Morgunblaðið - 03.12.2005, Side 54
54 LAUGARDAGUR 3. DESEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Agnar HalldórÞórisson fædd-
ist á Hjalteyri 13.
ágúst 1925. Hann
lést á Fjórðungs-
sjúkrahúsinu á Ak-
ureyri 28. nóvember
síðastliðinn. For-
eldrar hans voru
hjónin Þórir Sigur-
björnsson, sjómaður
og útgerðarmaður,
f. 4. júní 1900, d. 17.
ágúst 1954, og Pál-
ína Björg Pálsdótt-
ir, f. 26. ágúst 1900,
d. 22. janúar 1933. Systkini Agn-
ars eru: Sigurbjörn Yngvi, f. 10.8.
1923, d. 5.2. 1981, Jóhann, f. 20.7.
1927, d. 15.5. 1971, Björg, f. 9.9.
1931, búsett í Reykjavík.
Hinn 25. júní 1950 kvæntist
Agnar Sigríði Gunnlaugu Gísla-
dóttur frá Grímsgerði í Fnjóska-
dal, f. 18. maí 1926, d. 13. júní
1974. Börn þeirra eru: Aðalsteinn
Rúnar, f. 7.3. 1951, sambýliskona
Ragnheiður Brynj-
ólfsdóttir, búa í
Reykjavík; Þórir
Páll, f. 4.6. 1954,
maki Nicoletta
Lacramiora, búa á
Akureyri; Gísli Þór,
f. 26.8. 1955, maki
Hrefna Þorbergs-
dóttir, búa á Akur-
eyri; Jórunn Kol-
brún, f. 6.12. 1956,
maki Sigurgeir
Pálsson, búa í Sig-
túnum í Eyjafjarð-
arsveit; Þórey, f.
25.2. 1960, maki Árni Björnsson,
búa á Akureyri; Ingi Steingrímur,
f. 17.3. 1961, býr í Reykjavík; og
Gissur Agnar, f. 29.6. 1966, unn-
usta Sigrún Sigfúsdóttir, búa á
Akureyri. Barnabörnin eru átta
og eitt langafabarn.
Útför Agnars verður gerð frá
Möðruvallakirkju í Hörgárdal í
dag og hefst athöfnin klukkan
13.30.
Pabbi bjó allt sitt líf á Hjalteyri og
stundaði sjómennsku allan sinn
starfsferil, nema nokkur ár þegar
hann vann í verksmiðjum Kveldúlfs
á Hjalteyri. Hann lauk vélstjóranámi
og lengi framan af var hann á tog-
urum en árið 1957 keypti hann dekk-
bátinn Vísi og gerði hann út til ársins
1970 en þá seldi hann bátinn og fékk
sér trillu sem bar sama nafn, sem
hann stundaði sína sjómennsku á
eftir það. Einnig vann hann mikið við
fiskmat.
Pabbi var mikill félagsmálamaður
og m.a sat hann um árabil í hrepps-
nefnd og kjörstjórn og söng í tugi
ára í kórum. Hann var mikill nátt-
úruunnandi, gekk vel um náttúruna
og bar virðingu fyrir henni, hann
þekkti t.d. alla fugla. Hann var mjög
veðurglöggur og horfði eftir snjóa-
lögum í fjöllunum í kring og þá sér-
staklega í fjallinu Kaldbak.
Pabbi var dagfarsprúður maður
og bar tilfinningar sínar ekki á torg,
hann var traustur og ætíð hægt að
leita til hans og hann greiddi úr því
sem hann var beðinn um. Okkur
reyndist hann kærleiksríkur faðir,
var traustur og ætíð til staðar. Oft á
kvöldin spilaði hann fyrir okkur á
munnhörpu og höfðum við gaman af.
Ungur varð hann ekkill en hélt heim-
ilinu saman með sinni eðlislægu ró-
semi og lífið hélt áfram sinn vana-
gang. Eins og einn bróðirinn orðaði
það: „Hann var alltaf þarna, eins og
klettur í hafinu,“ og okkur fannst
það sjálfsagt og óbreytanlegt.
Barnabörnum sínum var hann ást-
ríkur og sýndi þeim mikla hlýju og
naut þeirra e.t.v. á annan hátt en
barna sinna því á meðan þau voru lít-
il þá vann hann mikið en barnabörn-
unum gat hann gefið meiri tíma og
naut samvistanna við þau, hann fékk
það ríkulega til baka og betri afa
hafa þau ekki getað hugsað sér og er
missir þeirra mikill.
