Fréttablaðið - 15.06.2006, Blaðsíða 40
15. júní 2006 FIMMTUDAGUR
www.badheimar.is
Nú er nýja heimasíðan
komin í gagnið!
B
Ný og stærri verslun - Skemmuvegi 6 (blá gata)- Sími 568-2221
Allt fyrir brúðhjónin
postulín, gjafavörur & húsgögn
BORÐ FYRIR TVO
KRINGLUKAST 14-18 júní
Mörg góð tilboð
Kryddjurtir eru mál málanna um þessar mundir. Sumarið að
komast í algleyming og búið að pússa upp öll útigrill sem
fyrirfinnast á heimilum. Og þeir sem ekki áttu útigrill hafa
margir ráðið bragarbót á því. Sumir hafa jafnvel yngt upp og
endurbætt hjá sér með nýjum, ryðfríum útigrillum sem nú
eru óðum að leggja undir sig íslenska markaðinn. Eiginlega
er útigrillið að mestu leyti í umsjá karlanna á heimilunum.
Matseld á útigrilli er „macho“ og allt að því heilög karl-
mennskuathöfn fyrir suma. En til að undirstrika karlmennsk-
una henta kryddjurtirnar afar vel og eru eiginlega nauðsyn-
legar til þess að tryggja að athyglin beinist að því hversu
grillarinn er mikill meistarakokkur, því að lokahnykkurinn
felst í því að gera sjálfur kryddsmjörið með krásunum. Og þá
er komið að kryddjurtunum. Þær gera útslagið.
Ecco eða Nike?
Eiginlega er fátt auðveldara en að annast nokkrar kryddjurtir
utandyra yfir hásumarið. Hér verður ekkert tíundað um sán-
ingu og uppeldi þeirra. Við erum nefnilega svo heppin að nú
fást tilbúnar kryddjurtir í pottum svo að segja árið um kring.
Og þó svo að eitthvað af þeim misfarist eða klárist, er alltaf
hægt að bæta í skörðin. Það eina sem kryddjurtirnar þurfa
er dálítil mold í keri eða pottum eða bara í hvaða dollu sem
er - það má líka nota gömlu vinnuklossana eða íþróttaskóna
undir þær. Aðeins þarf að hafa plönturnar á sólríkum stað og
muna eftir að vökva þær reglulega þegar þurrt er í veðri. Fal-
legt og fjölskrúðugt kryddjurtasafn er róandi og lystaukandi.
Átta ágætar og ein í viðbót
Á myndina af kryddjurtakerinu mínu eru settar inn tölur frá
1 til 8 sem benda á helstu kryddjurtirnar sem þurfa að vera
nálægt útigrillinu. Og reyndar er ein þar til viðbótar sem lítið
ber enn á innan um allar hinar, en það er rósmarín sem
einkum er notað með kálfa- og lambakjöti. Sömuleiðis í
fyllingu í heilsteiktan fisk og fugl. Allar þessar tegundir henta
vel í kryddsmjör fyrir grillrétti. Ýmist hver fyrir sig eða tvær til
þrjár saman.
Númer 1 er íslenskt blóðberg. Afar gott sem fylling í vatna-
fisk og með ljósu kjöti, lambakjöt þar meðtalið. Blóðbergste
hressir hugann og hreinsar öndunarfærin.
Númer 2 er grísk kjarrmynta (oregano). Hún hentar í alla
rétti þar sem ólífur, hvítlaukur og sólþurrkaðir tómatar koma
við sögu. Pasta og pítsur.
Númer 3 er hjartafró (sítrónumelissa) sem passar vel
með öllum fiski, einkanlega feitum eins og lúðu og steinbít.
Dálítið hrjúf í góm, en fínsöxuð gerir hún sitt fyrir grænmet-
issalatið. Te af hjartafró er gamalreyndur kvefbani og þar að
auki mjög ljúffengt.
Piparmynta er svo númer 4. Frískandi ein og sér. Söxuð
(nokkrir hnefar af laufum) í matvinnsluvél með einu eða
tveimur eplum og „smakkað til“ með fáeinum dropum af
eplaediki og einum dl af vatni og hlynsírópi til helminga
gerir sósu sem borin er fram með lambakjöti. Verður jákvæð
lífsreynsla fyrir alla sem fá að smakka og enginn gleymir að
skrásetja í æviminningar sínar. Það má jafnvel gera enn betur
undir haustið og bæta nokkrum reyniberjum við og bera þá
fram með hreindýrakjöti. Og ef um steikingarvökva af kjötinu
er að ræða, má gera úr þessu heita sósu með því að píska
hann samanvið og hita snöggt í potti.
