Samvinnan - 01.04.1944, Page 8
SAMVINNAN
4. HEFTI
þjóðarheild, þótt andvirði það, sem þeim kæmi fyrir í
peningum, væri stundum í minna lagi. Því hlýtur það
að dynja eins og reiðarslag yfir íslenzka bændastétt
og reyndar alla alþýðu landsins að heyra, að til skuli
vera stofnanir, sem taka sér fyrir hendur að eyði-
leggja nú unnvörpum vöru þá, kjötið, sem bændur
leggja svo hart að sér að framleiða handa samlöndum
sínum og hafa sjálfir ekki nema að litlu leyti efni á
að neyta. Þó hlýtur það að vekja mesta furðu, að við
þessa stórkostlegu eyðileggingu á framleiðsluvöru
bænda eru stofnanir bendlaðar, sem hafa með hönd-
um sölu og dreifingu á afurðum landbúnaðarins. ís-
lenzk alþýða hefur fram til þessa lifað við þau kjör,
að hún hefur ekki haft nema til hnífs og skeiðar,
þegar bezt lét, og frá öndverðu hefur það verið álitin
ódyggð og hneisa að fleygja mat hér á landi, — löng-
um verið vitnað til þess sem táknræns dæmis, hvern
óþokka landsmenn lögðu á Kolbein unga fyrir að láta
brenna hval, er óvinir hans áttu. Það er þvi ekki nema
náttúrlegt, að alþýða manna og þá fyrst og fremst ís-
lenzkir bændur, framleiðendur kjöts, krefjist að fá út-
skýrt, hver rök liggja til slíkrar eyðileggingar á vöru
þeirra, án fordæmis í sögu íslenzks landbúnaðar, sem
um getur í þingsályktnartillögunni. Bændur hljóta að
krefjast þess að fá það rannsakað og útskýrt, hvort
kjötbirgðir þær, sem í skjóli náttmyrkurs hafa verið
dysjaðar í hraunum eða kastað í sjó í nágrenni
Reykjavíkur 1) hafi að einhverju leyti verið skemmd
vara, 2) hvers vegna kjötið hafi skemmzt eða hvort
það hafi verið skemmt af mahnavöldum af ásettu
ráði, og 3) hver beri ábyrgðina á því, að kjötið var
skemmt eða látið skemmast og kastað. Ber nauðsyn
til að fá úr því skorið, hvort það er fyrirsláttur einn,
að kjötið hafi verið skemmt, og að hve miklu leyti þeir
menn hafa rétt fyrir sér, sem tóku af því sýnishorn úr
dysjunum og þóttust sannprófa, að það væri hæft til
manneldis. Það hlýtur að vekja óþægilegar grun-
semdir í þessu sambandi, að menn þeir, sem stóðu fyr-
ir dysjun kjötsins og sjóburði, hafa tilkvatt dýralækni
að gefa vottorð um óneyzluhæfi vörunnar í stað þess
að kveðja til matvælaeftirlit ríkisins, sem hér er rétt-
ur aðili, og krefjast þaðan skyldugs úrskurðar. Skatt-
greiðendur í landinu hljóta að krefjast rannsóknar á
því, hvort greiddar hafi verið verðbætur á kjötbirgðir
þær, sem kastað hefur verið í sjó eða dysjaðar á víða-
vangi. Sömuleiðis er skylt að láta fram fara rannsókn
á því, að gefnu tilefni, hvort öðrum tegundum af af-
urðum bænda hafi verið kastað í sjó eða dysjaðar á
víðavangi, svo sem t. d. smjör og ostar. Svör við þess-
um knýjandi spurningum, byggð á grandgæfilegri
rannsókn, hljóta síðan að skera úr um það, hvort
menn þeir, sem nú hafa forustu í dreifingu landbún-
aðarafurða fyrir bændur, eru hæfir til þess starfs eða
ekki. Eyðilegging íslenzkra matvæla í svo stórum stíl
sem hér hefur verið framin er þeim mun alvarlegra
mál sem heimurinn umhverfis okkur er nú á barmi
hungursneyðar, en kjötskortur ríkjandi í öllum ná-
lægum löndum, svo að skammtur fólks af þessari
fæðutegund hefur hvarvetna utan íslands verið
knepraður til hins ýtrasta. Eyðilegging kjöts er á þess-
um tímum hneyksli í augum alls heimsins, og mun
útlendum mönnum ekki síður en innlendum þykja
það undur, ef aðilar, sem uppvísir verða að slíkum ó-
hæfuverkum á neyðartímum, verða ekki látnir hljóta
makleg málagjöld fyrir eða a. m. k. skipaður annar
sess, er henti þeim betur en forusta í dreifingu mat-
væla.
Að endingu er rétt að benda á, að sú rannsókn, sem
stjórn Sambands íslenzkra samvinnufélaga hefur ósk-
að eftir við dómsmálaráðuneytið, að fram skuli fara í
þessu máli, er í senn skopleg og ófyrirleitin, þar sem
hún virðist nærri eingöngu eiga að beinast gegn þeim,
sem komið hafa upp um þann ósóma, að matvælum
hefur verið fleygt.“
Ekki verður hjá því komizt, að rifja upp sögu þess
máls, sem hér um ræðir. Síðastliðið haust kom upp
skemmd í nokkru af saltkjöti kaupfélaganna, sökum
þess, að ekki fengust hinar kunnu, vönduðu tunnar frá
Norðurlöndum, en í stað þess varð að notast við lé-
legri tunnur frá Englandi, því að aðrar umbúðir voru
alls ekki fáanlegar. Sambandið hafði selt allt sitt kjöt
til stríðsþjóðanna, en sökum flutningaerfiðleika hafði
dregizt lengur en skyldi að flytja burtu allt saltkjöt-
ið. Skemmdirnar stöfuðu þess vegna af tveim ástæð-
um, og var hvorug íslenzkum bændum eða sam-
vinnufélögum um að kenna, lélegum tunnum og
vanrækslu kaupenda að flytja keypta vöru úr landi í
tæka tíð. Þegar forráðamenn útflutningsins . urðu
varir við skemmdirnar, höfðu þeir um þrenn úrræði
að velja: 1. Að eyða hinni skemmdu vöru með því að
flytja hana út á reginhaf og varpa henni þar fyrir
borð. 2. Að grafa vöruna í jörð á afskekktum stað. 3.
Að freista að selja hana til neyzlu innanlands eða ut-
an og taka afleiðingunum af þeirri framkvæmd. For-
ráðamenn útflutningsins töldu eðlilegast að eyða hin-
um skemmdu matvælum með því að grafa þau í jörð,
og var það gert. Ekki þarf að fjölyrða um, að þar var
aðeins gerð bein skylda þeirra. Það er bæði stórfellt
siðferðis- og lagabrot að selja skemmd matvæli til
neyzlu. Forráðamenn íslenzkra kaupfélaga hafa farið
alveg gagnstæða leið. Þeir hafa í nálega tvo manns-
aldra verið fremstir allra atvinnurekenda á íslandi um
góða meðferð og vöruvöndun matvæla. Sú tiltrú, sem
108