Fréttablaðið - 06.11.2005, Qupperneq 20
6. nóvember 2005 SUNNUDAGUR20
Guðný sat í íbúð sinni í Chennai í suðurhluta Ind-lands og skoðaði kennslu-
efni sem fyrrum samnemendur
hennar úr Kennaraháskólanum
höfðu sent henni um netið þegar
haft var samband við hana. Hún
hafði þá lokið vinnudegi sínum í
þriggja ára gömlum einkaskóla
sem rekinn er fyrir börn með
þroskahömlun.
„Nánast helmingurinn af börn-
unum sem ég annast er mállaus
og hér er ekkert gert fyrir þau.
Það er hrikalegt. Fyrsta áfallið
sem ég fékk var þegar ég komst
að því að börnunum er ekki kennt
táknmál eða að tjá sig með mynd-
um. Það kenndi ég heima og því
ákvað ég að mitt fyrsta verk hér
yrði að koma á samskiptum,“
segir Guðný, sem kom til Chenn-
ai, höfuðborgar Tamil Nadu-hér-
aðsins, í byrjun september. Hún
ætlar að vera þar í sex mánuði og
kemur heim í mars. „Sem þroska-
þjálfi á Íslandi er ég alltaf að slá
í borðið því mér finnst ekki nógu
mikið gert fyrir fatlaða en Ísland
er draumur miðað við það sem hér
er.“
Enginn stuðningur við fatlaða
Guðný segir ríkisstuðning við fjöl-
skyldur fatlaðra á Indlandi engan.
Fáeinir fari í skóla til fimmtán eða
sextán ára aldurs. „Þegar mennt-
uninni lýkur tekur ekkert við. Hér
er ekkert sem heitir sambýli eða
verndaður vinnustaður. Það er
ekki neitt. Heima á Íslandi röflum
við yfir biðlistum á sambýli. Við
höfum þó í það minnsta sambýli
og við sjáum fatlaða í samfélaginu
okkar. Þeir taka þátt. En hér á Ind-
landi sjáum við þá ekki, rétt eins
og var á sínum tíma heima.“
Guðný hefur unnið með fötluð-
um í fimm ár. „Þegar ég kom hing-
að sá ég að allar þessar aðferðir
sem ég kann og veit að virka eru
ekki notaðar. Það er ólýsanleg til-
finning að fá tækifæri til að leið-
beina kennurunum og sjá þá nota
þessar aðferðir með börnunum.
Hjartað stækkar um helming.“
Einn af fjörutíu sjálfboðaliðum
Guðný er á Indlandi á vegum stúd-
entasamtakanna AIESEC. Hún
segir að tilviljun hafi ráðið því að
hún fór til Indlands. „Ég kláraði
námið mitt í þroskaþjálfun í júní og
vissi raunverulega ekki hvað mig
langaði að gera. Mig hafði dreymt
um að sinna hjálparstörfum og
var búin að kynna mér málin,
hafði skoðað Rauða krossinn en sá
að það var heldur dýrt. Svo fékk
ég tölvupóst frá stúdentasamtök-
unum og fór á kynningarfund og
þá fór boltinn að rúlla.“
Þetta var í apríl. Guðný fyllti
út umsókn sem var send um allan
heim og margir biðluðu til hennar.
Tilboðið frá skólanum í Chennai
var sem klæðskerasaumað fyrir
hana. „Í þessum skóla eru ein-
hverfir, mállausir og aðrir með
fatlanir sem ég hef unnið með. Ég
krosslagði fingur og sótti um.“
Fimm mánuðir liðu frá því að
Guðný tók ákvörðun um að fara
til borgarinnar Chennai og þar til
stóra stundin rann upp. „Ég þurfti
af fara í fjölmargar sprautur og
fá landvistarleyfi og atvinnuleyfi.
Undirbúningurinn var mjög mik-
ill.“ Guðný segir að fjörutíu nem-
endur séu á vegum samtakanna
í Chennai. Þeir komi alls staðar
að úr heiminum. „Við hittumst
um helgar og margir búa saman.
Þannig var það í fyrstu hjá mér
en ég var svo heppin að indversk
stelpa sem kennir með mér í skól-
anum býr við hliðina á skólanum
og hana vantaði herbergisfélaga.
