Fréttablaðið - 24.08.2007, Blaðsíða 10
„Við erum að leita að lifandi fólki. Við
reiknum alltaf með því að fólk sé á lífi og
miðum leitina út frá því, hins vegar getum
við ekki horft fram hjá því að langur tími
er liðinn,“ segir Friðrik Jónas Friðriksson,
formaður Björgunarfélags Hornafjarðar
og stöðvarstjóri í stjórnstöðinni í Skafta-
felli, sem sett var upp vegna leitarinnar.
Formleg leit að mönnunum tveimur hófst
á þriðjudag en þá voru liðnar þrjár vikur
síðan þeir höfðu látið vita af sér. Leitað var
í nágrenni Skaftafells en þar spurðist
síðast til mannanna um mánaðamót.
Um hádegi í gær fundust tjöld Þjóðverj-
anna ofarlega í jaðri Svínafellsjökuls í um
500 metra hæð yfir sjávarmáli og í
kjölfarið var leitarsvæðið þrengt. Fjalla-
hópar björgunarsveitanna fínkembdu
svæðið í kringum tjaldið og gengu niður
Svínafellsjökul í gær.
Það var flugmaður TF-Gnár sem kom
auga á tjöldin laust fyrir hádegið en
þyrlan var þá að snúa til baka frá því að
hafa ferjað leitarmenn upp á jökulinn. Við
leit í tjöldunum fannst ökuskírteini annars
Þjóðverjans sem staðfesti að leitarmenn
væru komnir á slóð mannanna. Friðrik
segir flest benda til þess að mennirnir
hafi farið í stutta dagsferð út frá tjaldinu
og ætlað sér að snúa þangað aftur. Í
tjaldinu voru svefnpokar og annar
búnaður til langdvalar en bakpoka og
klifurbúnað virðast mennirnir hafa haft
með sér.
Ekki er vitað hvort mennirnir hugðust
halda áfram upp jökulinn áleiðis á
Hvannadalshnjúk eða hvort þeir voru á
niðurleið en tjaldstaðurinn er í grennd við
þekkta gönguleið upp á hnjúkinn sem þó
er sjaldan farin á þessum árstíma. Þoka
hefur hamlað för björgunarsveitarmanna
upp á hnjúkinn.
Leit í grennd við tjöldin bar ekki
árangur í gær. Farið var með sporhund
upp á jökulinn en honum tókst ekki að
rekja slóð mannanna enda langt um liðið
síðan þeir voru í tjaldinu. Víðavangsleitar-
hundar komu í Skaftafell í gær og var
stefnt að því að þeir færu á jökulinn í dag.
„Þetta er óskaplega erfitt svæði til
leitar. Á þessum slóðum er jökullinn mikið
sprunginn svo felustaðirnir eru óteljandi,“
segir Friðrik. Um 70 manns tóku þátt í
leitinni í gær með beinum eða óbeinum
hætti og stefnt er á umfangsmikla leit í
dag.
Útiloka ekki að mennirnir finnist á lífi
Þjóðverjanna sem leitað hefur verið að undanfarna daga er enn saknað. Þyrla Landhelgisgæslunnar fann tjöld mannanna á Svína-
fellsjökli í gær. Talið er að þeir hafi farið í dagsferð en ekki skilað sér til baka.
„Þetta er í raun sprungnasti hluti
jökulsins sem gerir leit á þessu
svæði afar erfiða,“ segir Róbert
Þór Haraldsson fjallaleiðsögu-
maður.
Róbert gjörþekkir jöklasvæðið í
grennd við Hvannadalshnjúk og
Skaftafell og var í hópi þeirra
björgunarsveitarmanna sem
gengu Svínafellsjökulinn í gær í
leit að Þjóðverjunum.
Róbert segir að staðurinn þar
sem tjaldið fannst sé á þekktri
gönguleið upp á Hvannadalshnjúk
en sú leið sé sjaldan farin nú í
seinni tíð. „Hér áður fyrr var þetta
örugg leið upp á hnjúkinn en snjór-
inn hefur minnkað mikið undan-
farin ár svo leiðin er orðin afar ill-
fær. Menn fara hreinlega ekki
þarna upp nema þeir séu í sér-
stakri ævintýraleit,“ segir Róbert
sem efast um að nokkur hafi verið
á ferli þarna í grennd í sumar.
Hann segir að í lengstu ferðunum
með ferðamenn upp á Svínafells-
jökul sé snúið við um það bil
tveimur kílómetrum frá þeim stað
sem tjöldin fundust.
Róbert segir að stærstu mistök-
in sem Þjóðverjarnir gerðu hafi
verið þau að láta ekki vita af ferð-
um sínum. „Það vissi enginn að
þeir ætluðu að fara þarna upp.
Hefðu þeir látið landverði í Skafta-
felli vita eða nýtt sér tilkynninga-
þjónustu Landhelgisgæslunnar
værum við ekki í þessari stöðu í
dag,“ segir Róbert.
Mestu mistökin að láta ekki vita af sér
Lögreglan rannsakaði tjöld þýsku
ferðamannanna í gær. Ekki er
unnt að staðfesta hvenær þeir
voru þar á ferð en ljóst er að
nokkuð er um liðið.
Að sögn lögreglu var vel gengið
frá tjöldunum og engir munir eða
vísbendingar fundust í grennd við
þau. Ekki stendur til að taka
tjöldin niður fyrr en leit lýkur eða
nýjar upplýsingar berast.
Staðsetning tjaldanna er notuð
sem viðmiðunarpunktur í leitinni.
Í tjöldunum voru svefnpokar og
annar útbúnaður fyrir tvo. Nokkuð
af mat en lítið af rusli sem bendir
til þess að mennirnir hafi ekki
verið búnir að dvelja þar lengi.
Tjöldin eru út-
gangspunktur
leitarinnar