Okkur fannst pabbi alltaf vera
mun yngri en hann var í raun því
hann var ungur í anda og fylgdist vel
með og var t.d. virkur í atvinnulífinu
til hinsta dags. Honum féll sjaldan
verk úr hendi, sjómennskan og allt í
kringum hana var hans áhugasvið og
ósjaldan fór hann með barnabörnin í
smá hring út á sjó þegar komið var í
heimsókn. Einnig fór hann ófáar
ferðirnar með ferðamenn eða gesti á
eyrinni og leyfði þeim að renna fyrir
fisk. Hin síðari ár minnkaði hann sjó-
sókn og naut lífsins á annan hátt en
áður og teljum við að það hafi verið
hans bestu ár.
Við þökkum þér, elsku pabbi, fyrir
öll árin sem við nutum samvista við
þig og hefðum gjarnan viljað að þau
yrðu fleiri.
Þínar dætur,
Jórunn og Þórey.
Við viljum minnast hér með
nokkrum orðum okkar ástkæra afa
sem sýndi okkur alltaf mikla hlýju og
ástúð og var alltaf tilbúinn til að
spjalla.
Fyrsta minningin sem kemur upp
í hugann er þegar við systurnar vor-
um litlar á Dalvík og afi kom í heim-
sókn með sitt hvorn Olís-pokann
með súkkulaði og ópali handa okkur.
Einnig hvað honum fannst gaman
þegar við komum í heimsókn til hans
á Hjalteyri en hann hefur alltaf verið
mjög stór hluti af tilveru okkar og
heimili hans geymir margar góðar
minningar. Þar héldum við jólin þar
sem hann var í aðalhlutverki sem
pakkalesari og stundum þegar
spenningurinn var að gera út af við
okkur fengum við að opna sinn pakk-
ann hvor strax eftir matinn og áður
en pakkalesturinn hófst. Í ár verða
fyrstu jólin sem við höldum án hans
og við komum til með að sakna hans
mikið.
Ef afi var ekki heima þegar við
komum var hann við skúrinn sinn
eða um borð í bátnum og það voru
farnar ófáar trilluferðirnar þar sem
við systurnar fengum að stýra. Við
stýrðum ekki bara trillunni, við feng-
um líka að stýra bílnum hans því
hann vildi að við lærðum að keyra og
fannst sjálfsagt að lána okkur bílinn
á eyrinni þó bílprófið væri ekki kom-
ið en hann var alltaf með okkur til
halds og trausts. Þessi stóri sterki
maður sem við sáum fram á að eiga
mörg góð ár í viðbót með, er farinn
en við erum afskaplega þakklátar
fyrir þann tíma sem við fengum með
honum og erum heppnar að hafa átt
yndislegan afa að sem sýndi okkur
alltaf áhuga og ástúð. Við munum
alltaf minnast hlýrra og sterkra
faðmlaganna og minning hans mun
lifa í hjarta okkar.
Þínar dótturdætur,
Sigríður og Ásdís.
Góður maður er genginn. Svili
minn Agnar Þórisson er látinn átt-
ræður að aldri. Við hjónin höfum
þekkt hann í meira en hálfa öld og
bar aldrei skugga á þau kynni, enda
var hann maður þeirrar gerðar sem
öllum féll vel við og leið vel með.
Hann var rólegur, traustur og áreið-
anlegur maður sem allir treystu til
góðra verka. Hann bjó alla ævi á
Hjalteyri og var tengdur staðnum
tryggðaböndum og vildi hvergi ann-
ars staðar vera. Hann var sjómaður
og gerði út sinn eigin bát. Honum féll
vel að vera sinn eigin herra og eng-
um háður nema náttúrunni. Hann
varð fyrir því áfalli árið 1974 að
missa konu sína, Sigríði Gísladóttur,
en hún féll frá á miðjum aldri og frá
mörgum ungum börnum. Þetta var
erfiður tími fyrir Agnar en hann
stóðst þá raun og kom börnum sín-
um vel til manns. Börnin fluttu
smám saman að heiman og stofnuðu
eigin fjölskyldur. Á efri árum átti
Agnar mikil og góð samskipti við
börn sín og fjölskyldur þeirra.
Við Jón vottum öllum aðstandend-
um Agnars innilega samúð.
Blessuð sé minning Agnars Þór-
issonar.
Jónína Helgadóttir.
