Heima er bezt - 01.03.1973, Blaðsíða 28
sé hún ósegjanlega sár og þung. En aldrei skal hún
bregðast eiginmanni sínum.
Bergþóra hefir nú komið þrjú laugardagskvöld í röð
í heimsókn á heimili sonar síns, en aldrei hitt hann
heima. Auður hefir sagt henni að Hreinn væri úti að
spila með kunningjum sínum, og hefir reynt að tala um
þetta eins og hversdaglegan hlut og eðhlegan, og látið
sem hún væri ánægð með kjör sín eins og ætíð áður.
Bergþóra er samt svo skarpskyggn, að henni dylst
það ekki, að tengdadóttir hennar býr yfir einhverju,
sem henni er ekkert gleðiefni og vill leyna hana því. En
næmleiki móðurhjartans gagnvart uppkomnum syni er
víðtækari og dýpri heldur en Auði grunar. Og hún er
farin að renna grun í hið rétta. En Bergþóra þekkir
tengdadóttur sína það vel, að hún veit að Auður muni
aldrei láta uppi ótilneydd neitt það um Hrein, er varpa
mundi skugga á mannkosti hans að einhverju leyti, hve
mikið sem hún sjálf þyrfti fyrir það að líða. Og sízt af
öllu myndi hún vilja hryggja móður hans með umtali
í þá átt.
Bergþóra spyr því Auði sem allra minnst um þessa
útivist sonar síns. En hún ætlar sjálf af eigin ramm-
leik að komast að sannleikanum í þessu máli, hversu
þungbær sem hann kann að reynast henni. Hún bíður
því átekta og vill sjá, hvað hér sé að gerast.
Auði er það vel ljóst, að hún er ekki eins einlæg við
tengdamóður sína og hún gjarnan vildi vera, en hún
getur ekki sagt henni, hvernig komið sé fyrir honum,
sem þær báðar elska, hún getiu: ekki sært móðurhjarta
hennar með þeirri hræðilegu ógæfu sem einkasonur
hennar hefir ratað í. Hún ætlar að reyna að leyna Berg-
þóru þessu í lengstu lög í þeirri veiku von, að Hreinn
sjái sig um hönd og snúi við, áður orðið sé um seinan,
svo að hans góða móðir þurfi aldrei að hryggjast yfir
þessari hrösun hans.
Vistlega heimilið þeirra Bergþóru og Einars er búið
hátíðarskrauti. Húsfreyjan stendur nú á þeim merku
tímamótum að hafa lifað hálfa öld. Og í tilefni þess
hefir hún búið sig eftir beztu föngum undir það að taka
á móti ættingjum sínum og vinum, sem vilja samfagna
henni á þessum merkisdegi ævi hennar. Hreinn og Auð-
ur hafa ákveðið að láta skíra son sinn heima hjá Berg-
þóru í tilefni dagsins, og presturinn hefir heitið að vera
þar klukkan átta síðdegis og framkvæma þar skírnina.
Nú er klukkan orðin átta, og presturinn kominn ásamt
nokkrum ættingjum og vinum Bergþóru, og allt er til-
búið þar heima, en Hreinn og Auður eru enn ókomin
með drenginn. Bergþóra kann þessu ekki vel, því það
var einn hinna góðu eiginleika sonar hennar meðan hann
dvaldi í foreldrahúsum, hve stundvís hann var og orð-
heldinn, þegar því var að skipta, og varla lætur Auður
standa á sér, því á Bergþóra bágt með að trúa.
Hún fer nú að óttast að eitthvað hafi komið fyrir
barnið, sem tefji svona för þeirra. En brátt reynist sá
ótti hennar ástæðulaus. Laust fyrir klukkan hálfníu ekur
leigubifreið heim að húsinu, og Hreinn og Auður eru
komin með drenginn heilan á húfi.
Bergþóra fagnar þeim innilega og leiðir þau þegar
inn í stofu til hinna gestanna, en þar á skírnarathöfnin
að fara fram. Auður afsakar það við prestinn, hve seint
þau komi með barnið til skírnarinnar, en hann brosir
ljúfmannlega og biður hana engar áhyggjur að hafa þess
vegna, hann hafi unað hér vel í góðu yfirlæti hjá
afmælisbarninu.
Vistlega litla stofan hennar Bergþóru verður nú að
helgidómi, þar sem saklaust barn er Drottni fært í heil-
agri skírn, og Bergþóra heldur sonarsyninum undir
skírn, eins og Auður var áður búin að mælast til að hún
gerði. Bergþóra er fremur lítil kona á vöxt, en vel vaxin,
hár hennar mikið og dökkt að lit, aðeins byrjað að grána
í vöngum. Andlitið er frítt og unglegt, og svipurinn
ljómar af góðvild og hjartahlýju. Nú er hún klædd þjóð-
búningi og ber það skraut með kvenlegri tign og reisn.
Og Bergþóra er glæsileg kona.
Hreinn situr við hlið Auðar, og fylgist djúpt hugsi
með því sem fram fer. Augu hans hvíla á móðurinni
kæru, þar sem hún stendur frammi fyrir prestinum með
barnið á örmum sér. Og viðkvæmar kenndir streyma
fram í vitund hans. Hreinn hefir alltaf unnað móður
sinni mikið, enda notið mikils ástríkis hjá henni. Og
hann minnist þess nú, hve fallegar sögur hennar og leið-
beiningar vöktu og þroskuðu hugarfar hans og sálarlíf
þegar í bernsku og langt fram eftir æskuárunum. Einna
lengst og bezt hafði hann munað sögu móður sinnar um
„Jesú tólf ára,“ sem hún hafði sagt honum til fyrir-
myndar og eftirbreytni.
Hreinn andvarpar ósjálfrátt. Hann hefir víst að und-
anförnu verið á allhraðri ferð burt frá því takmarki,
sem móðir hans innrætti honum í æsku. Og væri móður
hans kunnugt athæfi hans í seinni tíð, myndi henni
finnast drengurinn sinn hafa brugðist illa fegurstu von-
um sínum. Hann finnur sára sektartilfinningu gegn
móður sinni, konu og syni gagntaka sig sem snöggvast.
Og á þessari stundu á Hreinn ekki heitari ósk en þá, að
allt megi breytast til batnaðar og verða gott að nýju.
Síðasti tónninn af síðari skírnarsálminum þagnar, og
athöfninni er lokið. Drengurinn heitir Bergþór Einar í
höfuðið á afa og ömmu, foreldrum Hreins. Hamingju-
óskirnar með drenginn taka nú að streyma til hjónanna
ungu og gömlu, og einnig gjafir til barnsins.
Auður tekur þessu öllu glöð og þakklát, en Hreinn
er eins og á flótta, og hann vildi helzt af öllu komast
sem fyrst af heimili foreldra sinna, burt frá augum þeirra
á þessari hátíðlegu gleðistund fjölskyldunnar. Hann skil-
ur ekki þetta undarlega sálarástand sitt, en hann reynir
að láta sem minnst bera á óróleika sínum og setzt að
veizluborði móður sinnar ásamt hinum gestunum, þögull
og ósamkvæmur sjálfum sér. Og óðum líður kvöldið.
Bergþór litli er orðinn syfjaður og óvær, og Hreinn
hvetur konu sína mjög til að fara strax heim með hann.
En Bergþóra vill ekld missa þau svona fljótt, og býður
þeim að láta drenginn sofa þar, en Hreinn telur það
100 Heima er bezt