Fréttablaðið - 07.01.2005, Blaðsíða 30

Fréttablaðið - 07.01.2005, Blaðsíða 30
Í hvað viljum við setja peningana? Bjarni Arnarson matreiðslumaður skrifar: Í framhaldi af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað varðandi mötuneyti grunnskóla langar mig að tjá mig um þessi málefni þar sem ég sé um mötu- neyti Breiðholtsskóla. Þegar ég tók við mötuneytinu í byrjun síðasta skólaárs þá varð mér ljóst hversu mikilvægt það er fyrir skólastofnun að börn hafi aðgang að heitri máltíð í þeirri stofnun sem und- irbýr þau fyrir átök lífsins og ekki síst að vel sé staðið að þessum málum þannig að börnum líði vel í skólanum. Fljótlega eftir seinni heimsstyrjöldina tóku Finnar þá ákvörðun að börn í grunnskólum landsins skyldu fá heita máltíð, þeir hafa sjálfsagt hugsað það út frá því að það væri ekki síður mikilvægt að börnum liði vel í skólanum og þar af leiðandi hefðu jákvæðari hugsun gagn- vart þeirri menntastofnun sem á að koma þeim til manns. Hinsvegar er það þannig á Íslandi að börn þurfa að borga fyrir áskrift að mötuneytinu og finnst mér grátlegt að sjá unga krakka sitja hjá og horfa á skólafélaga sína borða heita máltíð þar sem sum hver eru illa nestuð og koma jafnvel frá fjölskyldum sem þurfa að velta fyrir sér hverri krónu í rekstri heimilisins. Mér finnst að börn sem eru að stíga sín fyrstu spor í menntakerfinu ættu öll að sitja við sama borð og félagar þeirra, allavega til 11-12 ára aldurs, því skólinn á að vera stofnun sem stuðlar að jafnvægi á sem flestum sviðum. Ég held að stjórnvöld ættu að velta því fyrir sér hvort meira virði sé að eyða púðri í málefni utanlands eins og dæmin sanna eða borga þó ekki væri nema fyrir yngstu nemendur skólans sem minnsta skilning hafa á því af hverju hann fær en ekki ég. ■ 7. janúar 2005 FÖSTUDAGUR22 AF NETINU Lýðræði er ekki tveggja manna tal Einhverstaðar las ég að mikil velsæld geti orðið hættuleg lýð- ræðinu. Þá er vísað til þess að manneskja sem lifir þæginda- fullu lífi gerist værukær og sjálfhverf með tímanum, hún hættir að mestu að hugsa út fyrir garðinn sinn og um hag samfélagsins, þróun lýðræðis- ins, og dofni svo verulega í áhuganum í stjórnmálum að völd stjórnvalda eflist hægt og bítandi langt umfram það sem lýðræðishugsjónin leggur upp með. Ég held að það sé heilmargt til í þessu. Það er erfitt að fara með vald án þess að spillast af því, maðurinn er einfaldlega þannig samansettur, og við getum þá rétt ímyndað okkur hættuna sem felst í því ef stjórnmála- maður, sama hvaða nafni hann nefnist, sama hvar í flokki hann stendur, fái það á tilfinninguna að almenningur sé hættur að fylgjast með starfi hans, nema þá stopult, tilviljunarkennt. Með tímanum fer hann að líta svo á, ómeðvitað í flestum til- vikum, að valdið tilheyri honum, það sé hans og því þarf- laust að taka tillit til almenn- ings – þurfi ekki lengur að spyrja hann álits, hlera eftir viðbrögðum hans, nema þá á fjögurra ára fresti, í rússíbana- ferð kosningaherferðarinnar. Og hvað er þá orðið um lýðræð- ið sem stendur og fellur með vakandi áhuga almennings og aðhaldi hans á stjórnmálamenn, stöðugu aðhaldi svo þeir gleymi því aldrei hvaðan þeir þiggja valdið, fyrir hverja þeir starfa. Í mínu nafni, og í þínu nafni Við höfum síðustu árin horft upp á hvernig stjórnvöld hafa eflst að völdum og áhrif al- mennings jafnframt dvínað – en þar getum við því miður eng- um um kennt nema okkur sjálf- um. Við höfum líklega meiri áhuga á sjónvarpsdagskránni en stjórnmálum, þekkjum betur til liðsmanna Chelsea-liðsins en þingmanna á alþingi Íslend- inga. Þægindin hafa gert okkur værukær, syfjuð, sjálfhverf, við erum ekki lengur þátt- takendur heldur áhorfendur, stjórnmálamennirnir finna fyr- ir því og sumir þeirra eru farn- ir að hegða sér í samræmi við það; vald spillir. Skýrasta dæmið um dofn- andi