Fréttablaðið - 14.11.2008, Blaðsíða 32
6 föstudagur 14. nóvember
✽
ba
k v
ið
tjö
ldi
n Stjörnumerki: Tvíburi.
Besti tími dagsins: Morgun-
stund gefur gull í mund.
Geisladiskurinn í spilaran-
um: Nýi diskurinn með Kings of
Leon og Better Days Blues þar
sem ég er að fara að túra um
Suðurland.
Uppáhaldsverslunin: Góði
hirðirinn í Fellsmúla og Mál og
menning á Laugaveginum.
Uppáhaldsmaturinn:
Sushi, ekki spurning.
Ég lít mest upp
til: Lóu, dóttur
minnar.
Áhrifavaldurinn?
Amma Sjana og Ella
Fitzgerald.
Draumafríið? Nokkrar vikur í
New York með nægan pening til
að fara út að borða og droppa
í leikhús, tónleika og
söfn. Liggja svo
á einhverjum
flottum snyrti-
og spa-stofum í
„onduleringu og
afslappelsi,“ þess
á milli. Býður einhver
betur?
Hverju myndirðu sleppa ef þú
yrðir að spara? Bílnum og sjón-
varpinu.
K
ristjana er fædd og
uppalin á Selfossi.
Tónlistin hefur alla
tíð verið stór hluti af
lífi hennar og söng-
áhuginn kviknaði snemma. „Í skól-
anum var tónmennt einu sinni í
viku, þar fékk ég tækifæri til að
syngja sóló og var alltaf tilbúin
til þess ef hinir vildu það ekki. Ég
byrjaði átta ára í kór og söng sem
sólóisti alveg þangað til ég útskrif-
aðist úr fjölbrautarskóla,“ útskýr-
ir Kristjana og segist alltaf hafa
ætlað sér að verða söngkona.
„Þegar ég var sautján ára bauðst
mér að syngja með hljómsveitinni
Lótus á Selfossi. Mér fannst svo-
lítið eins og ég ætti bara að vera
sæt og syngja, en ég hafði skoð-
anir, gott tóneyra og heyrði alltaf
þegar spilaðar voru einhverjar
vitleysur. Það pirraði mig rosalega
að geta ekki útskýrt hvað það var
sem ég heyrði og hætti í hljóm-
sveitinni skömmu seinna, en þá
beit ég það í mig að ég skyldi læra
meira,“ segir Kristjana. „Ég byrj-
aði að syngja með Mánum í Ing-
hóli á Selfossi og stofnaði svo upp
úr því hljómsveitina Karma með
Ólafi Þórarinssyni. Við spiluðum á
sveitaböllum í þrjú ár, en þá komu
stórbönd eins og Sálin inn á mark-
aðinn og þegar pöbbarnir komu
breyttist stemningin. Þá höfðum
við verið með þrjú til fimm hundr-
uð manns á balli hverja helgi, öll
sumur, allt frá unglingum upp í
rígfullorðið fólk,“ segir Kristjana
sem vann fyrir sér með söngnum
og lagði sitt af mörkum til heimil-
isins þar sem hún bjó með móður
sinni og yngri systur, en foreldr-
ar hennar skildu þegar hún var
fjögurra ára.
DJASSINN HEILLAR
Eftir að Kristjana kláraði stúdent-
inn lá leiðin í söngnám við Söngs-
kóla Reykjavíkur, en hún segir
hönnunarnám einnig hafa togað í
sig. „Á tímabili var á vogarskálun-
um hvort ég færi í tónlistina eða
í grafíska hönnun. Ég hef mikla
þörf fyrir að skapa, ég bæði teikna,
mála og sauma mikið út. Móður-
og föðuramma mín voru miklar
listakonur, stunduðu handavinnu
og bókband, pabbi spilaði á selló,
mamma á píanó og þau voru bæði
fínir söngvarar. Pabbi spilaði mik-
inn djass og mamma var líka dug-
leg að fara með okkur systkinin
á sinfóníutónleika. Ég var 22 ára
þegar ég var heima hjá ömmu og
heyrði þátt á Gufunni um Ellu Fitz-
gerald með Tómasi R. Einarssyni.