Okkur setti hljóða er við fréttum
að Aggi frændi hefði látist eftir að
hafa slasast á höfði. Hætt er við að
Hjalteyrin breyti um svip eftir að
hans nýtur ekki lengur við. Hjálp-
semi Agga við okkur ættingjana var
viðbrugðið og nutum við þess eins og
hann væri bróðir okkar þegar við
komum til Hjalteyrar. Agnar missti
móður sína sjö ára gamall og kom þá
Jórunn amma frá Siglufirði og hélt
heimili fyrir Þóri föður hans en
systkinin voru fjögur, eins til níu ára,
þegar móðir þeirra lést.
Knútshúsið á Hjalteyri var tví-
skipt þar sem Agnar ólst upp og
bjuggu bræðurnir Axel og Þórir með
fjölskyldur sínar sinn í hvorum end-
anum og reru saman á bát til fiskjar.
Agnar komst snemma í kynni við sjó-
inn og fór ungur að beita og stokka
upp línu. Sjórinn varð hans vinnu-
staður að mestu leyti og þótti hann
djarfur og duglegur sjósóknari.
Hann átti og gerði út marga báta um
ævina og hétu þeir flestir Vísir. Agn-
ar var glaðsinna og músíkalskur og
mátti oft heyra dillandi munnhörpu-
músík handan við þilið á milli eldhús-
anna í Knútshúsinu. Hann söng í
kirkjukór Möðruvallakirkju og fór
síðast í söngferðalag með kórnum
síðastliðið sumar til Þýskalands, þá
áttræður að aldri.
Agnar gifti sig 1950 Sigríði Gísla-
dóttur frá Grímsgerði og eignaðist
með henni sjö börn. Sigga var ákaf-
lega myndarleg og gestrisin kona.
Aldrei var farið svo til Hjalteyrar að
ekki væri komið við hjá Agga og
Siggu og jafnvel gist á fyrri árum.
Agnar varð fyrir þeirri sorg að missa
konu sína á besta aldri meðan börnin
voru ennþá ung en þau sýndu þá
hvað í þeim bjó og tóku við heim-
ilishaldi ásamt föður sínum. Þegar
Axelsbörnin fóru að hreiðra um sig í
sumarbústöðum á Hjalteyri þá var
Agnar ávallt aufúsugestur hjá okkur
á sumrin og engin átthagamót voru
haldin án hans.
Agga frænda verður sárt saknað,
engin upplífgandi símtöl á veturna
um veðurfar og fiskirí þar sem hann
sló gjarnan á léttari nótur. Við mun-
um ætíð geyma Agga í hjarta okkar
og hugurinn er hjá börnum hans og
venslafólki.
Gissur, Ragna, Eyþór,
Vilberg og Helga Rós.
„Nú er hún Snorrabúð stekkur.“
Í dag kveðjum við hann Agnar
frænda. Það verður tómlegra á eyr-
inni við fjörðinn. Agnar, sem ávallt
kom á sínum hraða niður brekkuna á
jepplingnum til að huga að farfugl-
unum að sunnan. Hann var „staðar-
haldarinn“ okkar á Hjalteyri, hin
styrka tenging við átthagana. Alltaf
var hann boðinn og búinn til að að-
stoða þá sem komu og fóru og það
fylgdu því ýmsir snúningar fyrir
Agnar. Hann var yngri kynslóðinni
órjúfanlegur þáttur í sögu og lífi
Hjalteyrar. En svona er lífið og ekk-
ert verður við því gert þegar dauðinn
knýr dyra. Agnars er eflaust þörf á
öðrum stað enda alltaf þörf fyrir
góða drengi.
Agnar var lítillátur, ljúfur og kát-
ur maður með eindæmum. Hin
sanna gleði skein úr augunum og
hafði hann gaman af því að lyfta sér
upp í góðra vina hópi. Þess fengum
við að njóta með honum, sérstaklega
um verslunarmannahelgar, þegar
eyrin fyllist af fólki við varðeld og
söng, sem nú er orðin hefð. Agnar
var sjómaður alla tíð, sigldi um tíma
á Sæfinni með fisk til Bretlands, var
síðan á togurum og stærri fiskiskip-
um. Aðalævistarf hans var þó for-
mennska á trillunni sinni Vísi frá
Hjalteyri. Agnar hafði gaman af því
að ferðast. Við minnumst þess hve
glaður hann var þegar hann fór til
Túnis hér um árið og átti viðdvöl í
Keflavík.
Við minnumst Agnars og Siggu
með myndarlegan barnahópinn og
þeirrar gestrisni sem við nutum þeg-
ar við komum norður hér á árum áð-
ur. Þegar Sigga kvaddi síðan langt
fyrir aldur fram, frá sjö börnum, var
Agnar einn eftir með hópinn og
þurftu þá eldri börnin að ganga í
störfin, sem þau og gerðu af miklum
myndarbrag.
