Heima er bezt - 01.09.1960, Side 26
Ingibjörg Sigurðardóttir:
SJOTTI
HLUTI
1 ojónustu Meistarans
SKÁLDSAGA
Ég stóð kyrr um stund og starði eins og í leiðslu á
Gunnar minn. Sálarkvöl mín var takmarkalaus. En svo
brast eitthvað skyndilega í brjósti mínu, allt hring-
snerist fyrir augum mér, og ég hné örmagna niður við
legubekkinn.
Ég veit ekki, hve lengi ég lá þar, en ég rankaði við
mér aftur við það, að dóttir mín stóð hjá mér og spurði
mig, hvað væri að mér. Talfæri mín voru þá svo mátt-
vana, að ég gat enga skýringu gefið henni. Hún gat svo
hálpað mér til að komast að rúmi mínu og upp í það,
en svo fór hún og náði í lækni. Hann hefur víst komið
eftir skamma stund. Ég sá hann standa við rúmið ásamt
dóttur minni, og heyrði hann segja við hana:
— Hvað hefur komið fyrir konuna? Dóttir mín vissi
það ekki. Læknirinn hristi höfuðið og sagði:
— Hér er um mjög alvarlegt áfall að ræða. Ég held að
bezt verði að flytja hana strax á sjúkrahús.
Svo heyrði ég ekki meira, ég hef víst fallið í svefn,
en morguninn eftir vaknaði ég á sjúkrahúsi. Ég lá þar
milli heims og helju í nokkrar vikur, en svo fór ég að
rétta við aftur. Systkinin komu stöku sinnum til mín,
meðan ég lá fárveik, og fylgdust með líðan minni. Þau
sögðust sofa heima í húsinu okkar, en Gunnar minn
keypti sér fast fæði niðri í bæ.
Svo var það einn daginn, að dóttir mín færði mér
þær fréttir á sjúkrahúsið, að hún væri á förum alfarin
til Ameríku. Ég var þá orðin það hress, að ég gat komið
því mjög fljótt í framkvæmd að láta selja húsið mitt
og mest alla búslóðina. Síðan lét ég skipta helmingnum
af andvirði þess á milh barnanna minna, og meira gat
ég ekki fyrir þau gert. Dóttir mín fór skömmu síðar
til Ameríku, en Gunnar minn hætti um líkt leyti að
vinna í landi og réð sig á togara.
Ég losnaði af sjúkrahúsinu eftir fjögra mánaða dvöl
þar, að vísu sæmilega frísk, en nú var mér það ljóst,
að ég átti ekki samleið með neinum. Ég keypti þá þenn-
an litla, afskekkta bæ af gömlum hjónum, sem fluttu
á elliheimili, og hér hef ég svo búið ein síðan. Ég hef
frá því að ég flutti hingað þvegið gólf í verzlun einni
skammt héðan og fengið aura fyrir það, og þær tekjur
hafa nægt mér til viðurværis ásamt ellilaunum mínum,
enda geri ég ekki hærri kröfur en svo. Síðan ég kom
hingað, hef ég ekki afskipti af neinum nágranna mín-
um, og engum kynnzt, nema lítilsháttar kaupmannin-
um, sem ég vinn hjá, og búðarstúlkunum hans. Fólk
álítur mig víst heldur ekki með heilum sönsum, en það
er svo góðum guði fyrir að þakka, að ég hef alltaf hald-
ið mínu viti óskertu, þótt lífsreynslan hafi gert mig
einræna nú í seinni tíð. Börnin mín voru bæði farin frá
mér. Dóttirin í aðra heimsálfu, en sonurinn á hafið. Ég
fékk árlega fyrir jólin bréfspjald frá dóttur minni,
fyrst eftir að hún flutti vestur, og lét hún vel yfir líðan
sinni. En svo hætti hún alveg að láta frá sér heyra, og
ég veit því ekkert, hvort hún er lífs eða liðin.
— Gunnar minn stundaði stöðugt sjóinn, en þá sjald-
an hann var í landi, hélt hann sig einhvers staðar niðri
í bæ hjá félögum sínum og kom venjulega ekki til mín,
fyrr en rétt áður en hann þurfti aftur að fara á sjóinn,
og þá oftast úttaugaður eftir miður góðar lystisemdir.
Ég reyndi að þjóna honum og prjónaði á hann, það
sem ég gat. Hann kom svo og sótti fötin sín til mín
öðru hvoru, en mér var það þung raun að sjá útlit
hans. Ég gat ekkert aðhafzt honum til bjargar, nema
það eitt að biðja fyrir honum. Og ég bað til Guðs fyr-
ir drengnum mínum á hverju kvöldi, áður en ég sofn-
aði, og á hverjum morgni, þegar ég vaknaði. Bað Guð
almáttugan að vísa honum á rétta leið, og ég trúði því
og treysti, að ég fengi bænheyrslu um síðir.
— Svo var það síðastliðið haust, að Gunnar minn
kom í land og átti frí, meðan togarinn sigldi með afla
sinn til Þýzkalands. En aldrei þessu vant kom hann
beina leið af skipsfjöl heim til mín alveg ódrukkinn,
og var hér heima hjá mér allan tímann, meðan hann
dvaldi í landi, án þess að bragða áfengi. Ég lofaði Guð
heitt fyrir þá daga, þeir voru mér til ósegjanlegrar
gleði. Svo fór Gunnar minn aftur á sjóinn, en ég hélt
stöðugt áfram að biðja fyrir honum.
— Næst þegar hann kom í land, hafði hann sama sið-
inn og í fyrra skiptið, kom beina leið heim til mín, og
þá færði hann mér peninga að gjöf. Hann var ger-
breyttur, blessaður drengurinn minn. Það hafði gerzt
kraftaverk í lífi hans.... Nú sagðist hann ætla að láta
lagfæra bæinn minn næstkomandi vor og hlúa vel að
mér í ellinni. Hann sagðist aldrei framar ætla að neyta
áfengis. Ég fann að þetta var hans hjartans ásetningur.
Guð hafði sannarlega bænheyrt mig og vísað honum
á rétta leið. Hann sagði mér, að skipið sem hann var á,
myndi verða í höfn um jólin, en það var eftir tæpan
mánuð. Og nú ætlaði hann að eiga jólin heima hjá mér
að þessu sinni.
314 Heima er bezt