Morgunblaðið - 08.08.2006, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 08.08.2006, Blaðsíða 33
✝ Þórður Björns-son fæddist á Hafnarhólmi í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu hinn 8. nóvember 1922. Hann lést á Land- spítala í Fossvogi af völdum áverka eftir bílslys 23. júlí síðastliðinn. For- eldrar hans voru Björn Björnsson, verslunarmaður á Hólmavík, f. 31. október 1875 í Hlíð í Fellshreppi í Strandasýslu, d. 31. október 1950, og Guðbjörg Níelsdóttir, f. 21. desember 1883 á Kleifum á Selströnd, d. 10. júlí 1964. Þórður átti fimm systkini, Vilhjálm, Guðrúnu, Ketil, Kristin og Guðlaug. Hinn 16. júlí 1953 giftist Þórður , Guðrúnu Guðbjörns- dóttur, f. 11. október 1922, d. 17. janúar 2000. Foreldrar hennar voru Guðbjörn Bjarna- son og Katrín Kristín Guð- mundsdóttir. Þórður og Guð- rún eignuðust sjö börn. Þau eru: 1) Bára, f. 26. okt. 1943, maki Hrafnkell Óskarsson, þau eiga þrjú börn og átta barna- börn. 2) Gunnar, f. 4. jan. 1945, maki Toby Sigrún Herman, hann á fimm börn og sjö barnabörn. 3) Guð- björg, f. 1. apr. 1946, hún á tvö börn og sex barna- börn. 4) Sævar, f. 15. mars 1947, d. 14. okt. 1985, maki Særún Ólafsdóttir, hann átti eina dóttur og tvö barnabörn. 5) Val- týr, f. 14. apr. 1950, ókvæntur og barnlaus. 6) Guðbirna Kristín, f. 19. feb. 1958, hún á þrjú börn. 7) Þórdís Guðrún, f. 28. nóv. 1961, hún á eina dóttur. Þórður og Guðrún hófu bú- skap á Hólmavík sumarið 1944, bjuggu þar til 1953 er þau fluttust suður til Reykjavíkur og stuttu seinna til Keflavíkur, þar sem þau bjuggu allt til árs- ins 1996. Þá fluttu þau á Sel- tjarnarnesið. Þórður sótti sjó- inn þegar hann bjó á Hólmavík. Eftir að hann flutti suður vann hann við sjómennsku, hjá Varn- arliðinu og síðar sem leigubíl- stjóri. Að ósk Þórðar fór útför hans fram í kyrrþey. Yndislegur ættfaðir, langafi ömmustrákanna minna Björns Leví og Hrafnkels, Þórður Björnsson, hefur kvatt, snöggt og óvænt. Þessi fallegi maður geislaði af gleði og lífskrafti hvar sem hann birtist. Líf- ið hafði gefið honum góðar gjafir, eiginkonuna kæru Guðrúnu Guð- björnsdóttur og börnin sjö sem bera foreldrum sínum fagurt vitni. Það leyndi sér ekki þegar ég hitti Þórð, hversu stoltur hann var af öll- um börnunum sínum, stórum og smáum. Hann bókstaflega geislaði þegar hann horfði á yngstu kyn- slóðina. Alltaf fylgdist hann með ár- angri og störfum þeirra sem eldri voru í afkomendahópnum og gladd- ist einlæglega yfir velgengni þeirra og árangri í námi og störfum. Kær- leikurinn og samheldnin í fjölskyldu Þórðar er mikil og veit ég að hans hlutur var stór. Þórður var fæddur á Hólmavík og þar sló hjarta hans sterkt alla tíð. Þegar sonur hans Gunnar keypti Björnshús, ættar- óðalið fyrir vestan og gerði upp, var Þórður sannarlega hamingjusamur og naut þess innilega að eyða meiri tíma í sinni gömlu heimabyggð. Það var einmitt í einni af hans mörgu ferðum til hans elskuðu Hólmavíkur sem slysið varð. Nú er höfðinginn Þórður Björnsson farinn í ferðina sem bíður okkar allra. Ég trúi því að birtan sem umlék Þórð í lífinu baði hann á strönd eilífðarlandsins. Ég bið góðan Guð að blessa hann og alla sem hann elskaði. Helga Mattína Björnsdóttir, Grímsey. Þegar ég fékk símtalið frá Bíu systur minni um að þú hefðir lent í hræðilegu slysi, elsku pabbi minn, var ég harmi slegin. Ég mun aldrei gleyma þessari stundu. Ég trúi því ekki enn að þú sért farinn. Ég rifja upp allar þær minningar sem ég á til um þig. Þú hefur alltaf verið mér svo nálægur. Uppvaxtarárin mín á Hólmavík og seinna í Keflavík. Þú varst alltaf til staðar. Þú varst mik- ill fjölskyldumaður og stoltur af hópnum þínum og við börnin þín nutum góðs af því. Þú varst heil- steyptur og sterkur karakter og ávallt tilbúinn að hjálpa til þegar við kölluðum eftir því. Þú vannst hörðum höndum til að veita okkur það sem við þurftum og kvartaðir aldrei. Þegar barnabörnin bættust við eitt af öðru og þér var annt um framgang hvers og eins þeirra. Þú varst yndislegur faðir og afi og sannur vinur í raun. Við áttum góð- ar stundir saman nú á seinni árum þínum á tíðum ferðum okkar til Hólmavíkur á þínar ættarslóðir þar sem þú fræddir okkur um þína tíma. Þú naust þín vel innan um hópinn þinn og umvafðir okkur öll. