Morgunblaðið - 28.02.2006, Qupperneq 36
36 ÞRIÐJUDAGUR 28. FEBRÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Jón Þór Ólafssonfæddist í Reykja-
vík 28. október 1968.
Hann lést af skotsár-
um í El Salvador 12.
febrúar síðastliðinn.
Foreldrar hans eru
Guðrún Steingríms-
dóttir, f. 24. mars
1940, d. 16. janúar
1982, og Ólafur Þ.
Jónsson, f. 14. júní
1934. Albróðir Jóns
Þórs er Steingrímur
Ólafsson, f. 14. maí 1967. Kona
hans er Marín Guðrún Hrafns-
dóttir, f. 27. mars 1968. Systur
hans sammæðra eru Gréta Björg,
f. 1. nóvember 1957, og Bjarnheið-
ur, f. 8. ágúst 1959, Erlendsdætur.
Systkini Jóns Þórs samfeðra eru
Kjartan, f. 5. október 1954, Krist-
inn Magnús, f. 5. ágúst 1957, og
Ingibjörg, f. 13. ágúst 1960.
Börn Jóns Þórs eru Breki Þór,
f. 8. nóvember 1996, og Ilmur
Ösp, f. 20. september
1999. Móðir þeirra er
Bryngerður Ásta
Guðmundsdóttir, f. 1.
janúar 1970. Þau Jón
Þór slitu samvistum.
Jón Þór lauk námi
frá Bændaskólanum á
Hvanneyri vorið
1986. Hann stundaði
síðan nám í Mennta-
skólanum í Hamra-
hlíð. Jón Þór vann á
námsárunum ýmis
störf til sjávar og sveita uns hann
brautskráðist sem orkutækni-
fræðingur frá Tækniskóla Íslands
í ársbyrjun árið 1998. Eftir það
starfaði hann sem tæknifræðingur
og nú síðastliðna sex mánuði hjá
fyrirtækinu Enex hf. sem staðar-
verkfræðingur við byggingu jarð-
varmaorkuvers í El Salvador.
Útför Jóns Þórs verður gerð frá
Fossvogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.
Síðustu dagar hafa verið undarleg-
ir. Tómleiki og sorg hafa verið í huga
okkar. Af hverju, af hverju? spyrjum
við en auðvitað er ekkert svar. Enginn
á von á svona hryllingi. Þú sem varst
svo ánægður þarna í vinnunni og auð-
vitað máttir þú vera það, búinn að læra
til þessa starfs og hafðir traust til að
hafa umsjón með þessu verki.
Í síðasta samtalinu sem þú áttir við
okkur pabba þinn var mikill hugur í
þér því nú kæmir þú heim um 20. febr-
úar í frí og þá ætlaðir þú að koma
norður til Akureyrar til okkar. Og eins
og þú sagðir alltaf þegar við kvödd-
umst: „Vertu sæl, Dísa mín, og hugs-
aðu nú vel um kallinn.“
Nú er víst að þú kemur ekki norður
til okkar, vinurinn minn. En við fylgj-
um þér síðasta spölinn í Fossvogs-
kirkjugarð þar sem þú færð að hvíla
við hlið móður þinnar sem þú misstir
ungur drengur.
Loks er dagsins önn á enda,
úti birtan dvín.
Byrgðu fyrir blökkum skugga
björtu augun þín.
Ég skal þerra tár þíns trega
tendra falinn eld
svo við getum saman, vinur
syrgt og glaðst í kveld.
Lífið hefur hendur kaldar
hjartaljúfur minn.
Allir bera sorg í sefa,
sárin blæða inn.
Tárin falla heit í hljóði,
heimur ei þau sér.
Sofna, vinur, svefnljóð meðan
syng ég yfir þér.
Þreyttir hvílast, þögla nóttin
þaggar dagsins kvein.
Felur brátt í faðmi sínum
fagureygan svein.
Eins og hljóður engill friðar
yfir jörðu fer.
Sof þú væran, vinur, ég skal
vaka yfir þér.
(Kristján frá Djúpalæk.)
Hjartans vinurinn minn, þá kveð ég
þig með þökk fyrir samveruna og vona
að eitthvað sé til sem getur linað þenn-
an mikla sársauka okkar ástvina
þinna. Sofðu vært, elskan mín. Ég skal
hugsa um karlinn.
Kveðja.
Svandís.
