Heima er bezt - 01.12.1959, Side 6
á fegurð lífsins og tilverunnar. Því hafa allar hátíðir
andlegt vaxtar- og þroskagildi.
Já, allir hlutir skiptu um svip. Glóðafeykirinn, sem
gnæfði fyrir ofan bæinn minn, venjulega stoltur og
rismikill, stóð þessa daga í einhverri annarlegri, hljóðri,
cn auðmjúkri tign. Það hvíldi yfir honum óbifanleg
helgiró og lotning, eins og hann væri að hlusta á fjar-
lægar raddir, bíða eftir einhverju, sem átti að koma. Já
— það var eins og öll tilveran væri að hlusta, svo djúp
var kyrrðin. Það var eins og hún þyrði ekki að draga
andann, þyrði ekki að rjúfa hina helgu kyrrð.
Mér sýndist snjórinn bera annan lit þessa dagana.
Hann var blárri, hreinni. Einnig hann boðaði kyrrð og
frið — og hreinleika. En fegurstur var þó himinninn.
Hann bjó yfir dýpstu lotningunni. Morgunskýin, sem
voru á hægri siglingu yfir Hofsjökli, lituð af hinni lág-
gengu skammdegissól, voru eins og forkunnarfagrar
byggingar með turnum og skínandi hvolfþökum. Yfir
þeim hvíldi einhver dreymandi litauðgi og fegurð. Þá
var eins og allur hinn víði og rismikli fjallahringur um-
hverfis Skagafjörðinn hvíslaði út yfir byggðina: — Haf-
ið hljótt! — Hafið hljótt! — Og þarna hvíldu hin mörgu
bændabýli í friðsælli ró. Einnig þau biðu — biðu í eftir-
væntingu eftir einhverju óvæntu. Og þarna stóð kirkj-
an á Flugumýri. Einnig luin beið — beið eftir lotning-
arfullum, hátíðlegum og biðjandi kirkjugestum. Hún
beið eftir jólaboðskapnum. Já, öll tilveran beið í djúpri
lotningu og þögn. Þetta er hvorki skáldskapur né hug-
arórar. Þetta er mín eigin, andleg reynsla.
V.
A aðfangadagsmorgun byrjaði mamma á því að sópa
allan bæinn. Pabbi var allan daginn í fjárhúsum, hest-
húsi og fjósi. Hann reyndi alltaf að ljúka gegningum í
fyrra lagi þennan dag, og svo þurfti að búa sem bezt
undir morgundaginn, svo að þá væri minna að gera,
ekki sízt ef kirkjuferð stóð fyrir dyrum. Þá varð að
ljúka öllum störfum, áður en farið væri til kirkjunnar.
En ég held, að nálega alltaf hafi verið messað á Flugu-
mýri annað hvort á jóladag eða á annan í jólum.
Þess má geta, að þetta kvöld og á jóladag valdi faðir
minn alltaf bezta heyið sem hann átti til, handa skepn-
unum. Það var einn þátturinn í jólahaldinu.
Þá þurfti mamma að sjóða hangikjötið, ef til var,
skipta í rúmunum og margt fleira, sem ekki var neitt
sérstakt fyrir okkar heimili.
Um klukkan fjögur hófst hreingerningin á okkur
systkinunum. Mamma þvoði okkur öllum hátt og lágt
upp úr þvottabala. Fór sú athöfn venjulega fram í auð-
um bási í fjósinu, því að þar var hlýjast. Ekkert eld-
stæði var til í bænum, nema hlóðirnar í eldhúsinu, og
því víða kalt, þótt ég muni ekki sérstaklega eftir því.
Mátti skoða þennan síðasta þátt eins og nokkurs konar
hreinsunareld, sem við urðum að vaða, áður en gengið
væri inn í fögnuð jólanna. Því var honum tekið með
stillingu, þrátt fyrir allt.