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þennan dýrmæta tíma með þér, pabbi minn. Þú hafðir mikla útgeisl- un og sérlega góða nærveru enda naust þú þín í margmenni og varst hrókur alls fagnaðar. Það var ávallt stutt í brosið þitt fallega og faðm- lagið þitt blíða sem ég á aldrei eftir að gleyma. Ég á eftir að sakna þín og okkar góðu samverustunda og kveð þig með innilegu þakklæti fyr- ir að vera ávallt minn. Elsku Bía, Benni, Magga og Siggi, mig langar að þakka ykkur sérstaklega fyrir það hugrekki sem þið sýnduð á þessari örlagastundu sem slysið varð. Góður guð styrki ykkur. Systkinum mínum og fjöl- skyldum sendi ég samúðarkveðjur. Ég bið algóðan guð að blessa fal- lega sálu þína, minn elskaði pabbi. Þín dóttir, Bára. Elsku hjartans fallegi pabbi minn. Það er svo óréttlátt að þurfa að kveðja þig á þennan hátt, þenn- an hressa og heilsuhrausta mann. En örlögin láta ekki að sér hæða og þú kvaddir okkur á brúðkaupsdegi ykkar mömmu. Sjálfsagt hefur mömmu verið farið að lengja eftir þér. Alltaf var nú hægt að reiða sig á ykkur mömmu, sama hvað gekk á í þessari stóru fjölskyldu okkar. Það gekk nú ansi mikið á þegar ég ákvað að flytja til útlanda og þú ókst mér út á flugvöll. Við grétum bæði, en seinna sagðir þú við mig að þú hefðir grátið vegna þess að þú varst svo viss um að ég kæmi ekki aftur heim. Svo þegar við „litlu“ stelpurnar þínar áttum Báru og Jóhönnu með þriggja vikna milli- bili, var ekki annað tekið í mál en að ég kæmi líka heim til ykkar mömmu og það var yndislegt að sjá ykkur ganga frá vöggu til vöggu til að athuga hvort allt væri í lagi með stúlkurnar. Svo vildir þú að við systurnar fengjum bílinn þinn til þess að þurfa ekki að labba með barnavagnana til dagmæðranna og koma okkur svo í vinnu. Þú tókst bara rútuna og vildir ekki að þetta yrði rætt meira. Svona varstu alltaf, elsku pabbi minn, ákveðinn en um leið svo yndislegur. Eldri systkini okkar tala nú stundum um að við höfum fengið miklu meira en þau fengu á sínum tíma. Kannski er eitthvað til í þessu enda mikill ald- ursmunur á okkur. Þegar yngsta barn ykkar mömmu var tveggja ára fæðist fyrsta barnabarnið ykkar. Þú varst svo stoltur afi þegar þú hélst á honum nafna þínum undir skírn. Reyndar var mamma líka montin því nafnið hans tengdist líka hennar nafni. Takk fyrir hvað þú varst allt- af duglegur að fylgjast með fótbolt- anum hjá honum nafna þínum, hringjandi til að athuga hvernig honum hefði gengið í leikjunum og þú mættir meira að segja á nokkra þeirra. Ég verð nú að segja þér að hann Þórður skoraði eitt mark fyrir þig og annað fyrir Ellu frænku í fyrsta leiknum í Liverpool-ferðinni um daginn. Hann var stoltur hann litli Þórður þinn þá og þú hefðir líka verið montinn af honum. En þú fylgdist líka með öðrum börnum mínum og alltaf voruð þið mamma mætt á sýningar þegar hún Bára mín var í fimleikum og ballett. Þú kallaðir hana drottninguna þína og það gladdi hana gríðarlega. Ég man líka hvað henni Katrínu minni þótti alltaf gott að koma í heimsókn til ykkar mömmu eftir skóla. Hún elskaði að kúra hjá ykkur og komst að því, líkt og ég sjálf, að alltaf var pláss í rúminu ykkar. Ég mun aldr- ei gleyma því þegar þú gekkst meira að segja úr rúmi fyrir mig þegar ég var kasólétt. Svo fæddist barnið og þú varst alveg