Heima er bezt - 01.10.1957, Blaðsíða 20
Prófessor Wiggins ásamt höfundi greinarinnar.
arnir voru geysistórir, í dálítið stærra broti en dag-
blöðin hér heima. Voru nöfn þeirra kandídata, er kjósa
skyldi um, prentuð á þá, en auk þess lagaboð þau öll, er
þjóðaratkvæði var greitt um, 20 að tölu. Var hver mað-
ur því alllengi að greiða atkvæði, en engin var ösin, svo
að mér gafst gott tóm til að spjalla við kjörstjórnina
meðan dr. Clausen greiddi atkvæði sitt. Voru konurnar
léttar í máli og fúsar til að fræða mig um hvað eina, sem
ég spurðist fyrir um viðvíkjandi kosningunum. Sagði
dr. Clausen síðan í gamni, að ég hefði skoðað öll kjör-
gögn, nema hin greiddu atkvæði. Annars sýndist mér
vandalítið að komast í atkvæðakassann, því að ekki var
hann innsiglaður.
Um kveldið vorum við dr. Clausen boðnir heim til
forstöðumanns Carnegie-stofnunarinnar, til að fylgjast
með kosningafréttunum í sjónvarpi. Var þar alls komið
um 20 manns af báðum flokkum, en ekki sáust þar
merki skoðanamunarins. Allir gerðu þar að gamni sínu,
og engin kerskiorð til andstæðingaflokksins flugu. Fann
ég þar, eins og ég raunar hafði oft áður komizt að raun
um, að menn greiða þar miklu meira atkvæði eftir per-
sónum en flokksfylgi. Enda kom það greinilega í ljós í
hinum glæsilega kosningasigri Eisenhowers. Og í raun
réttri hygg ég Stevenson hafi hitt naglann á höfuðið
um pólitísk viðhorf bandarískra borgara í ræðu þeirri,
er hann hélt í sjónvarp, þegar kosningaúrslitin voru
kunn, og hann óskaði keppinaut sínum til hamingju
með sigurinn, en honum fórust svo orð: „I kvöld erum
vér hvorki Demókratar né Repúblíkanar, heldur aðeins
Ameríkanar.“
Auðvitað kynntist ég ekki amerískri stjórnmálabar-
áttu bak við tjöldin, en af því, sem sjá mátti á ytra borð-
inu, varð mér ljóst, að margt gætum við af henni lært,
t. d. príiðmennsku í málflutningi, persónulegt sjálfstæði
gagnvart flokksvaldinu og síðast en ekki sízt að kunna
að taka sigri án ofsa og yfirlætis og ósigri með fullri
reisn og virðingu.
/ Stanford-háskóla.
Aður en ég fór að heiman, hafði talazt svo til, að ég
fengi að dveljast allt að þriggja vikna tíma við grasa-
fræðideild Stanford-háskóla. Hafði góðkunningi minn,
er ég þekkti frá Kaupmannahöfn, dr. Jens Clausen, haft
um það milligöngu, en hann hefur nú í rúm 30 ár starf-
að við Carnegie-stofnunina (Carnegie Institution) í
Stanford. Forstöðumaður grasafræðideildarinnar og
náttúrugripasafnsins, dr. Ira L. Wiggins prófessor, hafði
góðfúslega boðið mér að dveljast og starfa í grasasafn-
inu, en dr. Clausen bauð mér að búa hjá sér á meðan ég
dveldist í Stanford. A ég þessum tveimur mönnum
miklar þakkir að gjalda fyrir alla þeirra góðvild í minn
garð, þar sem ekkert var til sparað, svo að dvölin mætti
verða mér til sem mestrar ánægju og gagns.
Stanford-háskóli liggur í útjaðri smábæjarins Pa/o
Alto í Santa Clara-dalnum, um 30 mílur suður frá San
Francisco, en strandfjöll Californíu greina dalinn frá
Kyrrahafsströndinni. Háskólann stofnaði og gaf járn-
brautarkóngurinn Leland Stanford, og tók skólinn til
starfa 1885. Stúdentar eru þar um 8000, og er ekki með
góðu móti unnt að taka við fleiri, enda ekki til þess ætl-
azt, að skólinn verði öllu fjölmennari. Háskólahverfið er
fagurt og sérkennilegt og stílhreinna í byggingum en
flest önnur, er ég sá. Þegar komið er að háskólanum,
liggur leiðin frá bænum gegnum nær mílu löng pálma-
göng. Sést þegar á þeim, að nú er komið í suðrænt lofts-
lag. Eru pálmar þessir ekki ýkjaháir, en laufkróna
þeirra furðu mikil og stofnar gildir. Hvarvetna er
plantað trjám til skrauts, og ber þar mest á áströlskum
Eucalyptus-trjám, sem þar og annars staðar í Calfor-
níu eru ein algengustu trén, sem gróðursett eru til
skrauts og dafna þar ekki síður en í heimalandi sínu.
Verða sum þeirra allra trjáa hæst eða yfir 100 metra.
Og ekki eru 70—80 metra háir Eucalyptusar sjaldséðir
á þessum slóðum.
Meginbyggingar háskólans eru reistar úr gulum sand-
steini. Þær eru lágar, aðeins tvær hæðir, og gengur efri
hæðin út yfir hina neðri, og hvílir ytri brún hennar á
súlum, svo að súlnagöng myndast umhverfis húsin. Er
þetta líkur stíll og var á hinum kaþólsku trúboðsstöðv-
um, sem Spánverjar reistu í öndverðri byggð Califor-
níu og margar standa enn og eru hinar fegurstu, en
ekki verður því neitað, að dálítið sé stíll þessi þunglama-
legur, en vingjarnlegur er hann, og kann maður honum
því betur, sem kynnin verða lengri. Af sérstökum bygg-
ingum í Stanford má nefna Hoover-turninn, sem er 285
feta hár og var gefinn áf Hoover, fyrrum Bandaríkja-
forseta, en hann var gamall Stanford-maður. í turnin-
um er geymt bókasafn, sem eingöngu fjallar urn hem-
aðarmál og friðarmál. Eru þar meðal annars úrklippur
úr 3000 blöðum á meira en 30 tungumálum. Kvað safn
þetta vera einstakt í sinni röð. Kirkja Stanford-háskóia
er forkunnarfögur, reist í rómönskum stíl, með mjög
fögrum veggmálverkum og gluggaskreytingum. Var
ég þar eitt sinn við guðsþjónustu. Fór hún hátíðlega
fram að vonum, en meira þótti mér þó um helgiblæ
kirkjunnar sjálfrar en athafnarinnar.
340 Heima er bezt