Fréttablaðið - 22.12.2007, Side 90
58 22. desember 2007 LAUGARDAGUR
GÓÐAN DAGINN
Dr. Gunni tekur viðtal
Þ
etta er lífið er önnur
sólóplata Geirs Ólafs-
sonar. Þar syngur
hann lög sem lengi
hafa loðað við hann í
rándýrum útsetning-
um. Það er margt í gangi hjá
Geir, en ég náði að grípa hann í
kaffi og stutt spjall um músík-
ina, jólin, umtalið og sjálfsör-
yggið.
Mér finnst eins og Geir sé
sjálfsöruggasti maður á landinu.
Hann virðist aldrei efast um
sjálfan sig og músíkferilinn þótt
hann sé oft að rekast á veggi, nú
síðast frekar niðurlægjandi upp-
rifjun í þætti ,,Ebba á Þristin-
um“ á alræmdu gúmmídúkku-
atriði. Hvernig ferðu að því að
vera alltaf svona sjálföruggur?
spyr ég Geir.
,,Ég hugsa að sjálfsöryggið
felist fyrst og fremst í því hvers
konar manneskja maður vill
vera,“ segir Geir spekingslega.
,,Ég held að við það að lifa í sátt
og samlyndi við aðra, Guð og
menn, komi ákveðið sjálfs öryggi.
Sumir myndu kalla það sjálfs-
öryggi, en ég myndi frekar kalla
það að vera kominn með ákveðna
rútínu í því sem ég er að gera í
músíkinni. Svo getur verið að á
öðrum vígstöðvum sé ég ekki
eins sjálfsöruggur.“
Var skemmtileg bytta
Hvernig birtist það helst?
,,Kannski helst í því að ég hef
verið að berjast við kvíða. Ég var
greindur með kvíða og hef í gegn-
um tíðina verið að vinna mig hægt
og bítandi út úr því. Ég hugsa til
dæmis mikið um heilsuna, hvorki
drekk né reyki og stunda líkams-
rækt. Að mínu mati er hluti af lík-
amsræktinni að koma vel fram
við fólk og hvetja það til dáða.“
Hefurðu fundið fyrir kvíða við
að koma fram?
,,Nei aldrei, enda byrjaði ég
mjög ungur að koma fram. Pabbi
minn, Ólafur Benediktsson, var
trommuleikari með Lúdó og Stef-
án og ég kom fyrst fram með
þeim á Þórscafé þegar ég var sex
ára. Mig minnir að ég hafi tekið
Blítt og létt. Síðan hef ég komið
oft fram og alltaf verið laus við
sviðsskrekkinn. Það væri erfitt
að þurfa að burðast með hann.
Maður þarf að vera mjög einbeitt-
ur til að koma fram, sérstaklega
fyrir framan Íslendinga.“
Þú segist hættur að drekka –
var það farið að plaga þig?
,,Já, það gerði það í nokkur ár.
Einn daginn þurfti ég að taka mig
saman í andlitinu. Þá tók ég
ákvörðun um að hætta. Ég er
alveg viss um að ég væri ekki að
gera sömu hlutina í dag ef ég
hefði ekki stigið þetta mikilvæga
skref.“
Varstu leiðinleg fyllibytta?
,,Nei, ég held ég hafi verið mjög
skemmtileg fyllibytta, en sjálfum
mér verstur engu að síður. Ég sló
um mig og það varð nánast til
þess að ég tapaði öllu sem ég
átti.“
Hefurðu átt í erfiðleikum með
að halda þínu striki?
,,Nei, sem betur fer ekki. Það
eru gefin ákveðin ráð í þessu ferli
og ef maður heldur sig við þau á
maður að komast í gegnum þetta
án þess að falla. Einn dagur í einu
er mikilvægt skref í átt til bata.
Svo eru vítin til varast, maður
hefur séð menn sem hafa dottið í
það eftir margra ára bindindi og
endað á nákvæmlega sama stað
og þeir voru fyrir meðferð.“
Alinn upp við Óskalög sjúklinga
Nú eru margir sem finnst þú eigin-
lega hálf glataður og liggja ekkert
á þeirri skoðun sinni. Fer illt umtal
í þig?
