Fréttablaðið - 04.01.2006, Síða 36

Fréttablaðið - 04.01.2006, Síða 36
MARKAÐURINN 4. JANÚAR 2006 MIÐVIKUDAGUR12 Ú T T E K T Björgvin Guðmundsson Skrifar Alan Greenspan er þrettándi í röðinni til að gegna embætti seðlabankastjóra Bandaríkjanna frá stofnun bankans árið 1913. Í opinberri umræðu hafa margir haldið því fram að hann sé sá valdamesti í sögunni og hafi stýrt peningamálastefnu Bandaríkjanna með prýði. Nokkur áföll hafa riðið yfir bandarískt efnahagslíf frá því hann tók við árið 1987. Aðeins tveimur mánuðum eftir embættistökuna varð verðhrun á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum, árið 2000 sprakk netbólan og svo mátti hagkerfið þola áfall í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001. Eru flestir sammála um að orð og athafnir Greenspan á þessum tímum hafi frekar dregið úr skaðanum en aukið á hann. SVIPUÐ VANDAMÁL OG Á ÍSLANDI Baráttan fyrir stöðugu efnahagslífi verður seint unnin þótt Greenspan hafi staðið sig vel að flestra mati síðastliðin átján ár. Þegar hann lætur af embætti 31. janúar næstkomandi eru vandamál í bandarísku efnahagslífi ekkert ósvipuð þeim sem þekkjast á Íslandi. Ójafnvægi er nokkuð í nokkrum lykilhagstærðum. Fasteignaverð hefur hækkað mikið og skuldasöfnun aukist, einkaneysla og viðskiptahallinn eykst og vaxtahækkanir Seðlabankans hafa haft lítil áhrif á langtímavexti eins og hér á landi. Því til viðbótar, og það á ekki við um Ísland, er mikill halli á fjárlögum ríkisins. George W. Bush hefur tilnefnt Ben Bernanke, virtan prófessor í hagfræði við Princeton-háskóla, sem eftirmann Greenspan. Verðbólga er lítil og trúverðugleiki bandaríska seðlabankans mikill. Fyrsta verkefni Bernanke verður að viðhalda þeirri stöðu. Miðað við viðbrögð markaðsaðila þá ætti það að takast fyrst um sinn þar sem hlutabréfaverð hækkaði og gengi Bandaríkjadalsins hélst stöðugt þegar Bush tilkynnti hver tæki við af Greenspan. Létti það nokkurri spennu af mörgum í viðskiptalífinu því óvissan er mörgum erfið. Bush sagði Barnanke rétta manninn til að taka við af goðsögninni. Verðbólguvæntingar í Bandaríkjunum eru samt að aukast og ekki er vitað hversu mikið Seðlabankinn þarf að hækka vexti til að slá á þær væntingar. Þar reynir á innsæi nýja seðlabankastjórans, sem Greenspan er hvað þekktastur fyrir. Í vikuritinu The Economist sagði í október að Bernanke hefði þekkinguna og svo virtist sem hann hefði pólitísku innsýnina. Stóra spurningin væri hvort hann hefði góða dómgreind. Allt þetta þyrfti að prýða góðan seðlabankastjóra. GEGNSÆRRI STEFNA SEÐLABANKANS Margt hefur breyst í starfi bandaríska seðlabankans síðan Greenspan tók við starfi sínu árið 1987. Þá var starfsemi og ákvarðanataka seðlabankans ekki eins gegnsæ og hún er í dag, enda hefur þróunin verið í þá átt við stjórnun peningamála vestrænna landa. Líkt og á Íslandi er ákvörðun stýrivaxta eitt af stjórntækjum bandaríska seðlabankans. Einnig reynir bankinn að hafa áhrif á peningamagn í umferð og síðast en ekki síst með því að hafa áhrif á væntingar markaðsaðila. Þar hefur Greenspan gegnt mikilvægu hlutverki því orð hans hafa vegið þungt. Þeir sem eiga mikið undir leggja við hlustir þegar Greenspan heldur ræðu eða flytur vitnisburð fyrir stjórnvöldum um ástand efnahagsmála. Alan Greenspan hefur verið þekktur fyrir að gefa ýmislegt í skyn án þess að segja það berum orðum. Hafa margir tekjur af því að túlka orð hans í fjölmiðlum á eftir og segja hinum hvað hann átti eiginlega við. Sjálfur hefur Greenspan sagt í gamni að ef hlustendur hafi áttað sig vel á því hvað hann var að tala um hafi þeir líklega misskilið hann! FYLGJANDI VERÐBÓLGUMARKMIÐI Samhliða því að gera starfsemi seðlabanka gegnsæja hafa margir tekið upp svokallað verðbólgumarkmið eins og gert var á Íslandi árið 2001. Bandaríski seðlabankinn hefur þó ekkert formlegt verðbólgumarkmið að vinna að. Hefur þetta auðvitað leitt til umræðu meðal fræðimanna, hvort rétt sé að taka það upp. Myndi það gera starfsemina enn