Morgunblaðið - 21.05.2008, Page 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. MAÍ 2008 29
saman fyrir 44 árum. Ég var sextán
ára gömul en Hrönn þrjátíu og átta
ára, þegar við bjuggum saman vetr-
arlangt í Reykjavík. Eiginmenn okk-
ar voru þá saman til sjós á Bjarma.
Við urðum strax vinkonur og aldrei
þvældist aldursmunurinn fyrir vin-
áttu okkar. Vináttu sem einkenndist
af trausti, trúnaði og elsku sem aldrei
bar skugga á. Slíkur vinskapur verð-
ur ekki á torgum keyptur. Líf Hrann-
ar var ekki alltaf dans á rósum. Mikill
harmur var að henni og fjölskyldunni
kveðinn þegar sonur hennar tólf ára
og tvö systkinabörn létust af slysför-
um. Missirinn markaði hana fyrir lífs-
tíð en sorgina og harm sinn bar hún í
hljóði. Hrönn hafði ákveðnar skoðan-
ir á mönnum og málefnum. Hún lá
ekki á sínum skoðunum væri eftir
þeim leitað. Hrönn var hrein og bein
og kom alltaf til dyranna eins og hún
var klædd. Hún var falleg og glæsileg
kona. Hávaxin og grönn, ljós yfirlit-
um með sterkan persónuleika. Hún
bjó yfir ákveðinni reisn og tign.
Hrönn var fagurkeri og náttúruunn-
andi. Heimili hennar bar fagurkeran-
um vitni. Blómadýrkandi var hún og
ræktaði garðinn sinn í Hafnargötu 10
svo af bar . Hrönn var mikill tónlistar-
unnandi, tónelsk og músíkölsk. Hún
spilaði á hljóðfæri á yngri árum, á
saxófón. Dugnaður og elja voru að-
alsmerki Hrannar. Hún var ham-
hleypa til verka og var búin að skila
góðu ævistarfi. Er ekki ofsagt að hún
hafi unnið fram á síðustu stund.
Margir hafa fengið að njóta fallegra
og listilega vel gerðra muna úr henn-
ar höndum. Það voru forréttindi í
mínum huga að eiga vináttu Hrannar
Kristjánsdóttur. Ég vil þakka sam-
fylgdina,vináttu og tryggð við mig og
mína. Ég votta Önnu Baldvinu,
Birnu, Guðlaugu og fjölskyldum
þeirra samúð mína . Megi allar góðar
vættir styrkja þær og vernda.
Svanhildur Árnadóttir.
Í nótt er gott að gista Eyjafjörð
og guðafriður yfir strönd og vogum.
Í skini sólar skarta haf og jörð
og skýjabólstrar slegnir rauðum logum.
Það veit hver sál, að sumar fer í hönd,
en samt er þögn og kyrrð um mó og dranga,
og hvorki brotnar bára upp við strönd
né bærist strá í grænum hlíðarvanga.
Svo ljúft er allt í þessum heiða hyl,
svo hátt til lofts og mjúkur barmur jarðar,
að víst er engin veröld fegri til
en vornótt björt í hlíðum Eyjafjarðar.
(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.)
Þegar vorið var í óðaönn að boða
komu sína með birtu, fuglasöng,
litlum gróðurnálum og því sem til-
heyrir kvaddi sómakonan Hrönn
Kristjánsdóttir þetta líf. Ég kynntist
henni fyrir rúmlega 40 árum síðan
þegar vinátta tókst með okkur Önnu
Baddý, dóttur hennar, við upphaf
skólagöngu í MA. Þrátt fyrir að ekki
væsti um okkur í heimavistinni var
vinsælt að skjótast til Dalvíkur um
helgar og fá heimabakkelsi og annað
góðmeti sem Hrönn hristi fram úr
erminni eins og ekkert væri. Hús-
bóndinn Jóhannes var skipstjóri, afla-
sæll og vel virtur, og mikið að heiman
vegna starfs síns. Hann óskaði oft eft-
ir því að Anna kæmi í heimsókn þegar
hann var í landi og það var sama þótt
norðlenskur hávetur væri alltaf vildi
Anna bregðast við bón hans og þá var
gott að vera ungur og áræðinn. Við
eigum margar minningar frá ferðum
sem kallaðar væru svaðilfarir í dag en
þóttu alveg erfiðisins virði þegar tek-
ið var á móti okkur með kostum og
kynjum á Dalvíkinni.
