Tíminn - 19.04.1986, Blaðsíða 10

Tíminn - 19.04.1986, Blaðsíða 10
10 Tíminn Laugardagur 19. apríl 1986 Sextugur bóndi í Noröfirði: Var hvattur til fjósbyggingar enfékk aðeins þriðjungskvóta „Verö fljótlega allslaus á götunni" segir Steinþór í Skuggahlíð . **■*$&* - *•**, Hverslags stjórn er það hjá land- búnaðaryfirvöldum að leggja á síð- asta sumri alla blessun sína yfir og veita lánafyrirgreiðslu til byggingar nýs 30 kúa fjóss, en takmarka 6 mánuðum síðar framlciðslurétt viðkomandi bónda við um 9 kýr- nytjar eftir að hann hefur hleypt sér í milljóna skuldir? Og til hvers er verið að verja tugmilljónum í rekstur bændaskóla þegar nýút- skrifuðum búfræðingum er síðan aftrað frá frá að hefja búskap Gjaldþrot blasir við bessar spurningar verða áleitnar cftir samtal við Steinþór Þórðarson bónda í Skuggahlíð í Norðfjarðar- hreppi - sem kveðst nú að öllu óbreyttu ekki sjá annað framundan en að hverfa gjaldþrota mcð millj- óna skuldir á bakinu frá óseljan- legri jörð (vegna ólífvænlegs fram- leiðsluréttar á henni). Um leið verða fyrirætlanir dóttur hans og tengdasonar beggja nýútskrifaðra búfræðinga, um að búa með hon- um félagsbúi þar til hann kemst á lífeyrisaldur, að engu orðnar. Steinþór er með um 20 kúa og um 200 kinda bú. Hann framleiddi á síðsta ári um 30 þús. lítra af mjólk, en hefur nú veriðskammtað um 31 þús. lítra fullvirðisréttur, scm samsvarar 9 kýrnytjum. Pann rétt sinn er hann að fylla nú í næstu viku og sér ekki fram á að fá neitt fyrir innlegg sitt mánuðina: maí, júní, júlí og ágúst. En á þeim mánuðum barst um 44% ársfram- leiðslunnar til mjólkurbúsins í Neskaupstað 1984. Gamla fjósið dæmt ónýtt Af hverju fór Steinþór að byggja fjós í fyrra? Gamla fjósið var orðið svo lélegt að bæði dýralæknir og heilbrigðiseftirlitið höfðu á undan- förnum árum lagt fram kvartanir og athugasemdir og sagt úrbætur bráðnauðsynlegar. Árið 1981 kvaðst Steinþór því hafa fengið menn frá Búnaðarbanka og bygg- ingadeild hans (Stofnlánadeild) til að líta á fjósið. Þeir dæmdu fjósiö ónýtt, þar sem steypan í því væri að grotna niður utan frá. Sögðu þeir enga fyrirgreiðslu verða veitta til lagfæringar á gamla fjósinu - Steinþór yrði að byggja nýtt. Árið 1984 var ekki hægt að fresta aðgerðum lengur - Steinþór stóð frammi fyrir því að hætta búskap eða byggja nýtt fjós og ákvað þá að sækja um leyfi til byggingarinnar. Leyfið í júlí 1985 Leyfið var veitt í júlí 1985 (fyrir 9 mánuðum) og teikningarnar fékk hann í september í fyrrahaust. „Ég var þrátt fyrir það nokkuð uggandi og spurði því ráðunauta mína hjá Búnaðarsambandi Austurlands hvort mér væri óhætt að fara út í þetta, þar sem nú væri verið að þrengja að bændum á allan hátt. Þeir sögðu öruggt að þeir sem væru að og þyrftu að byggja upp fengju sérstaka fyrirgreiðslu til þess - auk þess sem þeir ráðlögðu mér að byggja fjós en ekki,fjárhús þar sem mjólk vantaði í fjörðinn, en hins vegar væri riða í fénu, sem hvort- tveggja var rétt. Hvatning úr öllum áttum Svipað sagði byggingafulltrúinn okkar, sem jafnframt er fulltrúi hjá Búnaðarbankanum. Kaupfélags- stjórinn, sem jafnframt er mjólkur- bússtjóri hér, hvatti mig einnig til þessara framkvæmda. Alla þessa menn var ég að spyrja vegna þess að ég var hálf hræddur við að leggja út í þetta. En þeir töldu allir að greitt yrði fyrir því manni yrði séð fyrir þeim kvóta að hann stæði undir þessum framkvæmdum." Steinþór dreif sig því í fjósbygg- inguna í september við hliðina á flatgryfju sem hann byggði fyrir væntanlegt fjós á árunum 1979-80 og einnig hefði orðið arðlaus og verðlaus án fjósbyggingar. Nú allt stopp „Nú er ég hins vegar stopp - hálfnaður með bygginguna sem komin er yfir 2 milljónir króna (kostar líklega um 5 millj. fullbúin) - og veit ekkert hvað ég á að gera. Fái ég ekki einhvcrja fyrirgreiðslu sé ég ekki annað frantundan en að verða fljótlega allslaus á götunni. Búið gerir ekki betur en að hrökkva fyrir skuldunum, þ.e.a.s. ef nokkur vildi þá kaupa það með svo litlum framleiðslurétti að ekki er hægt að lifa á honum, sem er óscnnilegt,*" sagði Steinþór. „Ég tel mig lakast settan vegna þess að mér er hleypt í þessa 2ja milljón króna skuld á þessu ári, sem nú cr verið að stoppa við allt hálfkarað. Við vorum ekkert illa sett áður - ekki með neinar