Heima er bezt - 01.04.1988, Blaðsíða 29
„Nei, góði minn, það veit ég. Ég er bara eigingjörn
móðir.“
„Einhver sú allra versta,“ sagði Smári stríðnislega.
Móðir hans brosti.
„Það er betra fyrir þig að vera kurteis við móður þína,“
sagði hún.
Hún brosti góðlátlega.
„Ég ætla að fara inn til föður ykkar," sagði hún svo og
gekk fram úr eldhúsinu. „Þið verðið svo stilltir á meðan
drengir mínir.“
Smári leit á bróðir sinn.
„Viltu segja mér hvað angrar þig?“ spurði hann hlýlega
og nú var engin stríðni í rödd hans.
„Það þarf að laga sjónina í þér,“ sagði Hlynur án allrar
glettni. „Þú ættir að fara til augnlæknis. Þú sérð of mikið.“
Smári yppti öxlum kæruleysislega.
„Ég er fæddur með þessum ósköpum," sagði hann. „Þú
hefur ekki farið á mis við það heldur. Er það stúlka?“
„Ég vil ekki ræða þetta. Þú getur ekkert hjálpað.“
„Allt í lagi. Þú veist hvar mig er að finna ef þú vilt tala
um það.
„Gleymdu þessu."
„Þú ert að fara austur þess vegna.“
„Já, ekki neita ég því, en talaðu ekki um þetta við nokk-
urn mann og allra síst við mömmu. Hún yrði veik af
áhyggjum.“
„Þú getur treyst mér, Hlynur.
Það fór þó ekki framhjá Smára, að það hlyti eitthvað og
mjög mikið að hafa komið fyrir Hlyn. Eitthvað sem gerði
honum mjög gramt í geði og setti þennan hörkusvip á fríða
andlitið hans. Hlynur ætlaði að fara að segja eitthvað,
þegar foreldrar hans birtust og hann hætti við það.
Þeir feðgamir höfðu margt að ræða saman, og áður en
varði var kominn kaffitími. Hlynur þáði boð móður sinnar
um að drekka með þeim.
Á sama tíma voru Rut og Lilja að ráðgera að flytja í aðra
íbúð. Fyrr um daginn höfðu þær skoðað íbúð í vesturbæn-
um og litist vel á hana. Hún var aðeins minni en sú sem þær
höfðu núna, en ólíkt skemmtilegri. Það voru fjórar íbúðir í
húsinu og sú sem þær gátu fengið var á jarðhæð. Auk þess
var stór garður í kringum húsið og sér inngangur í hverja
íbúð. Svefnherbergin tvö voru fremur lítil, en eldhúsið var
stórt og rúmgott. Stofan var stór og björt og voru dyr á
henni út í garðinn. Auk þess var lítil forstofa og rúmgott
baðherbergi.
Eigandinn var þrítugur rafvirki, Svanur að nafni, mjög
viðkunnanlegur og bjó sjálfur í íbúðinni við hliðina á þeirri
sem þær gátu fengið. Hann lofaði að bíða með að leigja
ibúðina á meðan þær hugsuðu sig um. Lilja sagði að hún
myndi láta hann vita um helgina. Þær voru á þessu augna-
bliki að taka lokaákvörðunina.
„Við skulum taka íbúðina,“ sagði Rut. „Hún er bæði
skemmtilegri og ódýrari en þessi.“
„Gott,“ sagði Lilja ánægð. „Ég hringi þá í Svan.“
Hún snaraðist að símanum og hringdi. Svanur svaraði og
Lilja sagði honum að þær ætluðu að taka íbúðina. Hann
fagnaði því og sagði að þær gætu flutt hvenær sem þær
vildu. Lilja sagði að þær ættu eftir að láta manninn vita,
sem þær leigðu hjá, en það væri áreiðanlega ekkert
vandamál. Hún vissi um par sem væri að leita sér að íbúð.
Þegar hún lauk samtalinu við Svan, spurði Rut hverja
vantaði íbúð.
„Elvar bróðir og Lóa, stúlkan sem hann er með, ætla að
fara að búa,“ sagði hún. „Þau geta áreiðanlega fengið þessa
þegar við förum. Ég vil helst flytja strax, en ég vil ekki
borga leigu fyrir íbúð, sem ég er farin úr. Við höfum borgað
sex mánuði fyrirfram, og þá vil ég líka að einhver noti
íbúðina. Við fáum ekki endurgreitt. Elvar og Lóa geta í
staðinn borgað okkur mánaðarlega, og safnað fyrir næstu
útborgun.“
„Þú talar þá við karlinn,“ sagði Rut.
Meðan Lilja hringdi lét hún hugann reika. Hún hlakkaði
til að flytja. Þessi íbúð geymdi margar minningar sem hún
vildi losna við. Hún vissi þó að ýmsar þeirra myndu fylgja
henni hvert sem hún færi. Það væri ekki hægt að flýja
sjálfan sig.
Hún hugsaði stundum um samband þeirra Hlyns. Hún
Heima erbezt 137