Morgunblaðið - 26.03.2008, Page 11
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. MARS 2008 11
FRÉTTIR
„Á NÍUNDA áratugnum fór fram hér á landi
landssöfnun fyrir tæki, svokölluðum heilasírita, til
að greina flogaveika einstaklinga sem mögulega
gætu farið í skurðaðgerð til útlanda. Það er reynd-
ar komið enn betra tæki síðan. Nú eru tækin til en
þá vantar mannskap. Þetta er mjög dapurlegt.“
Þetta segir Þorlákur Hermannsson, formaður
LAUF, Landssamtaka áhugafólks um flogaveiki,
en í Morgunblaðinu í gær kom fram að undanfarin
tvö ár hefði ekki verið hægt svo vel væri að taka
flogaveika í rannsókn á taugadeild Landspítalans,
vegna manneklu. Rannsóknin er nauðsynleg til að
greina upptök floga í heila sjúklinganna. Út frá
þeim upplýsingum er metið hvort heilaskurð-
aðgerð henti viðkomandi, en aðgerðin getur lækn-
að fólk af flogaveiki. „Ég þekki marga sem hafa
farið í aðgerðina og fengið góðan bata. Þessi að-
gerð er gjörbylting fyrir þetta fólk.“
Þorlákur segir að flogaveikir, líkt og aðrir sjúk-
lingar, finni fyrir manneklunni á Landspítalanum.
„Það er dapurlegt til þess að hugsa að rúm skuli
standa tóm vegna þess að það vantar starfsfólk.
Það er alls ekki nógu vel hlúð að flogaveikum eða
öðrum sjúklingum sem glíma við taugasjúkdóma.
Í raun er þetta til skammar fyrir íslenska ríkið.“
Hann segir gott að peningar séu lagðir í þróun-
arverkefni erlendis. „En við þurfum að líta okkur
nær í þessum efnum, ekki sópa vandamálunum
undir teppið.“
Þorlákur tekur fram að starfsfólk taugadeild-
arinnar sé framúrskarandi, hins vegar starfi það
oft við erfiðar aðstæður.
Fordómar enn til staðar
Þorlákur segir fordóma í garð flogaveikra enn
til staðar í íslensku samfélagi þó að almennings-
álitið hafi þokast í rétta átt á undanförnum árum.
„En það er enn víða pottur brotinn í þessum mál-
um,“ segir hann og nefnir að flogaveikir fái ekki
ferðaslysatryggingu hjá tryggingafélögum. Þá
segir hann það þekkt að flogaveikum sé hafnað á
vinnumarkaði líkt og niðurstaða rannsóknar á at-
vinnumálum flogaveikra, sem birt var í Morg-
unblaðinu í gær, sýnir. „Fólk hefur verið rekið úr
vinnu vegna sjúkdómsins, jafnvel hjá hinu op-
inbera.“
Þorlákur þekkir mörg dæmi um þetta, meira að
segja hafi flogaveikur maður verið rekinn úr
björgunarsveit vegna sjúkdómsins.
Fræðsluátak í uppsiglingu
Í kjölfar aðalfundar LAUF nú í apríl nk. er
stefnt að því að setja af stað í samfélaginu öflugt
fræðsluátak um félagið og flogaveiki. „Ekki veitir
af,“ segir Þorlákur. „Það er eins og orðið floga-
veiki sé algjört bannorð. Það eru enn miklar rang-
hugmyndir varðandi sjúkdóminn. Við erum til
dæmis enn að berjast við að koma þeim skila-
boðum á framfæri að alls ekki eigi að setja eitt-
hvað í munn manneskju sem fær flogakast, það
getur t.d. brotið tennur. En þetta er eitthvað sem
lifir í þjóðarsálinni frá gamalli tíð.“
„Nú eru tækin til en
þá vantar mannskap“
Morgunblaðið/Golli
Formaður LAUF vill
fræða almenning um floga-
veiki og minnka fordóma
„ÞAÐ vantar miklu meiri þjónustu við alla okkar sjúklingahópa,“ sagði Elí-
as Ólafsson, yfirlæknir á taugadeild LSH í Morgunblaðinu í gær. Sagði
hann þjónustu við Parkinsonsveika „klárlega“ hafa vernsað. Ástæðuna má
rekja til manneklu og útskriftarvanda sem háir starfsemi á sjúkrahúsinu
víðar en á taugadeild. Formaður Parkinsonsamtakanna staðfestir þetta og
segir Parkinsonsveika hafa orðið fyrir verulegum óþægindum vegna
þessa.
