Heima er bezt - 01.12.1959, Page 16
hann sagðist vilja dansa við mig af því að ég væri ís-
lenzk. Eg reyndi að afsaka mig með því, að ég kynni
ekki sænskan dans. Hann sagði, að það gerði ekkert til
og við dönsuðum stökkdans. Frú Hannover horfði á
dansinn, og þegar ég kom til hennar á eftir sagði hún:
„Þetta gekk bara vel, það var blái prinsinn, sem þú
dansaðir við.“ Það var sonur Svíakonungs; viðurnefnið
fékk hann af því, að hann gekk alltaf bláklæddur.
Þjóðverjinn, sem þekkt hafði búning minn á grímu-
dansleiknum, var doktor í einhverjum fræðum og
fékkst við vísindastarf í Svíþjóð um þessar mundir.
Hann fór að venja komur sínar til okkar frú Hannover.
Hann var músikalskur og féll henni hann vel í geð.
Bráðlega tjáði hann henni, að hann vildi taka mig með
sér til Þýzkalands og giftast mér. I'yrst átti ég að vera
á heimili móður hans, sem hann sagði að væri mjög rík
og fá að læra allt, sem ég vildi. Ég hafnaði strax þessu
boði og sagði frú Hannover, að ég þekkti manninn
ekkert. En hún lagði fast að mér og fannst þetta vera
sérstakt tækifæri fyrir mig. Að síðustu lofaði ég að
hugsa mig um. Um nóttina dreymdi mig að pabbi kæmi
til mín og segði:
„Gættu þín barn.“
Um morguninn fór ég að hugsa um, hvað ég ætti að
varast. Ég bað húsmóður mína leyfis til að fara út. Ég
fór rakleiðis til danska ræðismannsins og sagði honum
allt af létta og bað hann að grennslast fyrir um hagi
þessa þýzka manns. Síðan fór ég heim og beið átekta.
A öðrum degi kom ræðismaðurinn sjálfur til mín á
hótelið. Hann sagði mér, að ekkert væri við mannorð
Þjóðverjans að athuga, hann ætti ríka móður og væri
sá sem hann segðist vera, en hann væri giftur og ætti
þrjú börn.
Frú Hannover varð yfir sig reið, þegar hún heyrði
þetta, og það var hún sem gaf honum svar við bónorð-
inu. Ég var í næsta herbergi og heyrði til þeirra. Hann
reyndi að afsaka sig með, að hann hefði haft framtíð
mína fyrir augum. Frú Hannover þóttist vita betur og
sagðist þekkja fröken Dahlman svo vel, að hún vissi, að
hún kærði sig ekki um að verða hjónadjöfull.
Ég bað hana að segja engum frá þessu, en hún var
of æst til að geta þagað og bráðlega vissu það allir á
hótelinu. Maðurinn neyddist til að flytja burt.
Frú Hannover ráðgerði nú ferðalag til Chicago. Þar
átti að halda mikla sýningu um vorið. Ég hlakkaði til,
því ég bjóst við að geta hitt systkini mín, sem búsett
voru í Ameríku. Þá kom fyrir atvik, sem kom í veg
fyrir að ég kæmist þangað. Ég hafði dottið í stiga og
meitt mig á leggnum, en haldið að það myndi gróa af
sjálfu sér. Eftir fjóra daga fann ég svo mikið til, að ég
sagði frú Hannover frá því. Hún gerði strax boð eftir
lækni. Hann reyndist vera ungur, og eftir að hafa at-
hugað fótinn, talaði hann við frú Hannover á þýzku.
Ég var farin að skilja svo mikið í því máli, að ég heyrði
416 Heima er bezt
að hann sagði, að það væri blóðeitrun í fætinum, og
ekkert annað hægt að gera en að taka hann af. Ég hróp-
aði eins hátt og ég gat, að ég vildi heldur deyja, en
missa fótinn. Frú Hannover lét þá sækja líflækni drottn-
ingarinnar. Hann sagði mér að hætta að gráta, það væri
óþarfi að taka af mér fótinn. Hann lét mig Hggja í hálf-
an mánuð með ís við legginn. Hann vitjaði mín dag-
lega og smám saman batnaði mér. Hann var elskulegur
gamall maður, og þegar ég var komin á fætur, faðmaði
hann mig að sér og sagðist gleðjast yfir, að hafa getað
bjargað mér.
Ég sagði við frú Hannover, að lækna, eins og unga
manninn, ætti að skjóta.
Þó ég væri komin á fætur, sagði læknirinn að ég
þyldi ekki að búa niður farangur og ferðast til Chicago.
Það voru mér mikil vonbrigði. Ég ráðlagði frúnni að
fá sér enska stúlku í minn stað, því að ég talaði ekki
ensku. Hún gerði það, og ég setti stúlkuna inn í embætt-
ið og sagði henni hvemig hún ætti að umgangast
gömlu konuna.
(Framhald).
Bernskujólin mín
Framhald af bls. 407. ---------------------—
ann af litlu kerti á rúmstuðlinum. Litla baðstofan í
Torfmýri, sem jöfnuð var við jörðu fyrir áratugum,
verður aftur höll drauma minna og vona. Angan gam-
alla minninga stígur upp af hrandum rústum. Og nú sé
ég aftur litlu baðstofuna mína fulla af dýrð guðs. Ég
sé pabba og mömmu sitja á rúmunum sínum, kannske
dálítið þreytuleg, en ég finn þó ylinn og ástúðina
leggja frá þeim gegnum tíma og rúm. Það var þó fyrst
og fremst þeim að þakka, að ég átti glöð og hamingju-
söm bernskujól. Þar sem ástúðin situr að völdum, eru
menn ríkir í allri sinni fátækt.
Hvað hef ég svo skrifað um jól bemsku minnar?
Ekkert, sem tahzt getur í frásögur færandi. Ekkert
hátíðahald á nútíma mælikvarða. Engar jólagjafir.
Ekkert jólatré. Ekki einu sinni lítið jólakort. Og þó
eru þessar minningar fjársjóður, sem ég vildi ekki selja
fyrir nokkurt gull. Þær eru hluti af mér sjálfum, þær
eru þáttur af skapgerð minni, þroska mínum og ham-
ingju minni. Þær eru með allra dýrustu perlunum á
bandi minninganna.
Um eitt skeið harmaði ég hina ytri fátækt æskujóla
minna. Ég geri það ekki lengur. Nú þykir mér vænt
um þau öll, jafnvel skugga, sem stundum hvíldu yfir
þeim. Þeir gerðu birtuna enn skærari. Þau voru öll
yndisleg.
(Ur bókinni „Hetjur hversdagslífsins").