Náttúrufræðingurinn - 2005, Síða 50
Náttúrufræðingurinn
Jöklar
Flestir skriðjöklar landsins voru á undanhaldi líkt og
verið hefur í ein 8 ár, að sögn Odds Sigurðssonar,
jöklafræðings á Vatnamælingum Orkustofnunar.
Hlaup er í Reykjafjarðarjökli sem skríður til norðurs
úr Drangajökli. Framgangur jökulsins var 70 m á
árinu eða álíka og í fyrra. Hlaupið hófst 2002. Einnig
hefur hlaup í Búrfellsjökli í Svarfaðardal haldið áfram
og hefur nú staðið í fjögur ár. Sveinn Brynjólfsson á
Dalvík fylgist með framvindunni á Búrfellsdal og á
tímabilinu 10. júní til 30. ágúst mældi hann 33 m
framskrið þar sem mest var. Greint var frá báðum
þessu hlaupum í Náttúrufarsannálnum 2003.
Grímsvatnahlaup og Grímsvatnagos
I októberlok varð hlaup í Grímsvötnum og í kjölfar
þess hófust eldsumbrot. Slík atburðarás hefur ekki
orðið í vötnunum í ein 70 ár en á fyrri hluta 20. aldar
og á 19. öld urðu nokkrum sinnum hlaup sem virtust
hleypa af stað eldgosum.
Hlaupsins varð fyrst vart í Skeiðará þann 29. okt.
og náði hámarki þann 2. nóv. þegar rennslið fór í
3300 m3/sek. Hinu eiginlega hlaupi lauk síðan 3. nóv.
en drjúgum meira rennsli var þó í ánni lengi eftir
hlaup en verið hafði fyrir það. Heildarmagn hlaup-
vatnsins varð um 0,8 km3 að mati Vatnamælinga
Orkustofnunar. Eldgosið hófst að kvöldi 1. okt.
meðan enn var að vaxa í Skeiðará. Gosið kom ekki á
óvart því ýmiss konar forboða hafði orðið vart, t.d.
landriss sem benti til aukins kvikuþrýstings í
kvikuhólfinu undir Grímsvötnum. Skjálftavirkni
hafði einnig vaxið um mitt ár 2003 og færðist í
aukana síðustu vikurnar fyrir gos. Jarðhiti virtist líka
fara vaxandi. Snörp skjálftahrina hófst þremur tímum
áður en eldsins varð vart en það var um kl. 22. Eftir
það mældist samfelldur gosórói. Eldurinn kom upp í
suðvesturhorni Grímsvatna en þar opnaðist
gossprunga sem bræddi 900 m langan og 700 m
breiðan ketil í jökulísinn. Auk hans mynduðust
sigdældir þar hjá sem þóttu merki um eldsumbrot
undir ísnum. Talsverð sprengivirkni var í goskatlin-
Sprunginn jaðar Búrfellsjökuls 10. júní2004. Ljósm.: Sveinn
Brynjólfsson.
um og mökkurinn reis í allt að 13 km hæð með ösku-
burði til norðurs. í goslok var komin falleg gígeyja,
umlukin mórauðu bræðsluvatni, í jökulkatlinum.
Þetta gos verður að teljast í hópi hinna smærri Gríms-
vatnagosa en rúmmál gosefna er áætlað minna en 0,1
km3. (Byggt á greinum Magnúsar Tuma Guðmunds-
sonar og Freysteins Sigmundssonar í Jökli 2004 og
Sverris Elefssonar í Fréttabréfi JÖRFÍ feb. 2005.)
Jarðskjálftar
Engir stóratburðir urðu á skjálftasviðinu árið 2004.
Stærstu skjálftar ársins voru um 4,0 stig. Þeir voru
tveir, annar suðvestur af Geirfugladrangi þann 13.
apríl en hinn á Reykjaneshrygg um 80 km frá landi,
en þar hófst stutt en snörp hrina að kvöldi 25.
september. Virknin undir vestanverðum
Mýrdalsjökli, sem hófst 1999, hélt áfram og hélst lítt
breytt út árið en þó var eins og drægi úr henni í
árslok.
Mikil smáskjálftahrina varð undir Fagradalsfjalli
um 9 km norðaustan við Grindavík 21.-22. júlí. Þegar
virknin var mest mældust 1-2 skjálftar á mínútu.
Skjálftarnir voru smáir, allir innan við 2,5 á Richters-
kvarða. Á árinu var nokkur skjálftavirkni í Guðlaugs-
tungum 20 km norður af Hveravöllum og varð mest
þann 1. okt. en þá varð skjálfti þar af stærðinni 3,3.
Grímsvatnagos 2. nóvember 2004. Ljósm.: Freysteinn Sigmundsson.
Hlaupferill Skeiðarárhlaups haustið 2004.
Páll Jónsson á Vatnamælingum Orkustofnunar gerði myndina.
120