Morgunblaðið/Júlíus
Þjónustan versnað
vegna manneklu
„ÞETTA mikla álag getur farið að
ógna öryggi sjúklinga,“ segir Álfheið-
ur Árnadóttir, formaður hjúkrunar-
ráðs Landspítala,
um það álag sem
starfsfólk spítal-
ans býr við vegna
manneklu og út-
skriftarvanda.
„Við verðum að
fara að horfast í
augu við það að
nauðsynlegt er að
bæta vinnuaðstöð-
una og launin,“
segir Álfheiður.
„Þetta er vandamál alls samfélagsins,
ekki aðeins Landspítalans. Við þurf-
um að gera upp við okkur hvernig
þjónustu við viljum fá þegar við verð-
um veik. Það kostar peninga og spít-
alinn er í fjársvelti. Það er búið að
spara eins og hægt er.“
Áflheiður bendir á að ýmislegt hafi
þegar verið gert til að bæta mönnun í
hjúkrun, t.d. að fjölga nemum í há-
skólunum og að setja aukinn kraft í
starfsþróun á LSH. Hins vegar muni
á næsta áratug 147 hjúkrunarfræð-
ingar og 95 sjúkraliðar á LSH hætta
störfum sökum aldurs og það sé mikið
áhyggjuefni.
Álfheiður segir í raun ótrúlegt hvað
hjúkrunarfræðingar hafa sýnt mikla
þolinmæði við erfiðar aðstæður.
„Þeim þykir auðvitað vænt um starfið
sitt, vilja gera vel og vonast eftir að
ástandið batni.“
Hún segir ljóst að það séu launa-
málin sem nú brenni á starfsfólkinu.
„Samningar eru lausir og ég tel að
hjúkrunarfræðingar horfi mjög til
þess.“
Mun ógna
öryggi
sjúklinga
Nauðsynlegt að bæta
vinnuaðstöðu og laun
Álfheiður
Árnadóttir
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur
sunna@mbl.is
MEÐFERÐ sjúkdóms á borð við
Parkinson er langtímaverkefni en
ekki bráðameðferð. Hún hefur því
ekki fallið vel að starfsemi tauga-
deildar Landspítala, þar sem nær
öll orkan fer nú í að bjarga í bráða-
tilfellum og daglegum vandamálum
í rekstri deildarinnar. Ekki er við
starfsfólk deildarinnar að sakast
heldur þá sem skammta starfsem-
inni fé.
Þetta segir Ásbjörn Einarsson,
formaður Parkinsonssamtakanna,
en í Morgunblaðinu í gær kom fram
að vegna manneklu og útskriftar-
vanda hefur þjónusta Landspítal-
ans við m.a. Parkinsonveika versn-
að. Ástandið er ekki bundið við
taugadeildina heldur er það lýsandi
fyrir þá stöðu sem upp er komin
víðar á spítalanum.
„Parkinsonsveiki er ólæknandi
en hægfara taugasjúkdómur en það
má lengi draga úr einkennum veik-
innar með lyfjagjöf,“ segir Ásbjörn.
Hann segir lyfjagjöfina flókna og
einstaklingsbundna en algengt sé
að Parkinsonssjúklingar taki 6-8
tegundir lyfja og sum þeirra upp í
átta sinnum á dag. „Lyfjaskömmt-
unin er stöðugur línudans þar sem
ofskömmtun er jafn óheppileg fyrir
sjúklinginn og vanskömmtun og
hún breytist með þróun sjúkdóms-
ins,“ segir Ásbjörn ítrekar að með-
ferð sjúklinganna falli ekki að starf-
semi taugadeildinnar við þær
aðstæður sem þar ríkja í dag.
Bundu vonir við dagdeildina
„Parkinssonssjúklingar bundu
miklar vonir við starfsemi dagdeild-
arinnar þegar hún var sett á fót.