Hrönn gat við fyrstu kynni virst
hrjúf og stundum óþarflega hreinskil-
in. Hún hafði orðið fyrir sárum missi
við hörmulegt slys sem henni var ekki
tamt að tala um og hún hefur eflaust
brynjað sig gegn. Við nánari kynni
kom í ljós hversu umhyggjusöm hún
var, nösk á mannlegt eðli og fann til
samkenndar með þeim sem lentu í
einhvers konar mótbyr.
Hrönn var einstaklega myndarleg
við alls konar handavinnu og gerði
hvert meistarastykkið á fætur öðru,
sat aldrei iðjulaus. Ég naut góðs af
því. Hún gaf mér m.a. bróderað
vöggusett, listaverk sem góðar óskir
fylgdu, svo saumaði hún á mig buxna-
dress þegar við Anna vorum í Kenn-
araskólanum. Það var hvítt og í blúss-
unni var breið blúnda í mittið, gæti
örugglega verið hátíska í dag. Hrönn
hlýtur að hafa hannað það og það
sýndi sig oft hve hugmyndarík og
flink hún var.
Ég á margar góðar minningar frá
samskiptum við Hrönn en ein mynd
er mér þó sérstaklega minnisstæð frá
heimsókn á Dalvík og það er vor-
mynd. Sólin skein og veðrið var eins
og það gerist best á norðlensku vori.
Hrönn var úti í garði, búin að setja út
sumarhúsgögnin og farin að huga að
blómunum sem hún var einstaklega
lagin við, eins og fleira. Hún fór af
vandvirkni yfir öll beðin og hlúði að
nýgræðingnum. Þessari mynd hefur
brugðið fyrir oftar því hún var ein-
staklega umhyggjusöm við allt ung-
viði og var mjög annt um afkomendur
sína og fjölskyldu. Þeim öllum sendi
ég samúðarkveðjur. –
Nú fljúga mínir fuglar, góða dís.
Nú fagna englar guðs í Paradís.
(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.)
Ég minnist með hlýhug góðrar
konu.
Jóna Möller.
Fuglarnir gleyma að syngja um vorið
þögulir flögra um.
Himininn felur sitt bláa auga
breytir harmi í regn.
Tíminn eitt augnablik staldrar við
tregur lítur um öxl.
Dropi ferðast í átt til sjávar
að allra áfangastað
í ósnum ótal raddir fagna,
hún Hrönn er komin heim.
Kristján Már.
Hrönn Kristjánsdóttir var af þeirri
kynslóð Íslendinga, sem lifði og
hrærðist í þeirri fullvissu, að réttur
alþýðunnar til góðra og sanngjarnra
kjara yrði aðeins tryggður á grund-
velli jafnaðarstefnunnar. Líf hennar
mótaðist af þessari hugsjón og þeim
mannkærleika, sem lesa mátti úr
verkum hennar, orðum og æði.
