Fréttablaðið - 08.04.2008, Blaðsíða 22
8. APRÍL 2008 ÞRIÐJUDAGUR2 ● fréttablaðið ● byggingariðnaður
Byggingarframkvæmdir standa yfir á
tveimur nýjum sundlaugum á höfuð-
borgarsvæðinu og verið er að gera
stórfelldar endurbætur á þeirri þriðju.
Útlitið er gott fyrir sundlaugagesti í
Reykjavík og nágrenni þar sem byggingar-
framkvæmdir standa yfir á tveimur
nýjum sundlaugum auk þess sem verið er
að gera endurbætur á þeirri þriðju.
Í Kópavogi er verið að gera endurbætur
á rótgróinni og vinsælli sundlaug, Sund-
laug Kópavogs við Borgarholtsbraut, sem
fastagestir bíða spenntir eftir að verði
opnuð á ný. „Framkvæmdir hófust fyrir
tveimur árum. Við byrjuðum þá á að rífa
niður gömlu sundlaugina sem reist var
1967 og þar var sett ný 50 metra sund-
laug en einnig kemur 25 metra innilaug,“
segir Pétur Birgisson, forstöðu maður
Sundlaugar Kópavogs, sem hefur yfirum-
sjón með framkvæmdunum, en Gunnar
Borgarsson hjá ASK arkitektastofu er
arkitekt og verkstjórn í höndum ÁF húsa.
Að sögn Péturs er hvarvetna vand-
að vel til verka og aðgengi fatlaðra haft í
forgrunni. „Við leggjum mikla áherslu á
öryggisatriði og verðum með myndavélar
ásamt sérstökum skynjurum sem vakta
hreyfingu og bæta þannig alla gæslu. Þá
eru óupptaldar þrjár nýjar rennibrautir,
tíu metra innilaug, heitir pottar, iðulaug,
leiklaug og eimbað, útiklefar og búnings-
aðstaða.“
Pétur segir framkvæmdir ganga vel og
ættu fastagestir sundlaugarinnar að geta
gert sér glaðan dag hinn 11. maí næstkom-
andi þegar hún verður opnuð aftur.
Í nágrannabænum Hafnarfirði er verið
að reisa nýja sundmiðstöð, Ásvallalaug á
Ásvöllum. Sigurður Haraldsson, hjá Fast-
eignafélagi Hafnarfjarðar, telur aðstöð-
una búbót fyrir bæinn og þá sérstaklega
Sundfélag Hafnarfjarðar og íþróttafélagið
Fjörð þar sem fatlaðir eiga greiðan aðgang
að öllu svæðinu.
Í fyrsta áfanga framkvæmda er lögð
áhersla á inniaðstöð en að sögn Sigurðar
Harðarsonar hjá arkitektastofunni Batt-
erí, sem vinnur að framkvæmdinni, fyrir
verktakafyrirtækið Feðga ehf., verður
aðstaðan með því betra sem þekkist hér-
lendis, þar sem bæði verður hægt að leika
og læra innanhúss.
„Lögð er áhersla á æfinga- og keppn-
isaðstöðu með áhorfendapöllum fyrir
150 manns og sérstakt rými er þar fyrir
fjölmiðla. Sundfélagið og Fjörður fá sér-
aðstöðu í nýju byggingunni með skrif-
stofum, félagsaðstöðu og heilsurækt sem
tengist sundlaugum. Áhersla hefur verið
lögð á aðgengis- og öryggismál. Til dæmis
eru allir heitir pottar aðgengilegir fyrir
hreyfihamlaða og er sérstök lyfta fyrir
fimmtíu metra laugina ásamt sérútibúinni
búningsaðstöðu fyrir fjölfatlaða,” segir
Sigurður og bætir við að miklar kröfur
séu gerðar varðandi hálkuvörn gólfflísa.
Áætlað er að Ásvallalaug verði opnuð
seinni hluta sumars.
Þá fá íbúar Álftaness bráðlega sína
fyrstu sundlaug, sem er hluti af Íþrótta-
miðstöð Álftaness. Verður hún búin
keppnis laug, vaðlaug, öldulaug, heitum
pottum, rennibraut og sundlaugargarði.
Arkitekt að svæðinu er Bjarni Snæ-
björnsson, hjá Teiknistofunni ehf., VST
annast verkfræðihönnun og verktaki er
ÍAV. Fasteign ehf. er eigandi Íþróttamið-
stöðvarinnar og sveitarfélagið Álftanes er
leigjandi.
Að sögn Bjarna Einarssonar hjá Álfta-
nesbæ er um þessar mundir verið að
steypa kjallaraveggi. Vindur verkinu vel
áfram og stendur til að opna laugina um
næstu áramót. - vaj
Öryggi, leikgleði og gott aðgengi
Verið er að reisa nýja sundlaug í Hafnarfirði, sem hlotið hefur heitið Ásvallalaug.
Lögð er áhersla á æfinga- og keppnisaðstöðu með
áhorfendapöllum og sérstöku rými fyrir fjölmiðla í
Ásvallalaug.
Í fyrsta áfanga Ásvallalaugar er lögð megináhersla á inniaðstöðu. Þar verður stór rennibraut sem fer sali-
bunu út og aftur inn. Barnavaðlaug og leikaðstaða verða einnig inni svo hægt verður að leika sér hvernig
sem viðrar.
Skemmtileg leikaðstaða er á nýja útisvæðinu við Kópavogs-
laugina. Heitu pottarnir eru tengdir vaðlaug og iðulaug svo
hægt er að slappa af en fylgjast með litlum skottum að leik.
Rennibrautirnar eru mishraðar og vaðlaugin tekur við þeim
sem renna sér í minnstu brautinni.
Sundlaug Kópavogs verður búin þremur nýjum
rennibrautum sem sundgestir geta haft gaman af í
maí. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Verið er að vinna að
uppbyggingu 25 og
10 metra innilauga á
sundlaugarsvæðinu
í Kópavogi.