Fréttablaðið - 16.11.2007, Side 18
Þess er minnst í dag að tvær aldir eru liðnar frá
fæðingu Jónasar Hallgrímssonar, ljóðskálds og
náttúruvísindamanns. Íslenska þjóðin heiðrar
minningu hans og þakkar fyrir sig.
Leynt og ljóst er Jónas samofinn þjóðarvitundinni; svo
stórbrotið var framlag hans til íslenskrar menningar.
Sannleikurinn er sá að hann dó ekki, heldur hefur haldið
áfram að lifa í brjóstum vorum, skrifaði Halldór Laxness í
Alþýðubókina. Laxness kallaði Jónas útigangsmann meðan
hann lifði en hann hefur talist aufúsugestur Íslendinga
eftir að hann féll frá, langt fyrir aldur fram.
Þrátt fyrir að Íslendingar líti á Jónas sem þjóðskáld sá
hann sjálfan sig sem vísindamann fyrst og fremst. Hann
var náttúrufræðingur að mennt og lýsing Íslands átti að
verða hans helsta æviverk. Skáldagáfan og áhugi á
náttúrunni tvinnuðust þannig saman í kveðskap Jónasar og
kannski þess vegna berum við jafn mikla virðingu fyrir
landinu og raun ber vitni. Hann benti á það sem var
stórkostlegt í náttúrunni jafnt og mikilvægi þess smáa.
Jónas á erindi við samtímann því umhverfið og glíma
þjóðarinnar við að halda sérkennum sínum hafa sjaldan
verið fólki hugleiknari.
Frá árinu 1996 hefur fæðingardagur Jónasar verið
haldinn hátíðlegur og nefndur dagur íslenskrar tungu. Með
því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu móðurmáls-
ins og gildi þess fyrir alla menningu. En hvaða gildi hefur
Jónas raunverulega fyrir einstaklinginn sem lifir á 21.
öldinni? Því verður hver að svara fyrir sig.
„Við Jónas Hallgrímsson eigum það
greinilega sameiginlegt að hafa ást á
náttúrunni og öllu því smáa sem þar
leynist. Alla ljóðlist verður auðvitað að
skoða í ljósi síns tíma og þótt samtíma-
ljóð séu engu síðri breyta þau engu um
þá staðreynd að Jónas á fullt erindi í
dag. Við hættum ekkert að kveikja á
kertum þótt hægt sé að notast við
ljósaperu. Honum tekst einhvern
veginn að yrkja þannig um náttúruna að
maður skynjar óendanlega virðingu
fyrir sköpunarverkinu. Hvort sem það
er pínulítil jurt, fluga eða einfaldlega
lykt úti í náttúrunni. Það er góð lykt af
ljóðunum hans. Það eru líka ákveðin
mannleg gildi sem skína í gegnum
ljóðin, og þessi gildi hafa ekkert breyst.
Á degi íslenskrar tungu, ár hvert, læt ég
nemendur mína myndskreyta íslenskan
texta. Það kom nú af sjálfu sér að velja Nasa frænda þetta árið eins og
hann er kallaður á mínu heimili. Í því felst engin vanvirðing, heldur er
þetta bara gælunafn. Við höldum að það hljóti að vera að hann sé
skyldur okkur. Að minnsta kosti andlega skyldur. Ég og Jónas Hall-
grímsson erum bæði í fíflavinafélaginu, sjáum fegurð í gulum fíflum
og sóleyjum.“
Bæði í fíflavinafélaginu
„Verk Jónasar eru svo samofin málvitund
okkar að jafnvel þeir sem vita varla nokkur
deili á honum og hafa aldrei lagt sig eftir
að lesa hann eru samt sem áður undir
miklum áhrifum frá honum. Nota á
hverjum degi nýyrði úr smiðju hans og eru
með hausinn fullan af ljóðunum sem numin
voru í æsku við hin ýmsu sönglög. Hann er
höfundur ótal kvæða sem eru okkur svo
töm á tungu að við höfum á tilfinningunni
að þau hafi orðið til af sjálfu sér, að
tungumálið sjálft hafi ort þau sér til
skemmtunar. Ég gæti best trúað að flest
kynnum við fleiri kvæði eftir Jónas en við
gerum okkur grein fyrir og það er gott,
vegna þess að þau minna okkur á það
hversu mikil tónlist býr í tungumálinu og
hvað ímyndunaraflið er viljugt. Það er nóg að stugga blíðlega við því –
eins og Jónas gerir – til að fá það á flug.“
Tónlist býr í tungumálinu
„Þegar ég var beðin um að setja
niður á blað örstutta hugleiðingu
um Jónas og gildi hans fyrir
samtíma okkar var ekki laust við
að mér liði eins og nemendum
mínum hlýtur að líða á stundum.
Mér varð hugsað til allra þeirra
kennslustunda sem ég hef beðið
nemendur um að vinna ritunar-
verkefni af ýmsu tagi. Ég hef
óskað eftir skapandi og frjóum
stílum frá þeim um hvaðeina sem
lýtur að íslenskri tungu. Þá er
alveg með ólíkindum hvað úr
hefur orðið hjá sumum þeirra,
jafnvel án mikils undirbúnings.
Sumir nemenda minna hafa komið
mér verulega á óvart með
ritleikni sinni og stílgáfu.
