Fréttablaðið - 24.01.2004, Blaðsíða 28

Fréttablaðið - 24.01.2004, Blaðsíða 28
24 24. janúar 2004 LAUGARDAGUR VATN Á MARS Þessi mynd sem ESA sýndi í gær á að staðfesta að ís sé á Mars. Evrópskir vísindamenn telja sig hafa gert merka uppgötvun: Merki um vatn á Mars Vísindamenn hjá Evrópskugeimvísindastofnuninni, ESA, telja sig fyrstir manna hafa fund- ið ummerki um ís á Mars. Vísinda- mennirnir byggja uppgötvun sína á gufum vatnssameinda sem þeir greindu með innrauðri myndavél sem er um borð í Mars Express geimfarinu sem siglir um spor- baug Rauðu plánetunnar. Geimskipið Mars Odyssey, sem er á vegum bandarísku geim- ferðastofnunarinnar NASA, fann áður sannanir fyrir vatni sem var blandað jarðvegi. Talsmaður ESA telur að mynd- irnar sem geimskip þeirra tók séu hins vegar mun betri. „Fyrri mælingar voru ófull- nægjandi og þetta er í fyrsta sinn sem ótvíræðar sannanir finnast um vatnssameindir á plánetunni,“ sagði talsmaður ESA og bætti við. „Að finna vatn á Mars er vissu- lega eins og að finna hinn heilaga kaleik.“ Talsmenn NASA segja upp- götvun ESA ekki nýja. „Við upp- götvuðum í mars árið 2001 að það væri mikið af ís á norðurhluta plánetunnar. „Þetta eru því ekki fréttir fyrir okkur en við erum fegnir því að geimfar þeirra stað- festir það,“ sagði Orlando Figuer- oa hjá NASA. ■ Mars er fjórða pláneta frá sólu.Yfirborð hennar er hulið rauðum eða bleikum hjúpi sem varð fornum stjörnufræðingum að innblæstri við nafngiftina. Það voru Rómverjar sem gáfu plánet- unni nafnið Mars, til heiðurs stríðsguði þeirra. Önnur samfélög sóttu einnig nafngiftina í litinn rauða, þar á meðal Forn-Egyptar sem kölluðu plánetuna „Þá rauðu“. Er líf á Mars? Fyrir tíma geimferðanna héldu menn að líf væri á Mars. Stjörnu- fræðingurinn Percival Lowell, sem skoðaði plánetuna í sjónauka um árabil, lagði fram kenningu sem fékk góðan hljómgrunn á 20. öld. Lowell taldi sig sjá fjölda skurða sem, að hans sögn, áttu að flytja bræðsluvatn frá jöklum til uppþornaðra svæða. Hann taldi að slíka skurði hefði vitsmunavera skapað. Þegar betri og vandaðri kort komu af Mars höfnuðu flest- ir kenningu Lowells. Þær lifa þó enn góðu lífi í ýmis konar skáld- skap. Vísindamenn töldu einnig að líf væri á Mars sökum árstíða- bundinna litaskipta á yfirborði plánetunnar. Í júlí árið 1965 sendi geimfarið Mariner 4 tug mynda til jarðar. Á myndunum sáust gígar sem myndast höfðu af náttúrunnar hendi en engar vísbendingar voru um tilbúna skurði eða fljótandi vatn. Rannsóknarförin Viking Land- ers 1 og 2 lentu á Mars árið 1976. Tilraunir sem gerðar voru náðu ekki að færa sönnur á að líf hefði verið á plánetunni, að minnsta kosti ekki nálægt lendingarstað geimfaranna. Koltvísýringsloft á Mars Loftið á Mars er heldur frá- brugðið því sem gerist á jörðinni. Að megninu til er það byggt upp af koltvísýringi (CO2) en blandað litlu magni af öðrum lofttegund- um. Fjórar helstu lofttegundirnar eru: koltvísýringur 95.32%, nitur 2,7%, argon 1,6% og súrefni 0,13%. Á Mars er loftþrýstingur mjög lítill og hiti helst oftast neð- an frostmarks. Það vatn sem er þar er aðeins til sem ís í heim- skautajöklunum eða sem gufa í andrúmsloftinu. Þúsund sinnum minna af vatni er í andrúmsloftinu á Mars en á jörðinni. Það er þó nægilega mik- ið til að mynda ský sem svífa í kringum hina geysiháu eldgíga. Þoka getur myndast í dölum og þegar Viking Lander 2 kom til Mars lá þunnt frostlag yfir. Það hafa fundist sannanir fyrir því að vatn hafi verið á Mars og ýmislegt bendir til þess að stórfljót hafi runnið um plánetuna áður fyrr. Svo getur verið að vatn leynist alldjúpt í jarðveginum, á milli berglaga eða undir stöðuvötnum undir heimskautajöklunum. Meðalhiti á Mars sem mældur hefur verið er -63˚. Hitinn getur þó farið upp í 20˚ og niður í -140˚. Lítill loftþrýstingur Lofthjúpur Mars er mjög þunnur og er loftþrýstingur þar aðeins sjö