Fréttablaðið - 23.04.2005, Blaðsíða 28
28 23. apríl 2005 LAUGARDAGUR
Tómt vesen að vera fyndinn
Sviðið er autt, en í djúpum leðursófum við súrrealískt taflborð sitja tveir af mestu grínurum lýðveldisins, Laddi og
Sveppi. Báðir meitlaðir svipmóti leiklistargrímanna. Laddi alvarlegur eins og útfararstjóri. Sveppi blaðskellandi eins
og erkitýpa grínsins. Báðir blessaðir örlátum vöggugjöfum grínguðsins. Þórdís Lilja Gunnarsdóttir tók þá Ladda og
Sveppa tali áður en þeir stigu aftur á svið.
Þórdís: Laddi, hvað finnst þér
fyndið við Sveppa?
Laddi: Mér finnst allt fyndið við
Sveppa.
Sveppi: Eyrun? Hárið? Bumban?
Laddi: Allt saman. Sveppi hefur
oft fengið mig til að skella upp úr
og konan mín er æðislega hrifin
af honum. Mér skilst að pabbi
Sveppa komi til að sjá mig, en
konan kemur örugglega til að sjá
Sveppa.
Þórdís: Hvað eigið þið sameigin-
legt sem skemmtikraftar?
Laddi: Að vera báðir aldir upp í
sjónvarpi og vera hvorugur
menntaðir leikarar. Ég sat reynd-
ar einn kúrs í háskóla Los Angel-
es-borgar og var tekinn inn í leik-
arafélagið eftir það, því UCLA er
svo flott nafn. Annars getur eng-
inn orðið leikari nema að hafa til
þess hæfileika og það er fullt af
útlærðum sem geta ekkert leikið.
Ég nefni engin nöfn.
Sveppi: Ég sótti nú tvisvar um í
Leiklistarskólann án þess að kom-
ast inn, ég varð alveg brjálaður í
bæði skiptin.
Laddi: Iss, ég hugsa að ég hefði
ekki heldur komist inn. Við erum
of miklir grínarar. Það má ekki
grínast svona mikið.
Sveppi: Við Laddi vitum þó best
að það er miklu erfiðara að grín-
ast en leika drama.
Laddi: Maður fær strax í hausinn
ef manni tekst illa upp og er um-
svifalaust púaður niður, meðan í
drama heyrast engin viðbrögð úr
salnum.
Sveppi: Eitt sinn þótt óæðra að
vera gamanleikari en þetta hefur
skánað í seinni tíð. Menn líta ekki
lengur á grínistann sem trúð og
gera sér grein fyrir að farsi er
strembin leiklist.
Sjarmerandi strákapör
Þórdís: Laddi, hvern þinna
karaktera þykir þér vænst um?
Laddi: Ég hef alltaf haldið mest
upp á Eirík Fjalar og þykir vænt
um hann eins og son minn, en
hann á bágt, greyið. Búinn að lesa
yfir sig og orðinn barn á ný. Ann-
ars taldi ég yfir fimmtíu karakt-
era um daginn, þótt þekktastir
séu helmingur þeirra, meðal ann-
arra Skúli rafvirki, Þórður hús-
vörður, Dengsi, Elsa Lund, Saxi
læknir, Hallgrímur Ormur og Olli
Ofnæmisvaldur. „Ojojojojoj!“
Sveppi: Munurinn á okkur Ladda
er að hann fer í gervi, en ég er
bara Sveppi og leik engan annan
en sjálfan mig. Það er dálítið sjar-
merandi og fólki finnst skemmti-
legt að sjá mann viðurkenna að
maður sé stundum vitlaus. Mér
finnst í lagi að vera heimskur í
einu en kannski ágætur í öðru. Er
ekkert feiminn við það.
Þórdís: En þú er svolítið feiminn,
Laddi?
Laddi: Já, en aldrei í karakter. Ég
er feiminn að eðlisfari, þótt það
hafi elst aðeins af mér.
Þórdís: Er gaman að vera frægur
fyrir grín eða er það vítahringur?