Núna bý ég með henni. Hún fer
með mig í styttri ferðir og heim
til foreldra sinna og frændfólks.
Þá sér maður svo margt sem aðrir
missa af.“
Kennir börnunum að tjá sig
Skólinn sem Guðný vinnur hjá er
rekinn af indverskri konu sem
lærði í Bandaríkjunum. Hann var
stofnaður fyrir þremur árum. Þá
voru nemendurnir fimm og kenn-
ararnir tveir. Nemendunum hefur
nú fjölgað í um eitt hundrað.
Guðný segir skólann nokkuð vel
búinn og steinsteyptan. „Skólinn
lekur þó núna á rigningartímabil-
inu og maurar skríða um gólfin.“
Hún segir kennarana á ágætis-
launum. Sjálf fái hún um fimm
þúsund krónur í mánaðarlaun, sem
sé heldur hærra en meðleigjand-
inn fái. Skólinn sé ríkisstyrktur en
börnin greiði einhver skólagjöld.
„En aðbúnaðurinn er ekki mik-
ill. Til eru stílabækur og pennar
en annað ekki. En þar sem allt er
svo ódýrt fyrir mig hér úti hef ég
verið að kaupa efni og annað sem
ég er vön að vinna með heima.“
Erfitt að breyta heiminum
Skólinn er á tveimur hæðum og
Guðný vinnur á þeirri neðri. Þar
eru um tuttugu barnanna einhverf
og nánast öll þeirra mállaus. „Ég
kenni sumum börnunum tákn með
tali eins og kennt er á flestum leik-
skólunum heima. Svo gef ég þeim
spjald með myndum og þá geta
þau til dæmis bent á mynd af bað-
herbergi ef þau vilja fara á klós-
ettið,“ segir Guðný.
Hennar helsta hlutverk er
að greina hvaða tjáskipti henta
hverju barni, hvort sem það eru
stórar litríkar myndir eða svart-
hvítar, táknmál eða skrifað mál.
Guðný segir að það hafi komið
henni í opna skjöldu að foreldr-
arnir voru ekki allir sáttir við
að börnum þeirra væri kennt
táknmál. „Ég hélt að þetta yrði
ekkert mál en af þeim börnum
sem þyrftu að læra táknmál hafa
aðeins foreldrar eins þeirra leyft
mér að kenna barninu þeirra.“
Guðný segir foreldrana hræð-
ast að læri börnin táknmál muni
þau aldrei tala. „Sum barnanna
geta myndað hljóð en ég veit sem
þroskaþjálfi að þau eiga aldrei
eftir að tala.“
Guðný segir foreldrana sýna
meira umburðarlyndi gagnvart
myndunum sem hjálpi börnunum
að tjá sig. „Þegar ég kom hingað
hugsaði ég: Ekkert mál, ég kenni
þeim táknmál, ég kenni þeim
myndmál og ég á eftir að breyta
heiminum, en það er aðeins erfið-
ara en ég hélt,“ segir Guðný.
Klæðist á indverskan máta
Guðný segir að það hafi verið áfall
að lenda á flugvellinum í Chennai
og keyra að íbúðinni þar sem hún
bjó fyrst. „Sjokk, sjokk, sjokk. Ég
lenti fimm um morguninn og hélt
að fólk væri enn sofandi en þá
þegar voru allar götur fullar af
fólki, fólk með ávexti á höfðinu og
beljur labbandi á götunni.“
Í skólanum var Guðnýju gert að
ganga í indverskum klæðnaði. Hún
komst fljótt að því að það var betra
og gengur því í fötunum dags dag-
lega því hún segir að athyglin frá
heimamönnum minnki verulega
við það. „Ég er með punktinn á
enninu, armböndin og annað sem
tilheyrir indverskum kvenfatn-
aði, því þá fæ ég meiri virðingu
og viðhorf fólks breytist,“ segir
Guðný og bætir við að klæðist fólk
á vestrænan máta telji heimamenn
það nýkomið til landsins. Betlar-
ar sæki þá að fólkinu og verðið á
mörkuðum hækki. „En stundum
þegar ég hitti hina sjálfboðaliðana
skelli ég mér í gallabuxur og striga-
skó. Passa bara að það sé ekki bert
á milli.“
Býr sjálf til námsefnið
Guðný hefur sjálf búið til allar
myndirnar sem hún notar við
kennsluna. Hún segir það tíma-
frekt þar sem engin tæki séu til
við gerð þeirra. Hún klippi þær út
úr tímaritum eða teikni þær sjálf.
