Heima er bezt


Heima er bezt - 01.04.1988, Blaðsíða 13

Heima er bezt - 01.04.1988, Blaðsíða 13
Þegar upp kom vorum við það jafnir að við hittumst þar svo jafnt að lá við slysi. Ég var aðeins á undan og sem fyrr segir var hryggur mjór á milli okkar og nú hittist svo á, að það eru 2 rjúpur mín megin á hryggnum og er ég að fá þær i sigti þegar Jens rekur hausinn upp yfir hrygginn. Þegar hann sér að ég er búinn að setja byssuna í sigti snarar hann sér það fljótasta niður fyrir hrygginn og skaut ég þá rjúp- umar. Síðan kemur Jens til mín og spyr mig hvort ég hafi ætlað að drepa sig! Ég svaraði því neitandi, enda vissi hann, að slíkt hafði aldrei í minn hug komið. Við settumst svo þarna niður á barð eða stein og fórum að tala saman. Þegar við vorum búnir að sitja þarna í 10 mínútur eða kortér heyrum við högg og barsmíðar niður í klettunum og það svo greinilega að það var líkast því að verið væri að smíða þar niðri. Við urðum steinhissa. En enga skýringu gátum við fundið á þessum höggum og enn í dag veit ég ekki af hverju þau hafa stafað. Nema ef það er til huldufólk, þá mætti ímynda sér að það hefði þarna verið að verki. Við Jens fórum svo dálítið lengra upp á heiðina og héldum síðan heim á leið og bar ekki fleira til tíðinda í okkar ferð.“ Grasaferðin (Hver kallaði í móður mína?) „Þegar ég var krakki fyrir innan fermingu átti ég heima í Tungugröf við Steingrímsfjörð. Þá var þar tvíbýli, bjuggu þar hjón á móti pabba mínum og voru þau í torfbæ. Og er mér það hugljúf bernskuminning, því samkomulagið var svo gott og skemmtilegt, og gæti ég því margt sagt frá þeim samverustundum, en sleppi því nú, þar sem það kemur ekki þessari sögu við, ef sögu skyldi kalla, en ég ætla að segja frá smáatviki er skeði í sambandi við grasaferð er þær fóru í, móðir mín sem hét Kristin og Sigríður sambýliskona hennar, sér til gagns og gamans eitt vorkvöld. Veðri var þannig háttað að hægviðri var en fjallaþoka byrgði fjöllin allt að rótum, en á láglendi var þokulaust, dumbungur og vorhlýja, fuglasöngurinn ómaði svo undurblítt í góðviðr- inu. Þær konurnar stóðust ekki freistinguna og komu sér saman um að fara til fjalla og afla sér grasa til matardrýg- inda fyrir heimilið því fjallagrös þóttu og þykja holl og kjarngóð fæða. Ég held að þær hafi farið gangandi í þessa ferð, en þó fullyrði ég það ekki. En leiðin eða vegalengdin, sem þær þurftu að fara var á að giska tveggja tíma gangur svo það hefur ekki verið neitt þrekvirki fyrir ungar konur, sem þær voru þá, þegar þetta gerðist. En síðan eru nú liðin mörg ár, því nú þegar ég festi þetta á blað er ártalið 1968 og eru þær nú búnar að liggja í gröf sinni um 40 ár. Leiðin sem konurnar fóru til grasa lá skáhalt frá Tungu- gröf vestur yfir Hrófá sem aðskilur lönd Tungugrafar og Hrófár, en í Hrófárlandi var sá staður er þær ætluðu til á svokölluðum Tóttardal. Þar höfðu þær fengið grasaleyfi hjá bóndanum á Hrófá. Þær fóru því sem leið lá yfir Hrófá og upp með læk er Ásendalækur heitir. Kemur hann frá seli er Hrófársel heitir. Þegar að selinu kemur, þá er stuttur spölur þaðan upp hallandi hlíð skógivaxna. Þar við tekur Álftaskarð, sem sker í sundur klettabelti er liggur alla leið suður á Bæjardalsheiði og heita þar Hrófáreggjar. Um þetta skarð voru alltaf reknar kvíaærnar og setið hjá þeim fram á Tóttardal og svo var líka farið með heybandslestir um þetta skarð, Álftaskarð, sem ég tel að hafi heitið að réttu lagi Álfaskarð, kennt við fornar álfabyggðir. Skammt frá því er annað skarð í snarbrattri klettaurð. Heitir það Ýlu- skarð. Þar voru borin út börnin hans Keralíns, sem bjó við Kerasteininn við Tungudal. Þegar þær konurnar komu í Álfaskarð (þ.e. Álftaskarð) héldu þær vestur með klettabeltinu í um 15 mínútur. Voru þær þá komnar í grasalandið beint niður af Ýluskarði. Þegar þangað kom fóru þær að tína grösin, sem nóg var af. Voru þær fljótar að fylla sinn pokann hvor. Og er þær voru búnar að því settust þær niður og fengu sér nestisbita er þær höfðu með sér. Eins og fyrr segir, þá var sótsvört þoka alveg niður að fjallarótum. Á meðan þær konurnar voru að borða bitann þá heyra þær að kallað er á mömmu mína tvisvar. Sagt skýrt Kristín með svo dimmri og ferlegri röddu að þær hrukku í kút. Þær sögðu báðar að um mennska rödd hefði ekki verið að ræða. Það hefði enginn mennskur maður haft slíka rödd. Enda ekki nokkrar líkur til að venjulegur maður væri þarna á ferð uppi í brúnum um þetta leyti vors. Hefði einhver farið lágdalinn þá hefðu þær séð hann og hitt hann en ofan frá hefði enginn séð þær sökum þokunnar. Hvorug þeirra ansaði köllunum, þær flýttu sér af stað heim sömu leið og þær komu og urðu einskis varar á þeirri leið. Lýkur þar með þessari stuttu sögn. Hún segir frá einu því fyrir- bæri, sem við vitum ekki skýringu á.“ Þannig lauk Guðmundur á Ingunnarstöðum sögu sinni. Hver var fimmti maðurinn? „Það var síðla hausts, að það fóru fjórir Kollfirðingar til Hólmavíkur á sjó. Það hvessti þegar leið á daginn svo að þeir töldu ófært að halda lengra til baka en að Tungugröf enda lífhöfn þar í hverju sem á gengur. Lentu þeir þar og settu upp bátinn í naust og gengu vel frá honum. Ætluðu þeir svo að ganga heim til sín þaðan, enda ekki um annað að ræða. Það hagar svo til, þegar maður er heima í bæ í Tungugröf og lítur til sjávar, að þá sést öll leiðin til sjávar nema lítill spotti, sem fjárhúsin taka úr. Sökum þess hvað veður fór mikið versnandi þennan dag, þá var allt fólkið inni í bæ og flest uppi á lofti. Þá verður mér litið út um norðurgluggann, en hann veit að sjónum. Sé ég þá hvar koma 5 menn heim frá sjónum og hef ég orð á því við hitt fólkið. Kemur það allt út að glugganum og sáu það allir jafnt að 5 menn komu heim undir fjárhúsin, en þegar mennirnir komu út undan húsunum aftur, þá voru þeir bara fjórir eins og til stóð. Þegar mennirnir voru komnir inn í bæ voru þeir spurðir um fimmta manninn. En þeir sögðust aldrei hafa verið nema fjórir, en þó gat einn þeirra upp á því, að sá fimmti hefði verið Ennismóri, enda var sagt að hann fylgdi einum þeirra. Mennirnir stoppuðu dálitla stund og drukku kaffi og héldu síðan heim til sín. Heima er bezt 121

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.