Heima er bezt - 01.12.1959, Page 13
hefði lifað lengur og reynt að hlynna að bróður sínum
til hinztu stundar.
I Varmadal var svo smíðað utan um bræðurna. Voru
kisturnar síðan sóttar þangað austan undan Fjöllum af
þeim Eyjólfi Jónssyni á Miðgrund og Sigurði Ólafssyni
á Núpi. Nóttina eftir að þeir fóru frá Varmadal, gistu
þeir með kisturnar í Steinmóðarbæ. Voru þær settar þar
inn í stofu. Að venju var lögð opin sálmabók sín á hvors
kistu og valdir samhljóða sálmar í opnuna. Að því búnu
var stofunni lokað og enginn umgangur um hana meira,
enda gengu menn rétt síðar til náða.
♦ Um morguninn, er kisturnar voru teknar út, fannst
mönnum það harla einkennilegt, að þá var búið að skipta
um sálma í opnu bókanna. Voru þar komnir allt aðrir
samhljóða sálmar en verið höfðu um kvöldið. Sannan-
lega hafði þó enginn gengið um stofuna, fyrr en þeir
Eyjólfur og Sigurður komu þar inn um morguninn.
Sumir héldu því fram, að vindgustur um opinn glugga
hefði orsakað þetta. En var þá ekki fráleitt að vind-
gusturinn skyldi einnig velja samhljóða sálma í opnu
bókanna? — Ekki hefur tekizt að fá upplýst með vissu,
hvaða sálmar voru valdir fyrst, er búið var að ganga
frá kistunum í stofunni í Steinmóðarbæ, en hitt er full-
víst, að um morguninn, er að var komið, var í opnum
bókanna á báðum kistunum sálmurinn nr. 345 (í Sálma-
bók, útg. 1903):
Á meðan engin mæúr neyð,
á meðan slétt er ævileið,
vér göngum þrátt með létta lund,
og leitum ei á Jesií fund.
En þegar kemur hregg og hríð,
og hrelling þjakar neyð og stríð,
í dauðans angist daprir þá
vér Drottin Jesúm köllum á.
Fleiri eru erindi sálmsins, en þau getur lesandinn séð
í nefndri sálmabók. Má með sanni segja, að sálmaval og
breyting frá hinum fyrri hafi farið fram á einkennilegan
hátt, svo að ekki sé meira sagt, og efni sálmsins mjög í
anda hins hörmulega atburðar.
Jarðarför bræðranna fór svo fram frá Ásólfsskála-
kirkju. Voru þeir lagðir í sömu gröf, og sannaðist þann-
ig hugboð þeirra, að þeir myndu hljóta sama legstað.
Frá vermannahópnum, sem kominn var að Kotströnd,
er það að segja, að ferð þeirra til Reykjavíkur gekk
greiðlega. Náðu þeir, sem til Eyjanna ætluðu, umræddri
skipsferð og hlutu góða ferð.
Margir voru ekki vinnufærir strax eftir suðurkomuna
vegna afleiðinga frá veðrinu á Rangárvöllum, kals og
ofþreytu, en þeir jöfnuðu sig þó, er frá leið. Skipstjóri
sá, er Einar Ingvarsson var ráðinn hjá, varð til dæmis að
bíða eftir honum hálfan mánuð, á meðan kalsár hans
Steinmóðarbær vorið 1911.
greru að nokkru. En lengi bar Einar sár þessi, er greru
bæði seint og illa.
Jón Stefánsson og Páll Einarsson fóru til Eyja eins
og til stóð. Páll drukknaði þar þennan vetur af mb. ís-
land, Ve. 118, þann 12. apríl. Jón tók sér síðar bólfestu
í Eyjum og drukknaði þar af bát sínum, mb. Haffara,
Ve. 116, þann 9. apríl 1916.
Eins og áður getur, giftist Þorgerður Jónsdóttir frá
Hrútafelli Snorra Þórðarsyni í Steini í Eyjum. Hlífði
það henni við kali og jafnvel dauða í ferð þessari, að
hún naut sérlega góðrar umönnunar ferðafélaga sinna og
var auk þess mjög vel búin að öllum fatnaði, sem áður
getur. Varð henni ekki varanlegt mein af erfiðleikum
og vosbúðinni í hrakningunum.
Um Björn á Efstu-Grund er það að segja, að aldrei
varð hann sami maður eftir þessar hörmungar, hrakn-
inginn og bræðramissinn.
Ekki hefur tekizt enn að hafa upp á nöfnum þeirra
Mýrdælinga, sem í þessum hrakningum lentu, utan Eyj-
ólfs Grímssonar, Nikhóli. Hefur þó mjög verið reynt
til þess, og þá ekki sízt að hafa upp á nafni stúlkunnar,
sem með þeim var. Eru þess vegna þeir, sem kynnu að
lesa þetta og vita einhverjar upplýsingar um Mýrdæl-
ingana, beðnir að láta blaðinu þær í té.
Ég hef þá lokið frásögn þessari. Ég hef reynt að vinna
úr munnlegum heimildum margra, eins vel og mér var
auðið, og skýrt frá því, sem mér fannst máli skipta. Efa-
laust hefði mátt hafa frásögnina betur úr garði gerða að
stíl og málfari, en ég held hins vegar, að rétt sé með
efnið farið og það komi skýrt fram. Bið ég þess vegna
væntanlegan lesanda að hafa það að jöfnu.
Skráð í marz 1959.
Heimildarmenn að frásögninni eru:
Þórður Stefánsson, Einar Ingvarsson, Sigurjón Olafsson,
Jón Sigurðsson, Vestmannabraut 73, o. fl.
LEIÐRÉTTING VIÐ BÓKASKRÁ
(HEB 13. tbl.)
Bók nr. 50 er Þrir óboðnir gestir
Bók nr. 60 er Pilagrimsför og ferðaþœttir
Heima er bezt 41 ?>