Morgunblaðið - 20.03.2007, Qupperneq 36

Morgunblaðið - 20.03.2007, Qupperneq 36
36 ÞRIÐJUDAGUR 20. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Áslaug HrefnaSigurðardóttir fæddist í Hafnafirði þ. 12. mars 1916. Hún lést á hjúkr- unarheimilinu Seljahlíð í Reykja- vík þ. 5. mars s.l. Foreldrar hennar voru Sigurður Sig- urðsson lyfsali og skáld f. 15. sept- ember 1879 í Kaup- mannahöfn, d. 4. ágúst 1939 í Reykjavík og Jóna Ágústína Ásmundsdóttir f. 26. maí 1895 í Hafnarfirði, d. 8. nóv- ember 1923 í Reykjavík. Hálfsystur Áslaugar voru Helga Sigurðardóttir og Berg- þóra Magnúsdóttir. Þær eru báð- ar látnar. Áslaug giftist Guðmundi S. Árnasyni verslunarmanni þ. 29. maí 1936, hann er fæddur 24. september 1910, sonur hjónanna Árna Þórarinssonar prests og Elísabet- ar Sigurðardóttur. Börn Áslaugar og Guðmundar eru: Ágústa f. 29. september 1937. Börn hennar eru: Earl Ralph, Lance Kristján, Kim El- ísabet, Sherry Ása og Katherine Heat- her. Eiginmaður Ágústu er Daniel Harting. Kristján f. 1. júní 1941. Börn hans eru: Ívar og Guðmundur. Eiginkona Solveig Magnúsdóttir. Sigurður f. 20. september 1942. Börn hans eru: Sólveig Birna, Árni, Tómas, Daníel Snæ- björn (látinn) og Katrín. Eig- inkona Sigurðar er Ineke Wheda. Útför Áslaugar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 20. mars, og hefst athöfnin kl. 15. „En ótrúlegt að vera næstum sjö- tíu ára og eiga enn foreldra á lífi,“ sagði vinkona mín við mig um dag- inn. Einhvern veginn fannst mér að þetta yrði alltaf svona; mamma og pabbi hlytu að lifa í mörg ár í viðbót! En nú eru hlutirnir öðruvísi; ég ekki lengur „mömmu-stelpa“, held- ur bara gömul kerling úti í Ameríku, sem á eftir að syrgja móður sína það sem eftir er. Móðir mín kom í heiminn 12. mars 1916, frekar óvelkomið og óskilgetið barn. Móðir hennar, Jóna Ágústína, lenti í ástarævintýri við skáldið og glæsimennið Sigurð Sigurðsson frá Arnarholti, apótekara í Vestmanna- eyjum. Hún var aðeins nítján ára en hann næstum fertugur, harðgiftur með stálpaða dóttur, Helgu. Ágústína kom sem sumarstúlka til að afgreiða í apóteki Sigurðar. Feg- urð hennar var of mikil freisting fyr- ir skáldið og var það þeim báðum of- viða. Þegar hún sneri aftur til heimahúsa sinna var hún ekki leng- ur „kona einsömul“. Þótti þetta mik- ið hneyksli og vandamál fyrir bláfá- tæka stúlku, sem hafði dreymt um yndislega framtíð, er hún sigldi til Vestmannaeyja. Samt tóku foreldr- ar hennar og systkini vel á móti henni, þótt húsakynni væru þröng. Þarna fæddist mamma mín snemma um vorið og heimurinn varð aldrei samur eftir það. Hún var skírð Áslaug Hrefna. Hrefnunafnið var eftir vinsælu ást- arkvæði föður hennar með sama heiti. Ágústína púlaði við alls kyns erf- iðisvinnu myrkranna á milli. Eitt sinn fór hún á síld til Ísafjarðar og tók litlu Ásu sína með sér. Hún þótti óvenju skírt og skemmtilegt barn, en samt frekar alvörugefin og full- orðinsleg. Draumlynd og gædd þessum ótrúlega stóru og gáfulegu augum, vann hún brátt hjörtu margra á síldinni. Henni var gefin olíuborin svunta sem náði niður á tær. Árum seinna mundu margir