Sveppi: Það er kannski ekki staða
sem maður sóttist brjálæðislega
eftir, að vera eltur um allt af
brjáluðum krökkum, en ég hef
vissulega kallað þetta yfir mig
sjálfur. Að mínu mati er starf
grínistans það skemmtilegasta í
heimi, um leið og það er gríðarleg
vinna. Slíkt hentar mér vel og ég
elska að mæta í vinnuna til að
hugsa um eitthvað asnalegt að
gera, og því asnalegra, því
ánægðari verður yfirmaðurinn.
Mér veitist auðvelt að fá hug-
myndir, það er nóg að fara í Garð-
heima og sjá garðbrúsa til að
hugsa um að vökva Pétur, en
kannski er best að hafa sem
minnstan heila í þetta svo hann
flækist ekki fyrir.
Laddi: Það var einhvern tímann
sagt að maður yrði að vera nógu
klikkaður, því annars væri ekkert
varið í þetta. Það hefur enginn
gaman að venjulegum manni í
þessum bransa.
Tár í augum trúðsins
Þórdís: Eruð þið skemmtilegir
heima hjá ykkur?
Laddi: Ég er alltaf grautfúll
heima en veit ekki með Sveppa.
Einhvers staðar verður maður að
taka frí frá gríninu, en í alvöru
er ég alltaf í góðu skapi og
örugglega Sveppi líka.
Sveppi: Oft er talað um tár í auga
trúðsins og að undir grímunni sé
maður þunglyndur, en heima er
maður bara eðlilegur, spjallar,
hlær og grínast.
Laddi: Auðvitað upplifir maður
stundum spennufall og fær tár í
auga, en það er þá komið í samt
lag daginn eftir.
Þórdís: Er reiknað með að þið
reytið af ykkur brandarana hvar
sem þið komið, utan sviðsins?
Laddi: Já, það er oft þannig og
fer dálítið í taugarnar á manni.
Undir slíkum kringumstæðum
gerir maður allt til að vera ekki
fyndinn og berst við að vera al-
varlegur og helst smá fúll líka.
Sveppi: Iss, það getur verið tómt
vesen að vera fyndinn, og
kannski vítahringur má segja.
Laddi: Maður heyrir oft utan af
sér að því fylgi rosaleg spenna
þegar maður er væntanlegur í
heimsókn og menn búist við
miklu.
Sveppi: En þó ekki í fjölskyld-
unni? Er það ekki búið, Laddi? Er
fólk ekki hætt að biðja þig að
taka Saxa og koma með Dengsa?
Laddi: Sko, krakkar suða kannski
ekki lengur eins mikið í manni,
en þeir koma og banka upp á
undir því yfirskini að vera að
safna flöskum eða dóti á
tombólu, en biðja þá um eigin-
handaráritanir.
Sveppi: Já, þetta dettur inn hjá
mér líka, en truflar mig ekkert.
Ég hef gaman af því.
Laddi: Já, ég segi það sama, ef
krakkarnir eru kurteisir.
Myndlistin bíður
Þórdís: Hvenær urðu þið þess
fyrst varir að þið vektuð hlátur
með fólki?
Laddi: Það hefur verið hlegið að
mér síðan ég man eftir mér. Ég
var alltaf með kvöldskemmtun
fyrir mömmu og bróður minn
uppi á borði öll kvöld og sýndi
ballett, en mamma hélt að ég
yrði frægur dansari. Hún fattaði
ekki að ballettinn var grín. Í
skóla var ég alltaf með sprell og
geiflur, og væri ég kallaður upp á
töflu var það ekki Laddi sem fór
heldur einhver karakter, svo ég
var rekinn rakleiðis í sætið aftur.
Sveppi: Ég var bara pjakkur
þegar ég gerði mér grein fyrir
því að fólk hló að mér, bæði í at-
höfnum og orðum. Í fótbolta fékk
ég aldrei medalíur fyrir að vera
góður spilari, en alltaf fyrir að
vera vinsælasti keppandinn. Ég
tók þetta að mér; að standa fyrir
framan aðra, draga buxur upp á
bumbu og setja sokka á eyrun.