Þegar við stigum upp úr baðinu, fórum við í hrein
nærföt, og svo auðvitað í sparifötin okkar, sem stund-
um voru þó orðin nokkuð gömul og slitin. Þá vorum
við reiðubúin að taka á móti jólunum, sem okkur var
sagt, að kæmu klukkan sex, eða þegar dagsett væri. Þess
má geta, að þá var klukkan tveimur tímum fljótari en
hún er nú, að minnsta kosti í sveitunum.
Við vorum á sífelldum hlaupum fram í bæjardyr til
að fylgjast með dagsröndinni á vesturloftinu, sem alltaf
varð minni og minni. Um þetta leyti kom pabbi alltaf
inn frá gegningum, og fór þá einnig að hafa fataskipti.
Oft hef ég horft hugfanginn á stjörnudýrð himinsins,
en aldrei hefur hún birzt mér í slíkri dýrð sem þetta
kvöld. Himinninn stóð þá vissulega opinn, fullur af
dýrð guðs. Djúpur og óendanlegur eins og eilífðin,
óskiljanlegur og dulur eins og sjálfur guð.
Um leið og ég gaf dagsröndinni í vestrinu nánar gæt-
ur, horfði ég einnig öðru hvoru inn í dimmbláan aust-
urhimininn. Þaðan hélt ég að jólin kæmu. Þaðan kom
nóttin helga, sem beið nú aðeins eftir því, að dagurinn
hyrfi alveg af vesturhimninum.
Og loksins — loksins hvarf hinn síðasti bjarmi þessa
dags á bak við vesturfjöllin, eins og ómur af yndisfögru
lagi, sem deyr út í fjarska, lagi sem var þó aðeins for-
spil að fegurri og dýrðlegri fagnaðarsöng, söng engl-
anna á Betlehemsvöllum.
Og — þá gerðist það, að mér fannst himinninn koma
niður til jarðarinnar. Pabbi kveikti á gljáfægðum lamp-
anum. Kannske var einnig kveikt á einu eða tveimur
kertum, litlum, litfögrum jólakertum. En um leið um-
myndaðist litla, fátæklega baðstofan og fylltist af dýrð
jólahelgarinnar. Það gerðist auðvitað ekkert hið ytra.
— En hið innra. — Ég veit það ekki. Kannske hefur það
aðeins verið barnsleg hrifning sem sá allt í þessu nýja
ljósi, sem gaf öllum hlutum þennan hátíðasvip. Já, jafn-
vel ganghljóðið í litlu klukkunni á veggnum varð öðru-
vísi. Kannske hér hafi líka verið um eitthvert inn-
streymi að ofan að ræða, eða hvort tveggja. En mér
fannst í sannleika dýrð himnanna fylla litlu og fátæk-
legu baðstofuna mína þetta kvöld.
En hvað gerðist svo? Til hvers hafði ég hlakkað? Jú,
allir voru í beztu fötunum sínum. Mamma fór að bera
inn jólamatinn, og var hverjum fyrir sig skammtað á
sérstökum diski. Þessi matur var ekki íburðarmikill.
Enginn heitur matur nema jólagrauturinn. Annars
hangikjöt, ein laufabrauðskaka, rúgbrauðssneið, væn
smjörsneið. Ef til vill var þarna á diskinum sneið af
reyktum lundabagga eða rcyktum magáli. Kannske lítill
harðfiskbiti. Þetta var auðvitað meiri og betri matur en
venjulega, en þó ekkert óhóf.
Þegar kvöldverði þessum var lokið, og diskar höfðu
verið bornir fram í búr, tóku allir sér sæti og pabbi las
jólaguðspjallið. Það var hátíðlegasta stund kvöldsins.
Pabbi og mamma sungu jólasálma fyrir og eftir. Við
systkinin reyndum að raula með. Þetta var stutt guðs-
þjónusta, en mér fannst eitthvað gróa í sál minni með-
an á henni stóð.
Á eftir sátum við litla stund kyrr og hljóð og nutum
þess aðeins, að það voru jól. Aldrei fengum við neinar
jólagjafir, og svo mun hafa verið á fleiri heimilum í
406 Heima er bezt