Þá er víst komið að síðustu kveðju-
stundinni, gamli minn. Kveðjustund
sem engan óraði fyrir. Á slíkum stund-
um reikar hugurinn yfir þær mörgu
minningar sem varða lífsins veg – veg
sem varð aldrei nema hálfkláraður. Til
lítilla barna sem aldrei geta framar
talið dagana þar til pabbi kemur heim
með frásagnir frá ævintýrum fjar-
lægra landa, kúrt sig í hálsakotið þitt
eða stungið köldum og litlum lófa í
stóru og hlýju hendurnar þínar. Minn-
ingar frá því þegar við vorum pollar og
ég var eitt sinn sendur í ísbúðina til að
kaupa handa okkur ís. Ég minnist
þess alltaf þegar ég missti annan ísinn
og sagði að það hefði verið þinn ís sem
datt. Þú varðst hinn versti en pabbi
bjargaði málinu með því að kaupa ann-
an ís handa þér. Allar fjöru- og skoð-
unarferðirnar í Svalvogum og á Galt-
arvita þar sem við hlupum undan
öldunum, skoðuðum seli, æður og önn-
ur undur lífsins með forvitnum augum
barnsins. Hvað ég átti bágt með að
viðurkenna að þú stæðir mér framar í
taflmennskunni, þekktir rollur á
hundrað metra færi og að þú fyndir
ekki fyrir lofthræðslu á meðan ég gat
orðið óvígur sökum hennar hangandi á
steini í túnfætinum í Svalvogum. Þá
má ekki gleyma góðu stundunum sem
við áttum á okkar unglingsárum, einn-
ig hvernig við studdum hvor annan
þegar sorgin sló sín þungu högg eða
þegar við í glaumi og gleði gerðum
mörg asnastrikin eins og ungra manna
oft er háttur. Þá er ótalið er við fórum
saman síðasta sumar upp á Ólafsdals-
fjall, horfðum yfir Gilsfjörðinn baðað-
an sólskini og ræddum um lífið og til-
veruna, drauma okkar og
framtíðaráform, gerðum út um ýmis
mál og gerðum hvor öðrum ljóst að
þaðan í frá stæðum við saman sem
einn maður. Nú er allt þetta eitthvað
sem ég mun því miður orna mér einn
við þar til að mínu sólsetri kemur.
Þau voru því ansi þung sporin sem
ég þurfti að taka þegar ég fór ásamt
Grétu systur til að fylgja þér síðustu
ferðina heim frá El Salvador. Landi
sem ég get vel skilið að þú hafir tekið
ástfóstri við. Sólarupprásin og sólar-
lagið töfrum líkast með gróðri vöxnum
eldfjöllum gnæfandi yfir borginni og
umfram allt samstarfsmönnum og vin-
um sem höfðu tekið ástfóstri við þitt
góða hjartalag, léttu lund, útsjónar-
semi og smitandi dugnað. Á stundu
sem þessari er það eina sem er hugg-
un harmi gegn að vita að þín verður
minnst sem góðs drengs, og að
stærstu ljósgeislarnir í lífi þínu, þau
Breki og Ilmur, eru í góðum höndum
og munu minnast þín sem besta pabba
í heimi. Sá hvílustaður sem þér hefur
verið valinn er heldur ekki af verri
endanum –færð að kúra hjá henni
mömmu sem hélt alltaf svo mikið upp
á litla drenginn sinn.
Nú er víst mál að linni, enda ljóst að
í þetta sinn datt ísinn þinn og annar
verður ekki keyptur í staðinn.
Steingrímur bróðir.
Engum manni hef ég kynnst sem
talaði jafnhratt og Jón Þór Ólafsson og
þann hæfileika notaði hann óspart í
pólitískri rökræðu. Við kynntumst
þegar við vorum unglingar og töldum
að lífið snerist fyrst og fremst um póli-
tík. Við gátum karpað tímunum saman
og aldrei minnist ég þess að hafa getað
sannfært Jón um neitt af mínum skoð-
unum, en oft tókst honum að fá mig til
að efast um mínar eigin. Í þessu, eins
og öðru, var hann kappsamur og
fylginn sér, ef ekki beinlínis þrjóskur.
Hann var ekki einn af þeim sem hafði
sig mikið í frammi á fundum en þess
meira þurfti að ræða málin maður á
mann og veturinn sem við leigðum
saman tveir er í minningu minni ein
viðstöðulaus kappræða yfir súru kaffi
fram undir morgun. Kannski það hafi
verið nokkur partí inni á milli.
