Fréttablaðið - 26.07.2008, Síða 18
18 26. júlí 2008 LAUGARDAGUR
FÖSTUDAGUR, 18. JÚLÍ.
Gengið til skrifta
Í morgun fórum við Össur frændi
minn í landkönnunargönguferð.
Það er að segja, við létum svo
heita að við værum að fara til þess
að kanna umhverfið og ná áttum
en hinn raunverulegi tilgangur
göngunnar var sá að leyfa ráð-
herranum að skrifta fyrir syndir
sínar og yfirsjónir, bæði gagnvart
flokkssystkinum sínum í Samfylk-
ingunni og þeim yfirgnæfandi
fjölda jarðarbúa sem ekki tilheyr-
ir þeim stjórnmálaflokki.
Því miður er þriggja tíma
gönguferð alltof stutt til þess að
íslenskur ráðherra nái að létta á
samviskunni og þess vegna úti-
lokað af minni hálfu að veita end-
anlega aflausn eða syndakvittun.
Þar fyrir utan er það á móti
sannfæringu minni að veita einum
ráðherra aflausn vegna syndsam-
legs lífernis allrar ríkisstjórnar-
innar.
Engu að síður var þetta góð og
guðrækileg ganga, þar sem
skiftust á iðrandi játningar hins
bersynduga ráðherra og alvarleg-
ar umvandanir og pólitískur
píetismi hins stranga skriftaföður
sem lætur sér annt um geistlega
velferð vina sinna og samferða-
manna.
Þótt aðeins hafi verið hægt að
skauta á yfirborði syndaregist-
ursins í þessari stuttu skrifta-
göngu er ég ekki alveg vonlaus
um velferð frænda míns. Vissu-
lega er sá maður veikgeðja sem
afhendir íhaldinu stjórnartaum-
ana en Össur er drengur góður
og hefur hlýtt hjarta og fyrir
slíka menn er alltaf nokkur
von. Ekki mikil kannski, en
von samt.
Á meðan á þessu
stríði um andlega
heill ráðherrans
stóð voru eigin-
konur okkar ásamt
börnum og barna-
börnum á baðströnd
hérna við sjávarsíðuna og létu vel
af sér við heimkomuna.
Nú hef ég lifað í nær fullkom-
inni fréttaþögn í þrjá daga og er
farinn að skynja þann frið sem
fylgir því að vera ekki sífellt með
eyrun full af fréttasuði.
LAUGARDAGUR, 19. JÚLÍ.
Strandlíf
Í morgun fórum við með börnin
niður á baðströnd að leika við öldur
Atlantshafsins og byggja sand-
kastala sem haf og vindar útmá
eins og sporin sem við skiljum
eftir í fjörusandi. Allt forgengur í
veröldinni og maður er þakklátur
fyrir hin áhyggjulausu augnablik
sem flögra um eins og fiðrildi.
Árný, Össur og frænkurnar buð-
ust til að passa börnin í kvöld og ég
var ekki svifaseinn að bjóða frú
Sólveigu út að borða.
Við gengum í bæinn og fengum
okkur risarækjur, steikta gæsalif-
ur, nautalundir og jarðarberja-
frauð ásamt góðu kaffi fyrir 50
evrur – sem væri mjög ódýrt ef
félagar Össurar í ríkisstjórninni
hefðu haft einhverja stjórn á efna-
hagsmálunum.
SUNNUDAGUR, 20. JÚLÍ.
Apalandsleiðangur
Í dag hélt leiðangur til Apalands,
það er að segja dr. Árný og frú Sól-
veig fóru með börnin að skoða
dálítinn dýragarð hérna í nágrenn-
inu, þar sem apar og páfagaukar
njóta mikillar athygli og virðing-
ar.
Össur frændi minn neitaði að
fara til Apalands og ég fyrir mitt
leyti skil vel að hann skuli ekki
kæra sig um að vera minntur á
starfsumhverfi sitt í miðju sumar-
fríi.
Það er margt verra til en að
liggja í forsælu á sundlaugarbarmi
og lesa skemmtilegar bækur. Ég
var til dæmis að klára stórmerki-
lega bók eftir þýskan blaða-
mann, Oliver
August, sem ekki
alls fyrir löngu
var fréttaritari
The Times í
Kínaveldi
og heitir
„Inside
the Red Mansion“ (Úr salarkynn-
um hinnar Rauðu hallar) og fjallar
um leit höfundar að þeim manni
sem efstur er á lista kínversku lög-
reglunnar yfir menn sem hún
hefur áhuga á að handtaka.
Hinn eftirlýsti maður heitir Lai
Changxing og var smábóndi sem
sneri sér að viðskiptum og varð á
skömmum tíma einn ríkasti maður
Kínaveldis.
