Fréttablaðið - 21.10.2007, Blaðsíða 8
greinar@frettabladid.is
Á
Alþingi Íslendinga hefur nú í fimmta sinn verið lagt
fram frumvarp til laga um breytingu lagaákvæða sem
varða sölu áfengis og tóbaks. Inntak frumvarpsins
er að sala á léttvíni og bjór verður leyfð í almennum
verslunum og verðlagning gefin frjáls.
Fylgismenn frumvarpsins halda því fram að frelsisskerðing
felist í að þurfa að kaupa vín í sérstökum verslunum sem reknar
eru af íslenska ríkinu. Víninu (og bjórnum) er líkt við matvöru og
spurt hvers vegna neytendum sé ekki treyst til að kaupa hvítvínið
á sama stað og fiskurinn fæst og rauðvínið í ostabúðinni.
Áhyggjur þingmannanna væru skiljanlegar ef fyrirkomulag
áfengissölu væri vont á Íslandi en svo er alls ekki. Áhugafólk
um eðalvín og aðra áfenga drykki á kost á að kaupa vín í nærri
50 vínbúðum um allt land sem mörgum hefur verið valinn staður
í nágrenni við aðrar verslanir, til dæmis stórar matvöruverslan-
ir. Í vínbúðunum er mikið úrval og þjónusta góð. Vínbúðirnar hafa
þróast í takt við kröfur tímans, frá því að vera fáar og nokkuð vel
faldar verslanir þar sem söluvarningurinn var afgreiddur yfir búð-
arborð og viðskiptavinum gafst ekki einu sinni kostur á að taka sér
númer.
Ekki verður séð að það sé goðgá fyrir neytendur að fara í vín-
búð til að kaupa vín, rétt eins og margir hafa ánægju af að fara í
ostabúð til að kaupa ost og fiskbúð til að kaupa fisk.
Vissulega er sá munur á að ríkið hefur einkasölu á áfengi og
rekur því vínbúðirnar. Og hvers vegna er það? Það er vegna þess
að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Áfengi er vímu-
efni og þar með ekki sambærilegt við annan varning sem seldur
er í almennum verslunum, þótt óhollur sé. Sala áfengis hlýtur því
að verða að lúta öðrum lögmálum.
Landlæknir og forstöðumaður Lýðheilsustöðvar hafa báðir lýst
andstöðu sinni við frumvarp þingmannanna. Sömuleiðis SÁÁ en
sá félagsskapur hefur á ferli sínum safnað gríðarlegum upplýs-
ingum um umfang áfengisvandans á Íslandi.
Ljóst er að áfengisneysla er með stærstu heilsufars- og fjöl-
skylduvandamálum á Íslandi. Það er í besta falli barnaskapur að
ímynda sér að sala á léttvíni og bjór í matvöruverslunum breyti
engu um það eða breyti því jafnvel til hins betra. Áfengismenning
Íslendinga verður ekki eins og Ítala við það að gera íslenskum
neytendum kleift að kaupa áfengi í almennum verslunum. Íslensk
áfengismenning sver sig í ætt við menningu nágrannaþjóðanna
þar sem reynslan sýnir beint samhengi milli aðgengis að áfengi
og heilsufarslegra og samfélagslegra vandamála í tengslum við
áfengisneyslu.
Binda verður vonir við að þingmenn hlýði á ráð þeirra sem
þekkja best umfang áfengisvandans og láti þau vega þyngra en
röksemdir sem snúa að verslunarfrelsi.
Óraunsæ áfengis-
rómantík
Áhyggjur þingmannanna væru skiljanlegar ef fyrir-
komulag áfengissölu væri vont á Íslandi en svo er alls
ekki.
Á Ísland að sækjast eftir framlengingu á „íslenska
ákvæðinu“ á næstu loftslagsráðstefnu?
Skynsamlegt
fyrir alla
Ríkisstjórn Íslands lýsti því yfir fyrr á þessu ári að leitað yrði allra leiða til að draga úr útblæstri
gróðurhúsalofttegunda um 50 til 75% fyrir árið 2050.
Allir sjá að þetta markmið er mjög metnaðarfullt og
stórkostlegur árangur ef það tækist. Mestu máli
skiptir að virkja sem best saman markaðsöflin og
hið opinbera til þess að atvinnulífið finni nýjar og
betri leiðir til að framleiða vöru og þjónustu.
Jafnframt á að nýta þá möguleika sem skógrækt og
landgræðsla býður upp á ásamt því að við öll í okkar
daglega lífi reynum að taka sem mest og best tillit til
umhverfisins.
Íslenska ákvæðið svokallaða er í sjálfum sér ekki
sér íslenskt. Kýótó-bókunin fól í sér sérstakt ákvæði
fyrir lítil hagkerfi, þ.e. þau hagkerfi sem losa minna
en 0,05% af heildar koldíoxíðlosun iðnríkjanna árið
1990. Þetta ákvæði gerir smáríkjum kleift að halda
stórum framkvæmdum sem leiða til meira en 5%
aukningar á losun fyrir utan útstreymisbókhald sitt
að því gefnu að nýtt sé endurnýjanleg orka, besta
fáanlega tækni og sem mestu skiptir að notkun
orkunnar leiði til samdráttar í losun á heimsvísu.
Forsenda þess að ákvæðið fékk brautargengi er því
fyrst og síðast sú að það er skynsamlegt og ábyrgt
þegar horft er á loftslagsvandann í heild. Jafnframt
er ljóst að loftslagsvandinn er hnattrænn og
tilgangslaust að líta á hann með öðrum augum.