Sítrónutimían er hið fimmta. Það styrkir alla kjúklinga- og
fiskrétti sem framreiddir eru að hætti mannfólksins við
Miðjarðarhaf. Keimurinn af því breytir dumbungsdögum í
dýrðardaga með sólblik í hverjum daggardropa.
Sléttblaða steinselja hlaut númer 6 í þessari rásröð. Hún
gefur þunga í létta rétti. Styður við og styrkir bragð af nauta-
kjöti. Skapar jafnvægi í grænmetissalatið. Hefur sætara bragð
en hrokkin steinselja. Saxið steinseljur smátt.
Garðablóðberg (timían) er númer 7. Það setur punktinn yfir
i-ið í öllum kjötréttum, með hvítu sem rauðu kjöti. Fiskisúpa
án garðablóðbergs er eins og bók án kjalar. Ekki er það
heldur síðra að sáldra nokkrum timíanlaufum ofan á hóflega
þykkar sneiðar af sólþroskuðum bufftómötum. Garðablóð-
bergið hleypir galsa í grænmetissalatið. Það er hitandi og
örvar blóðrás.
Hrokkin steinselja rekur hér lestina með tölunni 8. Bragð
hennar er ögn beiskara en á sléttblöðkunni. Hún er líka
dökkgrænni. Að öðru leyti eru þær notaðar og meðhöndl-
aðar á sama hátt. Það er gömul viska að steinselja dregur úr
andremmu og linar timburmenn.
Kryddsmjör og aðferðir
Hér er reiknað með að kryddjurtirnar séu notaðar ferskar.
Meðhöndlunin felst í því að nota bara blöðin, enga stöngla.
Saxa smátt og sáldra yfir réttina eða í grænmetissalatið. Þær
eiga aldrei að sjóða. Einnig er heimsins minnsti vandi að búa
til kryddsmjör úr fínsöxuðum kryddjurtum og smjöri. Þessu
er blandað saman. Hafið smjörið við stofuhita og sparið ekki
kryddjurtirnar. Rúllið blöndunni í hæfilega sverar og langar
rúllur og kælið í nokkrar klukkustundir. Þá er auðvelt að skera
þær niður mátulega þykka klatta sem svo eru bornir fram í
veislunni og þá gjarnan í skál með klakahröngli.
Kryddjurtir, karlar og útigrill
Í GARÐINUM HEIMA
HAFSTEINN HAFLIÐASON SKRIFAR UM POTTAPLÖNTUR
Í gamalli bensínstöð á Hvols-
velli rekur Árný Svavarsdóttir
ritfanga- og gjafavöruversl-
unina Bláfell. Viðskiptavinir
eru bæði innansveitungar og
aðkomumenn.
Árný hefur rekið verslunina í
fimm ár. „Við byrjuðum inni í
þorpinu á Hvolsvelli þar sem við
keyptum upp gamla verslun. Sú
verslun var líka ritfangabúð en
þar var einnig framköllunarþjón-
usta,“ segir Árný. „Við færðum
okkur svo um set í núverandi
húsnæði fyrir þremur árum.“
Við flutninginn hætti verslun-
in að bjóða upp á framköllunar-
þjónustu en í staðinn kom gjafa-
varan. Þar að auki er Bláfell með
umboð fyrir Símann og happ-
drættin á svæðinu.
Að sögn Árnýjar eru við-
skiptavinirnir bæði fólk frá
Hvolsvelli og aðkomufólk. „Ég
er með fasta viðskiptavini allt
austur til Kirkjubæjarklaust-
urs,“ segir Árný. „Það er lokað
um helgar hjá okkur svo það er
algengt að fólk sem hefur átt leið
hjá hringi á mánudegi og spyrj-
ist fyrir um eitthvað sem það sá í
glugganum. Það getur verið mjög
skemmtileg samtöl þegar fólkið
lýsir hlutnum á meðan ég reyni
að finna hann í búðinni.“
Bláfell er við hliðina á veit-
ingaskálanum Hlíðarenda á
Hvolsvelli og er verslunin opin
alla virka daga frá 10 til 17.
Lítil og hugguleg verslun
Árný í gjafavöruhorni verslunar sinnar Bláfelli. FRÉTTABLAÐIÐ/SÓLVEIG