eftir þessum ungu mæðgum og töl- uðu um dugnað litlu fjögurra ára telpunnar, þótt hún næði ekki til botns á síldartunnunum. Þar hlaut hún viðurnefnið „Hörpubarnið“ eftir ævintýrinu um Áslaugu í hörpunni. Síðar giftist Ágústína Magnúsi, laglegum en drykkfelldum hrossa- kaupmanni, sem kallaður var „Hesta-Mangi“. Fæddist þá Berg- þóra, hálfsystir mömmu. Heddý var mömmu mikill gleðigjafi á þessum fyrstu árum þeirra saman. En örlaganornir voru í óða önn að spinna sinn sorgarvef utan um fjöl- skylduna, sem bjó nú á Laugalandi, þar sem amma mín Ágústína taldi það hlunnindi að geta þvegið þvotta í læknum sem rann þar í gegn, tær og ómengaður. Oft minntist mamma þess að verða að fara út í ískalda nóttina til að fela sig í þúfunum þegar Magnús kom heim dauðadrukkinn. Ágústína grúfði sig yfir litlu telpurnar sínar í myrkrinu til að vernda þær fyrir of- beldinu. Svo varð amma barnshafandi á ný. Barnið fæddist andvana og var lagður í faðm dauðvona móður sinn- ar. Hún hafði fengið banvæna fóst- ureitrun og var jörðuð við hlið litla sonarins, aðeins 27 ára gömul. Berg- þóra var ættleidd af yndislegu fólki en aumingja „Hörpubarnið“ var ekki alveg eins lánsöm. Hún lenti hjá kvenskassi í Hafnarfirði sem átti tvær dætur. Þótt mamma væri að- eins sjö ára misþyrmdi konan henni á sál og líkama, þannig að hún beið þess aldrei bætur. Varð hún tauga- veikluð og kvíðin upp frá því. Sem betur fer þekkti ókunnug kona til málsins og skrifaði skáldinu sem þá vann að björgunarmálum Vestmannaeyinga.. Hún sagði að hann skyldi koma strax og bjarga dóttur sinni, ef hann vildi sjá hana lifandi. Var Sigurður ekki lengi að hrifsa Ásu litlu úr klóm illfyglisins. En nú átti hann í miklum vanda. Konan hans, engillinn og gáfnaljósið Anna Pálsdóttir, vildi taka mömmu í fóstur, en Helga dóttir þeirra þver- neitaði að fá þennan hneykslunar- verða ávöxt ótrúmennsku föður síns inn á heimilið. Helga vann! Það hlýt- ur að hafa verið hálf kómísk sjón að sjá þennan hávaxna mann, ráfandi um götur Reykjavíkur, leiðandi litla, hálfgerða beinagrind sér við hlið. Hún var spegilmynd hans eigin augna, með þvertopp og háfætt eins og hann. Nú skálmaði hann um göt- urnar í miðbænum meðan hann hugsaði málið. En „nornirnar“ misstu nú allan sinn mátt fyrir englum Guðs, því allt í einu bar að annað hávaxið glæsi- menni, með óendanlega milt og stórt hjarta, Kristján Einarsson, vin afa. Hann var giftur Ingunni Árnadóttur frá Stóra-Hrauni og áttu þau þá son- inn Árna. Síðar eignuðust þau Elínu. Spyr Kristján vin sinn: „Siggi minn, hvaða fallega stúlka er þetta sem þú leiðir?“ Apótekarinn trúði vini sínum fyrir vandamálinu og Kristján – allt- af svolítið „impulsive“ var ekki lengi með svarið: „Mikið held ég að hún Inga mín yrði ánægð með að eiga svona fallega dóttur.“ Þar með var málið leyst á Lækjartorgi. Ólst mamma upp í góðu yfirlæti hjá þess- um yndislegu manneskjum. Rúsínan í pylsuendanum var þó sú, að Ingunn átti yngri bróður, sem ennþá var á Stóra-Hrauni á Snæ- fellsnesi. Þegar Inga og Kristján fóru vestur til að kynna nýju dóttur sína, tók faðir hennar, séra Árni, mömmu í hönd, leiddi hana fram fyr- ir syni sína fimm og spurði: „Jæja drengir mínir, hver ykkar verður nú svo lánsamur að eignast þessa litlu apótekaradóttur fyrir konu?