Myndirnar frá samnemendunum
heima koma sér því vel. En hún vill
kaupa tæki sem hún getur nýtt við
gerð þeirra og hefur einnig pantað
forrit sem kallast Boardmaker og
hægt er að setja upp í tölvunum
tveimur sem eru í skólunum. „Ég
er að vona að ég geti kennt kenn-
urum skólans á forritið þannig
að þessi mállausu börn hafi ekki
aðeins samskipti í þá sex mánuði
sem ég er hér.“
Guðný hefur nýtt þá peninga
sem hún á til að bæta aðbúnaðinn
í skólanum en hún segir margt
vanta. Nokkrir Keldhverfingar
hafi sýnt áhuga að hjálpa henni
að bæta úr aðstöðunni og hvet-
ur hún aðra sem hafa áhuga að
senda sér tölvupóst á netfangið
gudnyj@visir.is. Þeir sem vilja
kynnast skólanum betur geta
skoðað heimasíðuna v-excel.org
UNNIÐ AÐ BETRA LÍFI Guðnýju dreymdi um að fara í hjálparstarf og lét drauminn rætast.
Hér situr Guðný með nemanda sinn, Nittes, í fanginu.
Hún vildi fara sem lengst að námi loknu og dreymdi um að sinna hjálp-
arstarfi. Nú hefur draumurinn ræst og stúlkan sem ólst upp í Kelduhverfi
í Norður-Þingeyjarsýslu er komin til Indlands. Guðný Jónsdóttir kennir
þroskahömluðum börnum mynd- og táknmál. Þó ekki baráttulaust, því
eins og hún segir í viðtali við Gunnhildi Gunnarsdóttur er aðeins erfiðara
að breyta heiminum en hún hélt.
Stúdentasamtökin AIESEC eru sjálfstæð, alþjóðleg, ópólit-ísk samtök sem rekin eru
án hagnaðar af stúdentum,“ segir
Tómas Kristjánsson, almanna-
tengslastjóri samtakanna. „Sam-
tökin senda stúdenta í starfsþjálfun
milli landa og þjálfa leiðtogahæfi-
leika þeirra. Á síðustu fimm árum
höfum við sent íslenska nemendur
til þróunarlanda.“
Tómas segir að fjórir Íslend-
ingar hafi haldið utan til hjálpar-
starfsa nú á þriðja ársfjórðungi.
En árlega hafi nemendurnir verið
frá fimm til átta.
„Þeir sem vilja halda út í heim
með samtökunum þurfa að ganga
í þau, sem er ókeypis. Þeir þurfa
að vera háskólanemendur með
tveggja ára nám að baki,“ segir
Tómas. Ekki mega líða meira en
tvö ár frá námslokum sé farið
með samtökunum.
Tómas segir AIESEC styðja
stúdenta sem kjósi að fara með
þeim út. Meðal annar sjái sam-
tökin um að útvega húsnæði og
að aðstoða við að fá öll leyfi sem
þurfi. Einnig fari stúdentarnir
á námskeið áður en farið sé á vit
ævintýranna. Þar sem samtökin
séu ekki rekin í hagnaðarskyni sé
öllum kostnaði haldið í lágmarki.
Á fjórða tug í hjálpar-
starf á vegum AIESEC
Hjartað stækkaði um helming
TÓMAS KRISTJÁNSSON
Almannatengslastjóri
AIESEC FRÉTTABLAÐIÐ/
VILHELM
UNGUR NEMUR Markmið skólans er að
kenna lífsleikni.
HÚSNÆÐIÐ VIÐUNANDI Guðný segir
skólahúsnæðið í lagi þótt það leki.
BEKKJARBRÆÐUR Nær tuttugu börn í
skólanum eru einhverf og mállaus.
SAMVINNA Á aðeins þremur árum hefur
nemendunum fjölgað úr fimm í hundrað.
VIÐ KENNSLUSTÖRF Guðný ræðir við sam-
starfskonu sína í skólanum.