Agnar var söngelskur maður og í
seinni tíð tók hann þátt í kórastarfi
og það var honum mikils virði. Í
haust fór hann með kórnum til
Þýskalands og náðum við að hitta
frænda og var hann glaður og hress
að vanda. Það var okkar kveðju-
stund.
Við viljum fá að þakka kærum
frænda og vini ánægjulegar sam-
verustundir og sendum fjölskyld-
unni okkar innilegustu samúðar-
kveðjur.
Valdimar Axelsson og
fjölskylda í Keflavík.
Elsku Agnar, vinur okkar fjöl-
skyldunnar, er dáinn. Okkur langar
til að minnast hans með fáeinum orð-
um.
Agnar var mjög duglegur og
hraustur maður og hafði mikla
ánægju af því að stunda sjóinn á trill-
unni sinni Vísi, hann var mjög fé-
lagslyndur og tók þátt í flestum við-
burðum í sveitarfélaginu. Ég (Lilja)
kynntist honum á fyrsta þorrablóti
Arnarneshrepps sem ég fór á ’85 og
upp frá því mynduðust mikil og góð
tengsl sem héldust til dauðadags.
Við þökkum þér fyrir allar ánægju-
stundirnar sem þú hefur veitt okkur
í gegnum árin.
Börnin okkar kölluðu þig oft afa
og brást þú hinn ljúfasti við og eiga
þau fallegar minningar um þig. Við
hóuðum oft í þig í mat sem þú þáðir
oftast nær og við sátum fram eftir
kvöldi og röbbuðum um liðna tíma á
Hjalteyri og börnin og við höfðum
gaman af þessum frásögnum.
Ég (Lilja) og Agnar vorum kór-
félagar og keyrðum oftast saman á
kóræfingar og messur, ýmist á mín-
um bíl eða hans.
Stundum varð skemmtilegur
ágreiningur milli okkar um hvort
ætti að keyra, því við vorum bæði
svolítið bílhrædd hvort með öðru og
var Jón oft búinn að skemmta sér
mikið yfir þessu. Alltaf var Agnar
þolinmóður að bíða eftir mér, því að
ég var ekki alltaf tilbúin þegar leggja
átti af stað.
Elsku Agnar, við viljum þakka þér
fyrir trausta og góða vináttu í gegn-
um árin, þakka þér fyrir að reynast
börnunum okkar sem afi. Þín verður
sárt saknað, hér á heimilinu og í
stússinu í kringum trillurnar okkar.
Við þökkum þau forréttindi að hafa
fengið að þekkja þig og eigum eftir
að ylja okkur við minningarnar í
framtíðinni.
Kærar kveðjur.
Lilja, Jón Þór, Selma, Rósa
Guðrún, Alfreð og Valgerður.
Með Agnari Þórissyni er fallinn í
valinn ekki einungis góður drengur
og hjálparhella þeirra sem dveljast á
Hjalteyri nokkrar vikur á ári hverju
til að njóta þar eyfirskra sumartöfra,
heldur síðasti raunverulegi sjómað-
urinn í þessari gömlu veiðistöð.
Hann var innfæddur Hjalteyringur,
af sjómönnum kominn.
Agnar var náttúrubarn, fiskaði á
línu, einn á báti sínum og beitti
kræklingi sem hann plægði upp fram
af Nöfunum, ekki langt frá þeim stað
þar sem upp kom fyrir fáum árum
sjóðandi heitt vatn sem nægði til að
hita upp sveitirnar í kring og varð
kærkomin viðbót við hitagjafa Ak-
ureyringa.
Agnar fiskaði oft vel en ekki alltaf.
Þegar lítið fiskaðist og hann var
spurður um aflabrögð var svarið oft
á þessa leið: Fiskarnir voru fáir en
þeir voru fallegir. Svarið lýsir honum
vel. Hann var hvorki fyrir að kvarta
né berja sér. Stundum gekk hann á
milli sumarbústaðanna á Hjalteyri
og gaf í soðið.
Agnar var söngvinn maður og
söng í áratugi með kirkjukór Möðru-
vallasóknar. Þegar við undirrituð
vinahjón hins látna vorum að skrifa
þessi kveðjuorð datt okkur í hug er-
indi úr kvæði Fiðlu-Bjarnar:
Mér verður skipsins dæmi,
er skorðulaust hvílir
eitt við æginn kalda,
engan stað fær góðan,
rísa bárur brattar,
í briminu illa þrymur.