Hrönn var fyrst og fremst góð mann-
eskja, greind og hugdjörf. Hún ólst
upp í hringiðu verkalýðsbaráttunnar
þar sem faðir hennar hafði farsæla
forystu um langt árabil. Einstakling-
ar af þeirra feðgina toga voru þátt-
takendur í mögnuðustu og mikilvæg-
ustu baráttu íslenskrar þjóðar, fyrr
og síðar, fyrir betra og traustara sam-
félagi, sem skal reist á jöfnuði, sam-
kennd og ekki síst samfélagslegri
ábyrgð. – Það hvarflar stundum að
mér, að fólk af þessu bergi brotið,
hafi, til lengri tíma litið, gert þjóð
sinni meira gagn en margir, sem mest
hefur verið hampað og sitja nú við
tómar gullkistur. Hrönn var í þeim
stóra hópi Alþýðuflokksfólks og síðar
Samfylkingar, sem alltaf hefur verið
boðið og búið til starfa, telur sér skylt
að vinna í þágu lýðræðis og jafnaðar í
von um betra samfélag. Úr þessum
hópi heyrast sjaldnast kröfur um laun
eða umbun og fá æðruorð heyrast um
gleymsku milli kosninga.
Ég verð Hrönn ævarandi þakklát-
ur fyrir hlýju hennar, aðstoð og
stuðning á þeim árum, sem ég sat á
Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn í Norð-
urlandi eystra. Þangað kom ég fyrst
ókunnugur og ættlaus í héraði, en
Hrönn og fjöldi annarra óskyldra
greiddu götu og efldu sjálfstraustið.
Minningin um heiðurs- og baráttu-
konuna Hrönn Kristjánsdóttur og
aðra vini og félaga, sem horfnir eru,
verður sífellt dýrmætari.
Árni Gunnarsson.
Það er mikill söknuður í huga okk-
ar Lionssystra er við kveðjum Hrönn
okkar. Með fráfalli hennar er höggvið
stórt skarð í hópinn, sem verður seint
fyllt.
Hrönn var stofnfélagi í Lions-
klúbbnum Sunnu á Dalvík, og starfaði
þar af miklum áhuga og dugnaði til
hinstu stundar þrátt fyrir mikil og
langvinn veikindi. Jákvæðni hennar
og ósérhlífni var okkur félögunum
mikil hvatning og uppörvun. Það
vafðist ekki fyrir henni að keyra frá
Akureyri til funda við okkur, þann
tíma sem hún bjó þar.
Hrönn var mikill viskubrunnur og
ósjaldan gladdi hún okkur með fróð-
leik og gamanmálum. Við bárum
ótakmarkaða virðingu fyrir henni og
lífshlaupi hennar.
Hún var djásnið okkar!
En nú skal ekki um það rætt
sem er þó liðið hjá,
en minnast hins sem indælt er
og ekki gleymast má.
Hve litla brekkan bæinn við
var blómum skrýdd og væn,
með hverju nýju vori víst
hún varð svo fagurgræn.
En allt þitt líf þess vitni var
hve varst þú djörf og sterk,
þau geymast ennþá æðimörg
þín unnu handaverk.
En óræktin sem áður var,
já upp við bæjarþil,
hún flúði undan huga og hönd
um holt og móa og gil.
Ég blessa allt það blómaskeið
og bjarta minning þá,
sem eins og stjarna skærast skín
er skuggar leita á.
Ég þakka alla ást og tryggð
já, allt sem gafst þú mér
því kveð ég þetta litla ljóð
það ljóð er helgað þér
(Höf. Ásgrímur Kristinsson.)
Hvíl þú í friði og hafðu þökk fyrir
allt og allt.
Öllum aðstandendum sendum við
innilegar samúðarkveðjur.
Lionsklúbburinn Sunna, Dalvík.
Við strákarnir í Bárugötu 6 á Dal-
vík þökkum Hrönn af alhug þá vin-
semd og hlýju sem hún hefur sýnt
okkur um tíðina.
Vinátta hennar var okkur mikils
virði. Blessuð sé minning góðrar
frænku.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinarskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna
er sefur hér hinn síðasta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
( V. Briem.)
Dætrum Hrannar og öðrum ætt-
mennum sendum við okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Arnar og Jón Arnar.
Lokið er kafla í lífsins miklu bók
við lútum höfði í bæn á kveðjustund.