gagnsærri, sem margir telja æskilegt. Nýi seðlabankastjórinn hefur verið fylgjandi þessu í fræðigreinum sem hann hefur skrifað. Greenspan hefur verið fullur efasemda og vill að seðlabankastjóri horfi fyrst og fremst á áhættuþættina í efnahagslífinu og taki ákvarðanir út frá þróun þeirra. Innan þeirrar stefnu rúmast margar stefnur hvað varðar markmið peningamálastefnunnar. Í erlendum fjölmiðlum hafa verið vangaveltur um það að Bernanke muni vilja taka upp verðbólgumarkmið eftir að hann kemst til valda. Þess ber að geta að það hefur verið hluti af stöðugleika og þá stefnu seðlabankans að halda verðbólgu í skefjum þó að stefnan sé ekki samþykkt formlega. Fáir spá því þó að þetta verði snögg breyting heldur muni þróunin verða í þá átt að verðbólgumarkmið verði tekið upp. Líklegt sé að nýr yfirmaður peningamála Bandaríkjanna láti lítið fyrir sér fara til að byrja með. TILNEFNDUR AF REAGAN Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna, var gagnrýndur fyrir að tilnefnda Greenspan sem yfirmann Bandaríska seðlabankans árið 1987. Kjör á bandarískum skuldabréfum féllu meira á einum degi en þau höfðu gert fimm árin á undan. Óttuðust margir að Greenspan yrði pólitískari í störfum sínum en fyrirrennarar hans enda tengdur Repúblikanaflokknum. Hann hafði unnið fyrir Nixon fyrir kosningarnar 1968 og unnið að stefnumótun í efnahagsmálum þegar Reagan var kjörinn forseti 1981. Greenspan deildi þeirri hugsjón með Reagan að frjálst markaðshagkerfi væri réttlátasta kerfið sem hægt væri að búa einstaklingunum. Það ætti að berjast gegn viðskiptahindrunum. Í ræðu í New York University 14. desember 2005 sagði Greenspan opin hagkerfi vinna gegn ofbeldi í heiminum. Frjáls viðskipti byggðust meðal annars á trausti gagnvart þeim sem við ættum í viðskipti við. Þrátt fyrir að hafa hneigst til tónlistar og spilað á klarinett í sveiflubandi snemma á lífsleiðinni lagði Greenspan tónlistina til hliðar þegar hann hóf nám í viðskiptafræði tæplega tvítugur að aldri. Rúmum fimm árum seinna kynntist hann í gegnum fyrri eiginkonu sína rússneska rithöfundinum og heimspekingnum Ayn Rand. Það hafði mikil áhrif á hugmyndafræði Greenspan og siðferði. FYLGISMAÐUR HLUTHYGGJUNNAR Ayn Rand talaði fyrir frelsi einstaklingsins til athafna og gegn ofríki stjórnvalda. Hún lagði fæð á félagshyggju, sem hún sagði brjóta á rétti einstaklingsins til lífs og eigna. Frægasta bók Rands er Atlas Shrugged. Greenspan var í hópi fólks sem hittist seint á laugardagskvöldum heima hjá Rand til að lesa yfir kafla í bókinni áður en hún var gefin út. Það var fólk sem Rand taldi vera sér samboðið hvað gáfur varðar. Bill Bradford, sem var ritstjóri mánaðarritsins Liberty, tók viðtöl við marga sem sóttu þessa fundi hjá Ayn Rand. Í grein sem hann skrifaði kemur fram að Greenspan hafi verið í innsta kjarna þeirra sem aðhylltust stefnu Rands, sem kallast hluthyggja (e. Objectivism). Í greininni kemur fram að Greenspan hafi þá strax verið frekar dulur - eins og honum hefur verið lýst sem seðlabankastjóra. Erfitt hafi verið að átta sig á hvað honum lægi á hjarta. Hann hafi ekki tekið þátt í almennum umræðum heldur frekar lagt í púkkið þegar verið var að ræða alvarlegri málefni. Fyrrverandi kona hans, Joan Mitchell Blumenthal, segir hann vita margt um milljón hluti, vera vel gerðan og með góða kímnigáfu. Hvað varðar hagfræðina fólst í hluthyggjunni stuðningur við austurríska skólann, sem svo er kallaður, og kenningar Ludwig von Mises. Hann er frægur fyrir ritið Sósíalismi þar áætlunarbúskapur er gagnrýndur fyrir að taka verðmyndunarkerfið á frjálsum markaði úr sambandi. Í verði felist mikilvæg skilaboð sem auki hagkvæmni og lífsgæði fólksins. Ekki töldu allir að Greenspan hefði verið samþykkur öllu sem austuríski skólinn í hagfræði hafði fram að færa. Hann hefur þó sagt vera almennt fylgjandi austurrísku hagfræðinni og alltaf frjálsu markaðshagkerfi. Á MÓTI SAMKEPPNISLÖGUM Bradford bendir á að margir hafi verið reknir úr