Svo kveður maður hver, er mornar
mæddur í raunum sínum.
Hvað verður nú um skipið hans?
Hafðu þökk fyrir allt, kæri vinur.
Jóhanna Pétursdóttir og
Eiríkur Hreinn Finnbogason.
Það var okkur sönn ánægja að
kynnast Agnari Þórissyni, þeim
greiðvikna heiðursmanni, sem meðal
annars gætti húss fyrir okkur á vetr-
um. En þótt við munum sakna hans,
og þá sérstaklega þegar við komum
á Hjalteyri, þá getum við glaðst yfir
að hafa átt hann að traustum vini í
aldarfjórðung.
Það var okkar lán.
Kristján, Solveig, Jan, Hettí og
Rúna, Gamla Hóteli og
Kárastöðum.
Einn af traustustu íbúum sveit-
anna við ósa Hörgár er fallinn frá
áttræður að aldri. Agnar fæddist á
Hjalteyri og bjó þar alla tíð. Hann
stundaði sjóinn alla sína starfsævi og
var einn fárra manna á Hjalteyri
sem enn stundaði dagróðra, oftast
einn á bátnum sínum. Þegar hann
var spurður um aflabrögðin gátu
svörin auðvitað verið á ýmsa lund, en
Agnar bætti því ævinlega við að
þetta væri „fallegur fiskur“. Þannig
sá hann fegurð í sjónum og sjávar-
fanginu.
Agnar var kirkjurækinn og söng-
elskur og söng í kirkjukór Möðru-
vallaklaustursprestakalls í áratugi
og var stofnfélagi kórsins þegar
hann var formlega stofnaður. Hann
söng enn í kórnum og hélt sinni fal-
legu tenórrödd ótrúlega vel alla tíð.
Á söngæfingum verkaðist það svo að
Agnar sá ævinlega um að ganga frá,
slökkva ljós og loka gluggum í kirkj-
unni, að söngæfingum loknum. Hann
var líklega aldrei settur í þetta emb-
ætti heldur tók það að sér eins og
góður þjónn kirkjunnar.
Agnar var afskaplega ljúfur og
þægilegur í öllu samstarfi og hann
mætti öllum öðrum betur á æfingar
og til athafna. Oft voru kórfélagar
önnum kafnir og komust ekki til at-
hafna á útkirkjum og menn þurftu að
skipa sér niður á kirkjurnar. Agnar
fór á þær flestar og stundum var
spurt: „Hverjir geta farið með Agn-
ari?“
Kirkjukór Möðruvallaklausturs-
prestakalls fór í ágúst síðastliðnum í
söngferðalag til Þýskalands. Agnar
fór með, enda þótt hann ætti áttræð-
isafmæli á þessum tíma. Sýnir það
hvern hug hann bar til kórsins og fé-
lagsskaparins. Var honum sýndur
sómi á afmælisdaginn af ferðafélög-
unum. Í þessari ferð, og reyndar í
seinni tíð, var Agnari skipað í öftustu
röð alveg fyrir miðju. Þessi mynd-
arlegi gráhærði maður sómdi sér af-
ar vel þannig efst fyrir miðju og gaf
hann kórnum virðulegt yfirbragð.
Skarðið hans Agnars í kirkjukór
Möðruvallaklaustursprestakalls
verður vandfyllt og hans verður
saknað.
Við sendum fjölskyldu hans sam-
úðarkveðjur og biðjum þeim bless-
unar Guðs, þess Guðs sem Agnar
hafði lofsungið í kirkjukórnum í ára-
tugi.
Kórfélagar.
AGNAR HALLDÓR
ÞÓRISSON
Morgunblaðið birtir minningar-
greinar alla útgáfudagana.
Skil Minningargreinar skal senda í
gegnum vefsíðu Morgunblaðsins:
mbl.is (smellt á reitinn Morgun-
blaðið í fliparöndinni – þá birtist
valkosturinn „Senda inn minning-
ar/afmæli“ ásamt frekari upplýs-
ingum).
Skilafrestur Ef birta á minning-
argrein á útfarardegi verður hún
að berast fyrir hádegi tveimur
virkum dögum fyrr (á föstudegi ef
útför er á mánudegi eða þriðju-
degi). Ef útför hefur farið fram
eða grein berst ekki innan hins til-
tekna skilafrests er ekki unnt að
lofa ákveðnum birtingardegi. Þar
sem pláss er takmarkað getur
birting dregist, enda þótt grein
berist áður en skilafrestur rennur
út.
Minningar-
greinar