Þar heyrði ég hina frægu útgáfu
Ellu af „How High The Moon“ með
átta mínútna skattsólói og ég lam-
aðist bara. Þegar ég heyrði Tómas
svo segja að þátturinn yrði end-
urtekinn seinna um kvöldið hljóp
ég út í kaupfélag og keypti kasettu
sem ég tók þáttinn upp á og á hana
enn í dag,“ útskýrir Kristjana og
hlær, en segir að þarna hafi hún
fyrst fundið að hana langaði að
læra djasssöng.
„Rétt áður en pabbi lést kom
hann og hlustaði á mig syngja mitt
fyrsta djassgigg á Hótel Örk með
Karli heitnum Sighvatssyni, sem
var þá organisti í Hveragerði, en
pabbi var þá orðinn mjög hjartveik-
ur. Hann hafði aldrei verið hrifinn
af þessu hljómsveitabrölti á mér,
en var mikill djassáhugamaður og
hvatti mig til að læra meira. Viku
síðar ákvað ég að hætta í Karma
og sömu nóttina og ég spilaði síð-
asta giggið með þeim lést pabbi,“
útskýrir Kristjana sem hélt til
Hollands í djassnám eftir að hún
útskrifaðist úr Söngskólanum.
HEILBRIGÐUR LÍFSSTÍLL
Starfi Kristjönu fylgir óreglulegur
vinnutími oft og tíðum, en hún
segist kunna því vel og leggur
rækt við bæði andlega og líkam-
lega heilsu dags daglega.
„Ég veit ekki hvort ég gæti unnið
á reglulegum tíma að staðaldri, en
mig hefur stundum dreymt um að
taka mér pásu og vinna í níu til
fimm vinnu í smátíma. Ég er samt
orðin vön því að eiga kannski frí-
dag á mánudegi í staðinn fyrir
helgarnar,“ útskýrir Kristjana sem
hugar að heilsunni með regluleg-
um gönguferðum og hollu mat-
aræði. „Ég er í æðislegum trimm-
klúbb sem heitir Eins og vindurinn,
með nokkrum frábærum listakon-
um og við hittumst þrisvar í viku.
Ég hef tekið svona skorpur á lík-
amsræktarstöðvum en aldrei fund-
ið mig. Þarna kann ég vel við mig,
stunda líka Kundalini-jóga heima
hjá mér og svo fer ég reglulega í
sund með dóttur minni,“ bætir hún
við og segir mataræðið ekki síður
mikilvægt. „Ég hef mikinn áhuga á
því að elda og eftir því sem maður
eldast skynjar maður betur hvað
það er sem gerir manni gott. Ég
fór til dæmis á sushi-námskeið
um daginn og reyni að hafa sushi
nánast vikulega. Ég hef verið miklu
duglegri að borða hollan mat und-
anfarin ár og hef til dæmis tekið
allt hveiti og mest allan sykur og
salt út úr mataræðinu,“ útskýr-
ir Kristjana, en viðurkennir þó að
súkkulaði sé mesta freistingin.
„Ég er ekki fanatísk þegar kemur
að mat, en ég held að maður verði
að breyta mataræðinu á eigin for-
sendum, ekki af því að allir aðrir
eru að gera það.“
VINSÆL Í ASÍU
Frá því að hún útskrifaðist úr Kon-
unglega Listaháskólanum í Haag í
Hollandi árið 2000 hefur Kristjana
gefið út fimm plötur. Fyrsta sóló-
plata hennar, „Kristjana“, kom út
í Japan árið 2005 og í fyrra var svo
gerð safnplata með völdum lögum
Kristjönu og Agnars Más Magn-
ússonar píanóleikara sem gefin
var út í Kóreu 2007. Nýjasta plata
hennar, Better Days Blues, kom út
í haust hér á landi og inniheldur
bæði frumsamin lög eftir Kristjönu
og önnur vel valin, en platan er sú
fyrsta sem hún útsetur alfarið sjálf.
