fleiri kæri
vinur, en í huganum munt þú fylgja
mér. Þú kvaddir í faðmi fjallsins sem
þú unnir svo heitt og enginn hafði
gengið oftar en þú. Mín næsta ganga
verður á staðinn þar sem þú kvaddir
þennan heim.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Þinn vinur,
Kristján Jónsson (Kiddi).
Þegar berast fréttir af válegum tíð-
indum eru viðbrögðin oftast sorgar-
blandin, sérstaklega ef um góða vini
eða skyldmenni er að ræða. Svo varð
um mig þegar ég fékk fréttir af svip-
legu láti Egils Jónassonar, góðs fé-
laga í stjórn Verkstjórasambands Ís-
lands, en hann var einnig vinur.
Kynni okkar Egils voru ekki löng, að-
eins sex ár. Frá því um haustið 1999
er ég settist í stól stjórnarmanns hjá
Verkstjórasambandi Íslands. Ég ætl-
aði að setjast í stólinn næst dyrunum,
úti á enda, frekar óöruggur, þegar
hann kemur til mín og segir nokkuð
hvasst: „Þú situr ekkert þarna, góði
minn, þetta er mitt sæti,“ brosir svo
ljúflega og segir, „þú tekur sætið hans
Brynjars“. Svo tók hann í höndina á
mér og bauð mig velkominn, frá þeirri
stundu var hann vinur minn.
Egill hafði mjög ákveðnar skoðanir
og stóð með þeim. Hann hafði mjög
sterka réttlætiskennd og vildi öllum
gott gera. Hann hafði góða yfirsýn yf-
ir launamál og sérstaklega kjör fisk-
verkunarfólks og var alltaf með á tak-
teinunum nýjar hugmyndir þar að
lútandi. Starf hans sem formaður
Verkstjórafélags Austurlands var
sérstakt og óeigingjarnt. Ég er ekki
frá því að þegar hann var að segja
okkur hinum í stjórn Verkstjórasam-
bandsins frá aðferðum sínum og elju-
semi við að kynna félagið sitt hafi
gætt nokkurrar öfundar, allavega
kom fyrir að ég fann stundum fyrir
þeirri tilfinningu. Egill kvað oft fast
að orði, sérstaklega í málum sem voru
honum hugleikin. Oft hringdi hann í
mig daginn eftir snarpan stjórnar-
fund til að ræða um einstök mál og
þar sem ég er ritari VSSÍ kom oft
þessi spurning, hvort ekki mætti
milda það sem hann hefði sagt í hita
leiksins, málið væri kannski ekki al-
veg svona alvarlegt. Hann var líka
fyrstur manna til að biðjast afsökunar
ef hann hafði farið með rangt mál og
fyrstur að fyrirgefa ef menn báðust
fyrirgefningar. Það var aðdáunar-
verður áhuginn og sannfæringar-
krafturinn þegar hann var að afla
stuðnings við, og segja frá hugmynd-
um sínum um kynningu á Verkstjór-
afélagi Austurlands og jafnframt
Verkstjórasamtökunum á opinni fyr-
irtækjakynningu á Egilsstöðum sl.
sumar. Hvað hann var ánægður þeg-
ar við svo í haust sögðum honum að
við hefðum haft fréttir af kynningunni
og jafnvel orðið varir við fjölgun í okk-
ar félögum vegna hans kynninga.
Ég veit að ég mun sakna Egils,
snarpra athugasemdanna, létta húm-
orsins og ekki má gleyma frásögnun-
um af öllum gönguferðunum. Sér-
staklega var það mér minnisstætt
þegar hann var að segja mér frá
fjallaferðunum af mínum heimaslóð-
um, Norðfirði. Slóðir sem ég þekkti
aðeins af frásögnum annarra.
Síðast þegar ég hitti Egil var það á
bifreiðastæðinu fyrir framan Stapann
í Njarðvík að loknu þingi Verkstjóra-
sambands Íslands. Hann á leið aust-
ur, ég á leið út í Keflavík. Síðasta
kveðjan var, „sjáumst hressir á fyrsta
fundinum í haust“. Því miður get ég
ekki fylgt Agli síðustu gönguferðina
þar sem ég er staddur erlendis. Fjöl-
skyldu Egils sendi ég samúðarkveðj-
ur og bið þeim öllum Guðs blessunar.
Úlfar Hermannsson,
formaður VF Suðurnesja,
ritari VSSÍ.
Mig langar að minnast Egils Jón-
assonar með örfáum orðum.
Agli kynntist ég fyrst almennilega
eftir að við fórum að vinna saman árið
1999. Ég varð þá yfirmaður hans þar
sem hann starfaði sem verkstjóri í
fiskvinnslu. Það tók okkur nokkurn
tíma að læra hvor á annan. Egill benti
mér á að hann væri reyndari en ég, en
ég taldi mig hafa eitthvað sem var
merkilegra. Smávægilegur núningur
skapaðist stundum, líklega vegna
þrjósku okkar beggja. Slíkt risti þó
aldrei djúpt og smám saman náðum
við vel saman og áttum mjög gott
samstarf síðustu misseri. Það var lær-
dómsríkt og gaman að vinna með
Agli. Það er því mikill missir að hon-
um á vinnustaðnum og ekki síður úr
verkstjórahópnum þar sem hann kom
oft með mikilvæg sjónarhorn á mál-
efnin. Egill var hraustur maður, bar
sig vel og hlífði ekki sjálfum sér.
Hann gerði sér vel grein fyrir því
hverju hann sinnti best og hvað var
best að fela öðrum.
Elsku Alla, Guð styrki þig, strák-
ana þína og fjölskyldur þeirra í ykkar
mikla missi.
Hermann Stefánsson.
ÚTFARARSTOFA
KIRKJUGARÐANNA
Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is
REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST
Önnumst alla þætti útfararinnar
Þegar andlát ber að höndum
Arnór L. Pálsson
framkvæmdastjóri
Ísleifur Jónsson
útfararstjóri
Frímann Andrésson
útfararþjónusta
Svafar Magnússon
útfararþjónusta
Hugrún Jónsdóttir
útfararþjónusta
Guðmundur Baldvinsson
útfararþjónusta
Halldór Ólafsson
útfararþjónusta
Ellert Ingason
útfararþjónusta