Þórdís: Svo að grínleiðin hefur
ekki komið á óvart?
Laddi: Ég ætlaði að verða smiður
eins og pabbi eða myndlistar-
maður en endaði í hljómsveitinni
Föxum sem söngvari og trommu-
leikari. Fór svo að vinna í Kassa-
gerðinni þar sem yfirmaður í
Sjónvarpinu sá skopmyndir mín-
ar af vinnufélögunum og vildi fá
mig í vinnu, en Halli bróðir vann
þar sem leikmunavörður. Maður
var náttúrlega alltaf með djöfuls
fíflalæti og 1970 fékk Flosi
Ólafsson mig í áramótaskaupið
og um svipað leyti byrjuðum við
Halli á Glámi og Skrámi. En mig
langar að mála meira og mun
gera það í ellinni. Það er einn bú-
inn að panta sýningu hjá mér til
að ýta mér í þetta af meiri al-
vöru, og ég hef samþykkt að gera
það fljótlega.
Sveppi: Ég hafði alltaf ætlað að
ná langt á þessu sviði, en stefndi
ekkert eftir höfnunina frá Leik-
listarskólanum og fannst fínt að
vinna mikið á grænmetislager og
í handlangi. Ég beið eftir tæki-
færum en gerði mér ekki grein
fyrir því að þurfa að gera eitt-
hvað sjálfur. Það voru svo Simmi
og Jói sem báðu mig að labba
hringinn í samstarfi við útvarps-
stöðina Mónó og þá fór þetta að-
eins að rúlla. Gönguferðin fékk
mig til að hugsa og ég varð
kröfuharður. Ég vildi verða svo
þekktur að ég gæti unnið við
þetta í fullu starfi, í stað þess að
vera áfram í grænmetinu og
kannski í gríni um helgar.
Fyndnir hrottar
Þórdís: Húmor snýst um að gera
grín að sjálfum sér og öðrum, en
nýtið þið stundum húmorinn til
góðs?
Laddi: Já, miðað við það sem mað-
ur heyrir hjá ókunnugu fólki sem
faðmar mann og þakkar fyrir öll
árin sem maður hefur verið heim-
ilisvinur inni í stofu. Þá finnur
maður að þetta er ekki bara grín,
heldur vekur góðar tilfinningar
og væntumþykju hjá fólki.
Slíkt veitir manni innblástur
og mér finnst það hjálpa þræl-
mikið. Fólk kemur með hugmynd-
ir, hefur áhuga og vill horfa, og
maður tekur mark á því.
Einn kom upp að mér og sagði
brandara. Þegar hann var búinn
sagði hann: „Þú mátt nota hann,
Laddi.“ Þá var þetta brandari eft-
ir sjálfan mig, sem hann hafði
heyrt hjá öðrum. Ég þakkaði bara
fyrir.
Þórdís: Langar ykkur í alvarlegri
hlutverk?
Sveppi: Ég er sáttur við hlutverk
grínistans, en mundi íhuga alvar-
legri hlutverk ef mér byðist, bara
til að prófa. Það er gaman að
takast á við allar hliðar leiklistar-
innar.
Laddi: Ég væri alveg til í að prófa
að vera hrotti. Ef einhver vill
gera bíómynd með okkur þar sem
við erum algjörir viðbjóðir og
hrottar, þá erum við Sveppi til.
Þórdís: En hver er fyndnastur?
Sveppi: Mér fannst Laddi alltaf
fyndnastur á sínum tíma.
Laddi: Já, mér fannst það líka. ■
GRÍNISTAR AF GUÐS NÁÐ Væntumþykja og aðdáun landsmanna á þessum tveimur húmoristum er takmarkalaus, enda hafa báðir verið rausnarlegir á hlátursgasið, hver með sínum
hætti. Laddi er maður margra karaktera, á meðan Sveppi leikur engan nema sjálfan sig undir nafni. Saman stíga þessir hláturvaldar á svið í fjölskylduleikritinu Kalla á þakinu, og upp-
skera þúsund hlátursköst að launum.
FR
ÉT
TA
B
LA
Ð
IÐ
/H
AR
I