Hugsanlega leynist þar Jónas?
Þessir nemendur hafa ennfremur
orðið fyrirmyndir samnemenda
sinna og hvatning líkt og Jónas er,
og hefur verið, með stílsnilld sinni
og skapandi sýn á tungumálið. Það
er þarft að hlúa að þessum
hæfileikum nemenda og meira nú
en nokkru sinni áður; á þessum
tímum þegar hriktir í stoðum
íslenskrar tungu og sótt er að
henni úr öllum áttum. Íslensku-
kennsla hefur hlotið háðulega
útreið í öllum þeim breytingum
sem orðið hafa á skólakerfinu og
sér ekki fyrir endann á. Og hvað
verður þá um Jónas?“
Hvar er Jónas?
„Jónas elskaði Ísland á þann hátt sem við getum ekki og þess vegna
elskum við hann. Og hann orti kvæði á þann hátt sem við getum ekki og
þess vegna elskum við hann. Hann hefur
verið kallaður „óskabarn ógæfunnar“ en
gæfa hans var þó nokkur og okkar enn
meiri. Jónas fæddist í fegursta dal
landsins, ólst upp við tignarlegustu fjöll
landsins, þáði bestu vöggugjöf allra tíma
og orti þar af leiðandi glæsilegustu ljóð á
íslensku, átti dýrustu stundir sem
Íslendingur hefur upplifað og dó að auki
sögulegasta dauða Íslandssögunnar. Þótt
Jónas hafi ort sig ódauðlegan velti ég því
stundum fyrir mér hvort sviplegt fráfall hans hafi ekki orðið til að
halda minningu hans enn betur á lofti. Dauði hans er jafn eilífur og
kvæði hans, jafn sílægur og líf hans. Ég óska Jónasi innilega til
hamingju með daginn. Hann er bara tvöhundruð ára og á því glæsta
framtíð fyrir sér.“
Bara tvöhundruð ára
„Hefði Jónasi auðnast lengra líf og betri
heilsa hefði saga íslenskrar náttúrufræði á 19.
öld orðið öll önnur. Lengst af leit Jónas á sig
fyrst og fremst sem náttúrufræðing; skáld og
félagsmálamaður var hann í hjáverkum.
Helsti ávöxtur ævistarfs hans skyldi verða ný
Íslandslýsing sem hann vann að frá próf-
lokum í Kaupmannahöfn 1838 til dauðadags.
Til þessa verks var hann vel fallinn því
áhuginn var brennandi og Jónas bæði
skarpskyggn og kunnáttusamur náttúrufræð-
ingur. Hann fór tvær rannsóknaferðir til
Íslands, og ferðaðist á fjórum sumrum um
flestar byggðir landsins. Jafnframt kom hann
af stað ýmsum stórverkefnum sem þó runnu
flest út í sandinn við fráfall hans. Hann kom á
fót fimmtíu veðurstöðvum víða um land og
útvegaði mælitæki fyrir þær; hann safnaði veiðiskýrslum frá ýmsum
verstöðvum; hann safnaði gripum í náttúrugripasafn í „svartholi“
bæjarins, núverandi stjórnarráðshúsi, og krufði fugla og fiska.
Bein áhrif náttúrufræðistarfs Jónasar urðu lítil því hann féll frá
minna en hálfunnu verki. Veðurmælingar héldu áfram á einhverjum
stöðum fram yfir 1880 og í Stykkishólmi samfellt frá 1846. Gagnasöfn
hans, einkum sókna- og sýslulýsingar, eldfjallasögu og jarðskjálfta-
annál Íslands, nýtti Þorvaldur Thoroddsen síðar. Og með þýðingu sinni
á stjörnufræði Ursins auðgaði Jónas tungumál vort verulega.“
Féll frá hálfunnu verki
„Jónas fæddist í okkar sveitarfélagi og það hefur mikla
merkingu fyrir okkur. Í skólanum okkar er alltaf haldið upp
á afmælisdaginn með ýmsum uppákomum. Hér í Þelamerkur-
skóla skiptast bekkirnir alltaf á að vera með skemmtidag-
skrá þar sem foreldrar og aðrir mega koma að horfa, sem
gerir það spennandi fyrir okkur krakkana og unglingana að
læra meira um þennan merka mann. Í ár eru það krakkarnir
í 5., 6. og 7. bekk sem sjá um dagskrána og í tilefni af 200 ára
afmæli Jónasar kemur Ólafur Ragnar Grímsson, forseti
Íslands, í heimsókn í skólann. Árlega ganga allir í Þela-
merkurskóla, nemendur, kennarar og starfsfólk, upp að
Hraunsvatni sem er ofan við Hraun, fæðingarstað Jónasar.
Þar er borðað nesti og sumir fara að veiða en hinir bara að
ganga um og skoða þennan fallega stað. Mörg ljóða Jónasar
eru einmitt sprottin úr þessu umhverfi. Oft vinnum við
einhver verkefni í sambandi við þessa göngu og þess vegna
hefur Jónas mikla merkingu fyrir skólastarfið hér og þykir
flestum krökkunum mjög gaman að læra um Jónas og vita að
hann er einn af sveitungum okkar.“
Stoltar af sveitunga okkar
Jónas Hallgrímsson
1807 2007