Heima er bezt


Heima er bezt - 01.12.1995, Blaðsíða 13

Heima er bezt - 01.12.1995, Blaðsíða 13
Huldukonan við Sörlastaðaá Þjóðsaga frá 20. öld y fyrri hluta aldarinnar flykktist aðkomufólk hundruðum saman til Seyðisfjarðar til þess að starfa við fiskveiðar, fiskverkun og landbúnað. I landlegum gengu hinir ungu á vit örlaga sinna, ástarinnar eða leyndar- dómsins, sem beið þeirra í þokunni. Meðal þeirra, sem komu í atvinnu- leit austur á Seyðisfjörð í lok þriðja áratugarins, var ung Reykjavíkur- mær, sem Guðrún hét. Guðrún var myndarleg stúlka, sem fékk vinnu við útveg Hánefsstaða- manna. Hún var forkur duglegur, áreiðanleg og góð í allri umgengni. Guðrún notaði frístundir sínar til gönguferða um nágrennið og stund- um einnig til þvotta. Þá gekk hún með plöggin sín inn að Sörlastaðaá og þvoði þau í Sörlastaðahyl, neðst í gljúfrinu neðan við Sörlastaðafoss. Guðrún gekk ein til þessara verka. Hún hitti strax í fyrsta skipti stúlku á líku reki þarna við ána, og smám saman tókst með þeim góður kunn- ingsskapur. Ingibjörg sagðist hún heita. Hún var vel til fara og gekk þama til þvotta með fatnað sinn eins og Guðrún. Vel fór á með þeim stöll- um. í þriðja skiptið, sem þær hittust, spurði Guðrún Ingibjörgu, hvar hún byggi, en sjálf sagðist hún búa í ver- búð Hánefa. „Ég bý í klettinum þarna,“ sagði Ingibjörg og benti á klettinn innan við hylinn. Hún var þá huldukona. Guðrúnu brá allmjög en þagði um vináttu sína við þessa huldukonu. Hélst vinátta þeirra um sumarið og varð nánari eftir því sem á leið. Þeg- ar Guðrún fór suður um haustið, kom hún við hjá huldukonunni við ána og kvaddi hana höfgum tárum. „Þú skalt ekki gráta, góða vinkona. Þú munt verða gæfumanneskja,“ sagði Ingibjörg við vinkonu sína að skilnaði. Segir nú ekki sögum af þeim Ingi- björgu. Tíminn leið, verbúðirnar ryðguðu niður og hrundu, bryggjum- ar fúnuðu og útgerð lagðist af á Eyr- unum. Fólkið flutti burt, og litla sjávarþorpið fór í eyði. Áin niðar og spóinn vellur, en vegfarendur heyra ekki lengur söng sjómannanna og verkafólksins, sem áður kvað við í landlegum. Líður nú tíminn fram. Guðrún gift- ist farsællega myndarlegum skrif- stofumanni í Reykjavík, átti börn og buru, eignaðist pels og hatt og sett- legar hrukkur. Hún hélt góðu geði og gladdi mann og annan. Tíminn vann á henni af mildi, en lengst í hugar- fylgsni sínu geymdi hún minning- una um vináttuna við Ingibjörgu huldukonu. Þegar hringvegurinn var opnaður um sandana sunnan jökla, fóru margir Reykvíkingar austur á firði. Guðrún og maður hennar lögðu líka land undir fót það herrans ár 1974. Þau fóru til Seyðisfjarðar. Á meðan maður hennar og stálp- aður sonur þeirra hjóna fengu sér sveppasúpu og steiktan hrygg á veit- ingahúsi staðarins, kvaðst Guðrún þurfa að skreppa bæjarleið og bað þá feðga sýna sér þolinmæði. Hún ók út að Sörlastaðaá og gekk niður að hylnum. Og sjá, hún titraði öll og skalf af ákafa. Þama var ung og fal- leg stúlka við þvotta. Guðrún ávarpaði hana glaðlega: „Ingibjörg, Ingibjörg, þekkirðu mig ekki?! Stúlkan horfði stundarkorn á Guð- rúnu, síðan færðist gleðibragð yfir andlit hennar: „Þú hlýtur að vera hún Guðrún, sem mamma heitin sagði mér svo oft frá. Hún bað mig að skila bestu kveðju til þín, ef ég hitti þig ein- hvern tíma hér við ána.“ Óskar Guðmundsson færði í letur að beiðni Einars Vilhjálmssonar. Heima er best 405

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.