Heima er bezt - 01.03.1973, Blaðsíða 29

Heima er bezt - 01.03.1973, Blaðsíða 29
bezt fyrir barnið að komast í værð heima, og Auður lætur Hrein ráða. Hún gleymir því ekki, hve erfiðlega henni gekk að fá hann af stað í kvöld að heiman, það var engu líkara en hann kviði fyrir því að koma á fund foreldra sinna, og þess vegna komu þau ekki á réttum tíma með drenginn til skírnarinnar. Hreinn gerði sér alltaf eitthvað til dundurs, og að lokum hringdi hún sjálf á leigubíl til að aka þeim heim til Bergþóru, og þá varð Hreinn að drífa sig af stað. Auði er það ljóst, að manni hennar líður alls ekki eins vel og ætla mætti á þessu kvöldi, og hún rennir grun í ástæðuna fyrir því. Aumingja Hreinn! Hann keypti forkunnarfagurt gullúr til að færa móður sinni í afmæl- isgjöf, en svo var engu líkara, en að hann ætti bágt með að færa henni það sjálfur þegar til kom, þótt hann yrði samt að gera það. Ekki stóð á því að hann kæmi heim frá vinnu sinni á réttum tíma í kvöld, og strax er hann hafði snætt kvöldverðinn, sem beið hans framreiddur, tók hann að búa sig undir samkvæmið. En svo kom hik- ið á hann, er þau voru öll að verða tilbúin að leggja af stað. Skyldi hann finna svona sárt til þess að hann hafði brotið gagnvart foreldrum sínum? Og skyldi hann þá snúa aftur á rétta leið, eftir þetta kvöld? — Æ, Auður vonar alltaf það bezta. Ungu hjónin eru nú ferðbúin með drenginn og kveðja samkvæmisgestina í stofunni, og innan lítillar stundar eiga þau von á bifreiðinni. Einar og Bergþóra fylgja þeim fram í forstofuna, og þar kveður gamli maðurinn þau hlýtt og glaðlega og gengur svo strax aftur inn til gestanna. En Bergþóru verður þyngra um kveðjur að þessu sinni. Fyrst kveður hún Auði og drenginn, og síðan snýr hún sér að syni sínum. Fallega gullúrið er hann valdi handa henni í afmælisgjöf, fer vel á armi hennar sem hún leggur mjúklega um háls honum, um leið og hún segir angurblítt: — Hreinn minn, mikið hefði mig langað til að hafa ykkur lengur hjá mér í kvöld, en um það þýðir víst ekki að fást. — Þetta er orðið ágætt, mamma, drengurinn þarf að komast í værð á réttum tíma, svarar Hreinn óvenju fljót- mæltur og lítur til Auðar, sem heldur á drengnum í fanginu. — Það hefði hann nú alveg eins getað hér, góði minn, og þið hefðuð öll getað gist hjá mér í nótt, það veiztu sjálfur. Bergþóra horfir milt og ástúðlega á son sinn, en hann forðast að mæta augum hennar og segir næstum því vandræðalega: — Bergþór litli gistir hjá þér seinna, mamma mín. — Jæja, vinur minn, við skulum þá ekld ræða þetta frekar núna, en þetta var mér ánægjuleg samverustund, það sem hún náði. Leigubifreiðin ekur nú heim að húsinu og gerir vart við sig. Hreinn kveður móður sína í flýti með kossi, sem Bergþóra kannast ekld við af vörum hans, þar vant- ar éitthvað á, sem hún hefir ætíð notið áður, og síðan þrífur hann drenginn úr fangi konu sinnar og snarast með hann út úr húsinu. Auður brosir hlýtt til tengda- móður sinnar að skilnaði, um leið og hún hverfur á brott á eftir manni sínum og syni. Og dyrnar lokast að baki þeim. Bergþóra stendur kyrr um stund, og klökkvaþrungin sársaukakennd fer um sál hennar. Hún saknaði einhvers í fari sonar síns og framkomu allri, meðan hann dvaldi hjá henni í kvöld. Hún óttast að eitthvað ami að honum, sem hann vilji leyna hana, en hvað er það? Hún lítur eins og ósjálfrátt á gullúrið frá honum, og það er vissu- lega falleg gjöf, en hvers virði er henni gull og aðrir dýrir málmar, ef drengurinn hennar er ekki glaður og hamingjusamur. Hún heyrir bifreiðina aka á brott, og dynur hennar deyr brátt út í f jarska. Hreinn er farinn með f jölskyldu sína. — Guð leiði ykkur, elsku börnin mín, hvíslar Berg- þóra og strýkur höndinni yfir augun. Síðan gengur hún hljóð og tíguleg inn í stofu til gestanna, sem enn sitja þar, og heldur áfram að veita þeim af rausn sinni. Og nóttin færist yfir. IV. SYRTIR í LOFTI Tíminn heldur áfram markvissri rás sinni. Hljóðlátt laugardagskvöld ríkir á heimili Auðar og Hreins. Þögn- in er djúp og næstum ömurleg. Auður situr við rúm sonar síns og bíður þess, að maður hennar komi heim. En hjarta hennar titrar af sárum kvíða fyrir heimkomu hans. Hún hræðist að sjá fallega, góða eiginmanninn sinn afskræmdan af eiturveigum áfengisins, grófan og ruddalegan í framkomu og jafnvel vondan viðureignar, eins og hann er farinn að vera stundum upp á síðkastið, þegar hann kemur heim úr selskap spilafélaga sinna. Hún er orðin hrædd við Hrein. Æ, hvílík örlög. Auður lítur á sofandi barnið, og augu hennar fyllast tárum. En hvað er það þótt hennar eigin lífshamingja sé glötuð, hjá þeirri framtíð, sem hlýtur að bíða drengsins hennar við þau uppeldisskilyrði, sem heimili hans hefir nú upp á að bjóða, en þau eru orðin voðaleg. Og ekkert mannlegt auga sér þau tár sem falla um vanga móðurinnar ungu, á meðan hún hugleiðir framtíð barnsins litla og saklausa. Þau tár geymir nóttin ein, sem óðum færist yfir, myrk og hljóð. Loks heyrir Auður að húsið er opnað og gengur inn í forstofuna. Hún þerrar tár sín í flýti og hraðar sér fram í eldhúsið. Hreinn kemur brátt slagandi dauðadrukkinn inn til konu sinnar og nemur staðar innan við eldhús- dyrnar. Auður lítur óttaslegin á mann sinn og hryllir við honum. Aldrei fyrr hefir Hreinn komið svona ofurölvaður heim til hennar eins og nú. Hann er naumast sjálfbjarga. Heima er bezt 101

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.