,,Nei, aldrei. Ég er til dæmis
aldrei á netinu að skoða bloggsíð-
ur. Ég gæti ekkert verið í þessum
bransa ef ég tæki inn á mig það
sem aðrir segja um mig. Mér
hefur aldrei sviðið undan umtal-
inu því ég veit að þeir sem þekkja
mig, ættingjar og vinir, myndu
ekki tala um mig á neikvæðan
hátt. Ef maður á góða að kemst
maður í gegnum hvaða kjaftasögu
sem er.“
Fékkstu tónlistina í vöggugjöf?
,,Já, og mest í gegnum pabba.
Hann var í þessum bransa, tromm-
aði til dæmis í Sóló, fyrstu erlendu
hljómsveitinni sem spilaði í Fær-
eyjum. Ég man eftir mér berjandi
húðirnar á barnsaldri og tromm-
urnar hafa alltaf verið mitt hljóð-
færi. Ég fór að læra á trommur 16
ára og á trommusett og æfi mig
reglulega. Ég hef líka verið syngj-
andi allt mitt líf. Ég hlustaði þó
lítið á söngvara til að byrja með –
kannski helst á Elvis. Ég var meira
fyrir Oscar Peterson og Miles
Davis. Fyrsta platan sem ég eign-
aðist var með Viðari Alfreðssyni,
trompetleikara. Það er gaman að
segja frá því að í bandinu með Við-
ari voru Guðmundur Steingríms-
son og Árni Scheving, sem síðar
áttu eftir að vinna með mér í
Furstunum. Við eigum einmitt tíu
ára starfsafmæli um þessar
mundir.“
Þú hefur sem sé alltaf verið að
hlusta á svona gamla músík?
,,Já, ég er alinn upp við þessa
músík og Óskalög sjúklinga. Ég er
mjög þakklátur fyrir það því mitt
mat er að þessi tónlist sé mun mel-
ódískari en sú tónlist sem er verið
að gera í dag.“
Varstu aldrei í dauðarokkinu?
,,Nei, það þyngsta sem ég fór í
var Kiss og Led Zeppelin. Ef þú
hlustar á lögin með þeim finnurðu
að það mætti alveg útsetja þau í
big band útgáfum.“
Ánægður með að fólk hafi skoðun
á mér
En snúum okkur að nýju plötunni
þinn, Þetta er lífið. Þarna eru flest
lögin sem þú
ert þekktast-
ur fyrir og allt
í rándýrum
útgáfum.
,,Það má
segja að plat-
an hafi verið í
undirbúningi
síðan fyrsta
platan mín
kom út árið
2001. Þegar
ég bað Þóri
Baldursson og
Ólaf Gauk að
útsetja fyrir
mig nokkur
lög sem eru á
nýju plötunni
má segja að
vinna við hana
hafi byrjað.
Það er mjög
mikilvægt
fyrir mig að
eiga þessar
útsetningar því það þýðir að ég
get gengið inn í hvaða band sem
er í heiminum. Ég átti alltaf þann
draum að fara með þetta í stúdíó.
Síðan kemur það upp að ég og
kollegi minn, Gísli Guðmundsson,
fyrrverandi stjórnarformaður hjá
B&L, förum að vinna í því að fá
Nancy Sinatra til landsins. Í
sumar fórum við til Bandaríkj-
anna og ræddum meðal annars
við píanistann hennar, Don Randy.
Það var ákveðið að hann kæmi til
Íslands til að kanna aðstæður
fyrir Nancy. Það sagði honum ein-
hver að ég ætti útsetningar fyrir
big band og það vakti það mikinn
áhuga hjá honum að hann ákvað á
endanum að borga hljóðfæraleik-
urunum og stúdíókostnaðinn.
Þannig að honum er fyrst og
fremst að þakka að þessi plata
varð að veruleika. Svo kom Óttar
Felix Hauksson inn í þetta og gaf
plötuna út. Ég hef verið mjög
heppinn að fá að vinna með öllum
þessum mönnum. Við erum með
langtíma markmið. Platan á ekki
bara að seljast hér fyrir jólin held-
ur er stefnan sett á að kynna hana
síðar meir erlendis.“
Hvernig hefur gengið með plöt-
una?
