Heima er bezt - 01.11.1964, Blaðsíða 24

Heima er bezt - 01.11.1964, Blaðsíða 24
b. Sveinbjörg Kristjana, fædd 5. júlí 1872, dáin 31. okt. 1953, kona Jóns bónda á Vatnsenda Jónssonar bónda í Hólum Ólafssonar. c. Lilja Júlía, fædd 11. júlí 1873, dáin 31. maí 1940. Hún var sambúðarkona Helga verkamanns á Akureyri og Reykjavík Jónssonar. d. Guðbjörg Sigríður, fædd 4. maí 1875, dáin 22. febr. 1954. Hún var þriðja kona Sigfúsar bónda á Arn- arstöðum Jónssonar bónda sama staðar Tómassonar. e. Viktoría Ingibjörg, fædd 4. maí 1877, dáin í Reykjavík, kona Sveinbjörns prentara í Reykjavík Oddssonar. f. Kristján Valdemar, fæddur 11. júní 1889. Hann var bóndi og hreppstjóri á Möðruvöllum í Eyjafirði. Kona hans var Guðrún Jónasdóttir bónda á Völlum í Eyjafirði Jónassonar. Af 17 barnabörnum þeirra Hólakotshjóna eru tvö enn á lífi, 1964, þau Indíana Jóhannesdóttir, 95 ára, og Valdemar Pálsson, 75 ára. XI. Þegar Hólakotshjónin Iétu af búskap, ákvað Guð- björg Pálsdóttir að vinna sjálf fyrir sér og dóttursynin- um meðan kraftar entust. Hún var því í eins konar sjálfsmennsku hjá Maríu dóttur sinni og manni hennar, þar til Valdemar dóttursonur hennar fór frá henni og til föður síns, sem þá var farinn að búa á Jórunnarstöð- um. Þá var Valdemar um fermingu. Eftir það var Guð- björg á vegum Maríu dóttur sinnar, og síðustu árin hjá Önnu dótturdóttur sinni, þegar hún og Friðfinnur Sig- urðsson maður hennar fluttu búferlum að Árgerði. Þá var Guðbjörg Pálsdóttir orðin 94 ára. Nú gat hún lifað rólegu og áhyggjulausu lífi og nærst af minningum liðinnar langrar ævi. Heilsan var enn þá góð og minnið trútt. Hún sagði margar sögur frá æsku- stöðvum sínum í Kjósinni af mönnum og huldufólki, sem skráðar hafa verið í óprentuðu þjóðsagna safni. Frá- sögn hennar var skipuleg og skýr. Fram til hinztu stund- ar var hún furðu bein í baki og óreikul í spori. Árin og erfiðið höfðu að vísu ekki hlífst við að rista rúnir sínar á andlit hennar, en svipurinn var hreinn og hýrlegur. Spuni og prjón var hennar tómstundaiðja. Þó segja megi, eftir almennu mati þeirra efna, að hún hefði lengstum verið forsælumegin í lífinu, þá voru þó í huga hennar sólskinsblettirnir miklu meir áberandi. Ævi hennar og athafnir var samfelld fórn í annarra þágu frá morgni til ævikvölds. Hún hafði elskað og ver- ið elskuð. Vitundin um það var hennar Ijúfa kveldskin, sem lýsti og vermdi og gerði hugann heiðan og ylríkan. Það var löngum siður Guðbjargar hvem morgunn, er hún var klædd, að ganga út undir bert loft, lesa morg- unbæn og signa sig. Morguninn 7. apríl 1898 fór hún á fætur eins og venjulega og gekk út, las bænina sína og signdi sig. Þeg- ar inn kom tók hún rokk sinn og fór að spinna. En eftir litla stund lagði hún rokkinn frá sér og hafði orð á því að „í sér væri eitthvert óhræsis slen“. Kvaðst hún ætla að halla sér um stund. Lagði hún sig þá útaf í rúm sitt og var látin eftir litla stund. Þannig var hennar bana- lega, hljóðlát og stutt. Þá hafði hún lifað rétta tvo mánuði af hundraðasta aldursárinu. Þannig lauk langri og dáðríkri ævi kvenhetjunnar úr Kjósinni suður. Draumar Framhald af bls. 403. ---------------------------- Hrími. Ég vissi líka, að það yrði auðsótt mál, því að Jarpskjóni var í alla staði útgengilegur, fríður, viljugur og bar sig afar vel. Þórarinn Egilson kaupmaður í Hafnarfirði var þá ungur verzlunarmaður í Reykjavík og keypti þá og síðar nærri alla gæðinga, sem hann sá. Sá hann mig nú á Jarpskjóna og bauð mér strax í hann ágætt verð. Ég var hálf hræddur um, að Þórarinn myndi ekki eiga hann lengi frekar en marga aðra gæðinga, sem hann keypti þá, og beiddi ég hann um frest í bili. Með mér í þessari ferð var vormaður, sem Sveinn Jónsson hét, síðar bóndi í Arnarbæli í Grímsnesi, dýra- vinur og ágætisdrengur. Mig grunaði að hann hefði hug á Skjóna, en væri hræddur um, að hann yrði svo dýr, að hann treysti sér ekki til að kaupa hann. Ég fór nú strax til hans og spyr hann, hvort hann vilji kaupa Skjóna. Hann viti um þennan galla, sem á honum sé, en ég voni þó að hverfi af honum. Segi ég honum, hvað Þórarinn bjóði mér í hann, en hann skuli fá hann all- miklu ódýrari, ef hann vilji heita mér því að eiga hann alltaf, því að ég vilji ekki vita af honum flækjast. Var allt þetta auðsótt og vel efnt. Sveinn átti Skjóna alla tíð og fór svo vel með hann, að ég hefi engum hesti vitað líða betur. Varð hann um þrítugt, þegar Sveinn loks gat haft sig í að fella hann með stórsöknuði. Ég hefi líklega engum hesti, sem ég hefi átt, verið betri en Skjóna. Kannski hann hafi verið að launa mér það, að ég bjargaði honum frá mansali (hrossaprangi) með því að fylgja mér yfir landamærin. Hver veit og skilur? Draum þennan sagði ég þremur prestum: þeim séra Gísla Jónssyni á Mosfelli, séra Kjartani Helgasyni í Hruna og séra Jóhanni Þorkelssyni dómkirkjupresti, sem fékk hann uppskrifaðan — nú fyrir mörgum árum. Vona ég að litlu muni á honum, þótt langt sé um liðið. AUir sögðu prestamir mér síðar, að þeir hefðu notað efni hans í ræðu og flutt úr prédikunarstóli. 408 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.