ákveðinn í því að það færi best um mig í ykkar herbergi. Ég sagðist nú alveg geta sofið í mínu herbergi en þú sagði að þar væri allt of mikill dragsúgur. Ég fann nú aldrei þennan dragsúg en þakklát var ég að fá að vera í þægindunum með litla barnið mitt fyrstu dagana. Það er ekki lítið sem þú hefur gert fyrir mig og börnin mín, elsku pabbi minn. Hvernig í ósköpunum er hægt að þakka það allt nógu vel í svona lítilli minning- argrein? En ég veit að þú þekkir hug minn og hjarta og þar sérðu núna bara þakklæti, ást og söknuð. Svo deyr Ella frænka rúmum sól- arhring á eftir þér og sorgin er svo mikil hjá okkur öllum þessa dagana. En við erum samrýnd fjölskylda og við hlúum hvert að öðru eins og þið mamma kennduð okkur. Elsku pabbi. Ég veit að þú pass- ar hana mömmu vel og við munum passa hvert annað vel hérna megin. Sofðu rótt, elsku pabbi minn. Þín sunddrottning, Guðbirna Kristín. Elsku hjartans besti afi minn, mínar fyrstu minningar um þig eru skemmtilegar, fullar af af ást og umhyggju, þar sem ég dansa fyrir þig í fínum kjól við laglínurnar „dansi, dansi dúkkan mín“ og „dansa fyrir hann afa sinn“. Það var gott að koma til þín, alltaf fékk ég knús, kossa og mikla hlýju og ást. Þá er líka sterk minningin þar sem ég sit og fæ að horfa á þig raka þig, mér fannst þú svo flottur. Góðar minningar tengdar þér síðustu ár voru ferðirnar norður á Hólmavík, en það var staður sem ekki var hægt að hallmæla í þín eyru, því þar var allt best og fallegast í þín- um huga. Þegar minnst var á ferð norður var svar þitt ávallt „ég er til“. Þú kenndir mér í þessum ferð- um að elska og tengjast Hólmavík. Þar var margt brallað saman og alltaf glatt á hjalla. Þú þekktir marga og naust þín í botn að spjalla og rökræða hin ýmsu málefni. Við vorum einmitt saman í slíkri skemmtiferð norður þegar þú kvaddir okkur svo skyndilega og óvænt. Þú sem áttir, þrátt fyrir þín tæp 84 ár, eftir að gera svo mikið og margt með okkur. Nú ertu kom- inn til hennar ömmu og ég veit að þið fylgist með okkur og hafið gam- an af. Knús og kossar, elsku besti afi minn. Undir háu hamra belti höfði drúpir lítil rós, þráir lífsins vængja víddir, vorsins yl og sólarljós Ég held ég skynji hug þinn allan, hjartasláttinn, rósin mín Er kristallstærir daggardropar drjúpa milt á blöðin þín Æsku minnar leiðir lágu lengi vel um þennan stað Krjúpa niður kyssa blómið, hversu dýrðlegt fannst mér það Finna hjá þér ást og unað, yndislega rósin mín Eitt er það sem aldrei gleymist, aldrei, það er minning þín. (Páll Jónsson.) Þín Margrét Kristín. Sigríður mín Kristín. Þú sagðir nafnið mitt alltaf eins og varst sá eini sem gerðir það á þann máta. Þú hafðir einkaleyfi á þessari út- gáfu. Elskulegur afi minn, með þinn breiða faðm og fallega hjartalag. Þú sem varst eitt það mesta glæsi- menni sem ég hef séð, við góða heilsu þrátt fyrir háan aldur. Ég minnist æskuáranna á heimili ykkar ömmu þar sem ávallt var líf og fjör. Ég minnist jólanna þar sem þú varst ávallt með okkur. Ég minnist Hólmavíkurferðanna þar sem þú naust þín í faðmi fjölskyldunnar á æskuslóðum þínum, þar sem við fórum á fjölda tónleika hjá Gunnari frænda og dönsuðum öll fjölskyldan saman fram á rauða nótt. Ég minn- ist faðmlagsins þíns og hlýlegheit- anna sem ávallt geisluðu frá þér. Ég minnist klettsins sem þú ávallt varst og fallega bjarta brossins þíns. Ég er stolt af því að þú varst afi minn. Jafnstolt af þér og þú varst af mér sem þú sýndir með því að mæta í hverja athöfn sem merkti áfanga í lífi mínu. Við útskriftina mína síðastliðið sumar mættirðu í Borgarleikhúsið þar sem þú vildir vera við alla athöfnina og tókst ekki annað í mál. Og um jólin komstu til mín þegar yfir stóð heilmikið jóla- ball með öllu á heimili mínu. Þú varst knúsaður og dásamaður bak og fyrir og hafðir gaman af. Já, þú varst flottur afi. Ég var því ekki tilbúin að kveðja þig og á erfitt með að trúa því að þú sért farinn svona snöggt í ferðina miklu. Ég veit þó í hjarta mínu að þú ert kominn á góðan stað til ömmu og annars sam- ferðafólks þíns þar sem vel verður hugsað um þig. Ég kveð þig minn yndislegi, fallegi afi með söknuði og innilegu þakklæti fyrir samveruna. Elsku mamma, Gunnar, Bía, Dilli, Bidda og Þórdís, ég votta ykk- ur mína dýpstu samúð. Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir. Elsku afi minn. Þetta er óbæri- legur skilnaður að þurfa að kveðja þig. Þú, sem varst svo lífsglaður, hughraustur og sterkur í lífinu. Það er svo sárt að hugsa til þess að fá aldrei að sjá þig aftur og ég fæ aldrei að heyra röddina þína á sunnudögum um hádegisbilið. Sorg- in er svo sterk og söknuðurinn svo mikill að það er eins og hjartað mitt muni bresta. En eins og þú sagðir alltaf: „Þetta er bara partur af líf- inu.“ Hjartans afi, hvíldu nú rótt. Vertu viss um að ég reyni að standa mig eins og þú og amma kennduð mér. Og ég reyni að gera ykkur eins stolt af mér eins og ég hef allt- af verið af ykkur ömmu. Ég þakka ykkur fyrir þann heiður að fá að vera dótturdóttir ykkar. Hjartans þakkir fyrir allt saman, elsku afi. Sofðu nú rótt, elsku hjartað mitt. Þín Jóhanna María. Elskulegur mágur minn Þórður Björnsson er látinn, hann lést af slysförum í Hveravík nálægt Hólmavík. Fráfall hans vekur mér sáran söknuð, því við vorum svo miklir vinir. Daginn áður en hann fór norður hringdi hann til mín að kveðja, því hann ætlaði að vera á æskustöðv- unum um helgina, en þannig endaði það. Elsku Þórður, ég þakka þér sam- fylgdina og vináttuna, þeir sem hafa átt mikilhæfan og góðan vin missa mikið, ég er ein af þeim. Börnum Þórðar, góðum vinum og afkomendum öllum sendi ég mínar bestu kveðjur. Elsku vinur, guð blessi minningu þína. Ólöf Ragnheiður Guðjónsdóttir (Lalla). Þau eru bæði farin. Nunna (föð- ur-) systir og Tóti. Skemmtilega ólík. Aldrei lognmolla í kringum Nunnu. Tóti, hlédrægur og hæg- mæltur. Sterk tengsl föður míns og Nunnu systur sáu til þess að Kefla- vík var sjálfsagður áningarstaður á leiðinni til Reykjavíkur norðan af Ströndum. Þórður Björnsson hafði þann sér- staka eiginleika að öllum, bæði börnum og fullorðnum, leið vel í ná- vist hans. Það sem átti hvað mestan þátt í því var hvernig hann heilsaði. Það var eins og hann væri að heilsa nákomnum vini. Þetta gerði hann á sinn fölskvalausa og einlæga hátt. Síðustu árin fjölgaði samverustund- um okkar. Oft voru þær tengdar því að einhver hafði komist yfir gamlan hollan mat, svið, siginn fisk, selspik, skötu og annað góðgæti. Þessar stundir með honum verða ekki fleiri og það er sárt að hugsa til þess að hvorki hann né Elín mágkona hans verða með í Þorláksmessuskötunni. Elsku frændsystkin, við sam- hryggjumst ykkur. Minningin um mætan mann lifir. Við þökkum Þórði samfylgdina. Aðalbjörn og Ingibjörg. ÞÓRÐUR BJÖRNSSON MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 8. ÁGÚST 2006 33 MINNINGAR Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug vegna útfarar elskulegrar móður okkar, tengda- móður, ömmu og langömmu, GUÐVEIGAR INGIBJARGAR KONRÁÐSDÓTTUR (Immu), Hringbraut 50, Reykjavík. Börn, tengdabörn, barnabörn og langömmubörn. Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför ástkærrar móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, HALLDÓRU GUÐMUNDSDÓTTUR hjúkrunarfræðings, Kjarrhólma 10, Kópavogi. Sérstakar þakkir færum við starfsfólki tauga- deildar Landspítala og hjúkrunardeildar 3B Hrafnistu, Hafnarfirði. Helgi Hauksson, Guðmundur Hauksson, Rannveig Garðarsdóttir, barnabörn og barnabarnabarn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.