þessum félagsskap ef þeir fóru ekki eftir þeirri lífsspeki sem Ayn Rand boðaði. Meðal þeirra var þekktur hagfræðingur að nafni Murray Rothbard. Sömu leið fór helsti talsmaður hennar og samstarfsmaður Nathaniel Branden og var sá viðskilnaður dramatískur. Skrifaði Greenspan undir yfirlýsingu þar sem Branden var sagður svikari. Rand sótti athöfn þegar Greenspan var skipaður í ráðgjafanefnd Gerald Ford um efnahagsmál. Hann sótti svo minningarathöfn um hana eftir að hún lést 1982. Á þessu tímabili skrifaði Greenspan nokkrar greinar í málgagn þeirra sem aðhylltust hluthyggjuna. Meðal annars gagnrýndi hann samkeppnislög harkalega, sagði þau óþörf og gera meira ógagn en gagn. Löngu síðar, þegar þetta var rifjað upp og hann hafði tekið við opinberri stöðu, sagðist hann vera sömu skoðunar þó ólíklegt væri að lögin yrðu afnumin. Í greininni segir hann meðal annars að engin ástæða hafi verið fyrir því að skipta Standard Oil upp ólíkt því sem enn heyrist í fjölmiðlum. Ekki slapp Greenspan þó við gagnrýni öll þessi ár. Stuðningsmenn Rand sökuðu hann um að vinna ekki samkvæmt hugmyndafræðinni, semja um málamiðlanir og þar af leiðandi yfirgefa þau gildi sem hann hafði tileinkað sér á yngri árum. Andstæðingar hans hafa hins vegar haldið því fram að hann notfæri sér stöðu sína til að hygla þessari stefnu. Markaðsskipulag sem byggir á afskiptaleysisstefnunni (laissez-faire capitalism) hafi styrkst í sessi í hans stjórnartíð. Alan Greenspan aðhylltist ungur að árum hugmyndafræði sem rússneskur rithöfundur og heimspekingur, Ayn Rand, setti fram. Síðar var fræðin kölluð hluthyggja eða Objectivism á ensku. Hluthyggjan byggir á því að raunveruleikinn er hlutlægur - það sem er er óháð því hverjar tilfinningar okkar eru, óskir, vonir og þrár. Rökhugsun og hæfileikinn til að nota skilningarvitin er eina tækið til að skynja raunveruleikann, meðtaka þekkingu og bregðast við á grundvelli hennar. Það er forsenda þess að við komumst lífs af. Einstaklingurinn er grunneining samfélagsins. Hann er til í þágu sín sjálfs; fórnar sér ekki fyrir aðra né á kröfu um að aðrir fórni sér fyrir hann. Æðsta siðferðisleg skylda einstaklingsins er að vinna að rökréttum hagsmunum sínum og hamingju. Þegar Ayn Rand talar um rökrétta hagsmuni á hún við að einstaklingurinn verður að taka ákvarðanir um líf sitt sem byggir á raunveruleikanum, sem hann skynjar með rökhugsun, og vinna í þágu sjálfs sín. Að þessum forsendum u p p f y l l t u m b y g g i r fyrirmyndaríkið á laissez-faire kapítalisma; algjörum aðskilnaði ríkis og efnahagslífs. Líkti Rand því við aðskilnað ríkis og kirkju í Bandaríkjunum. Sömu aðferð ætti að beita með sömu rökum á efnahagslífið. Hið kapítalíska kerfi er í raun leitt af stöðu mannsins í veröldinni þar sem hann lifir í þágu sjálfs sín og enginn getur gert þá kröfu til hans að hann fórni sér í þágu annarra. Hlutverk ríkisvaldsins í algjörlega afskiptalausu kapítalísku hagkerfi er að gæta réttar borgaranna. Lögreglan á einungis að beita þá valdi sem brjóta á rétti annarra einstaklinga. Það á t.d. við um glæpamenn og þá sem ráðast inn í landið. Reyndar vildi Ayn Rand líka að ríkið ræki dómstóla til að leysa deilur sem risu milli manna. Í þessum tilvikum þyrfti að beita valdi. Fylgdi Ayn Rand HUGMYNDAFRÆÐILEGUR GRUNNUR Alan Greenspan sagðist 1974 ennþá vera andstæðingur samkeppnislaga eins og kom fram í grein sem birtist í fyrst 1962. Fréttablaðið/Getty Images Dýrkeypt orð Greenspans Margir hafa haldið því fram að Alan Greenspan, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sé valdamesti maður í bandarísku efnahagslífi. Orð hans hafi ekki eingöngu áhrif þar í landi heldur á mörkuðum um allan heim. Greenspan mun láta af embætti í lok janúar eftir að hafa gegnt því í rúmlega átján ár. Hann verður áttræður á árinu og á það sameiginlegt með Ronald Reagan, sem fyrst tilnefndi hann í stöðuna, að gegna mikilvægu embætti á efri árum.

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.