Jón var ekki draumóramaður eins
og við margir vinir hans, að minnsta
kosti lét hann ekki mikið uppi um fyr-
irætlanir sínar á námsárum okkar. Ég
held hins vegar að hann hafi haft skýr-
ar áætlanir, þær voru hans eigin og
hann hélt sínu striki þar til settum
markmiðum var náð. Hann var sjálf-
stæður maður, þurfti hvorki á ráðum
né hjálp að halda, fór sína eigin leið á
eigin vélarafli. Hann var hins vegar
hjálpsamur, boðinn og búinn að rétta
hjálparhönd og alltaf með glöðu geði,
einn af þeim sem ekki vill vera byrði
fyrir aðra en hefur sjálfur af nógu að
gefa.
Við hittumst ekki oft hin seinni ár
en þegar við fundum stund saman fór-
um við strax í gamla farið og þó að Jón
hefði þungar áhyggjur af síversnandi
kratisma mínum þá gafst hann ekki
upp á að reyna að lækna mig af því.
Hann var bjartsýnismaður.
Jón Þór var góður maður og góður
vinur og ég sakna hans.
Orri Vésteinsson.
Hann ólst upp fyrir vestan þar sem
ólgandi öldur úthafsins mynnast við
úfið landið. Jón Þór hefur notið sín í
leik í flæðarmálinu með Steingrími
bróður sínum en þeir bræður áttu dýr-
mæt bernskuár með foreldrum sínum
við Svalvoga og á Galtarvita. Svo
þurfti fjölskyldan að flytja suður,
drengirnir voru á unglingsaldri, þeir
höfðu misst móður sína. Um þetta
leyti urðu þeir bræður félagar í sér-
kennilega skemmtilegu pólitísku vina-
gengi sem hafði einatt aðsetur á heim-
ili okkar vestur í bæ. Þeir piltar
brugðu á leik með bridsspili og bíltúr-
um, en annars voru þeir á alvöru-
þrungnu spjalli um bætt þjóðfélags-
ástand og betri heim. Á morgni
ævinnar var Jón Þór líkur sínu fólki,
síkvikur og snar, fljúgandi greindur,
snöggur í tilsvörum og bar í fasi funa
eldhugans. Skapið var mikið og áreið-
anlega áraun að hemja ólgandi huga á
ungum aldri. Hann þroskaðist ágæt-
lega. Jón Þór fór jafnan vel með stór-
brotna skaphöfn, og var í reynd hljóð-
ur maður, traustur og góður. Brosið
var hlýtt og glettni glampaði í augum.
Sjálfur aflaði hann sér framhalds-
menntunar og reynslu á því sviði sem
vilji hans stóð til. Hann var frjór og
skapandi og vænn til manns í flestu til-
liti. En enginn má sköpum renna. Allt í
einu er lífi lokið, alltof snemma. Him-
inn grætur. Ástvinir sitja harmi lostnir
eftir. Máttvana orðum getum við ekki
annað en vottað þeim samúð og beðið
mildi. Minning góðs drengs merlar í
kyrrum haffletinum.
Óskar og Kristín.
Einn daginn leikur lífið við þig, ann-
an daginn er það tekið frá þér. Á ung-
um vinnustað með ungu og bjartsýnu
fólki bar skugga á, okkar vinur og
samstarfsmaður týndur. Það fá því
engin orð lýst hvernig tilfinning það
var að fá svo fregnir af andláti Jóns
Þórs.
Þú varst útvörður íslenskrar þekk-
ingar, hugkvæmni og verkvits, orðinn
virtur og vinsæll af samstarfsfólki
þínu hjá bæði verkkaupa og undir-
verktökum, og ekki síst á meðal okkar
samstarfsmanna þinna hjá Enex.
Bjartsýni þín og ákveðni, og hin mikla
kímnigáfa, er það sem er efst í minni.
Við fáum ekki skilið hvað leiddi til
þessa, né fáum við skilið, sem breyskir
menn, vegi Guðs á stundu sem þessari.
Jón Þór var véltæknifræðingur að
mennt frá Tækniskóla Íslands og
starfaði sem slíkur frá því að hann
lauk námi árið 2000. Áður hafði Jón
Þór gengið í Bændaskólann á Hvann-
eyri og lokið þaðan búfræðingsprófi.
Hann var staðarverkfræðingur Enex
við byggingu 8 MW tvívökvastöðvar
við orkuverið í Berlín í El Salvador.
