Morgunblaðið - 19.09.2006, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 19.09.2006, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 19. SEPTEMBER 2006 11 FRÉTTIR ENN á eftir að fylla í töluvert margar stöður á hjúkrunarheimilum. Einkum virðist vanta fagfólk til starfa, en einnig ófaglærða, að sögn forsvarsmanna hjúkrunarheimila. Aðalheiður Vilhjálmsdóttir, hjúkrunarfor- stjóri í Skjóli, segir stöðuna skárri núna en hún hafi verið um mánaðamótin ágúst/sept- ember. Tekist hafi að ráða eitthvað af fólki en enn séu lausar stöður. Einkum sé skortur á fagfólki – hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og félagsliðum sem hafi ekki mjög mikið kom- ið inn á elliheimilin en „það er okkar von að þeir fari að koma inn“. Aðalheiður segir að ekki hafi komið til þess í Skjóli að hætta að taka við nýju heimilisfólki vegna manneklu. „Ágústmánuður var okkur rosalega erfiður,“ segir hún, en tekist hafi með vinnu góðs starfsfólk að bjarga málum. Hún bendir á að sumarfríin nái fram í september, en skólar byrji það snemma að sumarfólk vinni ekki nema rétt fram í ágúst. Aðalheiður segir ljóst að ekki sé hægt að reka fulla starfsemi í hús- inu ef ekki fáist starfsfólk. „Vissulega höfum við rætt það neyðarbrauð að ef mönnun tækist ekki yrði að fara út í lokun á plássum,“ bætir hún við. Spurð um framhald mönnunarmála segir Aðalheiður að það sé „í heildina ekki skárra framundan, því miður“. Alma Birgisdóttir, hjúkrunarforstjóri Hrafnistu, segir að gengið hafi þokkalega að ráða fólk til starfa á heimilum Hrafnistu í haust og betur en í fyrrahaust. „En það eru ennþá stöður lausar hjá okkur,“ segir Alma. Um 400–500 manns vinna á Hrafnistuheim- ilunum og eftir á að manna um 12 stöðugildi fyrir veturinn, að sögn Ölmu. Hér sé átt við ófaglært starfsfólk. „Við erum þó nokkuð vel mönnuð af hjúkrunarfræðingum en gætum bætt við sjúkraliðum, sérstaklega á Hrafnistu í Reykjavík,“ segir hún. Að sögn Helgu Jóhönnu Karlsdóttur, starfsmannastjóra á dvalar- og hjúkrunar- heimilinu Grund, hefur gengið upp og ofan að fá fólk til starfa undanfarið en þar vantar um 10–12 manns til starfa. „Núna vantar aðallega fagfólk eins og sjúkraliða. Hitt hefur verið að tínast inn og við erum ofsalega dugleg að púsla [saman vöktum],“ segir Helga. Sér hafi heyrst á deildarstjórum á Grund að staðan hafi oft verið verri en nú, en ekki sé hægt að segja að vel hafi gengið undanfarið. Deildir séu mannaðar með fólki sem sé í hlutastörf- um, og þá taki starfsfólk í fullu starfi að sér aukavaktir. Helga segir að útlendingum í starfi hjá Grund hafi farið fjölgandi, en þeir sinni ekki störfum þar sem mikil samskipti séu við heim- ilisfólk fyrr en þeir séu farnir að tala íslensku að ráði. „Við höfum látið þá byrja í ræsting- unum,“ segir hún. Fólk hafi svo lært og fikrað sig áfram. „Oft þegar það hefur náð sæmileg- um tökum á íslensku færir það sig yfir á deild- irnar því það er betur borgað,“ segir Helga. Starfsfólk tekur aukavaktir Kristín Högnadóttir, starfandi hjúkrunar- forstjóri á hjúkrunarheimilinu Eir, segir heimilið ekki illa sett þegar komi að mönnun. Hún bendir á að aldrei hafi þurft að loka plássum vegna skorts á starfsfólki hjá heim- ilinu, heldur hafi starfsfólk tekið að sér auka- vinnu. „Við erum ekkert í