Heima er bezt - 01.10.1957, Blaðsíða 17

Heima er bezt - 01.10.1957, Blaðsíða 17
PÆTTIR ÚR VESTURVEGI eftir Steindór Steindórsson frá Hlö&um Meðal landa á nj. I Berkeley átti ég vinum að mæta heiman af íslandi. Er þar fyrsta að telja frú Gunnhildi Snorradóttur Lo- renzen, sem er gamall nemandi minn og góðvinur. Höfðu þegar farið bréf milli okkar, enda lágu fyrir mér boð frá henni, þegar ég kom til San Francisco. Sótti hún mig niður í háskóla, og átti ég ánægjulegt kvöld á heim- ili þeirra hjóna, en maður hennar er efnafræðingur og vinnur hjá Shellfélaginu í Oaldand. Eiga þau fallegt heimili í Orinda, smábæ að baki fjallanna við Berkeley. Annar gamall nemandi minn og góðvinur þar vestra er Vigfús Jakobsson frá Hofi í Vopnafirði. Höfðum við hitzt síðast á heimili foreldra hans að Hofi fyrir 10 ár- um, og óraði þá víst hvorugan fyrir því, að leiðirnar myndu næst liggja saman vestur á Kyrrahafsströnd, en „víða liggja vegamót“. Vigfús og kona hans, sem er amerísk, buðu mér út, meðal annars til að sýna mér borgina. Neyttum við fyrst kínversks kvöldverðar, og svo að ekkert vantaði, voru einnig bornir fram tréprjón- ar til að borða með. Handlék Vigfús þá af mikilli list, en mér gekk allt stirðlegar, og afsagði prjónana með öllu, er kom að hrísgrjónunum. Síðar fórum við um ýmsa staði, meðal annars segir Vigfús, að nú skulum við heilsa upp á Mac vin hans. Fórum við þá inn á bjór- stofu eina snoturlega búna í skozkum stíl, og var þar leikið á belgpípur með feikna hávaða. Við barinn stóð þar glaðklakkalegur náungi, klæddur skozkum þjóð- búningi. Þau hjónin heilsa honum kunnuglega og segir Vigfús um leið, að nú sé með honum góður kunningi sinn utan af íslandi. Mac réttir mér höndina og segir um leið á góðri íslenzku: „Sæll og blessaður, ég tala betri íslenzku en þú dönsku.“ Mér varð hálfhverft við, en svara þó í sama tón að þetta sé haugalygi, því að ég tali dönsku eins og innfæddur. „Láttu þá sjá,“ segir Mac, en nú á ensku, „og talaðu við þessa náunga, sem þarna sitja, því að þeir eru danskir.“ Ég gerði það, og varð mikið gaman af. Síðar sögðu hjónin mér, að kona Macs væri íslenzkrar ættar. Kom hún seinna þarna inn og spjallaði stundarkorn við okkur. Talaði hún furðu- góða íslenzku, og er þó fædd vestra og hefur lítið sam- neyti haft við íslendinga tímunum saman. Aleðan ég dvaldi í San Francisco kom þangað hópur evrópskra blaðamanna, sem boðnir voru af Bandaríkja- stjórn til þess að fylgjast með forsetakosningunum. Var meðal þeirra Þorsteinn Thorarensen frá Morgunblaðinu. Hittumst við, og vildi ég fá hjá honum fréttir, því að bréf hafði ég ekki fengið um alllangt skeið, en líkt var ástatt um hann, svo að ekki varð sú ferð til fjár. En báðir saman vorum við boðnir til Sveins Olafssonar, er búsettur er í Berkeley. Kom þangað um leið allstór hópur Islendinga, sem þar eiga heima, og áttum við þar ánægjulegt kvöld á hinu fagra og vistlega heimili Sveins og konu hans. Kínaborg. „Það kvað vera fallegt í Kína,“ segir Tómas Guð- mundsson, en ekki verður það nema að nokkru leyti heimfært á Kínaborgina miklu í San Francisco, sem er hin stærsta utan Kínaveldis, enda skína þar engar keis- arahallir né annað því líkt. Hins vegar er borgarhluti þessi, „Chinatown“, svo kínverskur, að vel mætti hugsa sér, að kómið væri þar til Austurlanda. Ég labbaði mig því eitt kvöldið til að skoða mig þar um, því að litlar vonir geri ég mér um að komast í nánari snertingu við ríkið mikla í austri. Enda þó.tt ekki sé gengið nema yfir eina þvergötu, breytist umhverfið snögglega. Vestræna borgin er horfin sýn. Framhliðar húsanna eru með kín- versku skrauti, og heil hús eru byggð þar í algerlega kínverskum stíl. Meira að segja eru þarna kínversk musteri. I verzlunargötunum er allt prýtt marglitum ljósum, en hliðargötur eru illa lýstar og skuggalegar, og ekki sem þrifalegastar. Hefur þó verið hreinsað veru- lega til í þessu hverfi á síðustu árum og heilar götur reistar að nýju. Flest fólkið, sem maður mætir, er mong- ólskt. Hægt er að ganga langan spöl án þess að sjá hvítt andlit, og varla heyrist enskt orð á götunum. Kínversk dagblöð eru þar hjá blaðasölunum, og auglýsingar eru meira á kínversku en ensku. í búðargluggunum eru kín- verskar vörur eða stælingar þeirra á boðstólum, sýnilega ætlaðar einkum forvitnum ferðamönnum til minja. Én ég stóðst þær freistingar, því að verð þeirra muna, sem mig fýsti helzt að eiga, var langt fyrir ofan kaupgetu mína í dollurum. Einna furðulegastar þóttu mér matar- búðirnar. Það ægði saman öllu matarkyns, frá hákarls- uggum og fiskdálkum að lifandi hænsnum. I einni búð- inni, sem ég leit inn í, var afgreiðslumaðurinn að stúta kjúkling handa viðskiptavininum, sem hafði skoðað kjúklingahópinn fyrst rækilega, áður en fórnardýrið var valið. Ég tala nú ekki um þefinn, sem lagði út úr matar- búðum þessum. Var það allra þefja blanda, en minnti þó helzt á þef af fiskkös eða forardíki, blandáð með kryddeim og ávaxtaangan. Þótt margt væri þar nýstár- legt, sá ég þó ekki rottugrislinga á boðstólum. Kínverj- ar eru að vísu taldir slyngastir matargerðarmenn í heimi, en fjarri fer því að matarbúðir þeirra örvi matarlyst eða löngun til að setjast að snæðingi. Ég leit þar inn á bjór- og kaffistofur, fékk mér bjór á einum stað, kaffi á öðr- um og te á þeim þriðja. Þar var alls staðar hreinlegt og Heima er bezt 337

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.