Kirkjuritið - 01.01.1948, Blaðsíða 76
74
KIRKJURITIÐ
Hér í Reykholti mun í dag Snorra Sturlusyni verða
að verðleikum þakkað fyrir frábær afrek á andans sviði.
Það er nú haft við orð, að Snorri hafi með ritum sínum
bjargað norsku þjóðinni frá glötun sem sjálfstæðri og
mikilhæfri menningarþjóð. Islendingar geta verið stoltir
í dag.
Ég ann sögulegum fræðum engu minna en aðrir menn.
Ég dái Snorra Sturluson engu minna en aðrir. Seint mun
starf hans of hátt metið. En Guð varðveiti bæði oss Islend-
inga og frændur vora Norðmenn, ef þetta eitt á að nægja oss
til lífs. Nei, lífið er meira en sagan ein — líf mannsins er
ekki líf nema í samfélagi við hinn lifanda Guð, — því að
Guð er lífið og lífið er í Guði.
Ef Jesús kæmi aftur til að boða oss fagnaðarerindi,
hver mundi þá verða þungamiðja boðskapar hans? Mundi
það verða sagan og reynsla hennar, mundi það verða hug-
vitið, tæknin, þekkingin? Nei, á ekkert af þessu mundi
hann leggja höfuðáherzlu. Hann mundi án alls efa leggja
áherzlu á hið sama og forðum — á fagnaðarerindið —
lifandi kærleikssamfélag vort við algóðan föður vorn á
himnum. Sagan er köld og dauð, sé hún ekki lesin og skilin
sem barátta mannsins fyrir fegra lífi, fullkomnara og göf-
ugra. Og tæknin stefnir nú mannkyninu út í beinan voða,
af því að hjartamenning þess er ekki í samræmi við vitið.
Því getur svo farið, að hugvitið verði manninum bölvun,
snúist gegn honum, líkt og öxin í hendi Grettis forðum.
Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis.
Já, mundi Jesú Kristur ekki í dag geta sagt um oss með
nokkrum rétti: Ég kenni í brjósti um mannfjöldann.
Sýnist yður ekki nokkur ástæða til þess, að hann segði
það, þegar þér lítið út um löndin og sjáið alla neyðina þar
— allt bölið — hungrið og vonleysið?
Og er það nú alveg víst, að vér, sem hér höldum hátíð
í dag, séum ekki á einhvern hátt brjóstumkennanleg í
augum Guðs góða sonar?
Jesús kennir enn í dag í brjósti um mannfjöldann.