Það er erfitt að koma sér upp
gífurlegum auðæfum með því að
feta nákvæmlega þröngan veg
hófsemi og heiðarleika, einkum í
löndum þar sem mútur og ósvífni
skipta meira máli en óljós lagabók-
stafur. Svo gerist það, að Lai
Changxing fer yfir eitthvert ósýni-
legt strik og stjórnvöld ákveða
að gera hann að blóraböggli í
stað þess að láta hann komast
upp með að halda áfram að
vera lifandi fyrirmynd
þeirra sem dreymir um
blessun markaðsguðs-
ins og allsnægtir hins
frjálsa framtaks.
MÁNUDAGUR, 21.
JÚLÍ.
Sundnám
Merkisdagur. Litla
Sól náði loksins því
tæra sambandi milli
heila og útlima sem þarf til að geta
tekið þau sundtök sem nauðsynleg
eru til að færa sig úr einum stað á
annan á bólakafi í vökva – þessu
tilviki vatni í barnalauginni.
Samkvæmt minni reynslu ná
krakkar sem fara oft í sund stund-
um fyrst tökum á kafsundi og svo
kemur eins og af sjálfu sér nokkru
síðar að reka hausinn upp úr öðru
hverju til að anda að sér súrefni.
ÞRIÐJUDAGUR, 22. JÚLÍ.
Andleg forherðing og
sigursund
Þeir Íslendingar sem hafa dvalið
með okkur hérna á íbúðahótelinu
eru einvalalið, kurteist fólk og
hjálpsamt sem hefur verið ánægju-
legt að kynnast.
Sundnám litlu Sólar í barnalaug-
inni er samfellt sigursund. Í dag
lærði hún að synda enda á milli í
lauginni með munn og nef yfir
vatnsborðinu sem auðveldar nauð-
synlega súrefnisöflun til mikilla
muna. Auk þess tókst henni að ná
nokkrum tökum á þeirri grein
vatnsíþrótta sem afi hennar stund-
ar af mikilli elju og vandvirkni.
Sem sé að liggja á bakinu í vatns-
yfirborðinu með hendur og fætur
teygða frá líkamanum og láta sig
fljóta án þess að reyna á nokkurn
vöðva í líkamanum.
FIMMTUDAGUR, 24. JÚLÍ.
Í fréttum er þetta helst...
Ég hef ekki vitjað um
internetið dögum
saman en seinni-
partinn í dag ákvað
ég að gá að íslensk-
um fréttum. Eftir-
tekjan var þó held-
ur rýr.
Helst vakti það
athygli mína að
forseti Íslands
segist alls ekki
hafa átt erfitt
með að ákveða
að drífa sig á
Ólympíu-
leikana í
Kína.
Rök-
semda-
færsla hans
er sú að það
sé klókt að hafa
glæpamenn og
siðblindingja
góða með því að
umgangast þá af
ýtrustu kurteisi í
von um að þeir
taki sönsum.
Þarna greinir okkur á. Ég mundi
ekki af fúsum og frjálsum vilja
halda gestaboð fyrir glæpahyski
en gestrisni forsetans virðist ekki
þekkja nein takmörk. Hann er
nýbúinn að bjóða Mörtu Stewart
og áhugafólki um að hitta svoleiðis
manneskju til veislu á Bessastöð-
um.
Ég mundi heldur ekki fara og
heiðra einræðis- og ofstopastjórn-
ina í Kína eins og Ólafur Ragnar
telur útsmogið að gera.
Mín skoðun er sú að svín tileinki
sér tæplega hreinlæti þótt maður
klæði sig í sparifötin og leggist
síðan við hliðina á þeim í skítuga
stíuna.
Það er kannski skiljanlegt að
Þorgerður Katrín vilji fyrir hönd
Flokksins heiðra systurflokkinn í
Kína með nærveru sinni. Ég skipti
mér ekki af einkafyrirtækjum og
einkaerindum – en á vegum
íslensku þjóðarinnar á engin siðuð
manneskja erindi til Kína – nema
ef vera kynni til að biðja Falun
Gong afsökunar á því hvernig
tekið var á móti því góða fólki á
Íslandi fyrir nokkru síðan.
Uppáklæddur í svínastíuna
Í dagbók Þráins Bertelssonar er sagt frá iðrun stjórnmálamanns, ströngum skriftaföður, leiðangri til Apalands, strandlífi,
merkilegum bókum, sundnámi og siðblindingjum.
KÆRA DAGBÓK
Þráinn Bertelsson skrifar
Viltu skjól á veröndina?
www.markisur.com og www.markisur.is
Veðrið verður ekkert vandamál
Hrein fjárfesting ehf, Dalbraut 3, 105 Reykjavík
Upplýsingar í síma 567 7773 og 893 6337 um kvöld og helgar