Heima er bezt - 01.05.1982, Síða 34
dauðspakar ærnar allt um kring. Skreyttar
bókarkápur voru þá fágætar, og hvað þá
að myndir á þeim væru svona ljóslifandi
úr íslensku þjóðlífi. Myndin ein hefði
nægt til að gera bókina vinsæla, en svo
flutti hún þeim, sem með kunnu að fara
skráð lög við öll vinsælustu ljóðin, sem
þjóðin söng og mörg fleiri. Ég tel vafalítið,
að íslenskt söngvasafn hafi á sínum tíma
flutt þjóðinni meiri gleði og menningu en
flestar aðrar samtímabækur. Og enn getur
það gegnt mikilvægu hlutverki, ef menn
kunna með það að fara, að mynda mót-
vægi gegn allri þeirri hávaðaframleiðslu
nútímans, sem kölluð er tónlist, hvort sem
það heitir jass, rokk eða pönk, eða hver
veit hvað, þar sem hljóðhimnunum er of-
boðið með hávaðanum og mál og braglist
svívirt með textunum. Þess vegna ber oss
að fagna þessum gamla góðkunningja og
þakka útgefendum fyrir að hafa leitt hann
heim til okkar.
Magnús Jóhannsson rithöfundur frá Hafnar-
nesi er Vestmannaeyingur og eftir hann hafa
komið út átta bækur; skáldsögur, smásögur og
Ijóð. Magnús varð sextugur 28. desember á s.l.
ári, en i gegnum árin hefur hann stundað sjó-
inn. Til Vestmannaeyja flutti hann árið 1960, en
bjó I Reykjavík um skamma hríð eftir eldgosið í
Eyjum. Ekki undi hann þó í borginni og fór því
aftur út í Vestmannaeyjar.
Ljóðin hér á siðunni eru öll eftir Magnús.
ÞRÁ
Eins og fugl
yfir endalausu hafi
flýgur þrá mín
leitandi.
VOPNAHLÉ
Stundum er nóttin friðsæl
enginn stormur, engin sorg.
Þá brosa augu himinsins
og máninn hlær við heitkonu sinni jörðinni
blundandi undir hvítum mjallarvoðum
á meðan byssuhlaupin eru köld
og sorgin hefur hægt um sig.
TVISVAR VERÐUR
MAÐURINN BARN
Ég veit ekki hvað hún heitir
konan á stofu no 208.
Hún er horfin aftur til kornbernsku sinnar.
Líkami hennar hefur dregist saman
eins og óleysanlegur hnútur.
Hún hvílir á bakinu með opinn tannvana munn
ambrar þegar hjúkkurnar mata hana
grætur eins og hvítvoðungur
sem lítur heiminn í fyrsta sinni.
LJÓSIN TINDRA
Ljósin tindra yfir borginni
sem lætur sig fljóta á öldum ljósvakans.
Trén í Hallargarðinum bera grænt barr
og enginn telur sultarlaun í norðanátt
og enginn kúrir undir slitnum frakka í
Hljómskálagarðinum.
178 Heimu er bezl