millíbör. Vissulega er veður á Mars og stundum verða þar miklir sand- stormar sem geta hulið alla plánet- una. Þar sem loftþrýstingurinn er svo lítill má búast við að sandurinn sé mjög fíngerður svo vindurinn geti borið hann. Sandurinn hefur meðal annars sest á lofsteinagíga Mars sem eru milljóna ára gamlir. Ýmislegt bendir til þess að eld- virkni sé á Mars, kannski fyrst og fremst vegna gríðarhárra eldfjalla sem þar eru. Þar er til dæmis að finna hæsta fjall sólkerfisins, Ólympsfjall sem er 25 kílómetrar á hæð. Ekki er vitað hvort eldfjöllin á Mars séu enn virk en ljóst er að gos þar eru mun fátíðari en á jörðinni. Hestarnir sem draga Mars Mars hefur tvö lítil tungl, Fóbos og Deimos. Bandaríski stjörnufræð- ingurinn Asaph Hall sá þau fyrstur manna í kringum Mars árið 1877. Þá var fjarlægð reikistjarnanna í lág- marki. Tunglin draga nöfn sín af hestunum sem draga vagn Ares sem er stríðsguð Grikkja. Eins og áður hefur komið fram hét stríðs- guðinn Mars hjá Rómverjum. Braut tunglanna tveggja liggur mjög ná- lægt miðbaug Mars og bæði snúa þau ávallt sömu hlið að plánetunni. Uppruni tunglanna er með öllu óþekktur en tvær kenningar þykja skýra tilvist þeirra. Önnur er að þau séu úr efni sem varð afgangs eftir að Mars myndaðist en hin sú að loft- steinar hafi átt leið fram hjá plánet- unni en ekki komist frá vegna þyngdartogs reikistjörnunnar. Mislangt til Mars Mars og jörðin eru báðar reiki- stjörnur á braut í kringum sólina. Pláneturnar fara mismunandi hratt svo það er ekki alltaf sama lengd á milli þeirra. Á einum tíma geta þær verið sömu megin við sólina en á öðrum tíma geta þær verið sitt hvoru megin. Þegar pláneturnar eru næst hvort annarri eru um 78 millj- ón kílómetrar á milli þeirra en þeg- ar þær eru lengst frá hvor annarri eru um 380 milljón kílómetrar á milli þeirra. Í ágúst á síðasta ári var Mars nær jörðu en nokkru sinni í 60 þúsund ár. Þá voru 55.760.000 kíló- metrar á milli plánetanna. HEIMILDIR: VÍSINDAVEFUR HÍ. HTTP://WWW.SOLARVIEWS.COM BBC AP Marsbúar urðu skyndilega áallra vörum í Bandaríkjunum eftir eitt sérkennilegasta uppþot í sögu landsins. Sunnudagskvöldið, 30. október 1938, flutti útvarps- stöðin CBS leikrit sem byggt var á sögu H.G. Wells, The War of the Worlds. Það var leikhópurinn Mercury Theater sem hafði unnið leikgerðina og stóð að flutningnum en þar voru Orson Welles og John Houseman í forsvari. Leikritið fjallaði um innrás Marsbúa á Bandaríkin en þar sem leikgerðin var ekki hefðbundin rugluðust fjölmargir hlustendur verulega í ríminu. Öll umgjörð leikritsins var mjög raunveruleg, veðurfréttir voru á sínum stað og danstónlist var flutt frá Plaza- hótelinu í New York. Þeir sem ekki hlustuðu á kynningu á leikritinu í upphafi áttu því í erfiðleikum með að átta sig á að leikrit væri þarna á ferðinni. Tónlistin var skyndilega rofin með tilkynningu um að sprenging hefði orðið á plánetunni Mars. Síðan birtist hver tilkynning- in á fætur annarri og loks kom að því að sagt var að geimfar hefði lent í New Jersey og skrímsli hefðu komið út úr því. Líkamar skrímsl- anna voru eins og vígalegra bjarna, andlitin eins og blautt leður og aug- un eins og í snákum. Fréttamaður var mættur á staðinn og lýsti ósköpunum og tilkynnti að fjörtíu manns lægju þegar í valnum. Út- sendingin rofnaði skyndilega. Þeg- ar aftur tókst að ná sambandi við New Jersey var ljóst að Marsbú- arnir voru komnir til að vera. 7000 manna varðlið hafði barist við þá og beðið ósigur. Íbúar voru lagðir á flótta og Marsbúarnir voru að und- irbúa að leggja undir sig fleiri borgir í Bandaríkjunum. Gasárás og skothvellir Talið er að um 12.000 manns hafi hlustað á leikritið og þegar hér var komið sögu í leikritaflutningnum hafði mikil skelfing gripið um sig meðal hlustenda, sérstaklega í New Jersey og New York. Þúsundir sím- tala bárust til lögreglu, útvarps- stöðva og dagblaða. Flestir