Fréttablaðið - 29.01.2005, Blaðsíða 35
LAUGARDAGUR 29. janúar 2005
Það bar til tíðinda að upplag bókar
Magnúsar Þorkels Bernharðs-
sonar; Píslarvottar nútímans,
skyldi seljast upp um síðustu
helgi og bókin skjótast á topp vin-
sældalista íslensku bókaþjóðar-
innar. Í bókinni er fjallað um sögu
stjórnmála og trúarbragða í Íran
og Írak; eða þau málefni Mið-
Austurlanda sem eru helsta deilu-
efni heimsins um þessar mundir.
„Þetta er merkilegt því nú eru
bókaútsölur í gangi og margar af
vinsælustu jólabókunum á tilboði,
en engu að síður slær bók
Magnúsar aðrar út,“ segir Páll
Valsson, útgáfustjóri skáldverka
og fræðirita hjá Eddu útgáfu.
„Þetta sýnir áhuga þjóðarinnar
sem tekur vel við sér þegar henni
býðst alvöru bók um málefni Mið-
Austurlanda.“
Píslarvottum nútímans var
dreift í búðir á föstudag fyrir viku
og seldist upp í flestum þeirra
áður en ný vika hófst.
„Bókin var ekki hugsuð sem
metsölubók, en við vissum að
áhuginn væri mikill. Þannig
var ein vinsælasta bókin í fyrra
Arabíukonur eftir Jóhönnu Krist-
jónsdóttur. En Magnús er virtur
og vinsæll fyrirlesari og maður
þóttist vita að hann ætti stóran
hóp sem tæki honum vel, enda
einn helsti sérfræðingur í málefn-
um Mið-Austurlanda í heiminum.“
Og þótt málefnin séu þung er
bókin aðgengileg. „Menn lesa
hana eins og reyfara, þótt þeir
finni að efnið er skrifað af mikilli
þekkingu og yfirsýn. Mér finnst
áhuginn vera hraustleikamerki á
þjóðinni og sýna að Íslendingar
eru móttækilegir fyrir góðri vöru.
Þetta er bók fyrir almenning á öll-
um aldri sem hefur áhuga á því
sem er að gerast í veröldinni. Og
óneitanlega gaman að gefa út bók
af háum standard um málefni sem
eru í brennidepli, enda erfitt að
setja punkt því málið er lifandi og
alltaf einhverjar kúvendingar.“
thordis@frettabladid.is
MAGNÚS ÞORKELL BERNHARÐSSON Bók hans Píslarvottar nútímans selst eins og heitar lummur og sýnir svo ekki verður um villst
að Íslendingar hafa mikinn áhuga á því að kynna sér málefni Mið-Austurlanda sem best.
Píslarvottar nútímans seljast vel