lýðræðishugsun, eða -vit- und, og „frjálslega“ hegðun þeirra stjórnmálamanna sem telja sig óbundna af anda og reglum lýðræðisins, er sú ákvörðun að setja Ísland á lista hinna staðföstu og þar með segja Írak stríð á hendur. Ég þarf ekki að rifja þetta upp, en geri það samt; það voru tveir menn sem tóku ákvörðun- ina um að setja Ísland á listann. Tveir einstaklingar sem tóku þessa ákvörðun sem snertir alla þjóðina, hvert og eitt einasta mannsbarn, ákvörðun sem hefur vakið mikla athygli úti í heimi. Það voru tveir menn og þeir litu svo á að þeir töluðu í nafni þjóðarinnar. Í mínu nafni, og í þínu nafni. Og það jafnvel þótt íslensk lög kveði svo á að slík mál eigi fyrst að fá um- fjöllun í utanríkismálanefnd Alþingis. Og það jafnvel þótt málið hafi verið mjög umdeilt, bæði á lands- og heimsvísu. Og það jafnvel þó að allt það mesta og einlægasta sem lýðræðis- hugsjónin stendur fyrir, segi okkur að slíkar ákvarðanir eigi ekki að taka fyrr en talsverður fjöldi einstaklinga hafi komið henni, að fram hafi farið víðtæk umræða. Það eru til önnur stjórnunar- form en lýðræði, einræði er eitt þeirra. Eitt af því sem einkenn- ir einræðið er að örfáir aðilar, jafnvel bara einn eða tveir, taki allar stærri ákvarðanir, án þess að það hvarfli að þeim að hlera eftir vilja almennings, sem þeir telja sig hvort sem er hafa vit fyrir. Ég man ekki eftir skýrara, hreinlega dimmara dæmi um dofnandi lýðræðisvitund ís- lenskra stjórnvalda en Íraks- málið og eftirmála þess. Tveir menn taka ákvörðun fyrir alla þjóðina, stóra ákvörðun, taka hana sín á milli og sýna síðan engan vilja eða áhuga að út- skýra ákvörðunarferlið, og það sem óttalegra er; það er ekkert í þeirra máli eða framkomu sem bendir til þess að þeir telji sig hafa farið offari. Tveir menn, forsætis- og utanríkis- ráðherra í lýðræðisríki, stíga yfir skráðar og óskráðar reglur lýðræðisins og sjá ekkert at- hugavert við það. Lýðræði er ekki tveggja manna tal Íslenskir stjórnmálamenn virð- ast á stundum haga sér eins og lýðræðishugsjónin sé spariföt sem þeir klæðast á fjögurra ára fresti, þess á milli sé valdið al- farið þeirra. Ákvörðunin um að setja Ísland á lista hinna stað- föstu rennir óþægilega styrk- um stoðum undir þann grun. Vald spillir og því fastar sem við almenningur sofum, því meiri völd safnast á hendur stjórnvalda, og því hraðar fjar- lægast þau lýðræðishugsunina. Við þurfum að vakna, rífa okkur undan seiðandi söng allsnægtar, leggja sjónvarps- dagskrána, leikuppstillingu Chelsea liðsins, nýjustu bæk- linga ferðaskrifstofanna, leggja þetta allt til hliðar, og láta vita að okkur stendur ekki á sama; stíga fram og lýsa því yfir að lýðræði sé ekki tveggja manna tal. Undanfarnar vikur hefur Þjóðarhreyfingin, þverpólitísk grasrótarhreyfing, staðið að söfnun til þess að borga auglýs- ingu í stórblaðinu New York Times þar sem íraska þjóðin er beðin afsökunar á innrásinni, sem var gerð þvert á vilja Sam- einuðu þjóðarinnar, innrás sem var brot á alþjóðalögum. Í aug- lýsingunni er tekið fram að ákvörðunin um að styðja inn- rásina, hafi ekki verið tekin í nafni íslensku þjóðarinnar, að það hafi ekki verið farið að reglum lýðræðisins, að ákvörð- unin hafi verið tveggja manna tal forsætis- og utanríkisráð- herra. Og undanfarnar vikur hafa ýmsir aðilar lagt umtalsvert á sig að gera lítið úr þessari gras- rótarhreyfingu, meðal annars staðhæft að hún hafi engan rétt á að birta auglýsinguna í nafni þjóðarinnar. Samt hafa skoðna- kannanir sýnt að mikill meiri- hluti þjóðarinnar, allt að 4/5, sé mótfallinn þeirri ákvörðun að setja okkur á lista hinna stað- föstu. Það er sama hvaða reikn- islögmál eru notuð í þessu dæmi; vilji 4/5 hluti íslensku þjóðarinnar vegur drjúgum meira en ákvörðun tveggja ein- staklinga, og það jafnvel þótt þeir séu ráðherrar. Ég hvet því