Morgunblaðið - 31.05.2008, Blaðsíða 22
22 LAUGARDAGUR 31. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ
AKUREYRI
ÁRBORGARSVÆÐIÐ
Selfoss | „Mér hefur alltaf þótt lögreglu-
starfið áhugavert. Ég fór í stutta starfskynn-
ingu hjá Lögreglunni í Reykjavík þegar ég var
í grunnskóla og þegar ég var í menntaskóla
komu lögreglumenn í skólann og kynntu Lög-
regluskólann, sem mér fannst virkilega spenn-
andi. Ég hugsaði þó ekki af fullri alvöru um að
gerast lögreglumaður fyrr en um ári eftir að
ég lauk menntaskóla,“ segir Tinna Jóhönnu-
dóttir, lögreglumaður í lögreglunni í Árnes-
sýslu. Hún hefur nýlokið námi í forgangsakstri
lögreglubifreiða og er einnig formaður Lög-
reglufélags Suðurlands.
„Ég byrjaði í verkfræðinámi í Háskóla Ís-
lands en fann að það var ekki fag sem ég vildi
leggja fyrir mig, svo ég hætti því námi og
þurfti þá taka til endurskoðunar hvaða starf ég
vildi leggja fyrir mig. Eftir nokkra umhugsun
varð lögreglustarfið ofan á,“ segir Tinna.
Eftir útskrift úr Lögregluskólanum hóf
Tinna störf hjá Lögreglunni í Hafnarfirði. Hún
flutti síðan á Selfoss, hóf störf hjá Lögreglunni
í Árnessýslu í ágúst 2005 og hefur starfað þar
síðan. Í starfi Tinnu sem lögreglumaður kvikn-
aði áhugi hennar á sálfræði og byrjaði hún
haustið 2006 í BA-námi í sálfræði við HÍ, með-
fram því að vera í fullu starfi.
Starfið hentar líka konum
„Lögreglustarfið er rosalega fjölbreytt, sem
er einmitt það sem mér líkar best við starfið. Í
upphafi vaktar veit maður aldrei hvaða verk-
efni geta komið upp þann daginn. Meðal þeirra
fjölmörgu verkefna sem lögreglan sinnir er
allt frá því að hafa eftirlit með umferð, sinna
forvörnum og ýmiskonar aðstoð við borg-
arann, upp í að eiga við hættulega af-
brotamenn, veita lífsbjargandi aðstoð, t.d.
vegna slysa, og sinna rannsóknum,“ sagði
Tinna þegar hún var spurð hvað væri svona
áhugavert við lögreglustarfið.
Og hún bætir við. „Mér líkar mjög vel að
starfa í Lögreglunni í Árnessýslu, hér vinnur
fólk sem er mjög fært á sínu sviði og starfs-
andinn er góður. Ég finn ekkert sérstaklega
fyrir því þó að konur séu í minnihluta í liðinu,
við erum öll lögreglumenn, sinnum sama starfi
og mér finnst ég fá sama viðmót og sömu tæki-
færi í starfinu og karlkyns vinnufélagar mínir.
Í Lögreglunni í Árnessýslu starfa fimm konur,
sem er hærra hlutfall en í lögreglunni í heild
sinni, en starfið hentar jafnt konum sem körl-
um og því ættu áhugasamar og hæfar konur
alls ekkert að hika við að sækja um í lögregl-
unni, frekar en karlar.“
Tinna er ein af 12 lögreglumönnum sem
luku nýlega námskeiði í forgangsakstri lög-
reglubifreiða. „Já, þetta var námskeið fyrir
þjálfara í akstri lögreglubifreiða. Lög-
reglustjórum var gefinn kostur á því að senda
menn á þetta námskeið og ég var send frá
mínu embætti.
Núna er í gangi undirbúningur að nám-
skeiðum í forgangsakstri fyrir lögreglumenn
og við sem kláruðum þetta námskeið munum
koma til með að sjá um bóklega kennslu og
verklega þjálfun á þeim námskeiðum. Í for-
gangsakstri þarf fyrst og fremst að huga að
því að komast á vettvang án þess að skapa
hættu með akstrinum, fyrir lögreglumenn og
aðra vegfarendur. Þessi menntun á klárlega
eftir að nýtast mér mikið í starfinu, þar sem ég
tel mig mun betur en áður í stakk búna til að
takast á við það krefjandi verkefni að aka í for-
gangsakstri. Einnig hlakka ég til að byrja að
miðla þessari þekkingu til annarra lögreglu-
manna, en það er hagur allra að lögreglumenn
séu þrautþjálfaðir í akstri,“ sagði Tinna þegar
hún var beðin um að lýsa námskeiðinu og segja
frá því hvernig það muni nýtast henni.
