Morgunblaðið - 29.12.2007, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 29.12.2007, Blaðsíða 12
12 LAUGARDAGUR 29. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ ERLENT Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is BENAZIR Bhutto, fyrrverandi for- sætisráðherra Pakistans, var jarð- sett í grafhýsi ættar sinnar nokkra kílómetra frá heimabænum Naudero í sveitahéraði í sunnanverðu landinu í gær. Bhutto hvílir við hlið föður síns, Zulfiqars Ali Bhutto forsætis- ráðherra, sem herinn lét hengja 1979. Hundruð þúsunda manna fylgdu henni til grafar, margir grétu og börðu sér á brjóst til að tjá sorg sína. Víða hefur komið til harkalegra mótmæla í Pakistan vegna morðsins á Bhutto. Gripið hefur verið til mik- illa öryggisráðstafana en meira en 19 manns hafa fallið í átökum í kjölfar tilræðisins í Rawalpindi á fimmtu- dag. Var herlögreglumönnum skipað að skjóta umsvifalaust á alla sem efndu til óeirða og var það gert í Hyderabad í Sindh-héraði þegar múgurinn kveikti m.a. í banka og bensínstöð. Var á „aftökulista al-Qaeda“ Ekki er enn vitað hver sjálfs- morðssprengjumaðurinn var. Ráð- herra innanríkismála, Javed Cheema, gaf í skyn í gær að al-Qaeda samtökin hefðu staðið á bak við til- ræðið á fimmtudag og sagði Bhutto hafa verið á aftökulista samtakanna. „Það er mjög líklegt að al-Qaeda hafi staðið fyrir þessari hörmulegu árás til að grafa undan öryggi í Pakistan,“ sagði ráðherrann. Blaðið The Asia Times segir að yfirmaður al-Qaeda í Afganistan, Mustafa Abu al-Yazid, hafi hringt í einn fréttamanna þess og sagt samtökin bera ábyrgð á morðinu á Bhutto. En ekki er sannað að svo sé og bent er á að hún hafi átt sér marga volduga fjandmenn, með- al annars í hernum og leynilögregl- unni ISI, en einnig meðal pólitískra keppinauta. Einhverjir gætu hafa gert út trúarofstækismann til að myrða hana og ekki víst að nokkurn tíma verði hægt að rekja sporin. Minna má á að fjöldi lítilla, sjálf- stæðra hópa öfgasinnaðra íslamista starfar í landinu. Ofstækisfullir múslímar, íslamist- ar, í Pakistan hötuðu fáa meira en Bhutto vegna þess hve vestræn hún var í háttum og naut mikillar hylli bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Bhutto var einarðasti forystumaður Pakistana í baráttunni gegn ofstæk- isöflunum og dauði hennar skilur eft- ir sig tómarúm sem seint verður fyllt, að sögn pakistanska fréttaskýr- andans Ahmed Rashid í grein á vef- síðu breska ríkisútvarpsins, BBC. Verst sé að nú sé ekki í augsýn neinn stjórnmálaleiðtogi sem líklegur sé til að bregðast af nægilegri hörku við helstu hættunni gagnvart ríkinu sem stafi frá íslamistum og talíbönum með bækistöðvar í Pakistan. Pólitískur risi meðal dverga „Hún var tvisvar kjörin forsætis- ráðherra, tvisvar vék herinn henni frá völdum vegna ásakana um spill- ingu og vanhæfni en Bhutto var samt pólitískur risi í landi pólitískra dverga og handbenda hersins,“ segir Rashid. Bhutto mun fyrr árinu hafa sam- þykkt að deila völdum með Musharr- af gegn því að hann afsalaði sér stöð- unni sem forseti herráðsins. Hún hafði sjálf brennt sig illa á því að hafa lítil áhrif í hernum og ætlaði að tryggja sér betri stöðu ef hún tæki aftur við ríkisstjórnarvöldum. En Rashid segir að ljóst hafi orðið fyrir nokkrum vikum að Musharraf hafi ekki viljað starfa með Bhutto þrátt fyrir þrýsting í þá veru af hálfu Bandaríkjamanna. Forsetinn og æðstu menn hersins hafi beitt sér af alefli fyrir því að fyrrverandi bandamenn Musharrafs í Múslímabandalagi Pakistans sigr- uðu í væntanlegum þingkosningum. Um þriðjungur þjóðarinnar hafi ávallt stutt Bhutto, segir Rashid, og reiði almennings beinist ekki ein- göngu gegn forsetanum fyrir að tryggja ekki betur öryggi hennar. Herinn og stjórn Musharrafs hafi aldrei gætt hlutleysis en þess í stað virst reyna að grafa undan flokki Bhutto með kosningasvikum. Stjórnvöld í Pakistan kenna al-Qaeda um morðárásina Reuters Árásin Mynd af sjónvarpsskjá sem sýnir Benazir Bhutto nokkrum sekúndum áður en tilræðismaðurinn lét til skarar skríða. Á myndinni til hægri sést blossinn frá byssu mannsins. Bhutto var einarðasti andstæðingur hryðjuverkamanna í landi sínu en fleiri aðilar vildu hana feiga FRÉTTASKÝRING Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is MORÐIÐ á Benazir Bhutto gæti kippt grund- vellinum undan stefnu Bandaríkjamanna í Pak- istan síðustu árin en með stuðningi sínum við Pervez Musharraf forseta vildu þeir tryggja sér stuðning þessa öfluga múslímaríkis í baráttunni gegn alþjóðlegum hryðjuverkaöflum. Síðasta út- spilið var að embættismenn George W. Bush for- seta fengu í haust Musharraf til að samþykkja að Bhutto sneri heim eftir að spillingarákærur á hendur henni hefðu verið felldar niður. Markmiðið var sögulegar sættir. Lengi hefur verið gagnrýnt að Bandaríkjastjórn skyldi alltof lengi veðja á einn hest í Pakistan, þ.e. Mushar- raf forseta og mörg dagblöð vestanhafs hvöttu í gær stjórn Bush til að venda sínu kvæði í kross og endurmeta stuðninginn við Musharraf. Viðræður og frumkvæði Bhutto The New York Times sagði í leiðara að stefna Bandaríkjamanna yrði framvegis að beinast að því að byggja upp öflugt lýðræðisskipulag í Pak- istan „sem nýtur trausts og stuðnings eigin borgara og ræður yfir jafnt vilja sem búnaði til að berjast gegn al-Qaeda og talíbönum. Binda verður enda á þá stefnu að veðsetja hagsmuni Bandaríkjanna í Pakistan einum eða tveim ein- staklingum.