Þar átti að vera aðstaða til lyfja-
stillingar fyrir Parkinsonssjúka og
einnig sérstakur hópur sérfræðinga
á mismunandi sviðum, Parkinson-
steymi, sem átti að geta skoðað
heildarmyndina í sjúkdómsferli
sjúklinga og leiðbeint þeim sam-
kvæmt því. Ekkert af þessu hefur
gengið eftir, þrátt fyrir fagrar yf-
irlýsingar á fundum, og það er ljóst
að það verður ekki á næstunni mið-
að við núverandi álag á taugadeild.“
Annað vandamál, sem Parkinson-
samtökin verða sífellt meira vör við,
varðar innlögn Parkinsonssjúkl-
inga á aðrar deildir Landspítalans
en taugadeild, t.d. vegna annarra
sjúkdóma, slysa eða einfaldlega
vegna skorts á rými á taugadeild.
„Á þessum deildum er oftast lítil
eða engin sérþekking á flóknum
taugasjúkdómum og er þá alltof al-
gengt að lítið sem ekkert tillit sé
tekið til sérþarfa sjúklingsins
vegna Parkinsonsveikinnar,“ segir
Ásbjörn.
Hann segir dæmi um að Park-
insonssjúklingar hafi orðið fyrir
verulegum óþægindum og jafnvel
varanlegum skaða af þessum sök-
um inni á spítalanum. „Þarna ættu
sérfræðingar taugadeildar að koma
að málum og veita ráðgjöf en það
gerist ekki í dag,“ segir Ásbjörn.
„Það ber að taka fram að við teljum
að hér sé ekki við starfsfólk tauga-
deildar að sakast sem berst af bestu
getu við að halda í horfinu við erf-
iðar aðstæður, heldur þá sem
skammta deildinni fé og aðstöðu.“
Urðu fyrir var-
anlegum skaða
Óviðunandi að leggja Parkinsonsveika
inn á aðrar deildir en taugadeild
Í HNOTSKURN
»Yfir 500 Íslendingar eru meðParkinsonsveiki og um 40 ný
tilfelli greinast árlega.
»Parkinsonssjúkir þurfareglulega á stuttum inn-
lögnum á taugadeild LSH að
halda til lyfjastillinga.
»Því hefur verið erfitt aðkoma við vegna þrengsla og
manneklu og því eru þeir veikari
og þurfa að liggja lengur inni er
þeir loks koma til meðferðar.
„ÞAÐ sem lýst er þarna á við um okk-
ur öll,“ segir Guðjón Sigurðsson, for-
maður MND-félagsins, um frétta-
skýringu
Morgunblaðsins í
gær um áhrif
manneklu og út-
skriftarvanda
Landspítala á
þjónustu við sjúk-
linga. Hann segir
skipulega teymis-
vinnu á sjúkra-
húsinu að mörgu
leyti lamaða.
„Starfsfólk er
upptekið við að slökkva elda sem ekki
eru fyrirséðir, en hefur engan tíma til
að fylgjast með sjúklingum, hringja
út og kanna ástand hjá okkur svo
koma megi í veg fyrir bráðainnlagn-
ir,“ segir Guðjón.
Hann segir að á taugadeild liggi nú
maður sem hafi verið á spítalanum í
fjórtán mánuði. „Hann fékk algera
taugalömun en er að styrkjast hægt
og rólega,“ segir Guðjón. „Hann var
tekinn af biðlista fyrir Grensás sem
segir viðkomandi að ekki taki því að
endurhæfa hann, hann geti borið
beinin á taugalækningadeild, teppt
pláss fyrir bráðveika í stað þess að
nálgast það að geta verið heima. Þó að
dvöl á [taugadeild] sé frábær vegna
gæða starfsfólksins er engum hollt að
búa þar lengur en algera nauðsyn ber
til. Það vantar „stíflueyði“ innan LSH
og ekki síður kröftugan „stíflueyði“ á
milli félagskerfis og heilbrigðiskerfis.
Þetta vita orðið allir en það virðist
vanta að ráðamenn hafi kjark og þor
til að höggva á hnútana. Við hjá sjúk-
lingasamtökunum erum klár til að að-
stoða hvenær sem er. Strax ef einhver
hefur kjarkinn til að ákveða aðgerðir.
Nóg er komið af kjaftæðinu.“
Vantar
stíflueyði
á LSH
Guðjón
Sigurðsson