slæmum málum þó svo að allar stofnanir vilji fá meira af fagfólki,“ segir hún. Erlendir starfsmenn sæki um í rík- um mæli en færri Íslendingar. „Ég held að það megi segja að launin séu fyrirstaða. Fólk leitar í önnur störf þar sem það fær hærri laun,“ segir hún. Vantar fagfólk til starfa Morgunblaðið/Ómar Vantar fólk Ekki hefur tekist að fylla í allar stöður á hjúkrunarheimilum og vantar töluvert marga til starfa. Á myndinni sjást íbúar Hrafnistu í Reykjavík leika á hljóðfæri. Vandi við að manna hjúkr- unarheimili er ekki nýr af nál- inni og þetta haustið hefur ekki tekist að ráða í allar stöður, að sögn talsmanna heimilanna. Í HNOTSKURN » Útlendingum sem sinna störfum áhjúkrunarheimilum hefur fjölgað. » Á Grund er hlutfall útlendinga íumönnunarstörfum innan við 10% en mjög hátt í ræstingum, eða um 80%, að sögn starfsmannastjóra. » Forsvarsmenn hjúkrunarheimila segjaað gerð sé krafa um íslenskukunnáttu hjá þeim starfsmönnum sem vinna við umönnun heimilisfólks. elva@mbl.is Vestmannaeyjar | Hundrað ár voru liðin 1. september sl. frá því að vitinn á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var tekinn í notkun. Saga vitans nær aft- ur til ársins 1905 þegar Hannes Haf- stein ráðherra lagði fram fjárlaga- frumvarp sem gerði meðal annars ráð fyrir byggingu vitans. Raunar voru Eyjamenn ekkert áfjáðir í að fá vitann. Jón Magnússon, þingmaður Vestmannaeyja á þessum tíma, sagði að Eyjamenn legðu lítið kapp á að fá vitann því þeir teldu sig ekki þurfa hann. Vitinn var byggður fyrir ís- lenskt fé sumarið 1906. Gísli J. Johnsen fékk það hlutverk að byggja vitann en það var danska vitamálastofnunin sem hannaði hann. Kostaði það 3.500 krónur í byggingu og í stað þess að hlaða vitann úr blá- grýtissteinum eins og sýnt var á teikningu dönsku vitamálastjórn- arinnar var húsið steinsteypt og mun Stórhöfðaviti vera fyrsta húsið í Vestmannaeyjum sem var stein- steypt. Ekki voru fulltrúar stofn- unarinnar ánægðir með bygginguna og gerðu umtalsverðar breytingar á vitanum eftir á. Þegar hann var tek- inn í notkun 1. september 1906 var hann lýstur upp með steinolíulampa. Skútuskipstjórar óskuðu eftir vita í Vestmannaeyjum Fyrsti vitinn á Íslandi reis á Vala- hnúk á Reykjanesi árið 1878. Það voru skútuskipstjórar í Reykjavík sem óskuðu eftir vita „á Vest- mannaeyjum“ eins og það er orðað í bréfi til landshöfðingja 23. janúar 1901. Þar segir að mesta gagn af vita væri á Vestmannaeyjum og þarnæst á Dyrhólaey. Landshöfðingi var þessu samþykkur og lagði til við dönsku vitamálastjórnina að viti yrði byggður í Vestmannaeyjum en stjórnin var því mótfallin. Helstu rök skútuskipstjóra voru að viti á Heima- ey væri ómissandi, bæði fyrir „skip sem fara frá útlöndum hingað og fyr- ir fiskiskip frá Faxaflóa, sem nú sækja mestallan afla sinn á vetr- arvertíðinni á Eyrarbakkabugtina og kringum Vestmannaeyjar“. Árið 1910 var byggt bárujárns- klætt timburhús fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans, vestan við vitann. Þrjátíu og tveimur árum síðar var húsið fyrst raflýst, en þá var reist vindmylla á Stórhöfða. Myllan dugði ekki lengi og brotnaði niður nokkru síðar í óveðri og í mars 1943 var sett upp ljósavél. Það var ekki fyrr en árið 1979 sem rafmagn var lagt upp í Stórhöfða. Eldingu lýstur