Sem slíkur dvaldi hann ýmist á Íslandi
eða á verkstað í El Salvador. Hann réð
sig til starfa hjá Enex 1. september á
liðnu ári en hafði þá nýlega stofnað
fyrirtækið Tækniskurður ásamt fleir-
um.
Jón Þór var glaðlyndur maður,
skemmtilegur starfsfélagi og vandað-
ur einstaklingur. Hans er sárt saknað
af starfsfólki Enex og vil ég nota tæki-
færið og þakka fyrir okkar hönd fyrir
þann tíma sem hann var með okkur.
Ekkert okkar óraði fyrir því að sá tími
yrði eins stuttur og raun ber vitni.
Okkar hugur dvelur hjá fjölskyld-
unni sem svo mikið hefur misst og þá
ekki síst börnunum hans tveimur,
Breka Þór og Ilmi Ösp, sem nú hafa
misst föður sinn ung að árum. Þau
eiga alla okkar samúð.
Lárus Elíasson, fram-
kvæmdastjóri Enex.
Jón Þór Ólafsson var ekki venjuleg-
ur maður og aldrei lognmolla þar sem
hann var á ferð. Hann talaði svo hratt
að oft á tíðum fóru fyrstu setningarnar
út í veður og vind á meðan maður var
að stilla sig inn á hann. Hann var eld-
klár og hugmyndaríkur og lét sér ekki
nægja að láta sig dreyma heldur fór
tvíefldur í það að finna hugmyndum
sínum farveg. Frumkvöðull er eitt
þeirra orða sem lýsa honum vel. Hins
vegar lét honum ekki vel að staldra
nægilega lengi við til að sjá hugverk
sín virkilega taka flugið – grasið virtist
oft á tíðum vera grænna hinum megin.
Þessu olli sennilega einhver óróleiki
eða rótleysi, eins og það vantaði ein-
hvern frið í sálina.
Hann var eldheitur í öllu sem hann
tók sér fyrir hendur, var sannfærður
sósíalisti og hellti sér á tímabili út í
pólitík með vinstri grænum. Hann
sagði sig úr Þjóðkirkjunni, trúði ekki á
Guð heldur á það góða í manninum.
Hann var afskaplega stoltur af
börnunum sínum og fyrir vini sína
hefði hann vaðið eld og brennistein.
Síðastliðið sumar sáum við Jón Þór í
Búðardal þar sem hann stóð skarp-
holda, herðabreiður, eilítið hokinn, í
gallabuxum og blankskóm númer 47
með sígarettuna í annarri hendinni og
svart kaffi í hinni að jafna sig eftir
fjallgöngu sem þeir Steini bróðir hans
höfðu í skyndingu ákveðið að fara í
fyrst veðrið var svona gott. Þetta var í
síðasta skiptið sem við sáum Jón.
Þessi mynd af Jóni mun ylja okkur um
ókomin ár.
Hann var drengur góður, hefðu
fornmenn sagt.
Hugur okkar er hjá börnum og ást-
vinum Jóns á þessum erfiðu tímum.
Sveinbjörg og Kári.
,,Áríðandi“, hvíslaði þingvörðurinn
þegar hann sótti mig inní þingsalinn.
En eftir að Steini segir mér að Jón Þór
hafi verið drepinn í San Salvador dag-
inn áður er um stund eins og ekkert sé
áríðandi. Nema ef til vill það sem aldr-
ei verður. Ég hafði ekki séð Jón frá því
hann sagði mér frá hitaveituverkefn-
inu í El Salvador í haust. Við sáumst
orðið sjaldan; helst þegar annar þurfti
einhvers með, en gátum þá líka gengið
að því vísu eins og er þegar við bind-
umst sterkum böndum í æsku. Man
fyrst eftir okkur að tuskast á rólónum
hjá Héðni lappalausa vestur við verka-
mannabústaði þar sem afi þeirra
Steina bjó. Ætli Jón hafi ekki lagt mér
lið gegn stóra bróður sínum og jafn-
aldra mínum, enda þótti okkur hann
alltaf óþarflega hraustur. Það var ekki
nema ár milli bræðranna og þeir hefðu
eins getað verið tvíburar. Urðu líka
nánari fyrir það að þeir fóru ungir með
foreldrum sínum í vitavörslu á útnesj-
um og voru svo heppnir að þurfa ekki
að fara í skóla, en lærðu bara saman
heima. Man eftir mér í Svalvogum við
ysta haf að sýna þeim hvernig Siggi
Dags kastaði sér í markinu, en þá var
það líka upptalið sem borgardrengur-
inn gat kennt þessum duglegu
strákum sem söfnuðu ullarlögðum og
áttu inneign í Kaupfélaginu meðan ég
var enn að lesa Andrés Önd.
