Heima er bezt - 01.10.1957, Blaðsíða 16
ur: Þrjú þil með hvítum vindskeiðum sneru móti vestri,
stór kvistur á suðurhlið, blámálaðar stofur og stórir
skálar og baðstofur, tvö eldhús og stór búr, langur
gangur, og allur var bærinn þiljaður í hólf og gólf.
Skemmur á hlaðinu og smiðja. „Stóra hlaðan“, þar sem
Bjarni hafði gert „rólur“ til að kenna okkur í sund-
tökin, stóð sunnar í hólnum, og við hana mörg fjárhús
og fjós. Þetta var íslenzkur herragarður, forn í sniðum
og háttum, höfuðból, þar sem húskarlar voru margir
og vinnukonur, og öllum var fengið verk að vinna.
Nokkrir stunduðu eggver og hlunnindi í eyjum,
aðrir hlóðu garða eða byggðu hús, einn gætti lambfjár
í haganum og einhverjir voru í veri. Hestar voru reknir
heim og járnaðir við smiðjudyr. Hvalur sóttur norður
á Strandir. Stóði var smalað og rekið til réttar, rakað
og síðan látið taka þrifabað í sjónum. Þá var líf í
tuskunum við Reykhólasjó. Utreiðartúrar, horskir syn-
ir, fríðar heimasætur. Svo voru undur náttúrunnar:
Grettislaug, Kraflandi. Þetta var opinberun fyrir mig,
eyjastrákinn.
Það er víðar fallegt en á Hvítárvöllum, þegar vel
veiðist. Og það „veiddist“ mikið á Reykhólum þetta
vor, en líka var miklu eytt. Til þeirra, sem fátækir
voru, var útbýtt á báða bóga: Eggjum, sel, hrognkels-
um, fugli. — Óþrotlegur gestagangur.
Oft hafði ég séð fátækum mönnum liðsinnt á köld-
um vordegi, en aldrei sem á Reykhólum.
Þessu stjórnuðu þau Hákon Magnússon og Arndís
Bjarnadóttir — Reykhólahjónin. — Hákon var öðling-
ur og ljúfmenni eitt hið mesta, sem ég hef kynnst,
og konan honum engu síðri að mannkostum og mildi.
Og allt gamla fólkið á Reykhólum. Gömlu hjónin,
Ólafur og Margrét, Þórður og Ólína, Brynjólfur og
Sigurrós. Öll lifðu þau í góðu yfirlæti á Reykhólum.
Svo var gamla konan, Barbara, sem hætt var að kom-
ast af rúminu sínu. Ekkert af þessu fólki vildi fara
frá Reykhólum, meðan Hákon og Arndís réðu þar
húsum. Það mun hafa verið þröngt í bænum, meðan
sundnámskeiðið stóð yfir, en hjartarúm húsbændanna
var óþrotlegt þá, eins og endra nær. — Eg veit það ekki,
en ég held, að Hákon og Arndís hafi verið vinsæl-
ustu hjón í öllum Breiðafirði um sína daga.
Nú er þetta fólk allt gengið til feðra sinna. Flest
mun það liggja í Reykhólakirkjugarði, hjá þeim Há-
koni og Arndísi.
Mér hlýnar jafnan um hjartarætur, þegar ég minnist
veru minnar á Reykhólum fyrir um það bil 40 árum. —
— Kynslóðir fara og kynslóðir koma. Nýtt fólk er
komið á Reykhóla. Embættismenn ríkisins eru setztir á
staðinn, og eflaust nýjir siðir með nýjum herrum.
Landnám ríkisins mun hafa tekið Reykhóla upp á sína
arma. Þar er risin af grunni tilraunastöð, mikil og
fögur tún ræktuð og fleiri í undirbúningi, ný sund-
laug hefur verið byggð, barnaskóli, bílar, vélar, verzl-
anir. Nokkur íbúðarhús eru byggð og önnur í smíðum.
Sjálfsagt eru það vönduð hús og góð, en lítinn svip
setja þau á staðinn. Þau eru öll hversdagsleg og þannig
sett, að lítið ber á þeim frá þjóðveginum. En á hóln-
um, þar sem bær Bjarna Þórðarsonar blasti við veg-
farendum, Hákon og Arndís bjuggu í mínu ungdæmi,
og gestrisnin sat á guðastóli, stendur ekki steinn yfir
steini. Hnípinn og veðurbitinn blasir hólinn við veg-
farendum. Hann má muna sinn fífil fegri.
Hvað á að koma á hólinn?
Kirkjan? —
Reykhólar voru síðasti viðkomustaðurinn í sýslunni.
Og eftir skamma viðdvöl var haldið til baka, inn
Barmahlíð, um Reykhólasveit og Geiradal, fyrir Gils-
fjarðarbotn til Dala. — Skroppið var heim að Ólafsdal
og litið á minnismerki Torfa og Guðlaugar. Það er
fallegt og öllum til sóma, er að hafa unnið. — Geira-
dalurinn og Reykhólasveitin eru einstakar að náttúru-
fegurð, og bújarðirnar orðnar dýrgripir í höndum
duglegra bænda. Ekkert er þjóðinni verðmætara en vel
setnar sveitir.
Þá var Barðastrandarsýsla öll að baki. Mjallhvítir
svanir á Gilsfirði kvöddu okkur með mjúku kvaki.
Öll leiðin norðan Breiðafjarðar, frá Skor austur um
sveitir í Gilsfjarðarbotn, er ein hin sumarfegursta á
landi hér, sökum fjölbreytni í landslagi og náttúru-
fegurðar.
„Fjörðurinn bjartur og breiður
brosir á aðra hlið,“
skreyttur eyjum, hólmum og skerjum. En á hina, snar-
brattar hlíðar, hvassbrýnar hyrnur, háar töflur, ávalir
múlar, þrekvaxnar axlir, skógur í þröngum dölum,
straumþungar ár og glitrandi lækir, svanir á grunnum
fjörðum, og ef til vill svífa ernir hátt í lofti yfir veiði
í vatni.
September 1956.
Bergsveinn Skúlason.
VÍSUR
Ur götunnar dyn,
er daginn lengir,
seiða mig fjallanna
fiðlustrengir.
Hið vaknandi líf
er ljóð mitt á vorin.
A grænni jörð
gekk eg fyrstu sporin.
í borginni flakka eg,
friðvana andi,
sem útlægur maður
í ókunnu landi.
Því byggðinni fögru
við blikandi sundin
er hjartað skylt
og hugurinn bundinn.
Daníel Arnfinnsson.
336 Heima er bezt