Fyrir Ísland er það mikið hagsmunamál að halda til
haga þessu sérstaka ákvæði. Efnahagslegt mikil-
vægi þess er umtalsvert fyrir þjóðina, loftið er
takmörkuð auðlind í alþjóðlegu samhengi og það
væri því andstætt íslenskum hagsmunum að halda
ekki fast við ákvæðið þegar haldið verður til Balí.
Íslensk stjórnvöld geta síðan tekið um það sjálf-
stæða ákvörðun hvort þau nýta þessar heimildir
þegar til þess kemur.
Nauðsynlegt er að gera sér skýra grein fyrir því að
loftslagsvandinn verður ekki leystur á nokkrum
árum. Þess vegna er stefnumörkun í þessum málum
til margra áratuga. Gera má ráð fyrir að fram-
leiðslutækni muni taka gríðarlegum breytingum á
næstu áratugum og við sjáum til dæmis hversu mjög
hratt bílaiðnaðurinn hefur breyst í átt til umhverfis-
vænnra lausna. Meira að segja áliðnaðurinn er á
fullu við þróa nýja tegund keramíkskauta, sem mun
minnka útblástur til allra muna. Slíkar breytingar
munu verða á flestum sviðum hagkerfisins. Svigrúm
þeirra ríkja eða fyrirtækja sem geta framleitt með
lítilli mengun með endurnýjanlegum orkugjöfum á
að vera meira en hinna sem geta það ekki. Slík
nálgun knýr hraðar fram jákvæða þróun í þessu
mikilvæga máli.
Íslensk mengun
eða útlensk?
Mörgum þótti það heldur öfugsnúið þegar íslenskum ráðamönnum tókst að semja um 10%
aukinn mengunarkvóta í Kýótó árið 1997 á meðan
flestar aðrar vestrænar þjóðir skuldbundu sig til að
losa 5% minna af gróðurhúsalofttegundum en áður.
Rökin voru þau að eftir því sem Íslendingar meng-
uðu meira þá menguðu aðrir minna. Íslendingar
hefðu þess vegna skyldu gagnvart umhverfinu til að
menga eins mikið og þeir kæmust mögulega upp
með. Og íslenskum umhverfisverndarsinnum fór að
líða svolítið eins og í skáldsögu eftir George Orwell:
Mengun er umhverfisvæn – sögðu ráðherrarnir – og
umhverfisvernd er mengandi.
Því miður byggðist þetta allt á meiriháttar misskiln-
ingi á eðli Kýótó-bókunarinnar. Misskilningurinn er
sá að Kýótó-samningurinn eigi að minnka heildarlos-
un gróðurhúsalofttegunda. Í reynd fjallar bókunin
aðeins um iðnríki líkt og Ísland, Þýskaland og
Bandaríkin, en ekki um þróunarríki. Ástæðan er
einfaldlega sú að allir eru sammála um að ekki sé
hægt að banna þróunarríkjum að beita sömu
aðferðum til að komast upp úr fátækt eins og
vestræn iðnríki beittu á sínum tíma. En það kom ekki
í veg fyrir að íslenskir ráðamenn hreyktu sér af því
að hagvöxturinn af álvinnslunni kæmi í okkar hlut en
ekki fátæku ríkjanna sem þurfa á henni að halda.
En íslenska ákvæðið byggist ekki bara á misskilningi,
heldur líka staðreyndavillum. Fyrsta staðreyndavillan
er sú að orkufreki iðnaðurinn (t.d. áliðnaðurinn) sem
nú er verið að byggja upp utan Vesturlanda sé
yfirleitt knúinn með kolum og olíu. Eins og verkfræð-
ingurinn og fyrrverandi umhverfisráðherrann Júlíus
Sólnes benti á fyrir nokkru verða helstu álbræðslurn-
ar sem nú eru fyrirhugaðar í þróunarlöndum heimsins
einmitt knúnar með vatnsorku. Eini munurinn er sá að
Íslendingar geta boðið „cheapest energy prices“ og
þannig séð til þess að álfyrirtækin geti framleitt
meira ál fyrir minni pening.
Önnur staðreynd sem sjaldan er tekin með í reikning-
inn er að álið sem brætt er hér á landi er ekki frá
Reyðarfirði eða Straumsvík, heldur frá Ástralíu og
Jamaíka. Óunnið ál, svokallað súrál, er sem sagt flutt
hingað til lands og svo aftur til annarra fjarlægra
landa þar sem álið er notað í lúxusvörur (aðallega
gosdósir, nammibréf og þess háttar). Enn hefur ekki
verið útskýrt hvers vegna losunin af þessum
stórfelldu þungaflutningum eru ekki hluti af
reikningsdæminu hjá íslenskum álverssinnum.
Í desember fer fram ráðstefna á Balí þar sem Kýótó-
samningurinn verður endurnýjaður. Eflaust munu
einhverjir krefjast þess að Íslendingar endurtaki
leikinn frá 1997, fari aftur niður á hné og biðji um að
fá að menga aðeins meira til að bjarga umhverfinu.
Við hin ætlum að einbeita okkur að því að hvetja
þjóðir heims til að taka loftslagsvandann alvarlega og
takmarka losunina eins og framast er unnt. Líka hér á
landi. Því íslensk mengun er ekkert skárri en útlensk.