Verið er að ganga frá útgáfusamn-
ingum ytra en Better Days Blues
verður þá þriðja plata hennar sem
kemur út í þriðja Asíulandinu á
næstu mánuðum. „Það er eitthvað í
Austurlöndum sem þeir eru greini-
lega að fíla, ég veit ekki hvað það
er,“ segir Kristjana brosandi.
Auk þess að starfa sem söng-
kona hefur Kristjana kennt söng
við FÍH frá því 2002, tekið leikara í
raddþjálfun og leiðbeint keppend-
um Idol- og X-factor-sjónvarpsþátt-
anna. Í vor þreytti hún frumraun
sína sem tónlistarstjóri í sýning-
unni Dauðasyndunum í Borgar-
leikhúsinu og hefur í kjölfarið verið
fengin í annað verkefni í París í
desember. „Rafael Bianciotto, leik-
stjóri Dauðasyndanna, er að fara
að setja upp Birting eftir Volta-
ire í Frakklandi. Við unnum mjög
vel saman svo hann bauð mér að
vinna með leikhópnum sínum.
Ég fer því til Parísar í tíu daga í
desember og vinn við raddþjálfun
og útsetningar í sýningunni,“ út-
skýrir Kristjana, en á morgun held-
ur hún í tónleikaferðalag um Suð-
urland. Hún hefur leikinn á Café
Rósenberg annað kvöld, en í kjöl-
farið mun hún troða upp á Hellu,
Þorlákshöfn og á Selfossi.
TÍMI BREYTINGA
Aðspurð segist Kristjana svo sann-
arlega hafa fundið fyrir breyttum
aðstæðum í kjölfar kreppunnar,
en segist engu síður hafa verið
lánsöm að hafa nóg að gera í
tónlistinni.
„Ég er búin að heyra af fólki
sem er að koma skelfilega út úr
þessu og finnst það mjög sorglegt.
Kannski er það listamannseðlið í
manni, en ég hef aldrei tekið þátt
í þessu kjaftæði og á hvorki sjálf-
virka kaffikönnu, uppþvottavél
né flatskjá. Það eina sem ég daðr-
aði við var hvort ég ætti að henda
gamla bílnum mínum eða kaupa
mér nýjan í vor, en þá ákvað ég
frekar að eyða tugum þúsunda í
að láta gera við gamla bílinn því
ég á hann. Í dag er ég svo fegin að
hafa ekki tekið lán fyrir nýjum bíl
að ég klappa honum á hverjum
degi,“ segir Kristjana og hlær.
„Ég held að tónlistarsenan eigi
eftir að breytast, fólk bíði ekki leng-
ur eftir símtali um stór bankagigg
heldur eigi sköpunarkrafturinn
eftir að aukast og mikið af spenn-
andi hlutum að gerast. Annaðhvort
getur maður lagst í kör og orðið
þunglyndur yfir ástandinu eða litið
á það sem stórkostlegt tækifæri.“
segir Kristjana að lokum.
ÞRIÐJA PLATAN Í ASÍU
Kristjana
Stefánsdóttir
gaf nýlega út sína
fimmtu sólóplötu. Hún
fagnaði fertugsafmælinu
sínu í vor, er um það bil
að fara í tónleikaferða-
lag um Suðurland og
gefa út sína þriðju plötu
í Asíu.
Viðtal: Alma Guðmundsdóttir
Ljósmyndir: Anton Brink
Fimm sólóplötur Tvær plötur Kristjönu
hafa komið út í Asíu og á næstu dögum
skrifar hún undir útgáfusamning fyrir þá
þriðju, Better Days Blues.