vildu vita hvernig best væri að koma sér burt. Einhverjir þustu á nærliggj- andi lögreglustöðvar til að leita hælis. Áhyggjufullur íbúi hringdi á lögreglustöð og krafðist þess að fá gasgrímu, hann sagðist heyra hljóð frá bardaganum í New Jersey og taldi gasárás yfirvofandi. Þegar honum var sagt að öll lætin stöfuðu af flutningi útvarpsleikrits hrópaði hann: „Við heyrum skothvelli alla leið hingað og ég vil fá gasgrímu. Ég er skattborgari“. Hópur fólks þaut út úr blokkaríbúð með klúta fyrir andliti og sagðist hafa orðið fyrir gasárás. Eiginmaður nokkur kom að konu sinni þar sem hún var að búa sig undir að taka inn eitur. Hún sagði honum að hún vildi frem- ur fyrirfara sér en láta Marsbúa deyða sig. Símalínurnar á CBS-út- varpsstöðinni voru glóandi. Símadama þar svaraði spurningu hlustanda um hvort heimurinn væri að farast með orðunum: „Því miður, við höfum engar upplýsingar um það hér“. Orson Welles í vanda Þegar útsendingu lauk var leik- ritið vandlega afkynnt. Reiðir hlust- endur hótuðu nú flytjendum öllu illu fyrir að hafa haft sig að fíflum. Ein- hver hótaði að sprengja bygginguna í loft upp. Flytjendur kölluðu á lög- reglu og leituðu svo hælis á kvennaklósetti byggingarinnar. Fréttamenn sátu um bygginguna og þegar þeir náðu símasambandi við Welles spurðu þeir hann hvernig honum liði vegna þeirra dauðsfalla sem flutningurinn hefði ollið. Welles hafði ekkert tækifæri til að kanna réttmæti þessarar fullyrð- ingar (sem var röng) og gat einung- is stunið því upp að hann hefði ekki ætlað sér neitt illt. Daginn eftir útsendinguna var leikari leikhópsins sem kom á út- varpsstöðina rekinn vegna þess að hann var að borða mars-súkkulaði- stykki. Þennan sama dag varð Orson Welles að standa fyrir máli sínu. Hann sagðist harma þá skelf- ingu sem flutningurinn hefði skap- að en sagðist ekki skilja hana. Saga H. G. Wells væri vel þekkt og með- an á flutningnum stóð hefði þrisvar sinnum komið fram að verið væri að flytja leikrit. Marsbúar skárri en slátrarinn Skömmu eftir útsendinguna var gerð rannsókn á viðbrögðum fólks við leikritinu. Þau höfðu verið margvísleg og sum sérkennileg. Kona nokkur sagði að sér hefði verið létt við fréttir af innrásinni frá Mars þar sem hún losnaði þá við að borga slátraranum. Svart- sýnismaður sagði að hann hefði hlakkað til eyðingar mannkyns þar sem enginn tilgangur væri í því að lifa því nasistar væru að eyða allri siðmenningu. Kona sagðist hafa reynt að fá mann sinn til að klæða sig í sparifötin því hann gæti ekki mætt Guði í vinnugallanum. Eigin- maðurinn sagði að það væri í Guðs höndum að ákveða í hvaða fötum hann kveddi heiminn. Ári eftir flutning Mercury- hópsins var leikritið flutt í Ekvador. Svipuð skelfing greip um sig en þegar hinir blóðheitu Suður- Ameríkumenn áttuðu sig á því að leikið hafði verið á þá brenndu þeir útvarpsstöðina til grunna með þeim afleiðingum að sex aðstand- endur leikritsins létust. kolla@frettabladid.is MARS Könnunarfarið Rover Spirit hefur sent myndir frá Mars frá því það lenti á plánetunni í byrjun mánaðarins. Miklar vonir eru bundnar við að nýjar upplýsingar um plánetuna berist frá farinu enda hafa myndirnar aldrei verið jafn góðar. Bandaríkjamenn hyggjast á næstu árum undirbúa frekari rannsóknir á plánetunni Mars. Rauða plánet- an, eins og hún er gjarnan kölluð, hefur lengi verið í umræðunni enda hefur sú saga gengið manna á milli um að þar sé líf að finna. Sagan náði hámarki þegar leikritið Innrásin frá Mars var frumflutt í útvarpi. En hvaða pláneta er þetta og hvað er það sem hefur gert söguna um líf þar svo lífseiga? Rauða plánetan ORSON WELLES Flutningur hans og Mercury-leikhópsins á War of the Worlds olli skelfingu um Bandaríkin. Í októbermánuði árið 1938 greip mikil skelfing um sig í Bandaríkjunum. Kvöldið sem Marsbúar gerðu árás

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.