skuldir að heitið gæti. Það hefði verið leikur einn að hætta kúabúskap þá miðað við núna. Hefði ég fengið að vita hvernig málum var háttað í fyrrahaust hefði ég aldrei sett allar kýrnar á heldur lógað þeim. Einnig hefði ég verið miklu betur settur hefði mér verið leyft að lagfæra gamla fjósiö þannig að það hefði dugað nokkur ár." Félagsbúskapur fyrirhugaður Þrjátíu kúa fjós í stað 20 nú kvaðst Steinþór hafa farið út í vegna fyrirhugaðs félagsbúskapar með dóttur og tengdasyni. „Ég er um sextugt og konan um fimmtugt og því nokkuð langt í að við komumst á lífeyri og ætluðum því að búa hérna félgsbúi í einhver ár - og þá var ekki hægt að hafa þetta minna." • Ráðið að reka búfræðingana að heiman Hverju hafa þeir svo svarað til sem öll leyfin veittu á síðasta sumri? „Ég fór suður í vetur - þó ég hefði nú engin efni á því - ætlaði að fá að tala við ráðherra sjálfan og kanna þessi mál mín. Hvorki gat ég þó fengið viðtal við hann eða aðstoðarráðherra heldur einhvern sem mér skildist vera 3. í valdaröð- inni. Hann ráðlagði mér að láta dótt- urina og tengdasoninn fara, en við erum búin að bíða eftir þeim að taka við búinu og þau búin að afla sér þeirrar menntunar sem til þarf. Að mér sjálfum lagði hann á allan hátt að hætta búskap (nokkuð seint séð) og fara bara að vinna úti á Neskaupstað. Mér varð á að spyrja hvort hann hefði vinnu fyrir mig þar sextugan mann sem gengi varla í hvað sem cr. Nei - hann hafði það nú að vísu ekki. Túristana í flatgryfjuna? Geturðu þá ekki farið í svína- eða refabú, spurði hann. Ég benti honum offramleiðslu á svína- kjöti og verðfall á refaskinnum, enda ekki hagkvæm fjárfesting að byggja fjós með áburðarkjallara til að nota sem refabú. Þá nefndi hann ferðamannaþjónustu. Ég var nú svo óforskammaður að spyrja hvort ég ætti að hafa túristana í flatgryfjunni og kjallaranum." Steinþór var því litlu nær eftir Reykjavtkurferðina. Eina vonin er nú bundin við mann sem hann hefur fengið til að vinna að því fyrir sig hér syðra að hann fái einhverja úrbót, þ.e. aukinn fram- leiðslurétt til að hann geti staðið undir framkvæmdakostnaðinum. Áburð á túnin eða ekki? Á miklu veltur að fljótlega fáist úr því skorið hver málalok verða. Bændur í Norðfirði verða þessa dagana að ákveða hve mikinn áburð þeir ætla að bera á í vor og útvega peninga til að staðgreiða helminginn af honum. „Fái ég ckkert greitt fyrir mjólkina fram á haust get ég engan áburð keypt - enda fæ ég meira hey af túnunum óábornum en ég þarf að nota miðað við núverandi útlit." Margir í svipuðum sporum Steinþór kvaðst viss um að marg- ir bændur væru í svipuðum sporum og hann. „Ég hitti einn í morgun sem sagði ekkert blasa við hjá sér nema að hætta. Formaður Búnað- arsambandsins hefur sagt mér að fjöldi bænda á Fljótsdalshéraði færi mjög illa út úr þessu - þó verst þeir sem verið hafa að byggja upp". Enda augljóst að þeir sem ekki skulda að ráði eiga auðveldara með að vinna sér fyrir lifibrauði út í frá en hinir. Verkamannalaun t.d. í frystihúsi duga skammt til að standa undir milljónaskuldum af útihúsabyggingum sem standa auð- ar. Um 30 fjósbyggingar ífyrra Hér má skjóta því inn, að nýlega kom fram á Alþingi að 31 bóndi fékk lán frá Stofnlánadeild til fjós- bygginga á síðasta ári og samtals um 120 frá árinu 1981, scm er um 6% af mjólkurframleiðendum í land- inu. Vantar meiri mjólk í Neskaupstað „Það sem einnig gerir okkur ósátta við þessa framleiðslutak- mörkun hér er það, að við fram- leiðum hér á um 10 km svæði inn af kaupstaðnum mjólkina fyrir þetta byggðarlag. Við teljum það þjóðhagslega hagkvæmara að við framleiðum þessa mjólk í stað þess að Norðlendingar eða Sunnlend- ingar geri það. Að sumartoppnum frátöldum hefur innviktuð mjólk í búið í Neskaupstað tæplega - og stundum ekki - nægt heimamönn- urn. Þegar t.d. loðnuflotinn hefur verið hér hefur þurft að sækja mjólk annað, ef það hefur þá verið hægt, annars hafa bátarnir orðið að fara mjólkurlausir". Miðað við að meðalneysla landsmanna af mjólk og mjólkuraf- urðum er um 410 lítrar á ári ættu um 1.820 íbúar á Norðfirði að þurfa rösklega 700 þús. lítra á ári til heimaneyslu. Til búsins í Nes- kaupstað bárust um 555-574 þús. lítrar árin 1983 og 1984. -HEI

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.