“ Ljóst er að nokkuð er síðan vöflur voru komn- ar á Bush og menn hans vegna þess hve óvin- sæll Musharraf var orðinn og vegna einræðistil- burða hans. The Washington Post sagði að end- urkoma Bhutto til heimalandsins í október hefði verið afrakstur leynilegra samningaviðræðna í heilt ár, þess má einnig geta að gamall vinur Bhutto og fyrrverandi sendiherra, Bandaríkja- maðurinn Peter Galbraith, segir hana sjálfa hafa stungið upp á viðræðunum. Bandaríkja- stjórn varð loks ljóst að Bhutto væri eina mann- eskjan sem gæti bjargað Musharraf, lykil- bandamanni í baráttunni gegn hryðjuverkum, frá falli. Það gæti Bhutto með því að samþykkja að deila völdum með Musharraf. Stjórnarfarið fengi yfir sig lýðræðislegri blæ. Æðstu menn í Washington trúðu statt og stöðugt að Musharraf væri heill í andstöðu sinni við hryðjuverkasamtök ofstækisfullra íslamista sem í reynd ráða yfir sumum landamærahér- uðunum við Afganistan. En aðrir hafa fullyrt að ýmsir af æðstu mönnum ör- yggisstofnana ríkisins hafi um áratuga- skeið leikið tveim skjöldum og stutt talíbana eða gefið þeim a.m.k. lausan tauminn og þá um leið gert baráttu tug- þúsunda erlendra friðargæsluliða NATO í Afganistan mun erfiðari en ella. Zalmay Khalilzad, sem er afganskur að uppruna og nú sendiherra Bandaríkj- anna hjá Sameinuðu þjóðunum, er sagð- ur hafa frá upphafi efast um Musharraf vildi beita sér af afli gegn talíbönum og öðrum íslamistum. Pakistan er ekki aðeins fátækt og vanþróað í mörgum efnum. Því er stundum lýst sem ríki sem geti snögglega breyst í „hrunið ríki“, land þar sem allt hefðbundið stjórnkerfi er í rúst. Vandinn er að ekki einvörðungu er Pakistan geysifjölmennt múslímaríki heldur ræður það yfir nokkrum tugum kjarnorkusprengna. Þegar bætt er út í blönduna þeirri staðreynd að senni- lega leynast höfuðpaurar al-Qaeda í fjalllendi í norðaustanverðu landinu og rækta þar samstarf sitt við talíbana í Afganistan verður skiljanlegra hve mikla áhyggjur menn hafa víða um heim af þróun mála, einkum ráðamenn í Washington. Herinn eina virka stofnunin? Sumir sérfræðingar segja að í þessu óstöðuga og flókna samfélagi sé herinn eina stofnunin sem ráði yfir nægilega miklum aga og skipulagi til að hindra ríkið í að liðast í sundur og er þetta ein ástæðan fyrir þolinmóðum stuðningi Banda- ríkjamanna við Musharraf. Aðrir segja á móti að með slíkum fullyrðingum sé hlutunum snúið á haus. Lýðræðið geti ekki skotið traustum rót- um fyrr en herinn hætti að gerast stöðugt sjálf- skipaður dómari í stjórnmálalífi landsins. Herinn hefur alltaf haft lyklavöldin í stjórn- málalífi landsins og takist Musharraf að halda tryggð hans er ekki víst að forsetinn verði að víkja. En geta Bandaríkjamenn fundið nýjar leiðir til að tryggja áhrif sín og þá ekki síst að- drætti í Afganistan sem byggjast mjög á góðum samskiptum við Pakistan? Þekktasti leiðtogi stjórnarandstæðinga er nú, að Bhutto fallinni, Nawas Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra sem hefur verið eindregnari en Bhutto í and- stöðu sinni við herinn og er sagður hata Mush- arraf. Er erfitt að ímynda sér að Bandaríkja- mönnum takist að leiða hann og Musharraf saman en líklega er þó best að hafa í huga að pakistönsk stjórnmál eru óútreiknanleg. Morðið getur hins vegar orðið til þess að Bandaríkjamenn verði enn háðari hinum óvin- sæla Musharraf en fyrr. Skoðanakannanir gefa til kynna að 70% Pakistana séu nú mjög andvíg Bandaríkjunum og faðmlagið við Musharraf gæti enn aukið óvinsældirnar. Í grein í The Los Angeles Times er sagt að stjórn Bush hafi mikl- ar áhyggjur af því að harmurinn vegna morðs- ins á fimmtudag muni verða kveikjan að út- breiddum mótmælum gegn stjórn Musharrafs. Dýrt faðmlag við Musharraf Benazir Bhutto George W. Bush Pervez Musharraf Bush sagður hafa tekið of mikla áhættu með því að byggja stefnuna í Pakistan á einum manni sem nú er að einangrast og sumir telja auk þess ótraustan bandamann í baráttunni gegn hryðjuverkum

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.