sem flesta að leggja auglýsingunni lið. Það er hægt með því að hringja í síma- númerið 90 20000, og þú ert búin(n) að leggja söfnunni til eitt þúsund krónur, eitt símtal í nafni lýðræðis. Það er líka hægt að leggja frjáls framlög inn á bankareikning 1150-26-833 í SPRON (Þjóðarhreyfingin: kt. 640604-2390), og nálgast frek- ari upplýsingar á www.thjodar- hreyfingin.is. Allur afgangur af söfnunni, verði hann einhver, rennur óskiptur til Rauða kross Íslands til hjálpar stríðshrjáð- um borgurum í Írak. Valdið er ekki ykkar Eitt að lokum; sá sem leggur auglýsingunni lið er ekki bara að mótmæla hernaði í Írak og stuðningi íslenskra stjórnvalda við hann, heldur einnig að mót- mæla því að tveir menn hafi tekið sér um tíma einræðisvald hér á Íslandi. Því fleiri sem leggja auglýsingunni lið, því öflugari verða þau skilaboð til íslenskra stjórnmálamanna að það sé fylgst með ákvörðunum þeirra. Þeir sem leggja auglýs- ingunni lið segja; okkur stendur ekki á sama. Við látum ekki hunsa okkur; valdið er ekki ykkar og lýðræði er annað og meira en tveggja manna tal. Daufleg þátttaka mun hins vegar freista stjórnvalda, þeirra sem sitja núna og þeirra sem taka við, að hegða sér eins og ráðherrarnir tveir og taka sér alræðisvald í mikilvægum málum, í þeirri trú að við sofum þungum svefni allsnægtanna. ■ JÓN KALMAN STEFÁNSSON RITHÖFUNDUR UMRÆÐAN ÍRAK Ég man ekki eftir skýrara, hreinlega dimmara dæmi um dofn- andi lýðræðisvitund ís- lenskra stjórnvalda en Íraksmálið og eftirmála þess. ,, Af öllum vítamínum, fæðubótarefnum og bætiefnum meðan birgðir endast. Tilboðin gilda í öllum verslunum Lyfju dagana 4.-8. janúar. 20afsláttur % 25% afslátturaf blóðfitumælingu BRÉF TIL BLAÐSINS Um hvað er deilt? Guðmundur Gunnarsson formaður Raf- iðnaðarsambands Íslands skrifar: Þegar gengið var til samninga við Impregilo var bent á að tilboð þeirra stæðist ekki. Þessu var mótmælt af Landsvirkjun og ráðherrum. Nú er ljóst að þeir sögðu ekki satt og málið er að snúast í varnarbaráttu þar sem öllu verður til kostað, jafnvel lögbrotum. Um- sóknum Íslendinga er ekki svarað og laun eru undir lágmörkum. Í fréttum ný- verið var sýnt hvernig alþjóðleg fyrirtæki níðast á kínverskum launamönnum til þess að hámarka arð sinn. Sama á að gera við Kárahnjúka. Framferði stjórn- valda mun koma í bakið á okkur. Önnur fyrirtæki spyrja, af hverju þurfum við að fara að íslenskum lögum og kjarasamn- ingum? Þetta er bein aðför íslenskra stjórnvalda og Landsvirkjunar að sam- keppnishæfni íslenskra fyrirtækja og starfsmönnum þeirra, sama hvaðan þeir koma. Kárahnjúkadeilan snýst um þetta. Ráðamenn reyna að bera af sér sakir með því að saka verkalýðshreyfinguna um kynþáttafordóma, þrátt fyrir að hún hefur margítrekað sagt að málið snúist um að verja launakjör hér á landi, sama hver eigi í hlut. ■ Blinduðust af völdunum Þeir sem nú um stundir halda á stjórnar- keflinu blinduðust af völdunum. Sú blinda kemur ef engin ólga eða gagnrýni kemur. Einnig er ekki leyfð nein gagn- rýni. Ef einhver gagnrýnir þá er þeim sama hent út í ystu myrkur. Fyrst bar á þessu í tíð Geirs Hallgrímssonar. Þá var þingmanni hent út í ystu myrkur vegna þess að hann andmælti. Harðasta refs- ing þingmannsins er þegar hann verður áhrifalaus. Þetta þurfti Ellert B. Schram að reyna og þetta þurfti Kristinn H. Gunnarsson að reyna. Hinir blindu og eftirlátu léku sitt hlutverk sem dýrin í Animal farm Íslands. Þar fóru fremst yngstu þingmenn stjórnarflokkanna. Með skyggni fyrir augunum samþykktu þeir allt sem fram streymdi af forsætis- ráðherrunum tveimur. Leitt að þar í flokki eru tveir þingmenn þess kjördæm- is sem ég bý í. Auðvitað á ég við við- brögð og feril fjölmiðlafrumvarpsin- sÝsvonefnda. Gísli Baldvinsson á frontpage.sim- net.is/gislib/

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.