“ Mamma, einlæg og hreinskilin að vanda, spurði þá: „Hver er þessi langi með bólurnar?“ Það var faðir minn, Guðmundur Árnason, fjórtán ára, og roðnaði hann undir táninga- bólunum er hann leit ævilanga ást- ina sína og lífsförunaut í fyrsta sinn. Þegar mamma hafði menntast trúlofuðust þau á laun undir Dóm- kirkjuveggnum, því sveitalubbinn berklaveiki var ekki talinn nógu góð- ur fyrir „kontor-dömuna“ sem hafði unnið mörg verðlaun fyrir vélritun og enska hraðritun í Skotlandi. En svo datt allt í dúnalogn og afi minn, séra Árni, gaf hjónaefnin saman á Grundarstíg 15b, efri hæð. Ég skaust í heiminn einn hrá- slagalegan haustmorgun árið 1937. Og má með sanni segja að það var ást við fyrstu sýn er við mæðgurnar fyrst horfðumst í augu. Við vissum þá ekki að aðeins nítján árum seinna myndi ég yfirgefa Ísland – og hana – fyrir fullt og allt, okkur báðum til mikils trega. Ég þakka Guði fyrir að hafa átt hana að móður. Hún var leiðarljósið mitt og engillinn í lífi mínu þótt Atlantshafið aðskildi okk- ur. Alltaf trúði hún á mig, sama hvaða vitleysu ég gat flækt mér í. Mildi, miskunnsemi og óbilandi ást eru gjafir frá henni sem ég met mest. Húmor, listræna og einhver ólýsanleg dýpt í verki og hugsun eru líka það sem einkenndi þessa ynd- islegu móður mína. Aldrei hef ég þekkt nokkra manneskju sem átti jafn bágt með að ljúga. Hún bók- staflega gat ekki logið, ekki einu sinni í gríni. Mamma var gimsteinn sem glitraði eins og sólin sjálf. Hún hellti geislum sínum yfir börnin sín alla tíð. Síðustu árin lá mamma á sjúkra- deildinni í Seljahlíð. Það var unun að sjá hvað starfsfólkið þar var gott við hana, en mesta unun var að sjá þennan „langa með bólurnar“ koma á hverjum degi, kyssa hana og segja henni hvað hann elskaði hana heitt. Þau voru gift í næstum 71 ár. Hann alltaf hennar stóra ást í lífinu. Þau áttu margt sameiginlegt, enda mætti telja á fingrum sér dagana sem þau voru aðskilin. Ást þeirra á list, fuglum og dýrum var sérlega áberandi. Þau voru líka svo stolt af sonum sínum, listamönnunum Krist- jáni og Sigurði, en síðustu árin var það Kristján bróðir sem sinnti mömmu og pabba af mikilli ást og mikilli nærgætni. Nú eigum við systkinin bágt að vera búin að missa þennan miðpunkt okkar lífs. En mest hefur elsku pabbi okkar misst og ég bið Guð almáttugan að gefa honum huggun í sinni miklu sorg. Elsku hjartans mamma mín. Þú veist að ástarsagan okkar er aðeins að byrja, því við hittumst aftur við fætur Frelsarans okkar, Jesú Krists. Þá verða öll tár og kvalir á bak og burt að eilífu. Og það sem best er: við þurfum aldrei framar að kveðjast, hjartað mitt! Svo lýk ég þessu með kvæðinu sem faðir þinn orti, því þú varst sólin mín: „Sól, stattu kyrr. Þó að kalli þig sær til hvílu – ég elska þig heitar. Þú blindar mín augu, en þú ert mér svo kær, og eins hvort þú skín, eða bæn minni neitar. Ég sæki þér nær, þótt þú færir þig fjær – þótt þú fallir í djúpið, mitt