Biðjum þann Guð sem gaf þitt líf og tók
græðandi hendi að milda sorgarstund.
Ó, hve við eigum þér að þakka margt
þegar við reikum liðins tíma slóð.
Í samfylgd þinni allt var blítt og bjart
blessuð hver minning, fögur ljúf og góð.
Okkur í hug er efst á hverri stund
ást þín til hvers, sem lífins anda dró
hjálpsemi þín og falslaus fórnarlund
Friðarins Guð þig sveipi helgri ró.
(Höf. Vigdís Runólfsdóttir.)
Elsku Hrönn okkar.
Þökkum þér allar góðar stundir í
leik og starfi.
Guð blessi minningu þína.
Kristín og Elín.
✝
Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug
við andlát og útför elskulegs eiginmanns míns,
föður, tengdaföður, afa og langafa,
JAKOBS CECILS JÚLÍUSSONAR,
Löngufit 12,
Garðabæ.
Sérstakar þakkir færum við séra Hans Markúsi Hafsteinssyni fyrir
innilegan hlýhug og stuðning á erfiðum tímum.
Guðný Sigurjónsdóttir,
Sigmundur H. Jakobsson, Þórhildur Karlsdóttir,
Jóhanna Jakobsdóttir, E. Jóhannes Einarsson,
Dagbjört I. Jakobsdóttir, Pálmi Stefánsson,
Áslaug Jakobsdóttir, Hafsteinn Þorgeirsson,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Ástkær faðir og fósturfaðir,
ÞÓRARINN JÓN SIGURMUNDSSON
vélstjóri,
áður Nýbýlavegi 40,
Kópavogi,
sem andaðist 15. maí á Hrafnistu í Reykjavík,
verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju föstudaginn
23. maí kl. 15.00.
Gústaf Örn Þórarinsson,
Hannes (Hannu) Ólafsson, Jónína Eyjólfsdóttir,
Steinar Orri Hannesson.
✝
Þakka auðsýnda samúð við fráfall og útför
SIGURÞÓRS JÓNASSONAR
fyrrum bónda
að Efri-Kvíhólma.
Sérstakar þakkir til starfsfólks Kirkjuhvols fyrir
góða umönnun.
Þá vil ég einnig þakka sveitungum hans fyrir
ómetanlega aðstoð við búskapinn í gegnum árin.
Fyrir hönd aðstandenda,
Guðfinna Sveinsdóttir.
✝
Elskuleg eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir
og amma,
KRISTRÚN LÍNEY HELGADÓTTIR
húsmóðir,
Kirkjuvegi 14,
Keflavík,
andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
sunnudaginn 18. maí.
Jóhann Pétursson,
Pétur Jóhannsson, Sigrún Jónatansdóttir,
Guðrún Rósalind Jóhannsdóttir,
Helgi Jóhannsson, Hjördís M. Bjarnason,
Sóley Jóhannsdóttir, Ólafur J. Briem,
Jóhann Jóhannsson
og barnabörn.
✝
Ástkær eiginkona, móðir, tengdamóðir og amma,
MARGRÉT VILBERGSDÓTTIR,
Þórsbergi 6,
Hafnarfirði,
verður jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju við
Strandgötu föstudaginn 23. maí kl. 15.00.
Grétar Þorleifsson,
Anna Valbjörg Ólafsdóttir
og aðrir vandamenn.
✝
Okkar ástkæra
GUÐRÚN GUÐJÓNSDÓTTIR
lést laugardaginn 17. maí á Landspítalanum
í Fossvogi.
Útför hennar fer fram frá Grensáskirkju
þriðjudaginn 27. maí kl. 15.00.
Páll Matthíasson, Ólöf Ragnheiður Björnsdóttir,
Benedikt Hjálmarsson, Sherry Ruth Bout,
Ólöf Benediktsdóttir
og barnabörn.