Heima er bezt - 01.12.1959, Blaðsíða 36
hann skammast sín fyrir að skrifa, finnst henni sjálfsagt
upphefð. En um þetta geturðu þó ekki talað í síma.“
Rósa fór nú samt og pantaði Laugu í síma daginn eftir.
Henni fannst kvöldið, nóttin og næsti morgun aldrei
ætla að líða.
Loksins var hún kölluð að símanum, og glaðlegi mál-
rómurinn hennar Laugu sagði: „Ég er nú bara hissa, að
ég skuli ekki hafa kallað þig í síma fyrr, Rósa. Það er
alveg eins og þú sért að tala hérna rétt hjá mér.“
„Já, alveg eins, elsku Lauga mín. Hvað segirðu í frétt-
um? Er alltaf hríð og snjór hjá ykkur, þama fyrir norð-
an?“ spurði Rósa.
„Nei nei, hér er alauð jörð. Þú h'klega þekkir það nú,
hvað snjólétt er hérna á Ströndinni okkar,“ svaraði
Lauga.
„Það var séra Gísli, sem sagði mér það. Ég var að
hugsa um að fara norður með honum. En hann taldi
mig á að bíða vordaganna,“ sagði Rósa.
„Það er náttúrlega það vanalegasta að flytja sig að
vorinu,“ sagði Lauga.
„Mér finnst þú vera að letjast við að skrifa mér og
ekki sízt að segja mér frá Hofi. Hvernig líður á því
heimili?“ spurði Rósa.
„Ég veit ekki annað, en að það líði vel þar. Ég hef
ekki komið á það heimili síðan í sumar, og það er víst
ekki mikið um gesti þar, heyri ég sagt,“ svaraði Lauga.
„Hvernig hefur Asdís það núna? Er hún alltaf eins
merkileg og hún var í haust?“ spurði Rósa og beið með
óþreyju eftir svari.
„Ég hef ekki séð hana síðan í haust. Bogga kemur
heldur aldrei. Það var hún, sem kom með sögurnar,“
svaraði Lauga í Iægri tón.
„Jæja, er ekkert sögulegt við hana lengur?“ spurði
Rósa.
„Það er ekki hægt að segja, að það sé ekki talað um
hana í sveitinni. En það er ekki hægt að tala um slíkt í
síma.“
Rósu fannst hún vera hálfvandræðaleg í máli.
„Þá verðurðu að skrifa mér það, elsku Lauga mín,
og segja mér allt, sem talað er um hana,“ sagði Rósa.
„Hamingjan góða! Það yrði svo langt bréf, að þú
yrðir uppgefin að lesa það,“ svaraði Lauga.
Svo kvöddust þær vinkonurnar.
Karen beið með óþreyju eftir dóttur sinni.
„Þarna kemurðu þá, Rósa mín,“ sagði hún um leið og
Rósa kom inn í stofuna. „Þetta hefur orðið langt sím-
tal. Hvað sagði Lauga okkar?“
„Það var svo gaman að heyra til hennar. Hún sagði,
að Ströndin væri snjólaus og lét yfirleitt vel af öllu þar
fyrir norðan. Mig fór að langa heim, þegar ég heyrði til
Laugu.“
„Einmitt! Kannske þú sért að hugsa um að flytja í
þetta viðkunnanlega heimili, sem nú er orðið á Hofi?
Ásdís ætlar að verða svo almennileg að hafa ekkert á
móti því, að þú komist á básinn þinn, rýma til úr hjóna-
rúminu!“
„Mamma, þér dettur þó ekki í hug að hann hafi haft
hana í rúminu hjá sér?“
„Ég trúi öllu, sem ég heyri um þann mann,“ sagði
nú Karen og kvað fast að orðunum.
„Ekki tryðirðu því, að hann væri þjófur. Það er ég
viss um að hann verður aldrei,“ sagði Rósa áköf.
„Það væri ekkert lakara en þetta.“
Rósa settist í djúpan stól úti í homi, þar sem dimmast
var. Hún seig saman, svo að hún líktist helzt hálfvöxn-
um unglingi. Það varð löng þögn.
Loks sagði Rósa: „En ef þetta reynist nú satt, get ég
ekki farið norður aftur. Á hverju á ég þá að lifa?“
„Þú færð sjálfsagt eitthvað af Hofsbúinu og svo með-
gjöf með drengnum. Einhvern veginn get ég lifað í
mínu ekkjustandi. Það er bezt að vera ekki að þreyta
sig með svona hugsunum. Koma tímar og koma ráð,“
sagði Karen. Það lék kalt glott um varir hennar.
„Mamma, það er engu líkara en að þig langi til að
hlæja að þessum vandræðum,“ sagði Rósa gremjulega.
„Finnst þér þetta ekki hræðilegt, að fá aldrei að vera á
Hofi? Og svo Jón litli, eins og hann er búinn að hlakka
til.“
„Það verða einhver ráð með hann. Hann er farinn að
gleyma Hofi. Ég get vel hugsað mér, að þetta verði
okkur til mikillar gæfu.“
„Nú skil ég þig ekki, mamma.'1
Næst þegar bréf kom frá Kristjáni, var hann dáltið
spaugsamur. Sagði hann, að hún hefði hlotið að vera
eitthvað utan við sig þegar hún hefði verið að skrifa
sér seinast. Hún hefði gleymt sínu góða bréfi, en látið
hans bréf innan í umslagið. Sjálfsagt væri hún búin að
sjá mistökin og bréfið komið á leið til sín norður.
Rósa sendi honum bréfið aftur, en skrifaði aðeins á
öftustu síðuna, sem var að mestu leyti auð: „Þú skalt
ekki vera að hafa fyrir því að skrifa Iengur. Bréfin þín
eru orðin svo innantóm, að það er ekkert gaman að lesa
þau. Enda er ég ekkert hissa á því, eins og sagt er að
högum þínum sé háttað."
„Það er svo sem auðséð, að nú er prestdjöfullinn
kominn í spilið,“ tautaði Kristján, þegar hann hafði
lesið þessar fáu línur frá konunni, sem einu sinni hafði
enzt til að skrifa á átta arkir marklaust ástarugl um
hamingjusamar framtíðarvonir ,og sent honum marga
krossa á öftustu síðunni. Þeir áttu að þýða kossa. En það
var orðið langt síðan. Hann varð samt feginn, að hann
var laus við að segja henni frá hrösun sinni. Hún yrði
farin að jafna sig, þegar hún kæmi norður.
En hvernig í ósköpunum átti hann að fara að því að
koma Ásdísi burtu af heimilinu? Það yrði allt annað
en þægilegt. Hann samdi uppkast að mörgum bréfum
til konunnar, en ekkert þeirra komst lengra en í ofninn.
436 Heima er bezt