niður Notast var við olíulampa í vitanum til ársins 1943 en þá var hann loks raflýstur með 60 W peru. Árið 1957 var komin díselljósavél og þá var sett upp 1000 W pera. Það var svo 21. maí 1979 klukkan 12.15 sem rafkerfi Stórhöfðavita var tengt sam- veitukerfinu, Rafmagnsveitu Vest- mannaeyja. Hinn 12. mars 1921 laust eldingu niður í vitann á Stórhöfða. Virtist heimilisfólkið hafa misst meðvitund við það og þegar það rankaði við sér var kviknað í vitahúsinu. Náðist að slökkva eldinn áður en eldurinn náði til olíunnar í vitanum. Aðeins tvisvar er vitað til þess að eldingu hafi lostið niður í vita á Íslandi og í bæði skiptin hefur það verið viti á Heimaey. Í fyrra skiptið Stórhöfðaviti 1921 og í síðara skiptið Urðaviti árið 2003. Guðmundur Ögmundsson var fyrsti vitavörðurinn í Stórhöfða og gegndi því starfi fyrstu fjögur árin en eftir 1910 má segja að saga vitavarð- ar í Stórhöfða sé um leið ættarsaga núverandi vitavarðar, Óskars J. Sig- urðssonar. Afi hans, Jónatan Jóns- son, var næstur og gegndi starfinu til ársins 1935 þegar faðir Óskars, Sig- urður Jónatansson, tók við. Hann var næstu þrjátíu árin vitavörður en þá settist Óskar í hans stól og situr enn. Hann hefur alið allan sinn aldur á Stórhöfða og býr þar í dag ásamt syni sínum, Pálma Frey, sem tekur veðrið til móts við föður sinn. Óskar er síðasti vitavörðurinn á Ís- landi sem býr í vitahúsinu en ennþá eru nokkrir vitaverðir sem hirða um vitana og skrá ítarlegar veður en unnt er að gera sjálfvirkt. Óskar hef- ur verið iðinn við fuglamerkingar og eru merkingar hans þekktar um all- an heim og hefur hann hlotið margs- konar viðurkenningar fyrir starf sitt. Hann hefur merkt tæplega 85 þús- und fugla og árið 1997 var það stað- fest í Heimsmetabók Guinness að Óskar hefði merkt flesta fugla í heim- inum. Ljúft að alast upp á Stórhöfða Óskar segir að það hafi verið ljúft að alast upp á Stórhöfða. Er tíminn í kringum seinni heimsstyrjöldina honum sérstaklega minnisstæður. „Þá sást ég lítið heima að mér skilst. Var mest með Bandaríkjamönnunum sem voru þarna upp frá.“ Tólf bragg- ar voru settir upp á Stórhöfða og hluti af höfðanum var algjört bann- svæði þar sem Bandaríkjamenn voru með eitthvað leynilegt í gangi. Segir Óskar að síðar hafi menn haldið því fram að þarna hafi þeir verið með radar sem þá þekktist ekki. Óskar tók við sem vitavörður af föður sín- um, Sigurði Jónatanssyni, árið 1965 og varð þriðji ættliðurinn sem gegndi því starfi en afi hans, Jónatan Jóns- son, var einnig vitavörður í Stórhöfða og hefur ættarsaga þeirra verið skráð á Stórhöfða frá árinu 1910. Hann er einnig sá vitavörður sem lengst hefur setið. Heimildir: Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006 og heimaslod.is. Stórhöfðaviti 100 ára Morgunblaðið/Sigurgeir Óskar Jakob segir að það hafi verið ljúft að alast upp á Stórhöfða. Hann sést hér með Stórhöfðavitann í bakgrunni. Eftir Sigursvein Þórðarson Sigurður Jónatansson (lengst t.v. á myndinni) gegndi starfi vitavarðar í 30 ár, frá 1935 til 1965 þegar sonur hans, Óskar Jakob (lengst t.h.), tók við. Óskar Jakob byrjaði að taka veðrið á móti föður sínum árið 1952. Þeir búa nú á Stórhöfða, feðgarnir Pálmi Freyr Óskarsson (í miðið) og Óskar Jakob.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.