Tinna er formaður Lögreglufélags Suður-
lands en það er stéttarfélag lögreglumanna.
Tilgangur þess er að vinna að kjara- og menn-
ingarmálum lögreglumanna og gæta réttar
þeirra í starfi. Félagið er svæðisdeild innan
Landssambands lögreglumanna og félags-
svæði þess er Árnessýsla, Rangárvallasýsla,
Vestur-Skaftafellssýsla og Austur-Skaftafells-
sýsla.
Lögregluveisla í undirbúningi
„Hjá Lögreglufélagi Suðurlands erum við
helst að vinna að kjaramálum og réttindum fé-
lagsmanna. Félagsmenn geta leitað til okkar
vegna kjaramála og annarra mála og við reyn-
um að leysa fljótt og vel úr þeim erindum sem
okkur berast. Í haust verða kjarasamningar
lausir hjá lögreglumönnum og þá mun stjórn
félagsins að sjálfsögðu fylgjast náið með stöðu
mála og leggja sitt af mörkum eins og kostur
er. Lögreglufélag Suðurlands verður 40 ára
þann 28. nóvember nk. Það stendur til að halda
veislu í tilefni afmælisins í haust og er und-
irbúningur hennar í fullum gangi. Einnig
stendur til að gefa út afmælisrit sem dreift
verður á félagssvæðinu,“ sagði Tinna.
Tinna Jóhönnudóttir,
lögreglumaður á Sel-
fossi, er formaður Lög-
reglufélags Suðurlands
Veit aldrei hvaða verkefni koma upp
Í forgangi Tinna Jóhönnudóttur er formaður Lögreglufélags Suðurlands og stundar auk þess
nám í sálfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur nýlokið námskeiði í forgangsakstri.
Í HNOTSKURN
»Tinna Jóhönnudóttir er fædd 9. janúar1980 og er næstelst af sjö systkinum.
Hún er gift Gunnari Jökli Karlssyni og
eiga þau þriggja ára son, Darra Jökul.
»Tinna er alin upp í Grundarfirði enflutti í lok grunnskóla með fjölskyldu
sinn til Þorlákshafnar og bjó þar í tæpt ár
eða þangað til hún fór í menntaskóla. Hún
var tvö ár í Menntaskólanum að Laug-
arvatni, en þaðan lá leiðin til Reykjavíkur
þar sem hún lauk stúdentsprófi af eðl-
isfræðibraut frá Fjölbrautaskólanum í
Breiðholti vorið 2000.
»Tinna byrjaði í Lögregluskóla ríkisins íbyrjun árs 2002 og útskrifaðist þaðan í
desember sama ár.
Eftir Skapta Hallgrímsson
skapti@mbl.is
LISTAKONAN Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
hélt eftirminnilega sýningaröð þegar hún varð
fertug; opnaði 40 sýningar á jafn mörgum dög-
um víða um heim. Nú er annað og stærra verk-
efni komið í gang sem nær hámarki þegar hún
verður fimmtudag, eftir fimm ár.
Réttardagur skal það heita, nýja verkefnið,
og fyrsta sýningin verður haldin í Reist-
arárrétt, fáeina metra frá Freyjulundi í Arn-
arneshreppi, þar sem Aðalheiður er búsett.
Hún er þekkt fyrir tréskúlptúra sína og und-
anfarið hefur staðið yfir „sauðburður“ í
Freyjulundi þar sem hún hefur smíðað tugi
kinda með aðstoð góðra manna. Auk þess vinn-
ur hún að smíði ýmissa bænda og búaliðs úr
sveitinni, barna og gamalmenna og fólks annar
staðar að sem mæta gjarnan í réttir.
Sauðkindin heldur velli
Sýningar verða settar upp bæði hér heima
og í útlandinu, m.a. í Hollandi og í Afríku í
haust. Hún kallar verkefnið Fundamentals er-
lendis – Undirstaða. „Öll okkar menning bygg-
ist á sauðkindinni ef grannt er skoðað. Mér
fannst þó ekki beinlíns rétt að einskorða sýn-
inguna við réttina eina erlendis því í öðrum
löndum er undirstaðan önnur og ég vil að fólk
geti samsamað sig nafninu,“ sagði Aðalheiður
þegar blaðamaður leit í heimsókn til hennar í
Freyjulund í vikunni.