hjarta til geislanna leitar! (Sig.Sig. frá Arnarholti). Þín alltaf elskandi „mömmu- stelpa“. Ágústa. Þegar ég var fjórtán ára veittust mér þau forréttindi að dvelja um nokkurra mánaða skeið hjá ömmu minni og afa á Íslandi. Minningarn- ar um þann tíma eru jafn ljóslifandi fyrir mér núna eins og ég hefði upp- lifað þennan tíma í fyrra. Ég held ég hafi varðveitt þær eins og dýrmætan gullmola, vegna þess hversu sjaldan ég hitti ömmu og afa. Amma var gjafmildasta kona sem ég hef þekkt. Þegar ég sendi henni eitthvað þá gaf hún mér eitthvað ennþá betra og fallegra í staðinn. Og þótt hún liti aldrei af mér þegar ég var hjá henni leyfði hún mér samt að þroskast á minn hátt; vera ég sjálf. Einu sinni man ég eftir því að hafa verið úti að leika mér með krökkum í Reykjavík. Þá rakst ég á afa, Guð- mund Árnason. Hann þrýsti pen- ingaseðli í lófann á mér eins og svo oft áður og sagði: „Þú segir ekki ömmu að þú hafir séð mig elskan Áslaug Hrefna Sigurðardóttir ✝ Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför yndislega pabba míns, sonar okkar, bróður, mágs, frænda og unnusta, HLYNS HEIÐBERGS KONRÁÐSSONAR. Hugi Snær Hlynsson, Konráð Eggertsson, Jakobína Guðmundsdóttir, Perla Lund Konráðsdóttir, Högni Hallgrímsson, Salka Heiður Högnadóttir, Katla Móey Högnadóttir, Rósa Hjörvar. ✝ ÁSGEIR JAKOBSSON bifreiðastjóri, Langholtsvegi 17, Reykjavík, er látinn. Jarðarförin hefur farið fram. Innilegar þakkir til framkvæmdastjóra leigubif- reiðastöðvarinnar Hreyfils-Bæjarleiða og annarra bifreiðastjóra sem heiðruðu minningu hans. Jafnframt kærar þakkir til starfsfólks 4. hæðar Skjóls fyrir frábæra umönnun. Sigurrós Nanna Ásgeirsdóttir og aðrir aðstandendur. ✝ Innilegar þakkir sendum við öllum þeim, sem sýndu okkur samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömu, FREYGERÐAR MAGNÚSDÓTTUR áður til heimilis í Klettaborg 4, Akureyri. Þorleifur Jóhannsson, Olga Ellen Einarsdóttir, Símon Jón Jóhannsson, Selma Kristín Erlendsdóttir, ömmu- og langömmubörn. ✝ Kær eiginmaður, faðir, tengdafaðir og afi, KRISTJÁN HAFLIÐASON, Funalind 13, Kópavogi, lést á Landspítalanum laugardaginn 17. mars. Jarðarförin verður auglýst síðar. Helga Wíum Karlsdóttir, Elínborg Kristjánsdóttir, Kristinn Kristinsson, Kristján Viktor og Helga. ✝ Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samúð, hlýhug og vináttu við fráfall elskulegs föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, PER SULEBUST, Aðalstræti, Bolungarvík. Grétar S. Pétursson, Sólveig S. Kristinsdóttir, Anna S. Pétursdóttir, Gísli Hallgrímsson, barnabörn og langafabörn. ✝ Ástkær eiginkona, dóttir, tengdadóttir og systir, SIGRÍÐUR STEFÁNSDÓTTIR, Skólagerði 20, Kópavogi, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þriðjudaginn 13. mars. Útför hennar fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi fimmtudaginn 22. mars kl. 15.00. Fyrir hönd aðstandenda, Ísleifur Arnarson, Jóhanna Stefánsdóttir, Stefán Stefánsson, Hallbera Ísleifsdóttir, Stefán Stefánsson, Davíð Stefánsson, Þóra Ragnheiður Stefánsdóttir.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.