,,Bara mjög vel. Platan hefur
fengið ágætis dóma og ég heyri á
neytendum að þeir eru mjög
ánægðir. Það er náttúrlega mikil-
vægast. Svo eru einhverjir ekki
eins ánægðir og þannig er bara
lífið. Maður getur ekki gert öllum
til hæfis, en ég er ánægður með
að fólk hafi skoðun á því sem ég
er að gera. Annars væri lítið varið
í að standa í þessu.“
En hver eru markmiðin hjá þér
með þessu öllu – hvar verðirðu
eftir tíu ár?
,,Ég lifi nú bara í deginum í dag
og mitt markmið í dag er að láta
gott af mér leiða og vera sjálfum
mér samkvæmur.“
Þú stígur varlega til jarðar og
ert ekki með neinar yfirlýsingar…
,,Já, ég verð að vera það. En
vonandi verð ég hamingjusamur
eftir tíu ár og væntanlega með
miklu meiri reynslu en núna. Von-
andi get ég verið til staðar að
hjálpa þeim sem vilja láta að sér
kveða í músík.“
Og Nancy þá búin að spila á
Íslandi?
,,Já, ég lofa því!“
Allir almennilegir á jólunum
Nú er örstutt til jóla og því við
hæfi að spyrja Geir hvort hann
sé jólabarn.
,,Já, ég elska jólin og finnst
þetta yndislegur tími. En ég
sakna snjósins. Mér finnst
gaman að sjá að það er alltaf að
aukast að fólk skreyti hjá sér.
Það besta við þennan tíma er að
maður finnur mikla breytingu á
fólki, hegðun þess breytist. Það
verða allir miklu almennilegri
og tilbúnir að sýna sitt besta
andlit.“
Hver er eftirminnilegasta jóla-
gjöfin sem þú hefur gefið?
,,Ég man að ég gaf fyrstu kær-
ustunni minni hálsmen eða rétt-
ara sagt tóma öskju því það hafði
gleymst að setja menið í öskjuna
í búðinni. Þetta þótti mikil
móðgun og ég þurfti að hafa
mikið fyrir því að bjarga málun-
um.“
Heldurðu í margar jólahefðir?
,,Ég er íhaldssamur í þessu, já.
Ég vil að það sé skata á Þorláks-
messu og hangikjötslykt í loft-
inu. Svo vil ég hafa hamborgar-
hrygg og rjúpur á aðfangadag.
Ég kem úr stórri fjölskyldu – við
erum sex systkinin – svo það
þurfti alltaf að hafa mikinn mat.
Svo er hangikjöt á jóladag.“
Er það svo kirkjan á mið-
nætti?
,,Ég viðurkenni að ég hef lítið
farið í kirkju á jólum. Ég er mjög
trúaður og allt það, og ætti að
gera meira af því. Það er aldrei
að vita nema það verði breyting
á núna og ég drífi mig í jóla-
messu.“
Aldrei sviðið undan umtali
Geir Ólafsson: ,,Það besta við jólin er að maður finnur mikla breytingu á fólki, hegðun þess breytist. Það verða allir miklu almennilegri og tilbúnir að sýna sitt besta andlit.”
➜
GEIR ÓLAFSSON… fyllir í eyðurnar
Það undarlegasta sem ég hef gert á ævinni var
að… keyra einn allan Vestfjarðakjálkann. Ég fann ótrú-
legan kraft úr umhverfinu.
Ég hef aldrei orðið jafn glaður og… þegar ég
ákvað að hætta að drekka.
Það skrítnasta sem ég hef smakkað er tvímæla-
laust… kanína. Ég fílaði það ekki, en ég held það hafi
bara verið vegna þess að ég vissi að þetta var kanína.
Mér er boðið á grímuball á Bessastaði. Ég mæti
sem… Don Corleone.
Uppáhaldsveitingahúsið mitt er… Humarhúsið.
Mesti lúxus sem ég hef veitt mér er… að fara oft
til útlanda.
Ef ég væri síamstvíburi vildi ég vera fastur við…
konuna mína.
Fyrsta verk mitt sem einvaldur alheimsins væri
að… koma á alheimsfriði.
Ég held
ég hafi
verið mjög
skemmtileg
fyllibytta,
en sjálfum
mér verstur
engu að
síður.