Sterkustum böndum tengdumst við
svo trúlega þegar móðir þeirra lá
banaleguna hér fyrir sunnan, en það
var langt fyrir aldur fram og strák-
arnir um fermingu. Sýndi mér hvað
þeir voru heilsteyptir hvernig þeir
lifðu það af. Á menntaskólaárunum
urðum við svo gott sem ein fjölskylda
með Hrannari og Orra og krökkunum
heima hjá Skara og Stínu á Seljaveg-
inum og síðar Öldugötunni. Við frels-
uðum heiminn á daginn, tefldum á
kvöldin, spiluðum bridge um nætur og
skemmtum okkur um helgar.
Það rifjast upp að þá einhvern tím-
ann veittist að mér á Tunglinu slags-
málagengi, hrifsaði gleraugun af mér
og skallaði mig. Og sem þeir mynda
sig nokkrir til að sparka í mig sér Jón
hvað fram fer og er snar að bregða for-
sprakka þeirra en kippa mér sjónlaus-
um og blóðugum út um hliðardyr áður
en nokkur áttar sig á hvarfi okkar og
hleypur með mig heim til bróður síns
heilu og höldnu, snarráður og úrræða-
góður í senn. En þegar ráðist var á
Jón var enginn til að bjarga honum.
Það ódæðisverk er og verður okkur al-
gjörlega óskiljanlegt hversu oft sem
okkur er sagt það og hversu mikið sem
við um það hugsum.
Breki Þór og Ilmur Ösp missa nú
pabba sinn barnung, eins og hann áð-
ur mömmu sína. Guð gefi þeim þann
styrk sem hann átti til að vaxa og
þroskast og blómstra samt. Við hin
þökkum fyrir bjartar og fallegar
minningar um góðan félaga og vottum
fjölskyldunni djúpa samúð.
Helgi Hjörvar.
Morðingjar heimsins og myrkraverkaher
myrða okkur líka einhvern veginn
Þessar línur Böðvars Guðmunds-
sonar sungum við Jón Þór kvöldið sem
við fyrst hittumst í glöðum hópi ung-
liða Æskulýðsfylkingar Alþýðubanda-
lagsins, fullir af eldmóði, staðráðnir í
að leggja okkar af mörkum í barátt-
unni fyrir betri heimi. Hvern hefði ór-
að fyrir því að 22 árum síðar myndi
einn úr þessum glaða hópi verða bor-
inn til grafar, fórnarlamb myrkraafl-
anna. Okkur hinum harkaleg áminn-
ing um óklárað verk.
Jón Þór lét hins vegar verkin tala og
í hans huga var allt mögulegt. Hvort
sem hann sat að tafli, spilaði bridge,
valdi sér nám, bústað eða vinnu, alltaf
hugsaði hann úr fyrir hinn hefð-
bundna ramma. Oftast tókst honum að
koma okkur hinum á óvart. Hann var
sjálfs sín herra, frjáls eins og fuglinn
og laus við þær viðjar sem hégóma-
girndin og óttinn við álit annarra reyn-
ist svo mörgum. Hjá Jóni Þór var nán-
ast ekkert eftir bókinni og alltaf dáðist
maður að hugrekki hans og hug-
myndaflugi.
Í dag kveð ég minn kæra vin. Eftir
standa ótal minningar um ærslafullar
samverustundir menntaskólaáranna
og gefandi endurfundi eftir mislangan
aðskilnað. Þakklæti fyrir fölskvalausa
vináttu sem nú er öll blandast dapurri
eftirsjá. Ástvinum Jóns Þórs votta ég
mína dýpstu samúð. Megi minning-
arnar líkna í sorginni og reynast okkur
sem eftir lifum, dýrmætt leiðarljós.
Hrannar Björn
Arnarsson.
JÓN ÞÓR
ÓLAFSSON
Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og
langafi,
TEITUR KRISTJÁNSSON,
Digranesheiði 13,
Kópavogi,
lést á heimili sínu föstudaginn 24. febrúar.
Jarðarför auglýst síðar.
Margrét Birna Aðalsteinsdóttir,
Hilmar Teitsson,
Sigrún Teitsdóttir,
Ingvar Teitsson,
Birgir Teitsson,
Aðalsteinn Þór Teitsson,
Jóhanna Kristín Teitsdóttir
og fjölskyldur.