Heima er bezt


Heima er bezt - 01.04.1988, Blaðsíða 12

Heima er bezt - 01.04.1988, Blaðsíða 12
Jón Kr. Guðmundsson frá Skáldsstöðum Sögur Guðmundar frá Selbekk Guðmundur hét hann og var Jónsson. Hann átti heima um árabil á Ingunnarstöðum í Geiradal. En fæddur mun hann hafa verið vestur á ísafirði 28. júní 1904. Frá ísafirði fluttist hann barn að aldri með foreldrum sínum að Tungugröf í Steingrímsfirði og þar ólst hann upp. Og í Tungusveitinni átti hann sín manndómsár. Hann var um tíma einn á litlu býli er hann nefndi Selbekk. Við þetta býli var hann oft kenndur á síðari árum ævi sinnar, og kallaður Guðmundur Selbekk. Guðmundur var hagur í höndum, talinn dágóður smiður, smíðaði skeifur og fleira er bændur þurftu að nota við búskapinn. Hann var mikill sagnamaður og hafði gaman af að segja frá liðnum dögum. Eftir Guðmundi ritaði Jón frá Pálmholti bókina Sýslað í baslinu, og er hún æviminningar Guðmundar. Það er fremur þunn og fyrir- ferðarlítil bók. Skil ég ekkert í því hvað nafna mínum hefur orðið lítið úr sagnasjóði Guðmundar. Ég þekkti Guðmund allvel á meðan hann var á Ingunn- arstöðum. Hann kom alloft hingað að Skáldsstöðum og sagði þá frá ýmsu. Þá skrifaði ég upp eftir honum með- fylgjandi sagnir, sem ég læt hér með fara á prent vegna þess að þær eru ekki í áðurnefndri bók, Sýslað í baslinu. Guðmundur Jónsson dó í Reykjavík í nóv. 1977 eftir langa vanheilsu. Blessuð sé minning hans. Hulduskipið „Veturinn 1935 var ég í Tungugröf og hafði þar hest og kindur. Þá var það vani hjá mér er veður voru góð að fara upp í hesthúsið á kvöldin til að kemba klárinn og gæla við hann. Hesthúsið var fyrir ofan bæinn á háum hól og var þar gott útsýni yfir allan Steingrímsfjörð allt til Grímseyjar. Svo skeður það, kvöld eitt í blíðskaparveðri og tunglskini, er ég kem út úr hesthúsinu, að ég sé hvar gríðarstórt skip er að koma upp með varphólmanum, en hann er nokkuð fram á firðinum yst við Tungugrafarland. Fór skipið þetta hægt en hélt þó stefnu, sem gat bent til að það ætlaði upp á Húsavík. Þótti mér þetta undarlegt af svo stóru skipi, því ef þetta skip ætlaði að kasta akkerum, einhverra hluta vegna, þá er merkt akkerispláss fyrir stór skip innanvert við þessa hólma, sem það fór fyrir utan. Skip þetta var álíka stórt frá mér að sjá og stærstu Fossarnir, allt ljósum prýtt og horfði ég stöðugt á það, þangað til að það hvarf upp með land- fastri eyju er Hrófey heitir og er hún áföst um fjöru við þessa hólma sem það skreið með og stefndi skipið upp breiðan vog, sem liggur á milli Hrófeyjar og klettaness sem er Húsavíkur megin og heitir Hrafnanes. Það hefur aldrei komið fyrir að svona stórt skip færi þessa leið út fjörðinn síðan ég mundi eftir mér. En hins- vegar hefur það komið fyrir að seglskip og stórir mótor- bátar leituðu lendingar í vognum, sem fyrr um getur, og ^köstuðu þar akkerum í vondum veðrum því þar er lífhöfn. Svo er ekki að orðlengja það, að ég sagði frá þessu strax er ég kom heim, en þar hafði enginn séð þetta. Var þó jafn auðvelt að sjá til skipsins úr gluggunum á bænum og þaðan sem ég var. Enginn á nærliggjandi bæjum vissi til að nokkurt skip hefði átt að vera á ferð eða komið inn á fjörðinn á þessum tíma, og kann ég ekki meira frá þessu skipi að segja. Nema nokkrum árum seinna sagði ég gamalli konu frá þessu. Var hún mjög kunnug þarna. Þá sagði hún mér að skyggn maður, sem var í Húsavík og var fyrir löngu dáinn, hefði sagt að það væri verslunarstaður huldufólks í Hrafna- nesinu, sem er Húsavíkur megin við áðurnefndan vog. Og læt ég svo hvern sem vill um það hvaða meiningu hann leggur í þetta fyrirbæri, en ég festi þetta á blað mér til gamans og öðrum til íhugunar. Ég tel það víst að þetta skip hafi verið huldufarkostur. Önnur skýring finnst mér ekki geta komið til greina.“ Höggin í Kerasteini „Þegar maður fer hvort heldur er norður eða suður Tröllatunguheiði og kemur að Miðheiðarvatni þá sér maður kvos og mjóan hrygg, sem gengur þvert ofan í Tungudalinn (Tröllatungudalinn). Þessi hryggur endar í snarbröttu klettabelti ofan undir á. Þegar gengið er fram dalinn frá Tröllatungu er þetta mjög hár og brattur kletta- hamar með stórgrýtisurð í kringum. En sem fyrr segir er þetta frá heiðinni að sjá mjór hryggur, sem endar með hvassri gnípu er heitir Kerasteinn. Þegar ég var vinnumaður hjá Jóni Halldórssyni í Trölla- tungu, stundaði ég oft rjúpnaveiði þarna í kringum Kera- steininn því þar er rjúpnasælt í kvosunum beggja megin við steininn, og upp í heiðina. Einn góðan veðurdag, í frosti og snjó, kemur maður frá Hólmavík er Jens Aðalsteinsson hét og biður mig að koma með sér á rjúpnaveiðar. Var það auðsótt mál og þar sem logn var og fínt veður tókum við þann kostinn að fara fram dal og upp með Kerasteini. Þegar við komum þ_ar fram, þá sjáum við strax rjúpur og byrjum að skjóta. Sáum við þá að þær rjúpur er flugu upp og sluppu fóru upp yfir hrygginn og síðan fram um heiði. Svo við skiptum okkur og fórum hvor okkar leið sitt hvoru megin við steininn og upp á heiðina upp af steininum. Þarna var nokkuð bratt uppgöngu en við settum það ekki fyrir okkur enda hittum við báðir rjúpur á leiðinni upp og skutum nokkrar þeirra. 120 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.