Aðalheiður er fædd og uppalin á Siglufirði
þar sem afasystir listakonunnar og eiginmaður
hennar stunduðu fjárbúskap. „Síðan þá hafði
ég hvorki hugsað sérstaklega um kindur né
búskap fyrr en ég flutti hingað í Freyjulund,
nánast í réttina. Þá fann ég hvað æskuminn-
ingarnar sóttu á mig og ég upplifði réttirnar og
sveitalífið á alveg nýjan máta. Merkilegt hvað
fjárbúskapurinn á sér sterkar rætur í þjóð-
arsál Íslendinga. Innan um alla nýsköpun
heldur sauðkindin velli.“
Sem barn fékk hún að hjálpa til við þau störf
sem fylgja búskapnum, bæði við heyskap og
auðvitað í réttunum á haustin. „Ég var mjög
ung þegar ég hafði þann starfa að svíða hausa;
7 eða 8 ára krökkum fyndist það líklega ógeðs-
legt í dag ...“
Gestalistamenn verða með
Aðalheiður hafði gríðarlega gaman af því að
setja upp sýningarnar 40 á sínum tíma, en seg-
ir það hafa útheimt mikla vinnu. Sums staðar
sýndi hún teikningar, annars staðar málverk
og tréskúlptúra víða. Sýningarnar voru sem
sagt mjög mismunandi. Nú ætlar hún með
réttardaginn út um allt – þó vissulega verði
sýningin að ákveðnu leyti mismunandi frá ein-
um stað til annars. Ekki síst vegna þess að hún
hyggst bjóða gestalistamönnum frá viðkom-
andi svæði að taka þátt hverju sinni og gefa
þeim frjálsar hendur; ætlar að stefna saman á
réttardaginn skapandi fólki úr ýmsum grein-
um sem sameinast undir þessu þjóðlega merki,
eins og hún orðar það.
Aðalheiður segist vera áhugamanneskja um
náttúruvæna og þjóðlega atvinnuvegi eins og
búskap. „Sjálf hef ég hagað lífi mínu þannig að
ég lifi í sátt við náttúruverndarsamvisku mína.
Ég flokka sorpið mitt og nýti til listsköpunar
margt af því sem fellur til á heimilinu. Ég nota
hvorki eiturefni í listsköpun né þrifum.“
Hluti af heild
„Þegar ég hóf að vinna þrívíð verk lagði ég
leið mína á gámasvæðið á Akureyri til að leita
að hráefni. Það kom til af peningaleysi en ekki
síður endurvinnsluhugmyndum. Mér blöskraði
að í fimmtán þúsund manna samfélagi fylltust
margir gámar af húsgögnum, heimilistækjum
og timbri á hverjum degi. Af hverju? Mér líkar
tilhugsunin um að vera hluti af heild. Að setja
saman skúlptúra úr timbri sem einhverjir
smiðir hafa sagað niður og jafnvel málað er
skemmtilegur leikur, og gefur verkunum að
mínu mati aukna vídd. Ýmsar myndir mannlífs
hafa verið viðfangsefni mitt alla tíð.“
Hún hyggst smíða nokkur hundruð kindur,
hesta, hunda og menn inn í réttina sem stend-
ur við húshornið hjá henni í Freyjulundi. „Síð-
ar mun sú sýning skiptast í minni einingar eða,
eftir því sem árin líða, stærri í samræmi við þá
sýningarstaði sem hýsa verkin mín. Ég mun
halda áfram að smíða skúlptúra eða vinna ann-
arskonar verk inn í verkefnið á næstu fimm ár-
um. Þannig bætist nýtt við hverja sýningu sem
vonandi þróast og leiðir mig í óvæntar áttir.“
Ferðalaginu lýkur svo á fimmtudagsafmæl-
inu í Gilinu á Akureyri, svokölluðu Listagili.
„Þá ætla ég að leggja undir mig hús og götuna
sjálfa. Sýningin verður þá vonandi búin að
þróast á þessum árum – og vonandi búin að
fara um allan heim,“ segir Aðalheiður S. Ey-
steinsdóttir „fjárbóndi“ og listamaður.
Undirbýr réttardag víða um heim
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Sauðburður Aðalheiður S. Eysteinsdóttir með hluta bústofnsins heima við Freyjulund.
Í HNOTSKURN
»Í tilefni fertugsafmælis síns fyrir fimmárum opnaði Aðalheiður S. Eysteins-
dóttir 40 sýningar á 40 dögum bæði hér
heima og erlendis.
»Hún er farin að undirbúa fimmtugs-afmælið sitt og hyggst af því tilefni
setja upp 50 sýningar á næstu fimm árum,
þá síðustu þegar hún verður fimmtug, en
þá ætlar Aðalheiður að leggja allt Listagil-
ið á Akureyri undir sig.
»Fyrsta sýningin í nýju sýningarröðinni,Réttardegi, hefst í Reistarárrétt í Arn-
arneshreppi laugardaginn 21. júní nk.
Líflegur „sauðburður“
hjá fólkinu í Freyjulundi