Heima er bezt - 01.06.1958, Blaðsíða 7

Heima er bezt - 01.06.1958, Blaðsíða 7
SÖGUR MAGNÚSAR Á SYÐRA-HÓLI FLEYGURINN Gísli Brandsson spónasmiður, alkunnur maður á sinni tíð, ólst upp á Úlfagili á Laxárdal með foreldrum sínum á fyrra hluta 19. aldar. Svo bar við eitt gamlaárskvöld, er Gísli var ungur og innan við kristni, að hann gekk út úr bænum og fram á hlaðið nauðsynja sinna. Veður var hið fegursta, logn, glaða tunglskin og rifahjarn. Gísli stendur á hlaðinu og svipast um. Þykir honum undarlegt, er hann sér lest koma framan dalinn og hefur stefnu neðan við bæinn. Á undan fóru nokkrir klyfjahestar, og eftir kom ríð- andi fólk, dálítill hópur, sem vel gat verið ein fjölskylda. í hópnum var kona í kvensöðli og reiddi ungbarn. Flokkurinn þokaðist áfram með eðlilegum hætti, og er kom fyrir neðan bæinn á Úlfagili, vatt sér maður af baki, gekk að hesti konunnar og hlúði að barninu í kjöltu hennar. Um leið og maðurinn steig af hesti sín- um, sá Gísli, að glas rann úr vasa hans og féll niður í snjóinn. Gísli gætti þess vel, hvar glasið féll, og er lestin var komin fram hjá, hljóp hann til og tók það upp. Það var grænn fleygur með upphleyptum rósum og svo fagur, að aldrei þóttist Gísli slíkan séð hafa. Hann hljóp með fund sinn inn í baðstofu og sýndi föður sínum. Dálítill vínseytill var í glasinu. Brandur karl saup hann til botns, hýrnaði við og sagðist aldrei hafa bragðað jafn gott vín. Gísli tók aftur við glasinu og hugðist geyma vel slík- an forlátagrip. Er hann háttaði um kvöldið, gróf hann glasið djúpt ofan í heyið í rúmshorni sínu höfðalags- megin. Þegar hann vaknaði morguninn eftir, seildist hann eftir fleygnum og ætlaði að skoða hann við dags- birtu. Honum brá illa í brún, því að fleygurinn var þá horfinn og fannst ekki, hvernig sem hann leitaði og reif upp fletið. Sá Gísli hann aldrei síðan. Því trúði Gísli, að eigandi fleygsins hefði vitað af því, hvar hann lenti, ekki viljað missa svo góðan grip og sótt hann um nóttina. Engan efa taldi Gísli á því, að það hefði verið huldufólk, sem hann sá á gamlaárskvöld og verið að flytja sig búferlum, því fardagur þess er gamlaársdagur. Sögn Gísla sjálfs. — 1 bókinni Svipir og sagnir er þáttur af Gísla eftir Jónas Illugason frá Brattahlíð. Þar er þessi saga (bls. 69), en sögð nokkuð á annan veg, þó að sami væri heim- ildarmaðurinn, Gísli sjálfur. GUÐMUNDUR í KETUSELI Vorið 1868 fluttist ungur bóndi, sem Guðmundur hét og var Þorleifsson, að Ketuseli í Skagaheiði. Hann var ókvæntur en bjó með Ingibjörgu Magnúsdóttur frá Fjalli á Skagaströnd, Jónssonar. Þau áttu barn á fyrsta ári, dóttur, er Friðgerður hét. Ketusel var langt uppi í heiðinni. Þaðan er löng bæjar- leið að Ketu. Ekki var fleira fólk í selinu en þau þrjú, og skorti flest, er til þæginda mátti vera. Svo illa tókst til í selinu að áliðnum vetri, að þar dó eldurinn. Engin voru til eldfæri, svo að ekki varð kveikt upp að nýju. Var ekki annað ráð fyrir hendi en að fara á aðra bæi eftir eldi eða eldspýtum. Það verður ráð þeirra selbúa, að Guðmundur skuli fara vestur að Fjalli, því þar gat hann rekið fleiri erindi um leið. Hann lauk morgunverkum í fyrra lagi og bjóst síðan til ferðar. Færi var gott, en veður nokkuð tví- ráðið. Þegar Guðmundur kom að Fjalli, gekk að með fjúk, en var þó hægt veður. Hann vildi hraða förinni, en tafði stutt, enda eigi aftrað, svo illa, sem á stóð heima fyrir, en Guðmundur hraustmenni, ratvís vel og þaul- kunnugur á þessum slóðum. Guðmundur leggur nú af stað frá Fjalli og rak með sér forustuá, er hann átti þar, og sauð, og hafði nokkrar eldspýtur í vasa. Færi var gott, og bjóst hann við að verða fljótur í förum. Nú þyngdi óðum í lofti, og ekki löngu síðar en Guð- mundur fór frá Fjalli, brast á stórhríð. Segir ekki af ferðum hans, en seint um kvöldið eða um nóttina kom hundur hans heim á selið og klóraði hurðina ýlfrandi. Ingibjörgu grunaði þá, hvernig komið var og að Guð- mundar væri ekki heim von lifandi. Var henni löng nóttin, þar sem hún sat yfir barni sínu sofandi og hlust- aði á veðurdyninn á kofaþekjunni. Lítt vissi hún, hvað tíma leið, því að engin var klukkan. Loks slotaði veðrinu, og hafði sett niður mikinn snjó á heiðinni. Forustuærin kom aftur heim að Fjalli og bar þangað boð um það, hversu Guðmundi hafði farnazt. Ingibjörg yfirgaf kofagrenið, er kom fram á daginn, og brauzt ofan að Ketu með barn sitt. Magnús á Fjalli lét sækja hana og skepnur þær, er hún átti, þegar heiðin varð fær. Ingibjörg gekk og bar barn sitt í fangi alla leið vestur yfir heiði að Fjalli. Fannst mönnum mikið til um dugnað hennar og kjark, en hún þurfti oftsinnis á hvoru tveggja að halda, það sem eftir var ævinnar. Skagamenn og Skagstrendingar söfnuðu liði og leit- uðu Guðmundar, en árangurslaust. Um Jónsmessuleytið um vorið fundu tvær grasakonur af Skaganum lík Guð- mundar undir þúfu í Lambhaga, tanga, er gengur út í Ölfusvatn. Hann varð úti 1. apríl 1869 og var jarðaður í Ketu 26. júní. Sögn Maríu Ogmundsdóttur, en henni sögðu þær systur, Jóhanna móðir hennar og Ingibjörg sjálf. Heima er bezt 189

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.