Heima er bezt - 01.06.1958, Blaðsíða 21

Heima er bezt - 01.06.1958, Blaðsíða 21
ætlar líka að fara. Henni finnst það annars dálítið ein- kennilegt, að þessi ókunnugi lögregluþjónn frá Reykja- vík skuli bjóða henni að ráða hana í sveit næstkomandi sumar. Hvað skyldi hafa komið honum til að gera það? — Líklega hefir hann frétt um einstæðingsskap hennar, og kennt í brjósti um hana, boðið henni þetta af eintómri meðaumkun, en það orð vekur svo undur- djúpan sársauka í sál Astu. Þó er hún ákveðin í því að taka boði hans. Björt og drengileg mynd hins unga lögregluþjóns birtist aftur og aftur í huga hennar, og hún getur ekki annað en borið traust til hans, þrátt fyrir hin stuttu kynni. Valur gengur inn í herbergi sitt og sezt við skrif- borðið. Hann skrifar Þórdísi móðursystur sinni brjef. Hún er búsett í Reykjavík, og hjá henni hefir Valur haldið til öll sín skólaár í höfuðborginni. Þórdís .er vön að ráða eldhússtúlkurnar að Ártúni. Hildur, sýslu- mannsfrúin, treystir systur sinni bezt í því vali, og það hefir heldur aldrei brugðist henni. Valur skrifar nú frænku sinn um aðstæður Ástu og góðan vitnisburð fyrrverandi húsbænda hennar, biður Þórdísi að ráða ungu stúlkuna að Ártúni og senda sér svar það fyrsta. Síðan lokar hann brjefinu, styður hönd undir kinn og horfir hugsi fram fyrir sig. Hugur hans dvelur hjá Ástu. Hann sér hana í anda heima á fallega sýslumannssetrinu að Ártúni, og hann er sjálfur við hlið hennar. Umhverfis þau er ang- andi faðmur vorsins. Hann krýpur niður, knýtir sveig úr fegurstu rósunum, sem hann finnur, og setur á höfuð henni. Síðan leiðir hann munaðarlausu stúlkuna ungu, sem nú er orðin drottning hans, inn í höll fram- tíðarinnar. En honum er það full-ljóst, að sú leið verð- ur ekki án þyrna. Hann tekur bréfið af skrifborðinu, rís á fætur og gengur niður á pósthúsið. V. Ásta situr frammi í stofunni hennar Jónu og saumar. Hún hefir ekki séð Val lögregluþjón síðan kvöldið, er hann bauð henni að ráða hana í vist, og síðan er liðinn mánuður. Hún er því orðin vonlítil um vistráðningu hans. Nú getur hún farið að vinna heilsunnar vegna, og má heldur ekki fresta því lengur sökum fátæktar sinnar. En hvað á hún annars að gera? Ráða sig í vinnu á Sæeyri.... Hún fær ekki ráðrúm til að taka fulln- aðarákvörðun, því Jóna opnar stofuhurðina og segir brosandi: — Gerðu svo vel, hér er Ásta. Valur lögregluþjónn gengur inn í stofuna og hneigir sig kurteislega: — Góðan daginn, Ásta, segir hann. — Góðan daginn. Jóna býður gestinum sæti og gengur svo fram úr stofunni aftur. Valur sezt niður og lítur svo brosandi á Ástu. — Er þér ekki farið að leiðast eftir fréttum af vist- ráðningunni? Varstu ekki farin að halda, að ég hefði brugðist þér? Ásta lítur einarðlega á Val og segir: — Ég var sannast að segja orðin vonlítil um árangur. Brosið hverfur af andliti Vals, en honum fellur vel hreinskilni hennar. — Þér var alveg óhætt að treysta orðum mínum, Ásta, og nú er ég búinn að ráða þig að Ártúni. — Ég þakka þér alla fyrirhöfn þína mín vegna. Hvenær á ég svo að mæta til starfa? — Helzt um sumarmál. Hvað segir þú um það? — Ég get farið þangað hvenær sem er. Héðan hefi ég frá engu að hverfa, og það saknar mín víst enginn. Ég verð því atvinnunni fegin. Sársaukinn, sem hljómar í rödd hennar, snertir helg- asta strenginn í sál Vals. Hann horfir á Ástu nokkur augnablik, mildur og þögull, og blóðið þýtur um æðar hans. Hann verður að gæta sín. Hér er hvorki staður né stund til þess að birta leyndustu tilfinningar sínar, en rödd hjartans hvíslar heitt og hljótt: — Yndislega, munaðarlausa stúlka, héðan í frá áttu mig fyrir vin, viljirðu aðeins þiggja það, sem ég vil gefa þér. Hann brosir til Ástu og segir glaðlega: — Þetta er þá útrætt mál. Við sláum því föstu, að þú farir að Ártúni um sumarmálin. — Já, ég geri það. Mér er ekkert að vandbúnaði. — En hefir þú nóga peninga til ferðarinnar? Ásta hikar við svarið. Hún á litla aura, en peninga getur hún ekki þegið af Val. Hún segir því ákveðið: — Ég verð ekki í neinum vandræðum með farar- eyri. — Það er velkomið að ég láni þér, ef þú vilt þiggja það. — Ég þakka þér fyrir, en þess gerist engin þörf, enda veit ég ekki, hvernig mér gengi að koma greiðslunni aftur til þín. Valur brosir glettnislega. — Ég veit, hvar þú verður niðurkomin, og get þá komið þangað til þess að sækja greiðsluna, ef mér skyldi leiðast að bíða eftir henni. Þér eru peningarnir velkomnir. — Þakka þér fyrir, en ég þarf þeirra alls ekki með. — Jæja, við tölum þá ekki meira um það. — Valur er viss um, að Ásta þarf peninganna með, en hún er dálítið stórlát. Hann hefir kynnst tveimur þáttum í eðli hennar við þetta stutta samtal. Hreinskilni og dálitlu stórlæti. Og hún hefir vaxið í augum hans. Valur stendur upp af stólnum. Erindi hans er lokið. Hann gengur til Ástu og réttir henni höndina. Fast og hlýtt handaband. Viðkvæmt og glettið bros. Heitir straumar berast frá hjarta til hjarta. Ásta roðnar og lítur undan tilliti hans. Ef til vill mætir hún þessu bjarta brosi aldrei framar, en minning þess fylgir henni heim á ókunna sýslumannssetrið. — Valur segir svo að lokum: — Ég vona að hamingjan verði þér hliðholl í sumar, Ásta. — \?'ertu blessuð og sæl. Frh. í næsta blaði. Heima er bezt 203

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.