Náttúrufræðingurinn - 1991, Síða 38
ingaskipti þegar á fyrsta hausti. Þess-
um nýja búningi svipar mjög til vetrar-
búnings fullorðinna fugla, svo að yfir-
leitt er erfitt að aldursgreina vaðfugla
úti í náttúrunni þegar kemur fram á
vetur. Hins vegar er hægt að aldurs-
greina þá með því að veiða þá og
handleika. Ungir vaðfuglar fella ekki
flugfjaðrir (væng- og stélfjaðrir) á
fyrsta hausti. Þessar fjaðrir eru eldri
og slitna fyrr en hjá eldri fuglum þeg-
ar líða tekur á veturinn. Mjög slitnar
flugfjaðrir á vaðfuglum síðla vetrar og
að vorlagi eru sterk vísbending um að
fuglarnir séu á fyrsta vetri. Trítlar
(Glareolidae) eru undantekning, því
að þeir fella allar fjaðrir þegar á fyrsta
hausti og er afar erfitt að aldursgreina
þá á ytri einkennum þegar komið er
fram á vetur.
Vaðfuglar sem verpa norðarlega á
hnettinum skipta yfir í sumarbúning
síðla vetrar eða snemma vors (febrú-
ar-apríl) með því að fella bolfjaðrir.
Margir þeirra skrýðast fremur áber-
andi varpbúningi. Tegundir sem iðka
fluglistir um varptímann til að laða að
maka eða verja varpsvæði fyrir keppi-
nautum eru margar hverjar litskrúð-
ugar að neðanverðu. Varpbúningur
hjá lóum, mörgum títum, jaðrakan
(Limosa limosá) o.fl. tegundum er
fyrir vikið verulega frábrugðinn vetr-
arbúningi. Seinni hluta sumars er
varpbúningur vaðfugla orðinn mjög
slitinn og skipta fullorðnu fuglarnir
smám saman um allar fjaðrir á tíma-
bilinu júlí-október.
Sumir vaðfuglar byrja að verpa árs-
gamlir og fá fullan varpbúning þegar á
fyrsta vori. Aðrar tegundir, einkum
hinar stærri, skipta ekki um búning á
fyrsta vori eða fá aðeins ófullkominn
sumarbúning.
TEGUNDATAL
Bjúgnefja (Recurvirostra avosetta)
Til mjónefaættar (Recurvirostridae)
teljast fjórar bjúgnefjutegundir
(Recurvirostra spp.) og háleggir
(Himantopus spp.), nú taldar þrjár
tegundir. Þetta eru allt suðrænir fugl-
ar og að miklu leyti bundnir við salt
eða ísalt vatn. Bjúgnefjur eru háfættar
og auðþekktar á löngu uppsveigðu
nefi. Þær hafa sundfit og geta synt og
hálfkafað líkt og buslendur.
Varpútbreiðsla bjúgnefju er slitrótt
í Evrópu, Afríku og Asíu, bæði með
ströndum fram og langt frá sjó.
Bjúgnefju fækkaði í NV-Evrópu á 19.
öld, en hefur fjölgað að nýju á undan-
förnum árum. Kjörlendi hennar eru
opin, snögglend svæði, aðallega við
grunn vötn, sjávarlón og leirur. Hún
lifir aðallega á skordýrum, krabba-
dýrum (m.a. marflóm og þanglúsum)
og burstaormum.
Bjúgnefjur eru félagslyndir fuglar
og verpa í byggðum (tugir eða fáein
hundruð í hverri byggð). Hvert par
ver nánasta umhverfi hreiðurs fyrir
öðrum bjúgnefjum, svo og fæðuöflun-
arsvæði skammt frá hreiðrinu.
Bjúgnefja er farfugl í norðurhluta
heimkynna sinna. Þó dvelja að jafnaði
um 20(X) fuglar á ströndum Norðursjáv-
ar, en alls er talið að um 70 þúsund
bjúgnefjur hafi vetursetu í V-Evrópu og
V-Afríku (Smit & Piersma 1989). Far-
tíminn síðsumars er í júlí-september,
fyrstu fuglarnir snúa til sumarheim-
kynna þegar um mánaðamót febrúar-
mars, en flestir þó ekki fyrr en í apríl.
Ein bjúgnefja hefur sést með vissu
hér á landi, um fartíma að vori, og
nokkrar líkur eru á að ein hafi náðst á
íslandi á síðustu öld.
1. Búðareyri í Reyðarfirði, S-Múl, 3t. mars
1954 (RM2909). Magnús Guðmundsson.
Náðist aðframkominn og drapst í haldi dag-
inn eftir. Finnur Guðmundsson (1957).
32