Tímarit iðnaðarmanna - 01.09.1964, Blaðsíða 9

Tímarit iðnaðarmanna - 01.09.1964, Blaðsíða 9
Engilbert Gislason málarameistari. þess þurfti talsvert lengri námstíma, en það leyfði fjár- hagur hans ekki. Það má geta þess, svona til gamans, að þegar Engilbert kom í fyrsta sinn í vinnustofuna þar sem hann átti að vera við nám, þá var þar fyrir Ásgrímur Jónsson, sem síðar átti eftir að verða einn mesti snillingur okkar á sviði myndlistar. Var hann þá við listnám, en mátti hvenær sem hann vildi koma þarna og vinna sér inn nokkra skildinga, og mun það hafa komið sér vel fyrir hann, eins og svo marga aðra námsmenn héðan að heiman. Hann kemur svo til Reykjavíkur árið 1904. Þá var hér fyrir annar málari, sem einnig var nýkominn frá Danmörku. Það var Jón Reykdal. Gerðu þeir með sér félagsskap, og unnu hér saman að iðninni til ársins 1910, er Engilbert hvarf aftur til Vestmannaeyja. Aldamótaárið leggur svo ungur Austfirðingur leið sína til Noregs, til náms í málaraiðn. Það var Jón G. Jónasson, síðar málarameistari og kaupmaður á Seyðis- firði. Hann lærði og lauk sveinsprófi í Bergen árið 1903, og var þar með fyrsti Islendingurinn, sem það gerði. En sama árið sem Jón lýkur sveinsprófi gerist sá merkilegi atburður hér í Reykjavík, að ung stúlka byrjar nám í iðninni. Var það Ásta Árnadóttir, sem siðar gekk alltaf undir nafninu Ásta málari. Var hún fyrst hjá Jóni Reykdal, en fór síðan til Berthelsen og lauk námstíma hjá honum. Hún fór síðan til Kaup- mannahafnar til frekara náms, og þar tók hún sveins- próf með miklum ágætum, trúlega fyrst allra kvenna í heiminum. En ekki lét hún þar við sitja, heldur lagði hún leið sína til Þýzkalands, gekk þar á meistaraskóla og lauk meistaraprófi. Vakti þetta hina mestu athygli og umtal í Þýzkalandi, og var mikið um þetta ritað í þýzk blöð og tímarit, enda áður óþekkt fyrirbrigði þar í landi sem annars staðar. Nú er skriðan komin af stað. Hver unglingurinn af öðrum byrjar nám í málaraiðninni. Má þar til nefna Lúðvík Einarsson, Ágúst Lárusson, Guðjón Jónsson, Einar Gíslason, Kristinn Andrésson, Ósvald Knudsen, Jón Brynjólfsson og Sumarliða Sveinsson. Allir þessir menn höfðu lokið námstíma sínum og sumir þeirra einnig sveinsprófi (erlendis) áður en heimsstyrjöldin fyrri skall á árið 1914. Auk þeirra var svo nokkur hópur manna, sem byrjað hafði sem hjálparmenn, þegar mest var að gera hjá málurunum, en urðu svo fastir í iðn- inni og öðluðust síðar full réttindi, og reyndust margir hverjir ágætir iðnaðarmenn og nýtir félagsmenn í sam- tökum málara. Þetta fólk, sem nú hefur verið talið, verður að teljast stofn stéttarinnar, en rétt og skylt er að taka það fram, að framanskráð upptalning miðast nær eingöngu við Reykjavík. Nú má vera að í ein- hverjum kaupstað eða kauptúni úti á landi hafi verið til orðnir málarar fyrir 1914, þó mér hafi ekki ennþá unnist tími til að rannsaka það, en hafi svo verið, þá tilheyra þeir sjálfkrafa stofnhópi stéttarinnar, eigi að síður. Á styrjaldarárunum fyrri og næstu 10 árin á eftir er vöxtur stéttarinnar heldur hægfara. Samt eru það nokkrir menn, sem hefja nám á þessu tímabili. Samt mun hinn hópurinn hafa verið stærri, sem vann að iðn- inni, ýmist sem hjálparmenn hjá meisturum eða þá á eigin spýtur, og kom þetta greinilega í ljós 1928, með gildistöku hinna nýju laga um iðju og iðnað. Árið 1926 var haldið fyrsta sveinspróf í málaraiðn hér á landi. Gengu aðeins tveir menn undir það próf, þeir Jón Björnsson og Hörður Jóhannesson, og má geta þess til gamans að meðal prófdómara var Ásgrímur Jónsson listmálari. Síðan hafa sveinspróf alltaf verið haldin hér heima, enda þótt allmargir menn hafi farið utan til framhaldsnáms, og jafnvel tekið sveinspróf þar. Verður nú ekki haldið lengra fram með þessi mál að sinni, enda á að vera auðvelt að rekja söguþráðinn eftir 1928. Ásta ÁrnadóttÍT, fyrsta konan í heiminum, sem tók sveinspróf í málaraiðn. TÍMARIT IÐNAÐARMANNA 93

x

Tímarit iðnaðarmanna

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit iðnaðarmanna
https://timarit.is/publication/365

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.