Stúdentablaðið

Árgangur

Stúdentablaðið - 17.06.1954, Blaðsíða 20

Stúdentablaðið - 17.06.1954, Blaðsíða 20
12 STÚDENTABLAÐ stjórnmálunum. Þeir Hrafn og Ásgrímur voru valdafíknir menn og urðu báðir ánetjaðir er- lenda valdinu. Hrafn fékk Borgarfjörð, en Ás- grímur fékk erkibiskupsbréf fyrir Grenjaðar- stað og með því valdaaðstöðu í Þingeyjarsýslu. Þegar svo var komið urðu þessir höfðingjar að standa með Gissuri. Með fullum sáttum við þá Hrafn og Ásgrím hafði Gissur unnið stórkost- legan sigur. Hættunni frá Vesturlandi var að mestu bægt frá, og ríki Ásgríms í Þingeyjar- sýslu var eins og fleygur rekinn milli þeirra mága, Þorvarðs Þórarinssonar á Austurlandi og Lofts Halldórssonar í Eyjafirði. Eftir sættina við Ásgrím stafaði heldur ekki hætta frá Hvammverjum í Húnaþingi. Tilraunir til að koma á bandalagi gegn Giss- uri og Hrafni voru þó engan veginn úr sögunni. Ég hygg, að tilraunum Vigfúsar Gunnsteinsson- ar í þessa átt hafi ekki verið nægur gaumur gefinn. Vigfús var í röð fremstu höfðingja í Vestfirðingafjórðungi og frændmargur í Breiðafjarðarbyggðum. Hann var systursonur Skarð-Snorra, en tengdasonur Sturlu Sighvats- sonar, og hafði verið framarlega í Sturlunga- flokknum áður fyrr. I ritum Sturlungu er Vig- fúsi víða borin sagan heldur illa, að líkindum verr en efni standa til. Pólitík Vigfúsar á ár- unum 1261—1263 er að ýmsu leyti mjög svo athyglisverð. Varla verður annað séð, en að fyrir honum hafi vakað að koma á víðtæku bandalagi með þeim höfðingjum, er í mestri andstöðu voru við þá Hrafn og Gissur. Sjálf- sagt hefur Vigfúsi ekki gengið til nein sérstök þjóðhollusta, hann var einn þeirra höfðingja, er sóru konungi trúnaðareið 1262. Fyrir honum hefur sennilega vakað fyrst og fremst að brjóta á bak aftur cfurveldi Hrafns í Vestfirðinga- fjórðungi, en hann hefur séð glöggt, að íslenzk stjórnmál voru ein heild, landið var allt skák- borð átakanna. Og ef tekizt hefði að koma á slíku bandalagi gegn umboðsmönnum konungs hefði það af eðlisnauðsyn einnig hlotið að beinast óbeint gegn hinu erlenda konungsvaldi, þótt raunverulegar hvatir Vigfúsar væri valda- streita, en ekki nein þjóðhollusta. Vigfús hefur sennilega verið laginn stjórn- málamaður, þótt ribbaldi væri. Á einum stað í Sturlungu stendur, að hann hafi flutt mál sín „með mikilli kunnáttu“. Vigfúsi var ljóst, að fjandskapur Sturlu Þórðarsonar og Staðar- manna við Þorvarð Þórarinsson vegna vígs Þor- gils skarða var einna mestur Þrándur í Götu víðtæks bandalags gegn þeim Hrafni og Gissuri. Hann sneri sér fyrst að því að koma hér á sætt- um og var aðalhvatamaður sættafundar við Iðu þar sem fullar sættir tókust. Ástæða er til að ætla, að Vigfús hafi hér haft víðtækari áform í huga. Með þessum sættum var vegurinn rudd- ur til bandalags andstæðinga Hrafns og Giss- urar í Vestfirðingafjórðungi og Þorvarðs, er sökum tengda naut fylgis Oddaverja. Þorvarð- ur cg bandamenn hans réðu yfir Austfirðinga- fjórðungi, þar sem andstaðan gegn erlenda vald- inu virðist hafa verið hvað öflugust, ennfremur Rangárþingi og Eyjafirði. Og ef til vill hefur Vigfús gert sér vonir um beinan eða óbeinan stuðning Brandssona í Skagafirði. Kálfur Brandsson var tengdasonur Sturlu Þórðarson- ar. Nckkru áður hafði Þórður Andrésson reynt að gera bandalag við þessa skagfirzku frændur sína gegn Gissuri. Yfirleitt verður barátta Odda- verja gegn jarli lítt skiljanleg og lítið annað en heimskuflan, ef ekki er gert ráð fyrir, að þeir hafi þótzt eiga vísa bandamenn utan þrengsta hrings Oddaverjaættarinnar. En tilraunir Vigfúsar Gunnsteinssonar til að koma á bandalagi milli helztu andstæðinga Hrafns og Gissurar fóru út um þúfur, hvað sem valdið hefur, sundurþykki þeirra innbyrðis eða óttinn við hið erlenda vald, er stóð að baki umboðsmönnum konungs. Árið eftir sættar- gerðina við Iðu tókst Vigfúsi að vísu að æsa Snorra, son Sturlu Þórðarsonar, til ófriðar gegn Hrafni, en dró sig sjálfur úr leiknum, er á hólm- inn kom ,hefur sennilega séð, að leikurinn var tapaður. Frásögn sögunnar af afskiptum Vig- fúsar af þessum málum er annars rituð af svo megnu hatri í hans garð, að henni er varlega treystandi. Þeir feðgar, Sturla og Snorri, stóð- ust ekki Hrafni snúning, er til átakanna kom, og Hrafn hrakti Sturlu úr landi. Tók Magnús konungur Sturlu afar fálega í fyrstu, og er auð- sætt, að hann hefur talið baráttuna gegn Hrafni einnig baráttu gegn norska konungsvaldinu. Má af þessu ráða, að allar tilraunir til mótþróa við Gissur og Hrafn hafa í Noregi verið taldar uppreisn gegn konungsvaldinu. Síðasti þáttur þessara misheppnuðu tilrauna til mótspyrnu gegn konungsmönnum fór svo fram 1264, er Gissur gersigraði Oddaverja og lét taka Þórð Andrésson af lífi. Auðsætt er, að Hrafn Oddsson hefur óttazt ráðabrugg Odda-

x

Stúdentablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Stúdentablaðið
https://timarit.is/publication/350

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.